laugardagur, apríl 24, 2004

Gleðilegt sumar allir!! Sumardagurinn fyrsti var bara mjög næs, enda gerði ég ekkert annað en að liggja uppi í rúmi ;) Jú, reyndar kláraði ég að leiðrétta ritgerðina nokkurn veginn, á bara smá eftir. Ætla að klára restina um helgina og svo verður farið að læra á fullu fyrir Réttarsálfræðiprófið.
Mamma og pabbi buðu öllum börnunum heim í gær í smá afmæli (pabbi á afmæli næsta þriðjudag) og það var rosalega fínt. Gott að borða og gaman að hitta systkinin. Ég stakk reyndar af um ellefuleytið og hitti Hrönn og við fórum á Glaumbar til að dansa, ekkert smá gaman. En svo fórum við reyndar bara snemma heim, um tvöleytið. Ég er alltaf með svo lítið úthald á föstudagskvöldum ;)

miðvikudagur, apríl 21, 2004

Ég fór og hitti leiðbeinandann í morgun og fékk ritgerðina mína til baka. Hann var bara mjög ánægður með hana og ég þarf bara að gera svona smá leiðréttingar, ekkert mikið sem betur fer. Þetta er allt að koma. Ég er nú samt ekki alveg nógu sátt við þetta. Leiðbeinandinn minn er að fara út á morgun og kemur ekki aftur fyrr en næsta föstudag. Hann vill lesa ritgerðina einu sinni enn yfir áður en ég skila alveg þannig að hann les ekki ritgerðina mína fyrr en þarnæsta mánudag (sem er sami dagur og ég á að skila!!). Hann sagði að það væri ekkert það nojið að ég myndi skila aðeins seinna en ég var bara búin að hlakka svo til að geta skilað 3. maí, fara í prófið 5. maí og vera svo búin. En nei nei, núna lítur út fyrir að ég verði ekki búin fyrr en í fyrsta lagi 10. maí, ekki gott :( Ég er ekki í góðu skapi. Ef hann hefði bara getað sagt mér fyrr að hann væri að fara út hefði ég getað skilað honum ritgerðinni til yfirlestrar fyrr, pirr pirr pirr. Ég hata nefnilega að skila ekki á réttum tíma og sérstaklega þar sem að það er ekkert mér að kenna, ritgerðin hefði alveg náð að vera tilbúin ef ég hefði bara vitað þetta.

þriðjudagur, apríl 20, 2004

Jæja búin að skila ritgerðinni til yfirlestrar. Pínku skrýtið að geta ekki lengur fiktað í henni og vera endalaust að laga eitthvað. Ég er að vonast til að fá hana aftur á föstudag og þá hef ég helgina til að leiðrétta allt. Eftir það er bara vika í skil og líka vika í seinasta prófið mitt í HÍ. Ég hlakka svo til 5. maí, get varla beðið.
Annars er nú lítið að frétta, fer bara í vinnuna og svo aftur heim. Sé Árna ekkert þessa dagana enda er vinnan við lokaverkefnið komin alveg á fullt og hann er í VÍS alla daga frá 9 og langt fram á kvöld. En 6. maí er lokaskoðun hjá þeim í verkefninu (þá mega þau ekki forrita neitt meira ) þannig að eftir það verða þau ekki eins lengi á kvöldin, maður vonar það allavega.
Fór og fékk mér gervineglur í gær, ekkert smá skrýtið að hafa svona langar neglur allt í einu en samt gaman að láta hendurnar líta svona vel út ;)

föstudagur, apríl 16, 2004

Árni er að fara í seinasta prófið sitt í HR á eftir kl. 9. Ekkert smá gaman hjá honum, reyndar tekur þá bara lokaverkefnið við en hann þarf þá ekkert að mæta í skólann og svona. Gangi þér bara vel ástin mín.
Ég, Ásta, Lísa og Ragga hittumst á kaffihúsi í gær og vorum að skipuleggja gæsapartýið hennar Hrannar. Megum ekki seinni vera því að það var mánuður í brúðkaupið þeirra í gær!! Vá hvað tíminn er fljótur að líða. Þetta verður samt rosalega skemmtilegt gæsapartý, við allavegum skemmtum okkur mjög vel við að plana allt.
Svo byrjaði ég í þessum kúr í morgun, þurfti að borða eina brauðsneið og fullt af osti. Ég er alls ekki vön að borða á morgnana þannig að ég var alveg komin með nóg eftir hálfa brauðsneið en ég píndi þetta samt í mig. Svo verður þetta ekkert mál þegar að maður er búinn að venjast þessu.

fimmtudagur, apríl 15, 2004

Við fórum í gær og skrifuðum undir kaupsamninginn fyrir íbúðina, þannig að tæknilega séð eigum við hana ekki lengur. Svo er bara afhendingardagur 1. júní þannig að það er bara allt að gerast. Við fengum borgaðan helminginn af þeim peningum sem við fáum fyrir íbúðina þannig að það var ekkert smá gaman að líta á reikninginn sinn eftir að kaupsamningurinn var undirritaður ;)
Svo fór ég og náði í brúðarkjólinn minn í gær, ekkert smá gaman. Ég fór strax heim til mömmu og pabba og mátaði hann með skónum og kórónunni, geðveikt stuð.
Ég fór líka í gær á fund hjá DDV, þetta er svona rétt samansettur matseðill sem maður á að borða, eitthvað sem er gott fyrir einhvern eins og mig sem kann ekki að borða rétt. En þetta er samt ekkert smá mikið sem maður á að borða á hverjum degi, að minnsta kosti 600 g af grænmeti á dag og fullt af ávöxtum. Mér líst samt bara mjög vel á þetta, þetta er enginn kúr, bara svona verið að kenna manni að borða rétt.
Svo er alltaf að styttast í skil á ritgerðinni, hlakka svo til.

sunnudagur, apríl 11, 2004

Gleðilega páska allir saman.
Jæja þetta er bara búið að vera frábært frí. Ég er líka búin að vera dugleg í ritgerðinni minni og er bara nokkurn veginn búin með hana, bara smá fínpússun eftir. Á föstudaginn langa fórum við svo í matarboð til mömmu og pabba og fengum rosalega góðan mat. Svo fórum við stelpurnar á djammið og það var ekkert smá gaman. Ég var alveg í bænum til 4 en þá kom Árni og sótti mig.
Svo á laugardaginn og í dag er ég bara búin að vera að slappa af, snúa sólarhringnum við og svona. Árni er að læra fyrir próf þannig að hann er ekkert heima, er að fara í próf 13. apríl og svo seinasta prófið sitt 16. apríl. En þá byrjar bara lokaverkefnið á fullu.
Við fengum svo mikið af páskaeggjum að við náum aldrei að klára þau. Við vorum búin að kaupa eitt Ástaregg fyrir okkur, svo fékk ég eitt nr. 6 frá Góu frá vinnunni, svo gáfu mamma og pabbi okkur tvö páskaegg nr. tvö og svo var páskaeggjabingó með fjölskyldunni hans Árna í dag og þar unnum við tvö nr. eitt. Þetta er bara of mikið.

fimmtudagur, apríl 08, 2004

Vá hvað það er frábært að fá 5 daga frí, það verður svo gott að sofa út. Ég fór nú reyndar að passa Adam frænda í dag því að stóri bróðir hans sem heitir Daníel Ágúst var að fermast. Sigga og Drífa nenntu ekki með Adam með í kirkjuna þannig að ég var sett í það að passa og svo fór ég eftir það í fermingunarveisluna og var bara að koma heim.
Svo er matarboð hjá mömmu og pabba á morgun og líka stelpudjamm með Helgu, Ingu og Rannveigu. Gaman gaman. En svo eftir það ætla ég bara að taka því rólega og reyna að klára ritgerðina mína. Leiðbeinandinn minn vill nefnilega að ég skili honum fullkláraðri ritgerð eftir 11 daga, oh my god.
Hey svo eitt enn. Árni þykist eitthvað ætla að fara að blogga. Endilega kíkið á síðuna hans hérna til vinstri.

sunnudagur, apríl 04, 2004

Jæja helgin er bara búin að vera frábær. Ég kláraði innganginn minn í ritgerðinni á laugardaginn (alveg 9 heilar bls.). Svo um kvöldið var matarboð hjá Helgu og Frey og mér, Ástu og Hrönn + menn voru boðin. Við fengum rosalega góðan kjúkling í matinn og svo var bara byrjað að djamma. Við stelpurnar fórum svo á Glaumbar og dönsuðum alveg í 3 tíma straight. Ekkert smá gaman. Árni datt nú reyndar og missteig sig frekar illa og er bara frekar haltur í dag, greyið.
Svo var ferming hjá Bjarna Þór, frænda mínum í dag. Heilsan hefði nú mátt vera betri (aðeins þunn eftir gærdaginn ;)) en þetta reddaðist nú allt saman eftir að maður var búinn að fá nokkrar kökur ofan í maga. Svo á bara að slappa af í kvöld, liggja uppi í rúmi og reyna að losna við þennan höfuðverk.

miðvikudagur, mars 31, 2004

Bergþór pabbi hringdi í mig aftur áðan. Tinna átti semsagt 10 hvolpa samtals, en svo dó 1, greyið manns.
Annars er allt við það sama og í gær, fór í vinnuna reyndar en það er eitthvað voðalega lítið að gerast í lífinu hjá mér núna. Reyndar komin með 7.200 orð í ritgerðinni minni, vantar þá bara ca. 2.800, alveg að verða búið, jibbí.

þriðjudagur, mars 30, 2004

Bergþór pabbi var að hringja í mig og sagði mér að Tinna er búin að eiga 6 hvolpa, oh hvað maður er sætastur. Ég hlakka svo til að fara og sjá þá, gaman gaman.
Reyndar var ég svo veik í dag, ekki gaman. Fór ekki í vinnuna af því að ég var með svo mikinn svima og hausverk, en ég svaf svo mikið í dag að ég hlýt að vera búin að ná þessu úr mér. Vonum það allavega.
En hef voðalega lítið annað að segja.

mánudagur, mars 29, 2004

Jæja helgin búin. Þetta var alveg fín helgi, skrifaði mikið í ritgerðinni minni, svaf mikið og slappaði bara vel af. Þetta var fyrsta helgin í langan tíma þar sem að Árni var heima alla helgina, mjög gaman, orðin pínku leið á því að vera ein heima öll kvöld og allar helgar. En svo byrjar það reyndar aftur núna í kvöld þar sem að Árni er að byrja í prófum og þarf að læra.
Svo var kaffihúsaferð með stelpunum í gær, gaman að hitta þær svona og spjalla. Reyndar var bara stórhættulegt að keyra á kaffihúsið, það var smá snjókoma en það var eins og það væri geðveikt frost í götunum, bíllinn rásaði alveg og svona. Ég var svo hrædd við að keyra þannig að ég kom við í skólanum hans Árna og lét hann skutla mér afganginn af leiðinni á kaffihúsið ;)
En núna er bara ein og hálf vinnuvika eftir og það eru páskarnir komnir, ég hlakka svo til að geta sofið smá út og fá frí. Ég ætla nefnilega að reyna að klára sem mest í ritgerðinni minni á þeim tíma.

föstudagur, mars 26, 2004

Föstudagur kominn, jibbí. Ég er búin að vera svo kvefuð og með mikla hálsbólgu að ég hlakka svo til að geta sofið smá út og hvílt mig. Reyndar verð ég að vinna á fullu í ritgerðinni minni, alltaf styttist í skil.
Ég og Árni ákváðum bara að taka Hótel Sögu, fengum tilboð í Félagsheimili Seltjarnarness með mati og öllu víni og þannig og það munaði bara pínkupons. Á Sögu fáum við heldur enga bakreikninga, það er að segja þetta er tilboðið og það kemur ekkert til með að hækka. Hinsvegar gat hinn aðilinn ekki lofað okkur því að við myndum ekki fá bakreikninga vegna þess að þjónunum er borgað sér hjá þeim (og maður getur ekkert reiknað nákvæmlega hvað þeir þurfa að vera í marga tíma). Þannig að þetta er þá búið að reddast. Ég er svo ánægð, ekki gaman að reyna að vera að redda sal fjórum mánuðum fyrir brúðkaupið. Núna getur maður bara hætt að pæla í brúðkaupinu þangað til í maí enda höfum við engan tíma, erum bæði á fullu í lokaverkefni.
Svo eru að koma páskar, oh ég hlakka svo til að geta hvílt mig. Svo er ég að fara í tvær fermingar, fyrstu frændsystkinin mín eru að fara að fermast, gaman gaman.

