laugardagur, desember 31, 2005

Þvílíkt mikið að gera hjá okkur þessa dagana. Fórum með Grétari og Karen á Narníu myndina á afmælisdaginn hennar Karenar, mjög skemmtileg mynd og þótt að hún sé stíluð mjög inn á börn þá naut ég hennar alveg í botn.

Á fimmtudaginn var svo jólasaumó hjá hinum vinahópnum mínum. Ákváðum bara að kaupa okkur mat frá American Style og svo var borðað, spjallað og litla prinsessan þeirra Hrannar og Axels fékk að ganga á milli svo að allir fengu að halda á henni. Maður er alveg langsætastur. Það á einmitt að skíra hana 2. janúar, hlakka mjög til að vita nafnið vegna þess að ég tel mig vita hvað hún á að heita :).

Í gær hélt Karen upp á afmælið sitt, við skemmtum okkur svakalega vel. Dönsuðum út í eitt (þ.e.a.s. ég, Árni dansar nú voða lítið) og alltaf svo gaman að hitta vinina og djamma saman. Þetta var bara með bestu partýum sem ég hef farið í. Um hálfþrjú ætluðum við svo að fara heim en ákváðum að taka einn hring á Glaum áður. Þar hittum við nokkra af vinum hans Árna og djömmuðum með þeim til að verða 5. Frábært kvöld :). Svo var auðvitað farið á Hlölla um morguninn, nammi namm.

Ég ætlaði að skrifa smá pistil um árið 2005 en eftir nokkrar tilraunir ákvað ég bara að sleppa því. Finn einhvern veginn ekki réttu orðin. Ætla því bara að óska ykkur gleðilegs nýs árs og vonandi á árið 2006 eftir að veita ykkur mikla gæfu og gleði.

miðvikudagur, desember 28, 2005

Við erum búin að hafa það rosalega gott undanfarna daga, eiginlega of gott. Alveg búin að snúa sólarhringnum við og maður er síborðandi.

Annars var aðfangadagur svaka næs, maturinn hjá mömmu bregst auðvitað aldrei og við fengum margar fallegar gjafir og jólakort. Takk fyrir okkur elskurnar. Á jóladag var svo boð hjá báðum fjölskyldunum þannig að við þurfum að skipta okkur en á annan í jólum var bara slappað af. Reyndar fórum við til vina hans Árna og spiluðum Scene it sem er kvikmyndaspil, geðveikt gaman. Árni og Nonni eru kannski ekki alveg þeir skemmtilegustu í þessu spili, kunna allar myndir og alla leikara utanað en ég og Auður vorum nú nokkuð góðar líka :).

Í gær var svo jólasaumó hjá Ingibjörgu, þvílíkar kræsingar í boði og alltaf svo gaman að hitta allar vinkonurnar + mennina þeirra sem fá alltaf að fljóta með í jólasaumóinn.

En í dag á svo Karen mín afmæli og meira að segja stórafmæli. Innilega til hamingju með 25 ára afmælið elsku Karen. Njóttu dagsins í alla staði og við bíðum spennt eftir föstudeginum :).

laugardagur, desember 24, 2005

Jólahátíðin hófst eiginlega í gær hjá okkur hjónunum. Byrjuðum á að fara að leiði ömmu og afa, mér finnst alltaf svo hátíðlegt að fara í kirkjugarðinn um jólin og minnast þeirra sem eru ekki lengur með okkur.

Eftir það kíktum við til Karenar í smá jólaglögg, ekkert smá æðislegt að sjá hana og knúsa. Ekki spillti fyrir að það voru 8 kettir þarna, ekkert smá yndislegir. Fórum svo til Laufeyjar og Eiðs og enduðum kvöldið á að fara til Hrannar og Axels. Frábært kvöld í alla staði.

Eitthvað gekk mér nú illa að sofa í nótt, svaf bara í 4 tíma og var semsagt vöknuð um 6. Veit eiginlega ekki af hverju. Tókum daginn semsagt snemma og fórum til ömmu og afa hans Árna með pakka til þeirra og svo fórum við til mömmu og pabba þar sem að við öll systkinin hittumst alltaf á aðfangadag til að skiptast á gjöfum.

Það eina sem er eftir núna er að gera sig tilbúinn fyrir kvöldið. Ég og Árni verðum reyndar aftur í sitthvoru lagi á aðfangadagskvöld en það verður þá bara ennþá skemmtilegra næstu jól þegar að við verðum komin í okkar eigin íbúð og höldum jólin tvö ein.

