Í einum þætti af Sex and the city talar Carrie um þetta þrennt í lífinu sem skiptir okkur mestu máli; vinirnir, starfið og makinn. Hún veltir þeirri spurningu fyrir sér af hverju við erum aldrei ánægð með tvennt af þessu þrennu, t.d. frábæra vini og yndislegan maka. Í mínu tilviki vantar mig starf, ekki það að ég sé ekki yfir mig ánægð með Árnann minn og vinina mína. Það sem við störfum er bara svo gríðarlega stór hluti af lífi okkar. Þegar að við kynnumst nýjum aðila þá er vanalega fyrsta spurningin: Hvað gerirðu? Og hvað á maður að segja þegar að maður gerir í raun ekki neitt? Er ekki skilgreindur sem neitt ákveðið?
Ég er hamingjusöm þegar að ég lít á lífið mitt frá sjónarhorni manneskju sem er ánægð með fjölskylduna sína. Ég á frábæran mann sem virðist alltaf skynja hvernig mér líður, getur komið mér til að hlæja þegar mér líður illa og er í raun besti vinur minn . Ég á yndislegan dreng sem vantar allan minn stuðning til að geta orðið hamingjusamur einstaklingur og ég vona að ég geti veitt honum allt sem hann þarf á lífsleiðinni. Ég á æðislega vini, vini sem ég get treyst á að séu til staðar þegar að mig vantar einhvern til að taka utan um mig, hlusta á mig eða hlæja með mér.
Ef ég hinsvegar lít á lífið mitt frá sjónarhorni manneskju sem er búin að mennta sig og vil fara að nýta sér námið í góðu starfi þá er ég ekki hamingjusöm. Ég er mjög niðurdregin, það að fara í viðtöl aftur og aftur og vera alltaf neitað er mjög niðurdrepandi. Mér líður eins og ég sé óhæf, sé búin að eyða 5 árum af lífi mínu í nám sem kannski hentar mér ekki. Fólkið í kringum mig er mjög duglegt að segja að ég eigi ekki að hafa áhyggjur, þetta komi allt með kalda vatninu. Þeir sem þekkja mig hins vegar best vita að það er ekki í mínu eðli að hafa ekki áhyggjur, ég þarf helst að vera komin með vinnu 3 mánuðum áður en ég á að hefja störf. Núna eru ca. 8 vikur þangað til að fæðingarorlofið mitt er búið og ég er ekki komin með starf. Mér líður alls ekki vel. Við fjölskyldan þurfum á því að halda að ég fái starf, við erum með ýmsar fjárhagslegar skuldbindingar sem ekkert er hægt að neita með því að segja: Ég er ekki með vinnu og get því ekki borgað.
Allir virðast líka hafa skoðun á þessu vandamáli mínu. Sumir segja að ég eigi bara að taka hvaða vinnu sem er - ég er hinsvegar ekki sammála því. Ég er búin að mennta mig í ákveðnu fagi í 5 ár og auðvitað vil ég vinna við eitthvað tengt því. Það er nú samt ekki þar með sagt að ég segi nei við vinnu sem er ekki sálfræðitengd, ég ætla mér hinsvegar ekki að fara að vinna við skúringar eða þess háttar. Ég lít alls ekki niður á þá sem vinna þannig vinnu og ég er á engan hátt betri en þeir en ég er með menntun og ég tími ekki að láta hana fara til spillis. Erfiðar spurningar sem hvíla á manni þessa dagana, á ég að halda áfram að leita mér að vinnu sem ég verð ánægð með eða bara sækja um "einhver" störf og láta menntunina lönd og leið?
Það eru örugglega einhverjir sem hugsa: Hvaða röfl er þetta í manneskjunni, ekkert mál að fara bara að vinna einhvers staðar og skipta svo um vinnu. Ég er hinsvegar komin með upp í kok að sætta mig við vinnuna mína, ég gerði það allan þann tíma sem ég var í námi. Ég vann sumarstörf sem mér líkaði í raun ekki við, fannst vinnan hundleiðinleg og gat ekki beðið eftir því að skólinn byrjaði aftur. Mér finnst ég alveg eiga skilið núna að fá vinnu sem ég verð ánægð í.
föstudagur, maí 18, 2007
Birt af Inga Elínborg kl. 5/18/2007 06:35:00 f.h.
|