þriðjudagur, mars 23, 2004

Bergþór pabbi hringdi í mig áðan og sagði að hann hefði velt bílnum á leiðinni til Þórshafnar. Ég fékk alveg áfall og hélt að hann væri stórslasaður en hann sagði svo að það væri allt í lagi með hann sem betur fer. Hann marðist reyndar dálítið á öxlinni en var bara heppin að ekkert meira kom fyrir. Ég held nú að hann hafi bara verið ánægðastur með að Tinna var ekki með honum, hún á nefnilega að eiga hvolpa mánaðarmótin apríl - maí. Ég og Árni erum einmitt að spá í að fara til þeirra helgina eftir að Árni er búinn í skólanum. Gaman gaman að sjá hvolpa.
Við erum að leita okkur að öðrum sal fyrir brúðkaupið og ekki byrjaði það vel því að allir salir sem að við hringdum í voru auðvitað
uppteknir. En svo fundum við reyndar einn mjög fallegan í dag, Félagsheimili Seltjarnarness og við erum að fara að tala við þá sem ætla að sjá um matinn á morgun en þeir sjá líka um að leigja þennan sal út þannig að maður fær allt hjá sama aðilanum. Við spurðum Hótel Sögu reyndar hvort að þeir gætu ekki lækkað sig vegna þess að við höfðum fengið vitlausar upplýsingar hjá þeim fyrst og hefðum aldrei leigt þennan sal ef við hefðum ekki fengið þessar upplýsingar en við erum ekkert búin að heyra frá þeim.

föstudagur, mars 19, 2004

Jæja sagan er sú að við fengum tilboð í íbúðina á miðvikudaginn. Í gær gerðum við gagntilboð og þau samþykktu það í morgun og ég var að skrifa undir það tilboð þannig að íbúðin er seld!! Jibbí, ekkert smá gaman. Það tók semsagt 5 daga að selja hana, við erum svo ánægð. Það er nefnilega svo leiðinlegt að sýna íbúðir. Reyndar á Árni eftir að skrifa undir tilboðið líka (þannig að það verði löglegt) en hann gerir það bara seinna í dag þegar að hann sækir mig. Vei vei vei. Og svo skrifum við undir kaupsamning eftir svona viku - 10 daga.

fimmtudagur, mars 18, 2004

Í fyrsta skipti í 11 ár (held að það sé frekar 11 ár frekar en 12) tapaði MR í Gettu betur :( En það hlaut að koma að því einhvern tímann. Ég er bara ánægð að þeir töpuðu ekki fyrir MH.
Íbúðin okkar er voðalega vinsæl virðist vera. Ég vil samt ekki segja neitt meira í bili því að ég vil ekki jinxa neitt ;)

þriðjudagur, mars 16, 2004

Núna er ég sko alls ekki sátt. Við vorum búin að panta Hótel Sögu fyrir veisluna í brúðkaupinu og allt í lagi með það. Þeir voru búnir að segja okkur að við mættum koma með vínið með okkur en svo hættu þeir bara allt í einu við það en sögðust samt ætla að láta okkur fá vínið á kostnaðarverði, fyrirgefðu en er 2.200 hver flaska kostnaðarverð? Mér finnst það ekki (og þetta var ódýrasta flaskan þeirra). Núna erum við semsagt að bíða eftir lokatilboði frá þeim en ef það verður eitthvað mikið hærra en það sem þeir lofuðu áður þá erum við bara farin annað. Reyndar er nú frekar stutt í brúðkaupið eða bara 4 1/2 mánuður en það hlýtur að vera einhver salur laus.
Svo erum við líka búin að setja íbúðina okkar á sölu, leigjendurnir eru bara ekki að standa sig, stelpan vill bara flytja út um mánðarmótin og svo fór Árni inn í íbúðina (auðvitað með leyfi leigjandans) í morgun til að láta meta brunabótamatið aftur og þá var fullur öskubakki af sígarettum þar inni, það var mjög skýrt tekið fram að það mætti alls ekki reykja inn í íbúðinni, helvítis pakk er þetta bara. Ég vil bara að strákurinn fari eftir mánuð (er enginn samningur á milli okkar, alltaf eftir að skrifa undir hann) því að ég fór að sýna íbúðina í gær og það sást varla í svefnherbergisgólfið fyrir skítugum fötum!!! Arrg parrg, ég er svo pirruð. Það er alltaf verið að segja okkur að það sé erfiðara að selja íbúðir með ekkert í þeim en það þarf nú að sjást í gólfin í það minnsta.

laugardagur, mars 13, 2004

Við náðum að senda skjölin til Århus, ákváðum að senda með TNT til að vera viss um að þau kæmust fyrir hádegi á mánudaginn. Þetta er samt ekkert smá dýrt að senda svona með TNT, rosalega góð þjónusta samt því að maður getur alveg fylgst með því hvar sendingin er stödd og líka hvenær háskólinn tekur við þeim. Þannig að þau eru komin til skila, vei.
Ég er búin með tilraun nr. 2 í lokaverkefninu mínu þannig að nú er bara ein tilraun eftir. Niðurstöðurnar af tilraun 2 koma bara vel út þannig að þetta mjakast svona áfram. Hlakka samt svo til þegar að þetta verður búið.
Í rauninni er nú mest lítið annað að frétta. Lífið hjá mér er greinilega eitthvað óspennandi núna, hef ekkert að segja ;)

miðvikudagur, mars 10, 2004

Jæja þá erum við búin að redda öllum skjölunum fyrir Háskólann í Århus og erum að fara að senda þetta fyrir hádegi í dag og þá eiga bréfin vonandi eftir að ná til háskólans fyrir hádegi 15. mars. Mér finnst samt svo hallærislegt að umsóknarfresturinn renni út fyrir hádegi, ef bréfið þitt kemst ekki til skila fyrr en klukkan tvö þá bara sorry, kemst ekki inn. Ég er samt svo ánægð að þetta sé að verða búið, ég er búin að vera svo stressuð og pirruð að það er ekki eðlilegt.
Svo hringdi ég í Háskólann í Århus í dag og þar var mér sagt að umsóknin sem ég var búin að fylla út er í rauninni ekki umsókn um mastersnám heldur bara hvort að B. A. gráðan mín samræmist dönsku B. A. gráðunni og ef þeir meta það að þær samræmast þá senda þau mér umsókn um masterinn. En ég hef litlar áhyggjur af því, þessar gráður samræmast örugglega mjög vel, annars gætu Íslendingar ekki verið að læra þetta fag úti.
Við hættum semsagt við að sækja um Háskólann í Kaupmannahöfn og DTU. DTU er kominn með nýtt námsfyrirkomulag og Árna leist ekkert eins vel á það og gamla fyrirkomulagið þannig að honum langaði ekkert lengur í DTU og þá ætlaði ég nú ekki að fara sækja ein um skóla í Kaupmannahöfn. Þannig að ef við komumst inn þá förum við til Karenar og Grétars, jibbí.

mánudagur, mars 08, 2004

Vá hvað ég var þreytt í morgun, nennti alls ekki að vakna og fara í vinnuna en maður gerði það auðvitað samt sem áður. Mig dreymdi bara eitthvað svo illa í nótt að ég er alveg eftir mig.
Á föstudaginn fórum við á árshátíð HR og það var bara mjög gaman. Maturinn var rosalega fínn, reyndar var súpan í forrétt bara rétt volg en samt mjög góð. Svo fengum við svínakjöt og kjúkling í aðalrétt og svo ístertu og ferska ávexti í eftirrétt, nammi namm. Á laugardaginn var ég svo bara að læra og reyna að skrifa eitthvað í ritgerðina mína, það gekk nú ekkert vel að skrifa eitthvað en ég er búin að lesa flestar heimildirnar mínar sem er fínt.
Á sunnudaginn fórum við svo á Brúkaupssýninguna Já, ég held að svona sýningar eigi bara ekkert við okkur. Allavega sáum við ekkert sem okkur leist á.
Á miðvikudaginn ætlum við að reyna að senda út umsóknina okkar til skólanna í Danmörku, Árni ætlar að ná í öll skjölin í dag og á morgun og svo þurfum við bara að fylla út umsóknina. Þannig að þetta ætti alveg að reddast. Reyndar eru danskar heimasíður alveg ótrúlega lélegar, við viljum frekar skoða allt á ensku þannig að maður ýtir á þann takka en þá þýða Danir bara forsíðuna á ensku en flest allar aðrar síður eru á dönsku, frekar hallærislegt.
En jæja, vona að vikan hjá ykkur verði frábær ;)

fimmtudagur, mars 04, 2004

Ég, Rannveig og Inga fórum í sumarbústað í gær til Önnu Heiðu, hún er í fríi í skólanum og ákvað að skreppa aðeins heim. Það var mjög gaman, fengum rosalega góða pizzu hjá henni og svo bara sátum við og töluðum.
Svo á morgun er árshátíð í skólanum hjá Árna og við ætlum bara að skella okkur. Ég er aldrei búin að fara á árshátíð í HÍ og Árni er heldur aldrei búin að fara hjá sér þannig að maður er bara kominn á seinasta sjéns með því að fara.
Svo er ég svo hrædd um að klára aldrei þessa tilraun mína, leiðbeinandinn minn er alltaf að bæta við tilraunina og hún er orðin frekar stór finnst mér og mér finnst svo stutt þangað til að ég á að skila.

mánudagur, mars 01, 2004

Helgin var bara fín, ég er búin að fara yfir niðurstöðurnar úr tilrauninni minni og þær eru bara fínar. Núna þarf Jörgen (leiðbeinandinn minn) bara að samþykkja þær og þá má ég fara af stað með seinni hlutann.
Heyrðu, svo verð ég aðeins að monta mig af Árna mínum. Hann var að fá stigin sín úr TOEFL prófinu og hann fékk 670 stig af 677, ekkert smá flott. Til hamingju ástin mín. Núna getum við farið að sækja um skólana í Danmörku, pínku scary finnst mér. Þá er þetta eitthvað svo raunverulegt að þetta er að fara að gerast. Ég kvíði nefnilega dálítið fyrir að flytja út.
Við fórum í útskrift til hans Bigga á laugardaginn, til hamingju með útskriftina Biggi minn. Það var bara mjög fínt, gaman að hitta aðeins fólkið og Birki Snæ, maður er bara algjör dúlla.
Svo fórum við á Brúðkaupssýninguna í Garðheimum í gær og hún var bara ekkert spes, eiginlega bara hálfömurleg. Illa skipulagt fannst mér og ég fékk engar hugmyndir. Kannski er þetta meira fyrir fólk sem er ekki með neinar ákveðnar hugmyndir. Við erum hinsvegar búin að ákveða flest allt.
Við prófuðum líka Burger King og vá hvað hann er vondur. Ég hef aldrei smakkað svona vondan hamborgara á ævi minni.
En jæja bankinn er að fara að opna þannig að ég verð að hætta. Það eru mánaðarmót þannig að það verður brjálað að gera.

föstudagur, febrúar 27, 2004

Það var verið að birta próftöflu Háskóla Íslands og ég fer í Réttarsálfræðiprófið mitt 5. maí. Ekkert smá gaman, skila ritgerðinni 3. maí og svo prófið tveimur dögum seinna. Það verður ekkert smá næs að vera búin svona snemma.

Ég er byrjuð á tilrauninni minni, sem betur fer. Ég náði alveg 110 þátttakendum í fyrri hlutann sem er bara frábært. Núna á ég bara eftir að ná 40 í viðbót í seinni hlutann. Reyndar tekur sá hluti aðeins lengri tíma en sá fyrri en ég er allavega byrjuð. Ég fór bæði í Háskólann í Reykjavík og svo í Háskóla Íslands. Einn tími í HR sem ég fór í átti að vera með alveg 100 manns en það mættu bara 20, ekkert smá léleg mæting.
Svo var ég svo stressuð í gær þegar að ég var að horfa á Gettu betur, MR var undir mest allan tímann en náði svo að jafna og náði svo að taka fimm stig af sex sem eftir voru, þannig að þeir sigruðu. Ég hefði ekki þolað það að MH hefði unnið, allir aðrir mega vinna MR en ég hata hvað þessir MH - ingar eru hrokafullir.
Svo verður bara mikið að gera um helgina, ætlum aðeins að kíkja á brúðarsýninguna, svo er útskrift hjá Bigga hennar Ingu og svo er matarboð hjá Hrönn og Axel. Gaman að hafa svona mikið að gera. Svo ætla ég líka að fara af stað með seinni hlutann, þarf að plata þá sem Árni er með í hóp til að taka hana. Og svo þarf ég líka að láta eitthvað af vinunum taka hana, þ.e.a.s. þá sem vita ekki um hvað hún snýst. Silly me að kjafta um hvað hún er því að þá get ég ekki notað þá í tilraunina.

mánudagur, febrúar 23, 2004

Jæja, enn ein helgin búin. Helgarnar eru svo fljótar að líða að það er ekki eðlilegt.
Á laugardaginn fór ég í klippingu þannig að ég er aftur orðin sæt ;). Svo um kvöldið var partý hjá Siggu og Drífu, rosalega góður matur og gaman að hitta öll systkinin og fleiri. Ég var nú reyndar ekki lengi þar því að ég fór að hitta Hrönn og við fórum á Glaumbar og dönsuðum ekkert smá mikið. Geðveikt gaman.
Svo í gær var ég bara heima og las smá fyrir tilraunina mína. Ég er samt byrjuð að hlakka svo til 3. maí því að þá á ég að skila ritgerðinni, gaman gaman. Vona bara að maður nái að klára fyrir þann tíma :)
Árni var ekkert heima alla helgina, hann kom til dæmis heim klukkan sex í morgun, það er bara brjálað að gera hjá honum þessa dagana, enda var einn kennarinn svo lengi að setja inn verkefnalýsingu á einu verkefni að skiladeginum var frestað um eina viku og þá fer náttúrulega allt í rugl. En í kvöld klukkan tólf verður hann búin að skila þessum þremur verkefnum og þá eru engin stór verkefni sem þarf að skila strax. Þannig að hann getur aðeins slappað af.

föstudagur, febrúar 20, 2004

Jæja, ég fór og hitti leiðbeinandann minn á þriðjudaginn og er að fara að stað með tilraunina mína í næstu viku. Reyndar vildi hann að ég bætti aðeins við tilraunina mína þannig að hún er orðin tvískipt í rauninni en það er allt í lagi. Ég fékk svo smá kvíðakast þegar að ég var að sofna í gær, leiðbeinandinn minn sagði nefnilega að hann vildi fá að sjá ritgerðina mína tveimur vikum áður en ég á að skila til þess að lesa hana yfir sem þýðir að það eru aðeins 8 vikur þangað til að ég á að skila honum.
Svo á laugardaginn er partý hjá Siggu og Drífu, Drífa varð nefnilega 35 ára í gær. Til hamingju með afmælið Drífa mín. Þær ætla semsagt að halda smá afmæli, gaman gaman.
Svo er brjálað að gera hjá Árna í skólanum, hann á að skila einu verkefni í dag og svo tveimur á mánudaginn og líka að fara í fyrstu verkefnisskoðunina fyrir lokaverkefnið á mánudaginn. Hann er uppi í skóla allar nætur (búin að koma heim klukkan fjögur alla þessa viku) þannig að við sjáumst ekkert. Ekki neitt voðalega gaman.