Bráðum klukkur hringja,
kalla heims um ból
vonandi þær hringja flestum
gleði- og friðarjól.

fimmtudagur, desember 22, 2005

Jæja þá er maður kominn á Íslandið góða. Oh það er svo yndislegt að vera heima um jólin, sjá allar jólaskreytingarnar, hafa svona dimmt og auðvitað geta hitt fjölskyldu og vini.

Fyrsta daginn fórum við auðvitað til Snúðarins okkar, hann þekkti okkur alveg og var ekkert smá ánægður að hafa einhvern sem kann alveg að klappa manni. Ég vildi svo taka allar hinar kisurnar að mér líka en Árni var nú ekki par hrifinn af því, skil ekkert í honum.

Er búin að vera frekar dugleg að hitta vinina, er búin að fara að sjá litlu prinsessuna hjá Hrönn og Axel, maður er nú langsætastur. Hitti svo Ástu og Helgu í gær, alveg yndislegt að sjá þær með bumbu. Við áttum að hitta Helgu á Kastrup og fljúga svo saman heim en þá bilaði vélin sem hún átti að fara með frá Gautaborg til Kaupmannahafnar þannig að hún missti af Icelandair vélinni, ekki skemmtilegt. Sem betur fer náði hún svo reyndar næstu vél en við gátum ekki flogið saman.

Svo er nærri allt búið, eigum bara eftir að kaupa eina gjöf. Erum hinsvegar búin að senda öll jólakort, pakka öllum gjöfum inn og erum bara mest að slappa af. Reyndar finnst mér pínku leiðinlegt að mamma og pabba ætla ekki að hafa skötu þetta árið, mamma nennir ekki að fá lyktina í íbúðina þannig að þau ætla bara að fara eitthvert til að fá sér hana sem þýðir að ég missi af jólalyktinni núna í ár. Ég var nú ekkert neitt voðalega ánægð í gær þegar að mamma sagði mér þetta en skil hana nú alveg :). Enda hefði ég líklegast misst af skötulyktinni því að ég ætla að hjálpa tengdó í búðinni á morgun og verð örugglega langt fram á kvöld þar.

En stressið ykkur ekki um of á jólunum, þau koma alveg sama hvort að það sé búið að þrífa hvern krók og kima eða baka allar smákökutegundirnar. Njótið jólanna og verið góð hvort við annað :).

sunnudagur, desember 18, 2005

Jæja, búin að öllu sem þarf að gera áður en við förum til Íslands. Meira að segja búin að pakka þannig að næstu tímar fara í að spila leiki á netinu, búin að finna einn alveg hrikalega skemmtilegan og er eiginlega orðin dálítið háð honum :). En það er allt í lagi, komin í jólafrí og þá á maður bara að vera að dúlla sér og svona.

Annars fórum við á King Kong í gær, oh my god hvað hún er góð. Hef sjaldan lifað mig eins mikið inn í mynd eins og í gær, fann ekkert fyrir því að hún er um þrír tímar. Fór samt að pæla í hvort að Peter Jackson geti gert myndir í venjulegri tímalengd?

Búin að fá rosalega margt flott í skóinn, mest ótrúlega sætt jóladót en svo fékk ég líka Pretty Woman. Yndisleg mynd enda horfði ég á hana sama dag og skemmti mér konunglega yfir henni.

En við tökum semsagt lestina kl. 4:25 til Kastrup. Helgan mín lendir aðeins eftir að komum og svo fljúgum við öll saman heim. Hlakka endalaust mikið til að sjá hana enda er bumban orðin aðeins sýnilegri en þegar að ég fór í október.

Er nú samt voðalega róleg yfir því að við séum að fara til Íslands, var mikið meira spennt í fyrra. Kannski bara byrjuð að venjast því að vera alltaf að fljúga fram og til baka. Hlakka allavega svo mikið til að fara í Kattholt og klappa Snúðinum mínum. Ef að þið viljið sjá mig meðan að ég verð heima þá getið þið fundið mig þar :).

laugardagur, desember 17, 2005

Alveg búin að snúa sólarhringnum við, klukkan er núna hálffjögur að nóttu til og ég er glaðvakandi. Árni hlýtur að vera búinn að smita mig af þessari svefnvenju að vaka á nóttunni og sofa svo langt fram á dag. Reyndar sló ég nú öll met í gær (fyrradag í rauninni) þegar að ég fór að sofa á miðnætti, vaknaði eftir fjóra tíma og fór framúr. Var svo auðvitað orðin dauðþreytt um eftirmiðdaginn og lagði mig auðvitað þannig að það er kannski ekki skrýtið að ég skuli vera vakandi núna. Skil ekki hvað hefur komið yfir mig vegna þess að ég er alls ekki nátthrafn. Næ örugglega ekki að snúa sólarhringnum við fyrr en við erum komin til Íslands, þurfum nefnilega að "vakna" kl. 3 á sunnudagsnóttina til að taka lestina til Kastrup. Held að við förum bara ekkert að sofa.

