Vá hvað það er strax mikið að gera í skólanum hjá Árna, ég er strax orðin grasekkja og það er bara ein vika búin af skólanum. Hann er semsagt búinn að vera í allan dag uppi í skóla að undirbúa einhvern fyrirlestur sem hann og hans hópur eiga að flytja á mánudag, ég öfunda þá ekki.
Ég er hinsvegar bara búin að hafa það næs í dag. Ég og mamma fórum í heimsókn til Siggu og vorum þar í tvo tíma, bara að spjalla og svona, voðalega kósí.
Svo erum við rosalega fúl yfir því að fartölvan okkar er biluð, skjárinn bara virkar ekki. Hún er ekki 8 mánaða gömul þannig að þetta er ekki alveg nógu gott. Hún er auðvitað enn í ábyrgð en samt vont fyrir Árna að missa hana því að hann á að skila einhverju verkefni á miðvikudag og allt sem hann er búinn að gera er í fartölvunni.
Svo eiga mamma og pabbi sextugsafmæli bráðum, reyndar varð pabbi sextugur í apríl en við krakkarnir ákváðum að geyma að gefa þeim gjöf þangað til að mamma yrði sextug líka. Hún verður sextug 8. september og þau ætla að bjóða öllum krökkunum í sumarbústað helgina áður. Þannig að við ætlum að gefa þeim gjöfina áður en þau fara í sumarbústaðinn og ég hlakka svo til að sjá á þeim svipinn þegar að þau sjá hvað þetta er ;) Geðveikt gaman, ég ætla samt ekki að segja hvað við gefum þeim hérna á blogginu, þið verðið bara að bíða eins og þau.
laugardagur, ágúst 30, 2003
Birt af Inga Elínborg kl. 8/30/2003 11:30:00 e.h.
|