mánudagur, febrúar 16, 2004

Það var nú mikið að gerast um helgina, á laugardaginn smökkuðum ég og Árni eina köku fyrir brúðkaupið okkar, mér fannst hún mjög góð og líka mömmu, pabba og tengdamömmu en Árna og pabba hans fannst hún ekkert sérstök. Þannig að við þurfum að smakka fleiri, nammi namm. Svo fórum við í Kópavogsblóm og pöntuðum allar blómaskreytingar fyrir brúðkaupið, jei.
Svo um fjögurleytið fórum við í Hveragerði í 25 ára afmælið hennar Rannveigar (Árni komst sem betur fer með). Það var ekkert smá gott að borða þar, brauðréttir og kökur.
Svo eftir það fórum við í 25 ára partý hjá Ástu og það var rosa mikið fjör þar. Til hamingju með 25 ára afmælið elsku Ásta mín. Ég og Hrönn fórum á Hverfisbarinn og dönsuðum í alveg tvo tíma en eftir það vorum við búnar á því þannig að við fórum bara heim. Þannig að þetta var bara frábær helgi, aðeins að taka sér frí frá lærdómnum.

miðvikudagur, febrúar 11, 2004

Þetta gengur nú ekki, ég ætlaði að óska Rannveigu til hamingju með 25 ára afmælið (í gær) en það var frekar mikið að gera í vinnunni þannig að ég komst ekki til þess og svo var netið ekki inni í Ekrusmáranum, einhver ljósleiðari sem fór. Þannig að afmæliskveðjan á netinu kemur einum degi of seint (sem betur mundi ég nú eftir að senda henni sms, ég er ekki það gleymin). Til hamingju með afmælið elsku Rannveig mín, vona að dagurinn hafi verið frábær ;)
Í öðrum fréttum þá er boðskortaljóðið komið, við létum nefnilega semja um okkur ljóð og það verður í boðskortinu fyrir brúðkaupið. Ég þarf meira að segja að senda tvö boðskort í dag vegna þess að systir hans pabba og frænka hans eiga heima í Bandaríkjunum og ef þau vilja koma þá þurfa þau auðvitað smá tíma að plana og svona. (Það er nefnilega bara hálft ár í brúðkaupið, oh my god). Svo ætlar bakarinn sem við höfum í huga að hringja í okkur á laugardaginn og leyfa okkkur að koma að smakka brúðkaupstertu hjá honum, nammi namm.

mánudagur, febrúar 09, 2004

Jæja enn ein helgin búin. Ég var nú frekar dugleg um helgina í ritgerðinni minni, er komin með þrjár og hálfa blaðsíðu, jibbí. Þetta mjakast áfram.
Svo fékk ég brúðarskóna mína á föstudaginn, ég borgaði aðeins 3.800 fyrir þá með sendingarkostnaði og öllu, ekkert smá ódýrir. Sem betur fer passa þeir alveg á mig, þarf bara aðeins að ganga þá til.
Árni er á fullu í lokaverkefninu sínu, maður sér hann eiginlega aldrei. Hann missir til dæmis af 25 ára afmæli bæði hjá Rannveigu og Ástu (sem verða bæði núna á laugardaginn), ekki gaman. En vá hvað tíminn líður hratt, ég trúi varla að við vinkonurnar séum að verða 25, stundum þegar að ég er spurð um aldur segi ég að ég sé 20 vegna þess að mér finnst ég ekki vera neitt mikið eldri.

miðvikudagur, febrúar 04, 2004

Ég er byrjuð að stressast svo upp fyrir ritgerðina mína, það eru 12 vikur þangað til að ég á að skila, oh my god. Ég á nefnilega eftir að gera tilraunina og lesa allar heimildirnar o.s.frv. En ég er allavega byrjuð, komin með eina blaðsíðu ;).
Helgin var rosalega fín, góður matur báða dagana og mikið spjallað. Frábært að hitta vinina svona, við gerum þetta alltof sjaldan, það gengur eiginlega ekki.
En ég gleymdi að skrifa í gær að ég og Árni áttum fjögurra ára afmæli í gær. Tíminn er ekkert smá fljótur að líða, ég trúi varla að það séu komin fjögur ár. Við gerðum reyndar ekkert, vorum búin að taka afmælisgjöfina út þegar að við fórum á Lækjarbrekku og á Hótel Sögu, við lágum bara heima og höfðum það kósí.

föstudagur, janúar 30, 2004

Helgin er að koma jibbí. Þetta verður örugglega mjög skemmtileg helgi, í kvöld ætlum við að bjóða mömmu, pabba og sólveigu systur í mat. Erum að spá í að hafa kjúklingafajitas, nammi namm.
Tengdó eru svo að fara í sumarbústað í kvöld þannig að við verðum ein alla helgina, ekkert smá næs. Ekki það að tengdó séu ekki frábær, bara fínt að fá að vera smá ein.
Svo á laugardaginn ætla Ingibjörg og Biggi að bjóða okkur og Rannveigu og Sverri í mat, nammi namm. Þá fær maður líka að sjá Birki Snæ, það er svo langt síðan að við höfum séð hann. Svo er líka auðvitað mjög gaman að hitta vinina ;)
Svo seinustu helgi fór ég að sjá Adam litla frænda og vá hvað maður er búinn að stækka. Enda er maður líka kominn með smá skap, þegar að maður segir að hann megi ekki gera eitthvað þá byrjar maður strax að gráta smá, algjör dúlla.

þriðjudagur, janúar 27, 2004

Ég ætlaði að vera rosalega klár og skipta um commentakerfi vegna þess að það er alltaf að detta út en nei nei, ég kann það víst ekkert. Ég er búin að ná því að henda þessu gamla út en ég kem ekki þessu nýja inn, skil þetta ekki alveg sko. Þannig að þið verðið bara aðeins að bíða með að tjá ykkur eitthvað ;)

mánudagur, janúar 26, 2004

Helgin búin og ný vinnuvika byrjuð. Við skemmtum okkur samt alveg hrikalega vel á föstudeginum, vorum í nýju álmunni á Hótel Sögu og herbergið var rosalega flott. Svo var maturinn á Lækjarbrekku geðveikur, ég fékk mér humarsúpu í forrétt og lamb og humarhala í aðalrétt. Árni fékk sér hreindýra carpaccio í forrétt og túnfisksteik í aðalrétt, algjört nammi namm.
Svo á laugardeginum fórum við að stússast í sambandi við brúðkaupið, fórum og mátuðum föt á Árna og hann verður semsagt í kjólfötum sem við leigjum bara. En svo keyptum við líka jakkaföt handa honum, nokkurs konar útskriftargjöf frá mér til hans. Geðveik flott jakkaföt. Svo borguðum við líka inn á brúðarkjólinn minn, hún pantar hann í næstu viku og hann kemur í apríl, vei vei. Og svo pantaði ég mér líka brúðarskó á netinu, fæ þá eftir svona hálfan mánuð, ekkert smá ódýrir, þeir kostar 2.800 krónur sem er bara ekki neitt miðað við verðið hér á landi. Ákvað að nota tækifærið og panta þá meðan að dollarinn er svona lágur.

miðvikudagur, janúar 21, 2004

Oh ég hlakka svo til á föstudaginn. Það var tilboð á gistingu á Hótel Sögu (10.000 ferðapunktar nóttin) og þar sem að við áttum alveg þessa ferðapunkta ákvað ég að panta eina nótt á bóndadaginn. Svo ætlum við líka út að borða sama kvöld á Lækjarbrekku, við erum semsagt að halda upp á bóndadaginn, konudaginn og svo líka að við erum búin að vera saman í 4 ár 3. febrúar. Við ákváðum samt bara að halda upp á þetta núna vegna þess að vinnan við lokaverkefnin hjá okkur er ekki komin á fullt en þegar að lengra líður þá sjáumst við nú örugglega ekkert.
Fyrir utan þetta er nú mest lítið að frétta, fór í fyrsta tímann minn í gær í Réttarsálfræði og fékk algjört sjokk vegna mikils vinnuálags, þetta er valfag þannig að mér finnst að þeir ættu nú að hafa ekkert alltof mikið vinnuálag. Þannig að ég skráði mig í Öldrunarsálfræði en þá er ennþá meira vinnuálag þar, núna veit ég ekkert hvað ég á að gera. Það er nefnilega skyldumæting í nokkra tíma í Réttarsálfræði og þar sem ég er að vinna kemst ég ekki í þá. En svo eru líka skyldumætingatímar í Öldrunarsálfræði þannig að ég veit ekkert hvernig þetta fer.

laugardagur, janúar 17, 2004

Jæja Idol búið og ég er svo sátt við sigurvegarann, ég hélt með honum þannig að ég var bara ánægð.
Árni fór í TOEFL próf í morgun og þurfti að fara út alveg klukkutíma fyrr til að moka innkeyrsluna, ég öfundaði hann ekki í morgun klukkan hálfátta þegar að hann fór út. Honum gekk bara rosalega vel og fær niðurstöðurnar eftir mánuð þannig að þá getum við sótt um skóla í Danmörku, jibbí. Ég þarf hinsvegar ekki að fara í þetta próf því að sálfræðin er bara kennd á dönsku, ekki á ensku.

miðvikudagur, janúar 14, 2004

Ég er búin að fá seinustu einkunnina mína og ég fékk 6,5 og er bara sátt við það. Þetta var allt krossapróf og það var nefnilega dregið niður fyrir hvert rangt svar þannig að maður vissi í raun ekkert hvernig manni gekk. En ég er semsagt búin að ná öllu og á núna bara eftir að fara í eitt próf í HÍ.
Pabbi þurfti að gista í nótt á spítalanum eftir augnaðgerðina sína. Honum leiddist örugglega því að hann gat ekkert verið með gleraugun sín og var með umbúðir líka þannig að hann þurfti bara að liggja uppi í rúmi í allan gærdag. En hann var að koma heim þannig að þá getur mamma stjanað við hann. Líði þér bara vel pabbi minn.

þriðjudagur, janúar 13, 2004

Ég gleymdi nú að segja frá því sem ég gerði um helgina (það er þá eitthvað að gerast hjá mér). Á föstudaginn fórum við til Hrannar og Axels og Ásta og Ívar komu líka og við vorum bara að spila og svona, voðalega næs. Reyndar unnu strákarnir en við stelpurnar tökum þá bara næst.
Á laugardagskvöldinu var svo matarboð hjá Helgu og Frey og Rannveig og Sverrir komu líka. Ekkert smá góður matur og dálítið öðruvísi frá því sem maður fær venjulega. Kvöldið var bara mjög skemmtilegt fyrir utan það að við stelpurnar stóðum í röð í svona hálftíma fyrir framan Hverfisbarinn og svo loksins þegar að við komumst inn kom Árni og sagðist vera svo illt í maganum að hann ætlaði bara heim. Þar sem að ég tímdi ekki að taka tvisvar sinnum leigubíl sama kvöldið í Kópavog (tvær ferðir kosta um 3.500) fór ég bara heim með honum. Þannig að bæjarferðin mín var bara að standa í röð, rosalega gaman.

Árni á afmæli í dag, til hamingju með afmælið ástin mín. Honum finnst hann vera orðinn alveg rosalega gamall eða 26 ára. Mér finnst það bara fínn aldur, ekkert of gamall. Ég gaf honum dvd með Metallica, viðtöl við meðlimi og svona en svo kom í ljós að hann á hann, ekki alveg nógu gott. En hann getur þá bara skipt honum.
Það er nú mest lítið annað að frétta, maður vaknar bara og fer í vinnuna og kemur heim og fer að sofa. Voðalega áhugavert eða hitt þó heldur.
Pabbi fór reyndar í augnaðgerð í morgun, greyið. Ég er eitthvað svo hrædd um allar svona augnaðgerðir, mér finnst að það þurfi svo lítið að koma fyrir til að allt fari í rugl, en þetta fer nú örugglega allt vel. Gangi þér vel pabbi minn.

föstudagur, janúar 09, 2004

Ég hitti leiðbeinandann minn fyrir B. A. ritgerðina mína áðan. Ég ætla semsagt að athuga hvort að birtingartími orða hafi áhrif á svokallaðar "implanted memories". Mjög skemmtilegt, finnst mér allavega.
Leiðbeinandinn kenndi mér eitt fag fyrir áramót og hann spurði hvort að ég vildi ekki bara fá að vita einkunnina mína og viti menn, ég fékk 7,5. Ég er bara mjög ánægð með þá einkunn því að mér fannst mér ekkert ganga það vel í prófinu. Þannig að núna á ég bara eftir að fá eina einkunn, mér finnst nú alveg rosalega hallærislegt að hún skuli ekki vera komin, á morgun eru komnar fjórar vikur síðan að ég fór í prófið, það voru 45 manns í prófinu og prófið var krossapróf. Þannig að kennararnir þurfa bara að renna þessu í gegnum skanna og þá eru þeir búnir að fara yfir prófið, bara leti í þessu pakki ;).

miðvikudagur, janúar 07, 2004

Jæja, mér er nú byrjað að líða aðeins betur, er bara rám núna en mestallt kvefið er farið. Sem betur fer, ég hata að vakna tíu sinnum á nóttunni alveg stífluð.
En það er í raun ekkert að gerast hjá mér, fer bara í vinnuna og svo aftur heim. Ég er svo þreytt alla daga því að ég sneri sólarhringnum gjörsamlega við um áramótin og svo sofna ég alltaf þegar að ég kem heim úr vinnunni þannig að þá get ég ekki sofnað aftur fyrr en um þrjúleytið á nóttunni, ekki alveg nógu gott.
Árni byrjaði svo í skólanum í dag, hann er líka veikur greyið, fékk hálsbólgu og er líka smá kvefaður. Svo á morgun er hann að fara með Snúð í bólusetningu, greyið manns, maður verður alltaf svo hræddur þegar að maður fer í bíl og til dýralæknisins, ekki gaman. En þetta er bara einu sinni á ári, sem betur fer.

laugardagur, janúar 03, 2004

Það er nú heldur lítið búið að gerast hjá mér á nýja árinu, ég fékk nefnilega þessa kvefpest sem er að ganga og er búin að liggja síðan á gamlárskvöld. Mér leið svo illa það kvöld að ég var farin að sofa klukkan tvö, svo er ég bara búin að liggja í rúminu hina dagana og mætti ekki í vinnuna á föstudaginn.
Ég ætla nú að hætta mér út í kvöld, Bjarklind systir var að bjóða öllum systkinunum í mat í kvöld og ætlar að vera með læri, nammi namm. Reyndar var hún líka að tala um að vera með karaóki en ég og Árni ætlum ekki að taka þátt í því, læt hinar systurnar bara um það.
Mér fannst Idolið bara fínt í gær, loksins kaus þjóðin eins og ég!! Mér fundust allar stelpurnar hræðilegar, so sorry.
Svo fóru Karen og Grétar snemma í morgun (ekki gaman), mér fannst nú eiginlega mest leiðinlegast að hafa ekki komist í gær og kveðja þau en ég treysti mér bara hreinlega ekki út.