Annars er ég búin að vera hugsa til þess hvað kemur mér í jólaskap. Búin að vera hlusta á Létt í gegnum netið og njóta þess að hlusta á íslensk jólalög, mér finnst þau æði. Mér finnst íslensk jólalög (og þá sérstaklega þessi í eldri kantinum) einhvern veginn koma mér í meira jólaskap heldur en þessi erlendu.
Reyndar held ég að ég komist í mesta jólaskap á Þorláksmessu. Hef eiginlega alltaf eytt deginum í að pakka inn fyrir mömmu og pabba (er alltaf löngu búin að pakka inn okkar gjöfum), hlusta á jólalög og bara njóta þess að vera með foreldrunum. Mamma og pabbi borða alltaf skötu um kvöldið og mér finnst ómissandi að vera með þeim þegar að þau borða, þó að mér finnist skata frekar vond finnst mér skötulyktin svo jólaleg. Svo sýður mamma hangikjötið svona klukkutíma eftir að þau eru búin að borða skötuna og þá kemur þessi yndislega jólalega lykt.

Þegar að ég og Árni bjuggum á Laugateiginum bjuggum við reyndar til okkar eigin hefð, keyptum pússl og við sátum á Þorláksmessukvöld og pússluðum. Vorum með Nóa konfekt til að narta í og jólaöl, hlustuðum á jólalög og höfðum það bara kósý. Ætlum pottþétt að halda í þessa hefð þegar að við kaupum næstu íbúð.

þriðjudagur, desember 13, 2005

Fór með Jósu í bíó í gær á myndina Just like heaven. Oh ekkert smá yndisleg mynd og þó nokkur atriði þar sem við lágum í hláturskasti.

Annars er ég bara á fullu að læra núna, þarf að skrifa nokkurs konar inngang fyrir lokaritgerðina mína, ca. 4-5 bls. Þar á að koma fram hvað ég ætla mér að gera, helstu rannsóknir sem hafa verið gerðar á þessu efni, af hverju er þetta áhugavert o.s.frv. Þarf að skila þessu fyrir jól þannig að markmiðið er að klára þetta á morgun og þar sem að ég er ekki að fara í nein próf þetta árið þá ætla ég bara að skipa sjálfri mér að fara í jólafrí frá og með fimmtudeginum. Er þá nefnilega búin að öllu fyrir skólann, þarf ekki að skila hugleiðingaritgerðinni fyrr en 10. janúar þannig að ég hef nógan tíma til að lesa yfir hana og fínpússa eftir jólin.

Á fimmtudaginn ætla ég svo að fara niður í bæ og reyna að klára jólagjafirnar sem við eigum eftir. Held að ég hafi aldrei verið svona sein að klára þær, eigum reyndar bara 5 eftir þannig að það verður lítið mál. Er sem betur fer búin með Árna enda finnst mér erfiðast að kaupa handa honum. Annars er honum að batna og fer líklegast í skólann á morgun. Má ekki seinna vera þar sem að hann þarf að skila tveimur stórum verkefnum á föstudaginn en þá er hann búinn með allt sem tengist skólanum fyrir jólin.

Við ætlum svo að skella okkur á King Kong á laugardeginu. Hlakka mikið til þess. Árni ætlar reyndar niður í bæ áður vegna þess að hann á eftir að kaupa jólagjöf handa mér, hann segir að það sé svo erfitt að kaupa handa mér, skil ekkert í honum. Bara kaupa nógu mikið af bókum og þá er ég ánægð :).
Einhvern tímann um helgina ætla ég svo að horfa á Love actually, mér finnst bara vera hluti af aðventunni að horfa á hana. Yndisleg mynd í alla staði, manni líður svo vel þegar að maður er búinn að horfa á hana.

Svo eru tveir jólasveinar búnir að heimsækja okkur. Reyndar átti Árni að fá fyrst í skóinn og svo ég en þar sem að Árni var veikur þá fékk hann tvisvar í skóinn í röð (hafði semsagt gleymt að láta jólasveininn kaupa í skóinn fyrir mig) og þá fæ ég í nótt og næstu nótt. Jólasveinninn var voða góður við Árna og gaf honum Ocean's eleven í gær og svo dagatal með kettlingum, hvolpum og kanínuungum í morgun. Oh ekkert smá sætt. Reyndar spurði Árni hvort að jólasveinninn hefði ruglast í ríminu og haldið að ég ætti að fá gjöfina því að ég var svo ánægð með gjöfina hans. Dýrka dagatöl með dýrum.

