Við Árni keyptum okkur bíl á föstudaginn :). Þvílíkt gaman, í rauninni í fyrsta skipti sem ég kaupi mér bíl, orðin 27 ára gömul. Árni átti Golfinn þegar að við byrjuðum saman og við seldum hann þegar að við fórum út. Þegar að við fluttum heim þá var tengdapabbi að kaupa sér nýjan bíl og þar sem að hann sá fram á að geta ekkert selt gamla bílinn þá gaf hann okkur bara hann. Alveg frábært að fá bíl gefins, sérstaklega þegar að maður er nýfluttur aftur heim og þarf að kaupa sér íbúð en bíllinn er ekki alveg upp á sitt besta enda frá árinu 1996. Hann gæti nú alveg dugað okkur lengur en Árni klessti smá á rétt fyrir jólin (sem betur fer sást ekkert á hinum bílnum) þannig að húddið festist og það er ekki hægt að opna það. Það kostar ábyggilega einhvern pening að gera við það og okkur finnst það bara ekki þess virði og fórum þess vegna að leita okkur að öðrum bíl.
Fundum þennan fína bíl, Nissan Note, kóngabláan og árgerð 2006. Alveg yndislegt að keyra hann. Ég og Árni vorum í samningaviðræðum alla helgina um hver fengi að keyra hann þegar að við fórum eitthvað um helgina, mjög skemmtilegt :) og hvert tækifæri nýtt til að komast aðeins út og keyra hann.
Erum svo að fara með Benedikt í ungbarnasund sem byrjar 15. maí. Hlakka mikið til að sjá hvernig honum líkar í vatninu. Vona að þetta verði til þess að hann verði ekki vatnshræddur eins og ég var þegar að ég var lítil. Sem betur fer eltist það af mér en ég var hræðileg á tímabili. Ég var með kúta, bæði um magann og á handleggjunum en samt mátti ekki sleppa mér nema þegar ég hélt mér í bakkann.
mánudagur, apríl 30, 2007
Birt af Inga Elínborg kl. 4/30/2007 11:22:00 f.h.
|