þriðjudagur, desember 30, 2003

Í gær var jólasaumó með skvísunum og mennirnir fengu að koma með ;) Það var ekkert smá gaman því að við erum svo sjaldan allar á landinu þannig að það var frábært að allir skyldu hafa tíma til að komast. Og svo var rosalega mikið spjallað og borðað og hlegið. Svo var rosalega mikið dáðst að nýju prinsunum í saumaklúbbnum, þeir eru algjörar dúllur.
Í dag var ég semsagt frekar þreytt í vinnunni því að við komum seint heim. Svo finnst mér líka frekar skrýtið að vera að fara að vinna á morgun (er að vinna til hádegis), ég er eiginlega ekki alveg að ná því að það séu að koma áramót. En það verður samt svo gaman á morgun, ég fer til mömmu og pabba og borða svið, nammi namm. Árna finnst þau hinsvegar vond (skil ekkert í honum) þannig að hann verður hjá mömmu sinni og pabba í mat.
En ég segi bara við alla núna af því að ég nenni örugglega ekkert að blogga á morgun:
Gleðilegt nýtt ár og takk fyrir það liðna!! Megi gæfan fylgja ykkur á nýju ári.

mánudagur, desember 29, 2003

Oh hvað þetta eru búin að vera yndisleg jól. Ég naut þess alveg að vera í fríi (er komin í vinnuna núna). Ég og Árni vorum heima hjá mömmu og pabba og fengum alveg frábæran mat. Ég og Árni fengum ekkert smá mikið, eiginlega of mikið til að ég nenni að telja það upp ;) Svo var bara legið og lesið og borðað nammi og haft það rosalega kósí.
Á jóladag voru tvö jólaboð, eitt hjá mömmu og pabba og eitt hjá tengdó þannig að við þurftum að skipta okkur en Árni kíkti reyndar aðeins við hjá mömmu og pabba. Eftir boðin var farið til Hrannar og Axels og spilað alveg til hálffimm um morguninn. Svo var afmælispartý hjá Karen 27. des og það var rosalega gaman. Reyndar var geðveikt kalt en það reddaðist nú allt.
Í gær fórum við svo á LOTR og oh my god, hvað hún er geðveikt. Ég ætla nú ekkert að segja neitt meira til að eyðileggja ekki fyrir neinum en það má enginn missa af henni.
Svo er ég búin að fá eina einkunn, fékk 6,5 í félagslegri sálfræði og ég var bara nokkuð ánægð með það, hæsta einkunnin var bara 8,5. Núna á ég bara eftir að fá út úr tveimur prófum.

miðvikudagur, desember 24, 2003

Þó að það séu ekki komin jól þá ætla ég samt að segja við alla:
Gleðileg jól elskurnar mínar og vonandi hafið þið það sem allra best um hátíðarnar.

mánudagur, desember 22, 2003

Ég og Árni fórum á Love actually á laugardagskvöldið og hún er ekkert smá góð. Ekta jólamynd, svo sæt. Ég mæli með henni fyrir alla. Bara svona að koma þessu á framfæri ;)
Annars er mest lítið að frétta, fór og keypti eina aukagjöf fyrir Árna í gær þannig að núna er ég alveg búin. Enda er ég að vinna í gær og í dag þannig að ég hef engan tíma fyrir jólagjafastúss.
Núna eru allar vinkonurnar komnar heim, ekkert smá gaman. Reyndar er ég ekkert búin að hitta þær en það gerist vonandi sem fyrst, jibbí.

laugardagur, desember 20, 2003

Yngsta frændsystkinið mitt á eins árs afmæli í dag, innilega til hamingju með afmælið elsku Adam minn!! Við fórum í afmælið til hans í dag og maður var svo mikið krútt.
Annars er bara mest lítið að frétta, er bara búin að vera að slappa af og svo kláraði ég að pakka inn jólagjöfunum, allar búnar.
Mikið var ég annars sátt við úrslitin í Idol í gær, Helgi Rafn átti alveg skilið að vera rekinn út að mínu mati. Er eiginlega ekki búinn að standa sig neitt vel síðan að þau voru svona fá eftir.

föstudagur, desember 19, 2003

Jæja búin að vera tvo daga í vinnunni og það er bara fínt. Mjög góðir vinnufélagar og alltaf nóg að gera. Gaman að vera aftur komin fram í afgreiðslu í staðinn fyrir að vera alltaf í bakvinnslunni.
Svo fékk ég jólagjöf í dag frá Landsbankanum, allir fengu risastóra ostakörfu og það var líka graflax og reyktur lax. Svo var einn pakki sem var pakkaður inn og ég var svo forvitinn að ég opnaði hann og þá var það Heimur spendýranna eftir David Attenborough, ekkert smá flottar gjafir. Reyndar var Árni ekkert alltof sáttur því að hann var búinn að kaupa Heim spendýranna í jólagjöf handa mér þannig að hann þarf að kaupa eitthvað annað í staðinn :(
Árni fékk lokaeinkunnina sína í dag, fékk 9,0 í Fallaforritun (og er þá með 9,2 í meðaleinkunn) þannig að hann kemst á forsetalistann og fær skólagjöldin niðurfelld á næsta önn, ekkert smá flott hjá honum. Til hamingju krúsin mín.

miðvikudagur, desember 17, 2003

Jibbí, ég er búin í prófum. Oh það er svo frábært. Reyndar veit ég ekki alveg hvernig mér gekk, það voru nefnilega bara ritgerðarspurningar í prófinu og ég gat alveg skrifað eitthvað við allt en kannski sagði maður ekki nákvæmlega það sem kennarinn var að leita eftir o.s.frv. En það þýðir víst ekki að stressa sig á því, þetta er búið og maður gerði það besta sem maður gat.
Svo fór ég bara í strípur og ætla svo bara að slappa af í kvöld. Ég er nefnilega að deyja úr þreytu, fór að sofa klukkan tólf í gær en vaknaði um hálfþrjú og gat ekki sofnað aftur fyrr en fimm útaf stressi.
Vinur hans Árna fékk boðsmiða á LOTR í lúxussal og bauð Árna með sér í kvöld. Árni sagði auðvitað já sem ég skil mjög vel (en hann er samt að fara í próf á morgun) en mig langar líka að sjá hana í kvöld. Svo förum við bara aftur 28. Gaman gaman. Hinsvegar má Árni ekki segja mér neitt úr myndinni, þá verð ég alveg brjáluð.

þriðjudagur, desember 16, 2003

Mér líður mikið betur núna í hendinni, er allavega laus við fatlann og get byrjað að tjá mig aftur, jibbí.
En núna er bara eitt próf eftir (á morgun) og ég er frekar stressuð, frekar lítill tími miðað við hvað það er mikið efni fyrir prófið. Svo verða bara líka 5 spurningar í prófinu þannig að maður verður annaðhvort heppin eða óheppin, það er ekki fræðilegur að maður muni kunna allt jafnvel.
En svo á morgun klukkan tólf verð ég komin í jólafrí!! Reyndar ekkert mikið frí því að ég verð að vinna um jólin en samt þá allavega prófafrí.
Ætla bara að láta þetta nægja og líta enn einu sinni yfir glósurnar.

sunnudagur, desember 14, 2003

Ætlaði bara að láta vita að það verður ekki skrifað mikið á næstunni því að ég datt í hálku í gær, beint á vinstri olnbogann (sem betur fer er ég ekki brotin) og er núna með tvöfaldan olnboga af því að ég er svo bólgin. Þannig að núna er ég með hendina í fatla. Sem betur fer datt ég á vinstri því að ég er að fara í próf eftir 3 daga og þar sem ég er rétthent get ég alveg skrifað í prófinu. Þar sem að það er búið að taka mig ca. 5 mínútur að skrifa svona lítið ætla ég bara að láta þetta nægja.

laugardagur, desember 13, 2003

Jæja, annað próf búið og þá er bara eitt eftir. Mér gekk held ég bara ágætlega í dag, prófið var frekar stutt bara 80 krossar og ég var búin eftir 25 mínútur. En þar sem að maður má ekki fara fyrr en eftir klukkutíma þá fór ég fjórum sinnum yfir prófið!! Mér finnst svo hræðilegt að hafa svona langan tíma því að þá fer ég alltaf að breyta öllum svörunum mínum, reyndar breytti ég bara þrem en samt.
Svo var Idol í gær, mér fannst þau öll mjög góð, erfitt að reka einhvern burt. Ég var nú reyndar búin að sjá fyrir mér að Rannveig myndi vinna keppnina en það gekk víst ekki eftir.
Ég og Árni fórum í gær og keyptum miða í lúxussal á LOTR, 3 myndina. Við fórum þrem tímum eftir að byrjað var að selja miðana og samt var búið að selja upp fyrir tvo daga.
En núna eru bara 4 dagar eftir í próflok, jibbí. Ég get varla beðið.

fimmtudagur, desember 11, 2003

Tveir dagar í næsta próf og ég get varla beðið. Ég hef semsagt fjóra daga fyrir þetta próf og það er bara of mikið, þetta er nefnilega valfag (bara 3 einingar) og það eru um 350 bls. í lesefni, sem er náttúrulega ekki neitt. Og þar sem að ég er að lesa bókina í þriðja skiptið þá er ég bara búin að vera að lesa um þrjá kafla á dag sem þýðir að ég er búin að sofa til ellefu og læra svo til svona fjögur og láta mér svo leiðast, vegna þess að ef ég myndi reyna að lesa bókina í fjórða skiptið myndi ég bara rugla öllu saman.
En svo í kvöld verður smá gaman, tengdamamma á nefnilega afmæli, til hamingju með afmælið Ingibjörg. Og hún er búin að baka kökur og svona þannig að ég fæ nammigott. Og svo koma nokkrir gestir þannig að maður getur spjallað við einhverja, maður einangrar sig alltaf svo mikið í prófum.

mánudagur, desember 08, 2003

Eitt próf búið og tvö eftir. Það gekk bara betur en ég hélt að myndi ganga í dag. Þetta voru samt 3 ritgerðir og ég gat alveg skrifað fullt um hvert efni en þetta er alltaf svo huglægt mat. En bara fínt að vera búin.
Svo fór ég í klippingu og er orðin rosa sæt, tíhí. Svo fórum ég og Árni og kláruðum að versla allar jólagjafirnar, jibbí. Ég fékk líka fyrirfram jólagjöf frá tengdó, af því að mig vantaði svo pils og skó fyrir jólin (á ekkert pils og enga spariskó) þá gáfu þau mér þannig í dag, ekkert smá flott. Þannig að ég er búin að fá tvær jólagjafir, gaman gaman.
Svo er ég bara núna að hlusta á jólalög og pakka inn nokkrum jólagjöfum. Reyndar verð ég frekar mikið pirruð á því, vegna þess að ég er svo mikill fullkomnunarsinni og svo rosalega smámunasöm þá fara böndin alltaf svo í taugarnar á mér því þau vilja aldrei tolla alveg eins og ég vil hafa þau, ég veit ég er pínku skrýtin.
Núna er Árni búinn að fá allar einkunnirnar sínar, hann var búinn að fá eina 9,5 í stærðfræði, í dag fékk hann að vita að hann er með 9,0 í málstofu, 9,0 í tölvugrafík og 9,5 í forritunarmálum. Ekkert smá flott hjá honum, til hamingju ástin mín. Þannig að þetta þýðir að hann þarf bara að fá 8 í faginu sem hann er í núna og þá er hann með 9 í meðaleinkunn, kemst á forsetalistann og fær skólagjöldin niðurfelld, jibbí.