Ein jólaminning svona í lokin. Þegar að ég var á skóladagheimilinu lék ég Bjúgnakræki ein jólin, mig minnir að ég hafi verið ca. 7 ára. Bjúgunum var vafið utan um bita í loftinu og hékk smá spotti niður og ég átti að hlaupa þangað og kippa þeim niður. Eitthvað hafði nú gleymst að taka með í reikninginn að ég var ekki sú stærsta í heimi þannig að ég hoppaði á fullu í svona 2-3 mínútur til að ná bjúgunum niður en ekkert gekk. Þurfti loksins að fá hjálp frá einni fóstrunni :).

sunnudagur, desember 11, 2005

Kl. 14.31 í dag kom litla prinsessan þeirra Hrannar og Axels í heiminn. Innilega til hamingju með litla gullmolann ykkar, hlökkum endalaust mikið til að sjá hana!!
Maður var nú frekar nettur eða 3325 g og 50 cm.

Þá er fyrsta barnið í þessum vinahóp komið í heiminn og eftir ca. 4 mánuði verða 2 önnur börn búin að bætast í hópinn. Hlakka svo mikið til :).

Tengdamamma á afmæli í dag, innilega til hamingju með daginn elsku Ingibjörg.

En svo er auðvitað týpískt að um leið og mér batnaði þá veikist Árni. Alveg ekki gott fyrir hann því að hann þarf að skila tveimur risastórum verkefnum í næstu viku, m.a.s. einu á morgun. En allavega gott að mér skuli vera batnað því að það þarf einhver að stjana við hann, fara út í búð og svona.

Svo eru bara 8 dagar þangað til að við komum heim, jibbí. Get varla beðið eftir að knúsa alla. Árni er búinn að fá próftöfluna sína og hann fer ekki í próf fyrr en 10. -12. janúar þannig að hann þarf ekki að fara 1. janúar. Oh, ég er svo ánægð með það. Ég er svo bara á fullu að hafa samband við fyrirtæki út af lokaritgerðinni þannig að þetta er allt á réttri leið.

Annars fylltist maður þvílíku þjóðarstolti í gær þegar að Unnur Birna var kosin Miss World. Þriðja skiptið sem Ísland vinnur í þessari keppni, annars eru íslenskar konur svo myndarlegar að þetta kemur ekkert á óvart :).

En ætla að halda áfram að stjana við sjúklinginn og vinna í lokaritgerðinni.

Gleðilegan 3. í aðventu :).

miðvikudagur, desember 07, 2005

Helga vinkona á afmæli í dag, til hamingju með daginn elsku Helga mín. Vona að þú eigir góðan dag. Hlakka til að knúsa þig eftir 12 daga :).

Annars er nú mest lítið að frétta, ég er reyndar orðin veik. Er þvílíkt stífluð, með hálsbólgu og höfuðverk þannig að ég er lítið búin að geta lært. Er orðin dálítið stressuð vegna þess að ég ætla að leggja fyrir spurningalista í jólafríinu og þarf þ.a.l. að vera búin að þýða hann en er varla byrjuð. En vonandi batnar mér fljótt.

Sá þetta á netinu og fannst þetta svakalega sætt. Fékk tár í augun meira að segja.

What does love mean? Slow down for three minutes to read this. A group of professional people posed this question to a group of 4 to 8 year-olds, "What does love mean?" The answers they got were broader and deeper than anyone could have imagined. See what you think:

"When my grandmother got arthritis, she couldn't bend over and paint her toenails anymore. So my grandfather does it for her all the time, even when his hands got arthritis too. That's love." Rebecca- age 8

"When someone loves you, the way they say your name is different. You just know that your name is safe in their mouth." Billy - age 4

"Love is when a girl puts on perfume and a boy puts on shaving cologne and they go out and smell each other." Karl - age 5

"Love is when you go out to eat and give somebody most of your French fries without making them give you any of theirs." Chrissy - age 6

"Love is what makes you smile when you're tired." Terri - age 4

"Love is when my mommy makes coffee for my daddy and she takes a sip before giving it to him, to make sure the taste is OK." Danny - age 7

"Love is when you kiss all the time. Then when you get tired of kissing, you still want to be together and you talk more. My Mommy and Daddy are like that. They look gross when they kiss" Emily - age 8

"Love is what's in the room with you at Christmas if you stop opening presents and listen." Bobby - age 7 (Wow!)

