föstudagur, maí 25, 2007

Ekki skil ég af hverju þeir vilja fara að flytja inn nýsjálenskt lambakjöt. Við keyptum okkur einu sinni lambakjöt frá Nýja-Sjálandi í Árósum og við vorum fljót að henda því eftir að hafa smakkað fyrsta bitann. Einhvers konar ullarbragð var af því og ég sannfærðist enn betur um að íslenska lambakjötið er best!!

Annars finnst mér þessi nýja stjórn ekki alveg að gera sig. Samfylkingin þurfti að bakka með mikið af sínum aðalmálefnum, t.d. stjóriðjustefnuna og ESB umræðuna. Ég er nú reyndar ekki hlynnt því að ganga í ESB en mér finnst samt á öllu að Samfylkingin hafi "selt sig" til að komast í stjórn, nægir þar að nefna að við vorum ekki tekin af lista hinna vígfúsu þjóða þótt að það standi mjög skýrt hjá þeim að það verði eitt fyrsta verk þeira. Í stjórnarsáttmálanum stendur aðeins að þau harmi ástandið í Írak. Ekki virðist heldur vera mikil samstaða um virkjanamál. Ég er algjörlega á móti frekari virkjunum og Ingibjörg sagði að ekki væri hægt að fara í Norðlingaölduveitu en Geir virðist vera á öðru máli og vitnar þar í stefnuyfirlýsingu nýju stjórnarinnar. Mér finnst að Samfylkingin hafi einfaldlega verið of gráðug til að komast í stjórn og hafi þ.a.l. gefið of mikið eftir.

En svo er skemmtileg helgi framundan, afmælispartý hjá Hrönn vinkonu á morgun. Ætla m.a.s. að fara aðeins að tjútta. Mamma ætlar að koma og vera hjá Benedikt en Árni ætlar svo bara að fara fyrr heim enda hefur hann takmarkaðan áhuga á að fara niður í bæ. Vonandi breytist það nú eftir að reykingabannið tekur gildi, hlakka endalaust mikið til að geta farið að skemmta mér án þess að anga af reykingastybbu.

Á sunnudaginn verður Óli Matti eins árs og förum við fjölskyldan í afmælið til hans. Alltaf gaman að hitta alla fjölskylduna í einu og fá sér eitthvað nammigott.

Svona í lokin, ég er loksins búin að setja inn myndir frá Evrópuferðinni okkar :). Það eru nú einungis tvö ár síðan að við fórum í ferðina þannig að ég er ekkert sein á ferð eða hvað finnst ykkur?