Jæja hálftími í próf og ég er svo stressuð. Ekki bætti það úr að ég fór að sofa klukkan tólf í gær en vaknaði aftur um hálftvö og gat ekki sofnað aftur fyrr en hálffimm, þannig að ég er frekar þreytt.
En vonandi gengur þetta allt vel ;)
En svo á öðrum nótum, Helga vinkona átti afmæli í gær, til hamingju með afmælið elsku Helga mín. Hlakka svo til að sjá þig þegar að þú kemur frá Keele.

fimmtudagur, desember 04, 2003

Það er gjörsamlega ekkert að gerast hjá mér, kannski ekki skrýtið miðað við það að ég fer ekki út úr húsi vegna þess að ég er að læra. En á mánudaginn verður þetta próf búið og þá ætla ég í klippingu, jibbí. Maður verður nú að líta sómasamlega út um jólin.
En eins og ég segi þá er ekkert að frétta, ég sit og les allan daginn og svo þegar Árni kemur heim þá þarf hann að hlusta á allan pirringinn í mér vegna þess að ég held alltaf að ég kunni ekki neitt (sérstaklega þegar að maður hefur 11 daga fyrir eitt próf), eftir því sem ég læri meira því minna finnst mér ég kunna. Ekki alveg nógu gott en þetta hlýtur að reddast :s.
Svo er Árni búinn að fá út úr einu próf, fékk 9,5 í Stærðfræðilegri greiningu, ekkert smá flott hjá honum.
Ég fór og skrifaði undir ráðningarsamninginn hjá Landsbankanum í gær þannig að það er alveg klappað og klárt. Reyndar var ég nú ekkert sátt við það að ég þarf að vinna til hádegis á gamlársdag og líka á aðfangadag held ég. Veit einhver hvort að það er opið í bönkum á aðfangadag? (vá ég veit þetta ekki en er samt búin að vera að vinna í banka síðan árið 2000).

mánudagur, desember 01, 2003

Vá hvað ég er ekki alveg komin í stuðið fyrir upplestrarfríið, ég er alveg búin að vera dugleg að læra (mætti samt alveg vera duglegri) og svona en mér finnst ég ekki kunna neitt. Enda er líka vika í fyrsta prófið núna, ég held að ég sé bara ekki orðin nógu stressuð.
En núna er semsagt niðurtalningin í próflokin byrjuð og líka niðurtalningin í jólin, 16 dagar þangað til að ég verð búin í prófum og 23 dagar í jólin. Ég og Árni eigum bara eftir að versla 4 jólagjafir og ég er búin að kaupa allar jólagjafirnar handa honum þannig að það er ekki mikið eftir. Ég er rosalega ánægð með það, aðeins minna að gera í fríinu.

föstudagur, nóvember 28, 2003

Komin í upplestrarfrí!! Jibbí, seinasta próftörnin mín í HÍ er byrjuð, ekkert smá gaman.
Við erum semsagt komin með leigjendur að Laugateiginum, loksins. Þetta eru tvær ungar stúlkur og okkur leist bara vel á þær, þær fá afhent líklegast í kvöld þannig að það er bara fínt að vera loksins búin að leigja hana og þurfa ekki lengur að vera að sýna öllum hana.
Svo er ég komin með vinnu, byrja 18. desember (daginn eftir að ég er búin í prófum) á Bæjarhrauni í Landsbankanum. Þetta er alveg pínkupons útibú (bara 4 sem vinna þarna) þannig að maður verður svona allt í öllu, sem er fínt, þá lærir maður bara meira og fær meiri reynslu. Ég er semsagt að leysa eina konu af sem er að fara í barneignarleyfi og það gæti bara ekki hentað betur fyrir mig.
En jæja, þarf að halda áfram að læra.

þriðjudagur, nóvember 25, 2003

Oh það er svo jólalegt úti, ég elska þegar að það snjóar svona mikið. En ég er líka svo mikið fyrir kulda og veturinn þannig að það er kannski ekkert skrýtið.
Árni kláraði prófin í gær og honum gekk bara mjög vel. Strax eftir prófin fóru hann og einhverjir HR-ingar í sumarbústað og voru að djamma og svona. Og ég er ekki einu sinni byrjuð í prófum!! En svo strax á morgun byrjar hann í sérhæfðu námskeiði þannig að hann er ekki alveg búinn í skólanum.
Svo er bara einn dagur eftir og þá er komið upplestrarfrí, ég ætla reyndar að taka mér frí á morgun og versla jólagjafir en strax á fimmtudag verður byrjað að lesa.
Einar frændi sem er að gera við bílinn okkar hringdi í mig í dag og sagði að kostnaðaráætlunin væri komin í 120.000 krónur og það er bara það sem þeir sjá. Þetta getur hækkað geðveikt mikið þegar að þeir byrja að rífa allt í sundur og svona. Þannig að þetta verður nokkuð dýrt fyrir þessa verktaka.

sunnudagur, nóvember 23, 2003

Voh, LOTR: TTT er bara alveg geðveik, þótt að hún sé tæpir fjórir tímar tekur maður ekkert eftir því. Ég get varla beðið eftir þriðju myndinni, hún verður frábær.
Svo fengum við að frétta á föstudaginn að verktakarnir eru 100% bótaskyldir, jibbí. Fyrst var TM reyndar eitthvað að nöldra um að þetta ætti að skiptast í helminga en Árni röflaði í þeim og þá skiptu þeir um skoðun enda kemur ekkert annað til greina. Myndirnar sem voru teknar af staðnum sýna alveg að þetta er stórhættulegt.
Nú svo er seinasta vikan í skólanum að byrja, seinasti kennsludagur á morgun og svo á þriðjudag og á miðvikudag eru svona upprifjunartímar og svo á fimmtudag byrjar maður að lesa, ekki gaman. En svo verður þetta búið 17. desember kl. 12.
Í gær hitti ég svo vinina á Ara í Ögri, fínt að komast aðeins út og spjalla, enda hittir maður vinina ekkert fyrr en prófin eru búin.

miðvikudagur, nóvember 19, 2003

Ég fór og keypti LOTR: Two Towers í gær og við ætlum að horfa á hana á morgun, ég get varla beðið!! Árni fer nefnilega í próf á morgun milli 9-12 en svo fer hann ekki í næsta próf fyrr en á mánudag þannig að hann getur tekið sér frí og horft á myndina. Hann er svo líka búinn í einu prófi og gekk bara mjög vel (eins og alltaf).
Fyrir utan þetta er nú mest lítið að frétta, frí í skólanum á morgun og ég hlakka ekkert smá til að sofa út. Svo er bara föstudagur og svo er komin seinasta helgi fyrir upplestrarfrí, enda er helgin alveg fullbókuð. Maður þarf að nýta allar stundir. Svo næsta þriðjudag ætlum við að fara að versla fleiri jólagjafir og reyna bara að klára sem flestar, nenni ekki að standa í þessu eftir próf, þá vil ég bara eiga frí. Við eigum reyndar eftir að kaupa 11 jólagjafir þannig að þær verða ekkert allar kláraðar en vonandi meirihlutinn.
Svo fór ég eftir skóla í dag að sækja um vinnu og sótti um vinnu á sex stöðum, vona bara að það komi eitthvað út úr því ;)

laugardagur, nóvember 15, 2003

Jæja, búin að flytja og líka búin að þrífa alla íbúðina, með hjálp frá systrunum og bestu mömmu í heimi!! Mamma og pabbi eru nefnilega búin að vera svo frábær í þessum flutningum, búin að koma á hverjum degi liggur við og hjálpa okkur.
Ekkert smá næs að vera búin að þessu öllu og geta byrjað að læra á ný. Við erum reyndar ekki komin með leigjendur, við hringdum í þau í dag (áttu að fá afhent í dag) og þau svara okkur bara ekki. Við erum búin að hringja svona 20 sinnum í þau, það er ekkert mál ef þau eru hætt við, við viljum bara vita það. Andskotans helvítis pakk sem kann sig ekki. Ég er alveg brjáluð.
Kynningin á fimmtudaginn gekk vel, allavega leið ekki yfir mig ;). Svo var ég að komast að því að það er önnur kynning í næstu viku sem á að vera í korter. Maður verður bara orðinn sjóaður í þessu fyrir rest. En þetta er mjög gott að gera svona, ættu að vera fleiri kennarar sem gerðu þetta.
Ég hlakka svo til 24. nóvember af því að þá ætlum við að horfa á Two Towers; extended edition. Hún kemur reyndar út 18. nóvember en Árni er í prófum þá þannig að ég ætla að geyma að horfa hana þangað til hann er búinn. Er ég ekki góð?
Svo er TM búið að komast að því að þessir verktakar eru bótaskyldir en þeir hafa 7 daga andmælarétt þannig að það er ekki ennþá byrjað að gera við bílinn og við erum ennþá á bílaleigubílnum, ef verktakarnir geta fundið einhverja smugu þannig að þeir séu ekki bótaskyldir þá verður það nokkuð dýrt að hafa bílinn :(

miðvikudagur, nóvember 12, 2003

Við fórum til löggunnar í dag og kærðum þessa verktaka og svo fórum við til TM og þeir ætla að láta okkur vita á morgun hvað kemur út úr þessu. Við náðum svo í bílaleigubíl í dag upp á von og óvon því ef að þeir eru bótaskyldir þurfa þeir að greiða bílaleigubílinn en annars þurfum við auðvitað að greiða hann. Það gengur bara ekki að vera bíllaus, pabbi var alveg frábær í dag að keyra mig og Árna í skólann og svo keyrði hann okkur líka til löggunnar og TM og líka til að ná í bílaleigubílinn. Takk pabbi ;).
Svo ætlum við að flytja á morgun, mamma kom og pakkaði niður í dag fyrir mig á meðan ég var í skólanum svo að það væri búið að pakka öllu, alveg frábær líka sko. Ég á bara yndislega foreldra.
En á morgun þarf ég að halda smá umræðu (fyrir 80 manns) um niðurstöður í tilrauninni minni þannig að allir verða að hugsa góðar hugsanir um 9.50 á morgun. Reyndar erum við tvær og við megum ekki vera lengur en 10 mínútur en ég kvíði samt frekar mikið fyrir.
En að vera á þessum bílaleigubíl er ekkert smá skrýtið, við fengum Yaris frá þeim, bara ársgamlan og það er svo skrýtið að keyra svona nýjan bíl miðað við 9 ára gamla bílinn okkar. Ég keyrði eins og 17 ára stelpa nýbúin að fá bílpróf, drap á bílnum á hverjum ljósum og svona. En þetta venst.

þriðjudagur, nóvember 11, 2003

Jæja, afmælið mitt búið og maður er orðin árinu eldri :=) Það var líka svo rosalega fínt að fá stelpurnar í heimsókn í gær og spjalla aðeins og slappa af. Fyrsta kvöldið í tvær vikur sem fer ekki í það að pakka. Ég fékk margt rosalega flott hjá þeim, þrjá boli og svo svona risastórar ilmkúlur sem maður setur í baðið. Þannig að tengdó á ekkert eftir að komast í bað fyrstu vikurnar sem við búum þarna.
Annars var stefnan sett á það að flytja á morgun en Árni á að skila tveim verkefnum þannig að við þurfum örugglega að fresta því fram á fimmtudag og þá hef ég bara einn dag til að þrífa, gúlp. Kannski fínt að það frestaðist af því að ég á ennþá eftir að pakka smá, verð að reyna að klára það í kvöld.
Svo erum við vonandi komin með leigjendur, þau ætla að tala betur við okkur í dag. Læt ykkur vita af því seinna.
En vá hvað það er ömurlegt að vera bíllaus, það tekur geðveikt langan tíma að komast allt, reyndar er fjölskyldan mín búin að vera rosalega dugleg við að keyra okkur en samt alveg hryllilegt. Löggan ætlar samt að koma að skoða bílinn í kvöld, Einar frændi sem er bifvélavirki er búinn að skoða bílinn og hann er bara rosalega mikið eyðilagður, stýrisdælan farin og olíupannan lekur og eitthvað meira held ég. Svo er búið að taka myndir af þessum stað sem Árni keyrði ofan í holuna og við látum lögguna fá þær og þá getum við kannski fengið bílaleigubíl út á trygginguna hjá þessum verktökum. Við fáum nefnilega ekki bílaleigubíl nema við notum kaskótrygginguna (þar sem sjálfsábyrgðin er 74.000) og við ætlum ekkert að borga neitt sjálf. Enda sagði maðurinn sem tók myndirnar að þetta væri bara stórhættulegt að skilja þetta eftir svona.

sunnudagur, nóvember 09, 2003

Vá hvað það gengur allt á afturfótunum hjá okkur. Árni var að keyra uppí HR og keyrði ofan í einhverja risastóra holu (sem var ekkert merkt) og bíllinn er bilaður. Einar frændi kom og kíkti á hann og við þurfum að láta draga hann upp á verkstæði á morgun og þar ætlar Einar að líta betur á hann (hann gat ekkert sagt hvað var að). Við ætlum að hringja í Gatnamálastjóra á morgun og heimta að þeir borgi alla viðgerðina, þeir eru að laga eitthvað og merkja ekki einu sinni neitt. Ekkert smá hallærislegt og ég er svo pirruð. Það gengur nefnilega ekkert að vera bíllaus og þá sérstaklega ekki þegar að maður er að flytja.

Ég og Sólveig héldum upp á afmælið okkar í gær heima hjá Sólveigu. Það var rosalega fínt, við buðum bara fjölskyldunni og svona og ég fékk ekkert smá mikið, 2 hálsmen, bol, peysu, loðna inniskó, handklæði og kisusokka frá sock shop.
Í dag fluttum við rosalega mikið heim til tengdó, Bergþór pabbi var í bænum á stóra vörubílnum sínum þannig að við nýttum tækifærið og fluttum allt sem við getum verið án. Ég vildi bara að ég hefði vitað fyrr að hann hefði verið í bænum því að þá hefðum við getað verið alveg tilbúin með allt og bara klárað að flytja. Það hefði þá sparað okkur að fá sendibíl á miðvikudaginn. En samt frábært að vera búin með geymsluna og alla kassa.
Eftir að við fluttum fórum við til mömmu og pabba með Snúð og ég er búin að vera hérna í tvo tíma og hann er búinn að vera undir rúmi allan tímann að deyja úr hræðslu. Greyið manns, ég vorkenni honum svo mikið.
Mamma og pabbi voru líka svo góð að leyfa mér að halda upp á afmælið mitt á morgun hjá þeim vegna þess að það eru engir stólar eftir í íbúðinni, bara einn sófi og það er ekki nóg fyrir vinkonurnar. Það er líka allt í drasli þannig að ég hefði ekki nennt að þrífa alla íbúðina fyrir þær ;).

föstudagur, nóvember 07, 2003

Jæja, við erum búin að auglýsa í fréttablaðinu og það eru nokkrir búnir að koma að skoða íbúðina en enginn sem hefur sagt neitt ákveðið. Ég er samt búin að vera rosalega dugleg að pakka þannig að við ætlum samt að flytja í næstu viku, bara til þess að vera búin áður en við byrjum í prófum og svona.
Svo fer Snúður til mömmu og pabba á sunnudaginn, ég kvíði ekkert smá fyrir að fara með hann og fara svo án hans. Ég vona bara að hann skilji að hann á að eiga heima þarna og fari ekki á neitt flakk, ég veit ekki hvað ég myndi gera ef hann myndi týnast :(.
Ég og Árni fórum svo á Matrix 3 í dag, hún er ekkert smá góð og Carrie-Ann Moss er bara frábær sem Trinity, hún er svo flott. Væri sko alveg til í að vera eins og hún.
Svo fór ég til Rakel vinkonu í kvöld, hún var að eiga lítinn strák fyrir 5 vikum og maður var svo sætur. Alveg eins og pabbi sinn og svo rólegur. Hann sofnaði meira að segja í fanginu á mér.

þriðjudagur, nóvember 04, 2003

Við erum búin að missa leigjandann, það kom upp smá misskiningur sem varð til af okkar hálfu og við hringdum í hana og sögðum henni frá þessum misskilningi (leigan myndi semsagt hækka um 2.000 kr á mánuði) og hún varð bara brjáluð og skellti tvisvar á okkur og sagði að við værum óheiðarleg og eitthvað þannig. Við ákváðum að segja henni að við værum búin að finna nýja leigjendur því að við viljum ekki leigja svona fólki sem skelllir á mann, er hún 5 ára?
Brjálað að gera í skólanum, er að skila skýrslu núna á fimmtudaginn í félagslegri sálfræði og við erum í geðveikt miklum vandræðum því að við vissum ekki hvort að við mættum nota eitt próf til að reikna út marktekt og þannig. Það er stundakennari í þessu fagi og við fórum að hitta hann og hann gat ekkert sagt okkur um þetta því að hann vissi það ekki!! Ekki alveg nógu gott finnst mér. Þannig að við þurfum að tala við kennarann á morgun og skrifa niðurstöður og túlka þær og skila bara svo daginn eftir. Reyndar eru þetta ekki lokaskil, kennarinn ætlar bara að lesa yfir og sjá svona hvernig þetta lítur út en maður verður nú samt að skrifa eitthvað í niðurstöður!!
Svo á ég afmæli eftir 6 daga, gaman gaman. Verð geðveikt gömul. Eftir eitt ár þá verð ég aldarfjórðungsgömul, vá. Ég og Sollý systir ætlum að halda saman upp á afmælin okkar á laugardagskvöldinu (þar sem að við eigum afmæli sama dag) heima hjá henni. Hún verður reyndar rosalega gömul eða fertug!! Við ætlum bara að bjóða fjölskyldunni og svona. Svo ætla ég að bjóða vinkonunum heim á afmælisdaginn, reyndar verður allt í kössum en þær verða bara að sætta sig við það. Reyndar finnst mér mest leiðinlegt að Árni þarf að skila tveim verkefnum fyrir klukkan tólf á miðnætti á afmælisdaginn minn þannig að hann getur ekkert verið heima á afmælisdaginn (og stjanað við mig) en hann ætlar samt að reyna að kíkja í partýið sem verður heima hjá Sollý.

sunnudagur, nóvember 02, 2003

Helgin var rosalega fín, ég og Árni tókum okkur frí frá lærdómi á laugardaginn og fórum og versluðum jólagjafir. Oh það var ekkert smá næs að læra ekkert og vera bara að dunda sér. Erum búin að kaupa jólagjafir fyrir öll frændsystkinin sem eru alveg 11 stykki þannig að það er mjög gott að vera búin með það. Svo á laugardagskvöldið var svona matarklúbbshittingur hjá vinum hans Árna. Það var ekkert smá gaman, rosalega góður matur og mikið spjallað og hlegið. Ekkert smá gaman að lyfta sér smá upp svona áður en flutningar og próflestur byrjar. Alveg nauðsynlegt.
Í dag erum við svo bara búin að vera að taka því rólega, systir hans Árna hún Laufey á afmæli í dag. Til hamingju með afmælið Laufey. Við fórum til þeirra í dag og þvííkar kræsingar, það var eins og heill her væri að koma í afmælið ;).
Við erum líka búin að vera rosalega dugleg að pakka, allar styttur og allt svona brothætt smádót komið ofan í kassa sem og meirihlutinn af stellinu okkar og fínu glösunum. Mér finnst nefnilega leiðinlegast að pakka svona brothættu þannig að það er fínt að vera búin með það.

miðvikudagur, október 29, 2003

Oh my god, vikan hálfnuð og það eru akkúrat tvær vikur þangað til að við ætlum að flytja og ég sem er ekker byrjuð að pakka niður. Ég kem mér hreinlega bara ekki í þetta, svo hef ég heldur enga kassa þannig að það er nú heldur tilgangslaust að byrja. Ég er líka að reyna að læra sem mest núna því að ég get ekkert lært í svona viku meðan á þessu öllu stendur þannig að ég hef nú alveg ágæta afsökun.
Svo er týpískt að það er alveg brjálað að gera í skólanum núna, ekkert búið að vera að gera í tvo mánuði en svo eigum við að gera tvær tilraunir og skila skýrslu á sama tíma liggur við. Skil þessa kennara ekki alveg. Reyndar eru þetta voðalega skemmtilegar tilraunir, önnur er félagssálfræðitilraun og hin er minnistilraun en samt, vildi frekar dreifa þessu aðeins.
Svo snjóaði í dag, oh hvað ég var ánægð. Ég komst bara í geðveikt jólaskap, ég elska kulda og snjó. Reyndar var Snúður nú ekkert alveg að fíla þetta, hann nennti ekkert út í eitthvað sem er blautt og kalt.
En ætla að segja þetta gott núna, þarf að mæta upp í skóla kl. 9 til að skrifa skýrslu.

mánudagur, október 27, 2003

Við erum komin með leigjanda, ekkert smá gaman. Henni líst semsagt best á okkar íbúð og afhendingardagur er 15. nóv. Oh my god, þannig að það verður brjálað að gera hjá mér að pakka og svona, bara tvær og hálf vika til að pakka, svo þarf að flytja og svo að þrífa.

sunnudagur, október 26, 2003

Jæja helgin búin og ég var bara frekar busy. Á laugardaginn var afmæli hjá Hjörvari Þór frænda mínum sem var 9 ára. Ég gleymdi að óska honum til hamingju með afmælið en hann á afmæli 21. október. Til hamingju með afmælið krútt. Semsagt ég var í þessu afmæli alveg til að verða sjö en þá fór ég að sækja Árna og við borðuðum.
Ég, mamma og Sollý systir fórum í dag á kynjakattasýninguna, oh hvað maður var sætur. Þið verðið að kíkja á þessa heimasíðu
ég féll alveg fyrir þessu kyni, þeta eru Abbyssiniukisur, ekkert smá krúttlegar. Maður átti að velja þann kött sem manni fannst sætastur og ég valdi eina pínkulitla kisu sem er af þessu kyni.
Seinna um daginn kom svo kona í annað skiptið að skoða íbúðina, við erum alveg að vona að hún taki hana bara. Hún ætlar að skoða eina íbúð á morgun og láta okkur svo vita hvora hún ætlar að taka. Þannig að allir að krossleggja fingur.
Svo var tengdamamma búin að bjóða okkur í kvöldmat í kvöld og við fórum þangað og fengum rosalega góðan mat. Þannig að þetta var bara fín helgi.

föstudagur, október 24, 2003

Ég var hjá augnlækni áðan og sjónin er búin að versna. Ekki alveg nógu gott, sko. Á hægra auga er hún búin að versna um 1.0 en á vinstra auga um 0.75. Þannig að ég þarf að fá ný gler sem er rosalega dýrt. Ekki nógu ánægð með það. Ekki von að ég var byrjuð að píra augun þegar að ég var að lesa og svona.
Svo eru ég og Árni búin að ákveða að flytja aftur heim til tengdó og leigja íbúðina út, aðeins svona að safna pening áður en við förum út til Danmerkur. Það verður samt rosalega skrýtið að flytja aftur heim þegar að maður er búinn að búa bara tvö ein í tæp tvö ár. En það hlýtur að reddast, ég kemst allavega aftur í bað.
Núna er það semsagt bara að leita sér að leigjendum, vona bara að við finnum einhverja góða, það kemur einn að skoða íbúðina í dag og vonandi annar á morgun, þannig að það er fínt. Við viljum nefnilega helst flytja sem fyrst.

fimmtudagur, október 23, 2003

Saumóinn hjá Söru var ekkert smá fínn, rosalega gott allt sem hún bauð upp á og loksins fékk ég að sjá litla prinsinn, hann er rosalega líkur pabba sínum en samt víst ekki eins mikið og fyrst. Ekkert smá mikið krútt. Líka gaman að sjá loksins íbúðina þeirra, var nefnilega ekki búin að sjá hana áður.
Svo komu mamma og systurnar í saumó í gær og það var bara rosalega fínt, reyndar misheppnaðist eitthvað paprikurétturinn minn (keypti vitlausan ost) þannig að ég bjó bara til annan rétt sem heppnaðist alveg.
Núna er ég að passa Adam krúsídúllu. Er heima hjá Siggu og Drífu vegna þess að hann var sofandi þegar ég byrjaði að passa. En hann er vaknaður núna og vill að frænka sín fari að veita honum einhverja athygli.

mánudagur, október 20, 2003

Ég er að fara í saumó hjá Söru í kvöld, ég hlakka ekkert smá til því að ég er aldrei búin að sjá Aron. Hef samt heyrt að hann er alveg eins og pabbi sinn ;). Svo verður líka rosalega gaman að hitta vinkonurnar og spjalla saman og borða eitthvað nammigott.
Á miðvikudag held ég svo saumó fyrir mömmu og systurnar þannig að þetta verður bara kaloríuvika hjá mér. Ég ætla að hafa súkkulaðiköku, heitan paprikurétt og svo nachosrétt, umm nammi namm.
Ég náði í 14" tommu sjónvarpið til Bjarklindar í dag. Oh my god hvað það er lítið, allavega miðað við sjónvarpið okkar. En samt skárra en ekki neitt, núna missi ég ekki af Judging Amy og ER og fleiri þáttum :).
Loksins bætti ég inn link á Ívar, manninn hennar Ástu, hef alltaf gleymt því.

sunnudagur, október 19, 2003

Helgin að verða búin. Þetta er bara búin að vera ágætishelgi, ég var mjög dugleg að læra og saumaði líka rsoalega mikið í jóladúkinn minn. Reyndar bilaði sjónvarpið okkar og ég er ekkert voðalega sátt við það. Alltaf þegar við kveikjum á því heyrast bara einhver hljóð. Þannig að við þurfum að fara með það í viðgerð en það eru svo margir þættir sem ég missi þá af!! Gengur eiginlega ekki sko. Við eigum reyndar 14" sjónvarp en það er hjá systur minni, þarf semsagt að fá það aftur.
Í gær fór ég í heimsókn til Siggu og Drífu til að sjá fyrstu tönnina hans Adams, reyndar sést hún ekki en maður finnur alveg fyrir manni. Vá hvað maður er orðin stór, bara komin með fyrstu tönnina og svo verður maður eins árs eftir tvo mánuði. Þetta er svo fljótt að líða.
Ég fór líka í Hagkaup í gær og það er komið jóladót, oh ég var alveg sjúk, reyndar keypti ég ekkert en mig langaði samt rosalega til þess. Ætla samt að bíða og athuga hvort að það komi kannski eitthvað flottara.
En vikan bara framundan og bara þrír skóladagar og svo er aftur komin helgi, jibbí.

föstudagur, október 17, 2003

Ég er alltaf búin að gleyma að setja heimasíðu Arons (sem Sara og Valgeir eiga) inn í linkana mína en nú er það komið.

Jæja, búin að stjórna umræðutíma í Félagslegri sálfræði, oh hvað mér líður vel að vera búin með þetta. Umræðutíminn gekk bara alveg ágætlega, held ég. Kennarinn setti allavega ekki út á neitt og allt gekk bara vel.
Svo hitti ég Ingu og Rannveigu á kaffihúsi á miðvikudagskvöldið, fínt að komast aðeins út og tala við þær. Þurfum samt að gera þetta mikið oftar.
Helgin komin, alveg frábært. Ég ætla að reyna að vera dugleg að læra og svona. Gengur ekki annað. En svo er ekkert smá skemmtilegt að í næstu viku er ég bara í skólanum í þrjá daga, það er frí fimmtudag og föstudag, rosalega næs.

miðvikudagur, október 15, 2003

Það virðist vera rosalega vinsælt að skrifa 100 atriða lista um sjálfan sig á blogginu. Mér finnst þetta svo sniðugt að ég ætla að gera þetta um mig. Ætli ég geti fundið 100 atriði um sjálfa mig?

1. Ég er fædd í Reykjavík árið 1979.
2. Ég bý með Árna, unnustanum mínum.
3. Við ætlum að gifta okkur næsta sumar.
4. Árni er í tölvunarfræði.
5. Við útskrifumst bæði næsta ár.
6. Við eigum einn kött sem heitir Snúður.
7. Hann sefur stundum hjá okkur.
8. Ég hef átt tvo ketti á undan Snúði, Kela og Pjakk.
9. Mér leið rosalega illa þegar að þeir dóu.
10. Ég elska hunda og ketti.
11. Mig langar í annan kött og labradorhund.
12. Ég á æðislega foreldra.
13. Mig langar að búa í Hafnarfirði.
14. Við ætlum að flytja til Danmerkur eftir 10 mánuði í mastersnám.
15. Mér finnst rosalega gott að búa á Íslandi.
16. Ég er hrifin af köldu veðri.
17. Ég á fimm systkini.
18. Ég er hrædd við geitunga og býflugur.
19. Ég er rosalega mikið jólabarn.
20. Ég sauma mikið, sérstaklega jóladót.
21. Ég er bæði skírð og fermd.
22. Ég trúi á Guð.
23. Ég spilaði á þverflautu í 9 ár.
24. Mamma og pabbi voru rosalega fúl þegar að ég hætti að spila á þverflautu.
25. Ég æfði margar íþróttir þegar ég var yngri.
26. Ég var í MR.
27. Mér fannst rosalega skemmtilegt í MR.
28. Ég á bara 7 mánuði eftir í sálfræðináminu.
29. Ég á afmæli eftir 25 daga.
30. Ég verð 24 ára þá.
31. Elsta systir mín á afmæli sama dag og ég.
32. Hún er 16 árum eldri en ég.
33. Elsta systkinið mitt (bróðir minn) er 19 árum eldra en ég.
34. Ég á fáa en mjög góða vini.
35. Ég er rosalega feimin.
36. Ég þoli ekki hrossaflugur.
37. Mér finnst leiðinlegt að í íbúðinni okkar sé ekki bað, bara sturta.
38. Ég les mjög mikið.
39. Mér finnst gott að lesa í baði.
40. Mér finnst gaman að lesa ástar- og spennusögur.
41. Ég er langyngst af systkinum mínum.
42. Ég á 9 systkinabörn.
43. Við eigum Volkswagen Golf, árgerð 94
44. Mig langar í nýjan bíl.
45. Það gerist samt ekki á næstunni.
46. Ég er rosalega skipulögð, smámunasöm og samviskusöm.
47. Ég held með Val.
48. Mér finnst rosalega gaman að horfa á fimleika.
49. Þeir eru samt eiginlega aldrei sýndir í sjónvarpinu, ömurlegt.
50. Ég er hooked af rosalega mörgum sjónvarpsþáttum.
51. Mér finnst mýs rosalega sætar.
52. Við eigum ömurlega nágranna.
53. Ég vona að ég fái góða vinnu eftir áramót.
54. Ég er samt viss um að ég endi hjá Landsbankanum með ömurleg laun.
55. Mér finnst nammi rosalega gott.
56. Ég er samt að reyna að hætta að borða nammi.
57. Ég drekk sjaldan gos.
58. Sumir segja að ég sé með skrýtinn matarsmekk.
59. Mér finnst svið, slátur, kjötsúpa og allt þannig rosalega gott.
60. Mér finnst grillmatur vondur.
61. Mér finnst meðlætið yfirleitt alltaf betra en aðalmaturinn.
62. Mér finnst mjólk ekki góð eintóm.
63. Ég átti heima í Reykjavík þangað til ég varð 9 ára.
64. Þá flutti ég í Hafnarfjörð.
65. Ég er mjög lofthrædd.
66. Ég æfði fimleika en hætti vegna atriðis 59.
67. Ég var í dansi.
68. Mér finnst gaman að læra tungumál.
69. Mér finnst ekki gaman að læra sögu og efnafræði.
70. Ég þoli mjög takmarkað illa uppalin börn.
71. Mér finnst marengskökur rosalega góðar.
72. Ég er ekki hrifin af kexi.
73. Ég verð að setja sykur út á Cheerios og Kornflakes.
74. Ég fer út að labba svona fjórum sinnum í viku.
75. Það er rosalega frískandi.
76. Ég drekk ekki kaffi.
77. Ég ligg aldrei í sólbaði.
78. Ég verð ekki brún.
79. Ég er með mikið af freknum í andlitinu.
80. Ég nota gleraugu því ég er nærsýn.
81. Ég á erfitt með að leggja þversum í stæði.
82. Ég fer sjaldan í bíó.
83. Ég kaupi mér mjög sjaldan föt.
84. Ég nota skó nr. 35-36.
85. Ég á erfitt með að finna á mig skó.
86. Ég er með liðað hár.
87. Ég er með ljósar strípur.
88. Raunverulegi háraliturinn minn er dökk kopargylltur.
89. Ég stressa mig stundum of mikið yfir mjög litlum atriðum.
90. Ég er ekki með gott ímyndarafl.
91. Ég er ekki góð að teikna.
92. Þegar að ég er að lesa er ekki hægt að ná sambandi við mig.
93. Ég er rosalega lítil í mér.
94. Ég þori ekki í rússíbana, fallhlífastökk, teygjustökk o.fl.
95. Ég borða mikið popp
96. Þegar ég fer á kaffihús fæ ég mér oftast heitt súkkulaði.
97. Ég er sporðdreki.
98. Það besta sem ég veit er að vera með Árna.
99. Ég er myrkfælin.
100. Ég er hamingjusöm.

Vá, þetta var frekar erfitt fyrst en svo get ég fundið mikið fleiri atriði sem ég myndi vilja setja inn. Samt frekar tímafrekt.

sunnudagur, október 12, 2003

Jæja, skírnin búin og litli er búinn að fá nafnið Birkir Snær. Rosalega flott nafn. Til hamingju með nafnið og skírnina, krútt. Hann er orðinn svo stór að manni brá bara við að sjá hann. Það var bara mjög fínt að komast aðeins út og hitta vinkonurnar og spjalla aðeins saman, þurfum samt að gera mikið meira af því. Það er bara svo mikið að gera hjá öllum að það virðist aldrei vera neinn tími.
Svo er ég bara búin að vera að slappa af í dag og horfa á nokkra þætti í Stargate og nýjasta Friends, gaman. Árni fór auðvitað strax upp í skóla eftir skírnina til að læra fyrir prófið á morgun. Hann er kominn með svo mikið ógeð af því að læra, greyið en seinasta prófið er á morgun.

föstudagur, október 10, 2003

Vííí, próftaflan er komin og hún er rosalega góð. Ég byrja 8. des í Félagslegri sálfræði, fer svo 13. des í Klíníska barnasálfræði og svo enda ég 17. des í Hugfræði. Gaman gaman, þannig að ég er búin alveg viku fyrir jól.

Þá er komið helgarfrí, jibbí. Ég er nefnilega alltaf í svo löngu helgarfríi, búin í skólanum á föstudögum kl. 10 og þarf ekki að mæta aftur í skólann fyrr en kl. 1 á mánudögum. Voðalega næs.
Það er nú samt voðalega lítið planað um helgina, það er reyndar skírn hjá Ingu og Bigga á sunnudaginn, hlakka geðveikt til að vita hvað litli á að heita. Ég og Rannveig fórum einmitt að versla skírnargjöf fyrir hann í gær.
Fyrir utan þetta verður örugglega bara lært og slappað af. Svo er ég að bíða eftir að próftaflan hjá HÍ verði birt. Hún á að koma í dag, vona bara að hún verði fín hjá mér, nenni ekki að fara í próf 20. eða 22. desember.

miðvikudagur, október 08, 2003

Jæja mest lítið að gerast hjá mér núna. Árni er búinn með tvö miðannarpróf og á þar af leiðandi bara eitt eftir. Svo taka við alveg geðveikt mikið af verkefnum hjá honum þannig að ég á ekkert eftir að sjá hann.
Núna er líka að koma verkefnatímabil hjá mér, föstudaginn 17. október sé ég ein um umræðutíma í Félagslegri sálfræði og þarf líka að skila 700 orða úttekt í leiðinni. Svo á ég eftir að gera þrjár tilraunir og skrifa skýrslu um þær allar og fjalla líka um þær í tíma fyrir framan allan bekkinn. Reyndar eru þetta allt hóptilraunir þannig að það er skárra en að vera einn í þessu. En jæja, ætla að segja þetta gott, virðist ekkert vera neitt skemmtilegt blogg hjá mér hvort sem er ;)

sunnudagur, október 05, 2003

Ég og mamma fórum í Garðheima í dag vegna þess að það voru kattadagar. Oh þeir voru svo sætir, persneskir, síams, norskir skógarkettir, bengal, balinese og svo venjulegir húskettir frá Kattholti sem vantar heimili. Mig langaði að taka alla kettina með heim, ég var alveg sjúk.
En enn ein helgin búin sem er allt í lagi því að þá er styttra í jólafrí, jibbí. Ég er samt ekki alveg nógu ánægð með þessa menn í Háskólanum. Sko, seinasti kennsludagur er 28. nóvember en próftímabilið byrjar ekki fyrr en 10. desember og er til 20. desember. Rosalega hallærislegt, finnst mér. Ég væri mikið meira til í að byrja fyrr í prófum og vera þá búin fyrr. En það þýðir víst ekki að nöldra, seinasta próftörnin mín í HÍ bráðum búin, gaman gaman.

laugardagur, október 04, 2003

Jæja, búin að vera rosalega dugleg að læra í dag. Ég og Árni vorum semsagt að læra saman í dag, hann var heima að gera einhver dæmi í tölvugrafík en ég var að lesa í félagslegri sálfræði og hugfræði, geðveikt gaman. Svo tókum við það bara rólega í kvöld, vorum bara að glápa á video og svona. Árni er reyndar byrjaður í miðsvetrarprófum (búinn með eitt) og á tvö eftir þannig að hann þarf örugglega að læra rosalega mikið á morgun og hinn þannig að það var fínt að nýta daginn svona, aðeins að vera saman.
Við erum búin að ákveða að flytja til útlanda strax eftir að við útskrifumst og taka masterinn bara strax. Við erum nefnilega svo hrædd um að ef við förum að vinna þá förum við ekkert, best bara að fara strax þótt að það myndi vera gott að geta aðeins komið sér í betra stand svona peningalega en það hlýtur að reddast, hefur allavega gert það hingað til. Svo leigjum við íbúðina þannig að það hjálpar mikið til. Löndin sem koma til greina eru Danmörk og Írland, ekki alveg búin að ákveða en ætlum að fara að sækja um kollegi og svona. Allavega ef við förum til Kaupmannahafnar þá er geðveikt mikið húsnæðisleysi þar þannig að maður þarf að vera snemma í því. Reyndar erum við ekki viss hvort að við munum fara til Kaupmannahafnar eða Árósa (ef við förum til Danmerkur) þannig að við þurfum að sækja um á báðum stöðum. Kannski verðum við þá á sama stað Karen, gaman gaman!!
Það eina sem ég kvíði fyrir (fyrir utan að kveðja vini og fjölskyldu) er að skilja Snúðinn okkar eftir. Mamma og pabbi eru samt svo góð að ætla að taka hann, en samt tvö ár eru rosalega langur tími. Ég hlakka ekki til þess að kveðja hann.

miðvikudagur, október 01, 2003

Ég er komin með svo mikið ógeð af skólanum, ég nenni þessu hreinlega ekki lengur. Svona líður mér alltaf þegar að ég er alveg að vera búinn með einhvern áfanga, ég hætti auðvitað ekkert í skólanum en vá hvað mér finnst leiðinlegt.
Það var ekkert smá gaman að passa Adam á mánudaginn, hann var hjá mér í einn og hálfan tíma og var ekkert smá góður. Sat bara og talaði rosalega mikið. Algjör dúlla.
Svo er saumó í kvöld hjá mömmu, við systurnar og mamma hittumst alltaf reglulega, bara svona til að catch up. Umm nammi nammi, það verður brauðterta og marengsterta og brauð og pestó. Ég hlakka ekkert smá til.
En fyrir utan þetta er mest lítið að frétta. Skrifa meira seinna.

mánudagur, september 29, 2003

Ég er komin með alltof mikla samvisku fyrir skólann, mér leið svo illa seinasta fimmtudag að ég mætti ekki í Félagslega sálfræði (fjórfaldur tími by the way) og í dag á ég líka að vera í félagslegu klukkan eitt en Sigga systir hringdi og bað mig um að passa Adam litla frænka (mesta krútt í heimi) einmitt klukkan eitt og ég sagði auðvitað já en samt er ég með pínku samviskubit yfir því að mæta ekki, samt eru þetta einu tímarnir sem ég er ekki búin að mæta í þessa önn. Svo er auðvitað mikið skemmtilegra að passa Adam. Og ég er búin að vera rosalega dugleg að lesa þannig að ég á þetta bara alveg skilið (er að reyna að réttlæta þetta fyrir mér).
Við vorum rosalega dugleg um helgina, þrífum alla íbúðina og keyptum 9 jólagjafir, reyndar bara hluta af nokkrum en samt, komin vel á skrið. Oh ég er svo mikið jólabarn, er strax byrjuð að hlakka til jólanna.

föstudagur, september 26, 2003

Ég er búin að vera rosalega dugleg að sækja um vinnu í dag, fór á sex staði og þá bara eftir að fara á ca. sjö. Þannig að það er bara fínt.
Svo fór ég til læknisins í gær, hann var fljótur að taka mig af sýklalyfjunum út af öllum þessum aukaverkunum (ógleði, höfuðverkur og svo fæ ég útbrot á bringuna). Hann var alveg rosalega hissa á því að ég væri með þessar aukaverkanir, því að samkvæmt einhverri bók þá fylgir ógleði eiginlega bara lyfinu. Hann var bara frekar stressaður um mig meira að segja, ég á mæla mig tvisvar á dag og hringja strax í hann ef eitthvað versnar. Þannig að ég á ekki að vera á þessum lyfjum í þrjár vikur en þá á ég að koma aftur til hans og þá er hann að spá í að láta mig fara í lasermeðferð fyrir útbrotin á nefinu. En hvað ætli það kosti? Gleymdi alveg að spyrja að því.
En mér líður allavega mikið betur, hausverkurinn er strax búinn að minnka og það er bara æðislegt.
Svo ætlum ég og Árni að fara að versla jólagjafir á morgun og þrífa íbúðina okkar. Jibbí gaman (það að fara að kaupa jólagjafir, ekki að þrífa).

miðvikudagur, september 24, 2003

Núna er ég að fara að sækja um vinnu, þar sem að ég á bara eitt fag eftir eftir áramót þá verð ég að hafa eitthvað að gera. En þetta umsóknastand byrjar ekki svo vel. Ég fór í Íslandsbanka og skilaðii umsókninni inn og allt í lagi með það en þegar ég kom heim fattaði að ég hafði skilað inn vitlausri umsókn, það stendur nefnilega óvart á umsókninni að ég get byrjað strax en það get ég auðvitað ekki!!! Þannig að ég er að spá hvað ég eigi að gera, hringja í Íslandsbanka og láta þau vita af þessari vitleysu eða bara bíða og athuga hvort að verði hringt í mig. Oh ég er svo utan við mig stundum, gæti lamið sjálfa mig.

sunnudagur, september 21, 2003

Jæja enn ein helgin búin. Það gerðist nú eiginlega ekkert markvert um þessa helgi, ég var bara heima báða dagana og var að læra og sauma jóladúkinn minn. Svo var ég reyndar rosalega dugleg við að horfa á ER, er semsagt búin með fyrstu seríuna og get ekki beðið eftir að sjá númer 2. Það er svo langt síðan að maður hefur séð þetta. Ég held meira að segja að ég hafi ekki horft á fyrstu seríurnar þegar að þær voru í sjónvarpinu þannig að þetta er mjög gaman.
Árni var uppi í skóla alla helgina (hvað annað?), er að gera eitthvað verkefni með Sverri sem þeir eiga að skila á morgun. En ég er nú búin að panta hann til að vera eitthvað með mér í vikunni sem er að koma, bara svo að ég fái eitthvað að sjá hann.
Fyrir utan þetta er bara eiginlega ekkert að frétta, ég ákvað að halda áfram að taka sýklalyfin, mér er ekki eins flökurt lengur en ég er hinsvegar alltaf með þennan höfuðverk en ætli ég verði ekki bara að bíða fram á miðvikudag til að tala við lækninn um þetta.

föstudagur, september 19, 2003

Vá ég er búin að vera svo stressuð í allan dag. Kisinn okkar fór út klukkan fimm í nótt og það er ekkert óeðlilegt en hann var bara að koma inn rétt í þessu, hann var semsagt úti í 12 klukkutíma. Hann kemur venjulega inn svona um tólfleytið. Ég var búin að kalla á hann svona 20 sinnum og labbaði einn hring um hverfið til að vita hvort að ég myndi sjá hann. Svo var ég líka búin að hringja upp á Kattholt en sem betur fer er hann kominn heim.
Ég hitti Helgu og Ástu á kaffihúsi í dag. Helga kom semsagt óvænt heim frá Svíþjóð í seinustu viku og er svo að fara til Englands til að læra í næstu viku. Þannig að það var mjög gott að sjá hana aðeins og spjalla saman. Enda vorum við á kaffihúsinu í tvo tíma.
Ég átti líka að hitta Rannveigu og Önnu Heiðu á kaffihúsi í gær en ég treysti mér alls ekki því að ég var með höfuðverk og svima enn einu sinni. Ég prófaði að hringja í hjúkrunarfræðing og hún ráðlagði mér að taka ekki sýklalyfið í dag og tala við lækninn minn í dag. En nei, ég hringdi í ritarann hjá lækninum klukkan hálftíu og hún sagðist ætla að láta hann fá þessi skilaboð en hann er ekki ennþá búinn að hringja. Asnalegt. Fyrir hvað erum við að borga, má ég eiginlega spyrja. Þannig að núna er ég alveg lost yfir því hvort að ég eigi að taka lyfin eða láta þau eiga sig fram á miðvikudag en þá er læknirinn með símatíma. En málið er að þá koma útbrotin um leið aftur, þau eru strax búin að versna í dag. Vá hvað þetta er eitthvað mikið nöldur hjá mér, ætli ég hætti þessu bara ekki.

miðvikudagur, september 17, 2003

Ég hata að vera á sýklalyfjum, þau eru óþolandi. Mér er alltaf svo flökurt og ekki nóg með það að þegar að maður byrjar að taka sýklalyf þá aukast útbrotin alltaf fyrst þannig að útbrotin eru komin smá út á kinn, gjörsamlega hatandi. En maður verður víst bara að sætta sig við þetta, ég á reyndar eftir að vera á þessum lyfjum í að minnsta kosti 3 mánuði, ekki gaman.
Fyrir utan þetta er í raun voða lítið að gerast, ég er ekki alveg nógu dugleg að læra. Er ekkert komin eftir á, en mér finnst alltaf svo gott að vera nokkrum dögum fram yfir í lestri því þegar að maður byrjar að gera tilraunirnar þá fer allur tíminn í þær. Svo í næsta mánuði á ég að halda umræðutíma í Félagslegri sálfræði. Ég þarf semsagt að lesa einhverja grein og skila 700 orða útdrætti í byrjun tímans og tala svo um greinina í klukkutíma og þetta allt á ég að gera ein!!! Oh ég kvíði svo fyrir, reyndar erum við bara 5 í umræðutímanum og kennarinn er voða næs, en samt. Svo erum við að gera þrjár tilraunir samtals í fögunum mínum og við eigum alltaf að skila munnlegri greinargerð um allar tilraunirnar og það fyrir framan 80 manns. Það á örugglega eftir að líða yfir mig.

mánudagur, september 15, 2003

Það gengur allt á afturfótunum hjá mér núna, ég er með geðveikan höfuðverk og alveg rosalega flökurt. Af því að Árni var að fara upp í skóla með fartölvuna og það er svo vont að vera að horfa á þætti í tölvuherberginu, fluttum við einn stólinn okkar inn í tölvuherbergi svo að ég gæti haft það næs þar. Ég var búin að kaupa smá nammi og koma mér vel fyrir og ætlaði að horfa á ER. Það byrjaði á því að diskurinn festist í tölvunni og ég þurfti að restarta til að geta opnað drifið aftur. Nei nei, þá þarf að installa einhverju í tölvuna til að ég geti horft og Árni þarf að fixa það þegar að hann kemur heim. Þannig að ég ætlaði að horfa á Stargate en þá eru þrír þættir í röð þannig að hljóðið heyrist en engin mynd kemur. Arrrg parrrg, ekki sátt.

sunnudagur, september 14, 2003

Oh hvað það er gott að það sé helgi, ég er reyndar ekki búin að vera dugleg að læra og er með geðveikt samviskuvit yfir því. En það reddast.
Ég var bara að hafa það næs í gær, fór í klippingu og var svo hjá mömmu og pabba í einhverja þrjá tíma. Árni var nefnilega uppi í skóla í allan gærdag og kom ekki heim fyrr en klukkan fimm um nóttina, brjálað að gera hjá honum. Reyndar var hann nú ekki að læra allan tímann, var svona að horfa með öðru á boxið líka. En vá hvað ég gæti ekki haldið mér vakandi svona lengi, ég væri sofnuð fyrir framan tölvuna. Svo ætlar hann að fara aftur í dag, rosalega duglegur. Ég ætla hinsvegar að vera heima og reyna að læra ;)

fimmtudagur, september 11, 2003

Alltaf að bætast í bloggvinahópinn minn, Karen er komin með heimasíðu þannig að nú getum við fylgst með henni frá Danmörku.

miðvikudagur, september 10, 2003

Strax brjálað að gera í skólanum, það er geðveikt mikið að lesa. En þetta er samt seinasta önnin mín þannig að það er fínt. Árni er líka allan daginn uppi í skóla, kemur heim í kvöldmat og fer svo strax aftur þannig að ég hef ekkert mikið annað að gera en að lesa. Reyndar vorum við að fá fyrstu seríuna af ER þannig að ég er á fullu að horfa á hana og svo má maður ekki missa af Stargate, gaman gaman.
Útbrotin á nefinu eru strax byrjuð að minnka geðveikt mikið, mjög ánægð með það. En svo gleymi ég alltaf að bera áburðinn á handleggina á mér þannig að það gengur ekki alveg nógu vel.
Mamma og pabbi eru að koma heim úr sumarbústaðinum á föstudaginn og ég og Árni ætlum að fara á morgun og tengja sjónvarpið og videoið fyrir þau. Þau áttu nefnilega ekki nógu stórt borð undir þetta (hitt sjónvarpið var svo geðveikt lítið) þannig að þau keyptu sér sjónvarpsborð sama dag og þau fóru í sumarbústaðinn og við ætlum að setja þetta upp fyrir þau, svona surprise. Við erum svo góð!!

mánudagur, september 08, 2003

Mamma á sextugsafmæli í dag, til hamingju með daginn elsku mamma mín. Svo á laugardaginn áttu bæði tengdapabbi og Snúður afmæli, til hamingju báðir.
Það var bara fínt í sumarbústaðnum á laugardaginn, við komum um eittleytið og ég og mamma ætluðum að skella okkur í pottinn áður en systkinin kæmu með alla grislingana sína en þá var potturinn alltof heitur. Þannig að við þurftum að bíða nokkra stund og gátum ekki farið ofan í fyrr en grislingarnir voru komnir líka en það var samt allt í lagi. Svo var bara slappað af, spjallað, grillað og spilað. Svo lögðum ég og Árni af stað heim um tíuleytið. Við hefðum alveg verið til í að gista en Snúður var bara einn heima og enginn til að sjá um hann.
Svo var bara slappað af í gær, las dálítið fyrir skólann en svo fórum við til tengdó í smá afmæliskaffi og svo til frænku minnar þar sem að Árni var að laga tölvuna fyrir þau. En ég læt þetta duga í bili.

föstudagur, september 05, 2003

Jæja þá er komið í ljós hvað er að okkur! Ég er með rosacea á nefinu og ég þarf að taka einhverjar sýklatöflur í 3 mánuði út af því en þetta er samt svona húðvandamál að það hverfur í rauninni aldrei, gengur bara svona í bylgjum. Ekki nóg með það þá gaf læknirinn mér lista yfir það hvað ertir þennan sjúkdóm og það er: Áfengi, sterkt krydd, kaffi, te, mikil sól og mikill hiti. Ég segi bara eins gott að ég drekk voðalega lítið áfengi, krydda matinn minn voðalega sjaldan, drekk aldrei kaffi eða te og ég hata sól og hita. Voðalega er ég eitthvað heppin að hafa þennan sjúkdóm, hmmmm. Svo var ég líka með einhver útbrot á hendinni og ég fékk einhverjar ávaxtasýrur til að bera á það, læknirinn sagði að það tæki um hálft - eitt ár fyrir það að lagast. Ég vona bara að þetta verði farið fyrir brúðkaupið, ég finn reyndar ekkert fyrir þessum útbrotum en samt ekkert gaman að hafa þau.

Við systkinin fórum til mömmu og pabba í gær með afmælisgjöfina þeirra, 28" sjónvarp og video. Þau voru svo ánægð, æðislegt að sjá á þeim svipinn þegar að þau sáu kassana!! Það er svo gaman að gefa gjafir þegar að fólkið verður svona ánægt. Svo eru þau að fara í sumarbústað í viku en við systkinin + makar + barnabörn munum fara á morgun til þeirra í kaffi og svo grill seinna um kvöldið, nammi namm. Þannig að við verðum um 20 manns þarna, ég á nefnilega svo mörg systkini og systkinabörn.
Svo erum ég og Árni að fara til húðsjúkdómalæknis í dag, ég er nefnilega með einhver útbrot á nefinu (og maður verður svo meðvitaður um þannig, mér líður alltaf eins og allir séu að horfa á nefið á mér) og Árni er með einhverja flekki út um allt bak og bringu, ekki alveg nógu gott. Ég hringdi semsagt í lok júní til að panta tíma og fékk ekki tíma fyrr en í gær. En svo var hringt á miðvikudaginn og sagt að læknirinn væri veikur og við myndum bara fá næst tíma einhvern tíma í lok október!! Ég var brjáluð, búin að vera með útbrot í tvo mánuði og svo átti ég að bíða í tvo mánuði í viðbót af því að læknirinn varð veikur, nei takk. Ég reifst við konuna en hún vildi ekki gera neitt en svo lét ég pabba hringja og frekjast aðeins og það endaði með að við fengum tíma í dag, hjá öðrum lækni. Mér finnst bara svo fáránlegt að þeir sem áttu pantaðan tíma hjá Bárði (lækninum sem er veikur) eiga að bíða í tvo mánuði í viðbót, þeir eiga að fá einhvern forgang, þetta er ekki okkur að kenna.

fimmtudagur, september 04, 2003

Það er eiginlega bara ekkert að gerast hjá mér, fer bara í skólann og svo aftur heim. Þannig að ég hef voðalega lítið að segja, skrifa bara meira þegar að eitthvað markvert gerist.

miðvikudagur, september 03, 2003

Tveir skóladagar búnir og ég er búin að fara í tvö fög. Í gær fór ég í félagslega sálfræði en í dag var ég í klínískri barnasálfræði. Á morgun fer ég svo í hugfræði og þá er ég búin að fara í öll fögin sem ég er í á þessari önn. Ég er nefnilega bara í 13 einingum núna (hef aldrei verið í færri einingum en 15) þannig að þetta er frekar skrýtið fyrir mig að vera í svona fáum fögum. Svo á næstu önn verð ég í einu fagi og verð líka að skrifa ritgerðina þannig að þetta er bara rosalega flott. Ætla reyndar líka þá að vinna með skólanum, ég verð ekki 4 mánuði að skrifa B.A. ritgerðina mína ;).
Ég snéri sólarhringnum svo gjörsamlega við í þessu vikufríi mínu að það er ekki fyndið. Ég er bara orðin háð því að horfa á Stargate þættina seint á kvöldin og ég er einmitt að fara að gera það núna. Er komin alveg á 3. seríu og er núna á undan Árna, tíhí.

mánudagur, september 01, 2003

Jæja fyrsti skóladagurinn búinn og hann var bara fínn. Enda var í rauninni ekkert að gerast, mætti bara í einn tíma og við vorum bara að fá lesáætlun og þannig. Geðveikt mikið að lesa í einu fagi, maður þarf bara að byrja strax.
Við fórum með tölvuna í viðgerð í dag og hún þarf að vera í 3-5 daga hjá þeim, mér finnst það nú dálítið langur tími. En það verður víst bara að hafa það. Reyndar hefðum við getað borgað 6.000 krónur og þá hefðum við fengið einhverja flýtimeðferð en mér finnst það bara of mikill peningur fyrir eitthvað svona. Þannig að Árni þarf bara að vera uppi í skóla að læra. Fyrirlesturinn hjá honum og Sverri gekk bara vel í dag, greyið hann var svo stressaður. En það er þá allavega búið. En svo á Árni að skila verkefni bæði á miðvikudag og fimmtudag þannig að það er bara brjálað að gera hjá honum. Ég er bara að vona að næsta vika verði ekki svona brjáluð svo að hann geti komið upp í sumarbústað með góðri samvisku. Ekki gaman að fara eitthvað svona og þurfa að drífa sig heim.
Svo var Helga vinkona að byrja að blogga, set link inn á hana, reyndar er nú ekki mikið komið inn á síðuna en við skulum vona að það batni ;)