"If you want to learn to love better, you should start with a friend who you hate," Nikka - age 6 (we need a few million more Nikka's on this planet)

"Love is when you tell a guy you like his shirt, then he wears it everyday." Noelle - age 7

"Love is like a little old woman and a little old man who are still friends even after they know each other so well." Tommy - age 6

"During my piano recital, I was on a stage and I was scared. I looked at all the people watching me and saw my daddy waving and smiling. He was the only one doing that. I wasn't scared anymore." Cindy - age 8

"My mommy loves me more than anybody . You don't see anyone else kissing me to sleep at night." Clare - age 6

"Love is when Mommy gives Daddy the best piece of chicken." Elaine-age 5

"Love is when Mommy sees Daddy smelly and sweaty and still says he is handsomer than Brad Pitt." Chris - age 7

"Love is when your puppy licks your face even after you left him alone all day." Mary Ann - age 4

"I know my older sister loves me because she gives me all her old clothes and has to go out and buy new ones." Lauren - age 4

"When you love somebody, your eyelashes go up and down and little stars come out of you." (what an image) Karen - age 7

"You really shouldn't say 'I love you' unless you mean it. But if you mean it, you should say it a lot. People forget." Jessica - age 8

And the final one -- Author and lecturer Leo Buscaglia once talked about a contest he was asked to judge. The purpose of the contest was to find the most caring child. The winner was a four year old child whose next door neighbor was an elderly gentleman who had recently lost his wife.

Upon seeing the man cry, the little boy went into the old gentleman's yard, climbed onto his lap, and just sat there. When his Mother asked what he had said to the neighbor, the little boy said, "Nothing, I just helped him cry"

"Though my soul may set in darkness, It will rise in perfect light, I have loved the stars too fondly, To be fearful of the night" Sarah Williams

þriðjudagur, desember 06, 2005

Sá þennan lista hjá Jósu og bara varð að "stela" honum :). Vona að það sé í lagi.

En allavega, settu nafnið þitt í komment og:

1. Ég segi þér eitthvað handahófskennt um þig
2. Ég segi þér hvaða lag/mynd minnir mig á þig
3. Ég segi þér hvaða bragð minnir mig á þig
4. Ég segi þér eitthvað sem meikar bara séns fyrir mig & þig
5. Ég segi þér fyrstu ljósu minninguna mína af þér
6. Ég segi þér á hvaða dýr þú minnir mig á
7. Ég spyr þig að einhverju sem ég hef velt lengi fyrir mér um þig

sunnudagur, desember 04, 2005

Jæja, komin frá Kaupmannahöfn. Það var ekkert smá gaman hjá okkur hjónunum. Reyndar byrjaði ferðin ekkert neitt svakalega vel, við löbbuðum út úr rútunni og inn á lestarstöðina. Vorum að kaupa miða þar þegar að Árni fattaði allt í einu að við höfðum gleymt töskunni í rútunni, algjörir álfar. Hlupum út og sáum í endann á rútunni keyra í burtu. Náðum nú samt að hringja í rútufyrirtækið og fengum töskuna okkar aftur og hlógum að þessu alla helgina.

Byrjuðum semsagt að fara á hótelið okkar, vel staðsett eða alveg við aðallestarstöðina og leit ágætlega út fyrir utan það að það mátti reykja alls staðar. Meira að segja ræstingarkonan reykti á meðan hún var að þrífa herbergin. Enda báðum við um að hún myndi ekki þrífa herbergið okkar. Þannig að öll fötin okkar lykta eins og við séum nýkomin af djamminu, ógeðslegt.

Fórum svo í jólatívolí, oh það er svo frábært að labba þarna um. Alveg eins og maður sé komin í ævintýraland. Jólaskreytingar og básar með jóladóti út um allt. Keyptum piparkökukarla og 12 jólakúlur, ógó flott. Vorum þarna í ca. 2 og hálfan tíma. Fórum svo bara snemma heim um kvöldið.

Á laugardaginn byrjuðum við á að fara á skauta á Kongens Nytorv, eða réttara sagt ég fór á skauta og Árni horfði á. Ég var nú reyndar ekki lengi vegna þess að skautarnir meiddu mig svo. Þeir áttu semsagt ekki venjulega skauta í minni stærð heldur bara hokkískauta og þeir voru ekki alveg að gera sig. En samt gaman :).
Kíktum svo á Litlu Hafmeyjuna og fórum svo á vaxmyndasafnið. Ekkert smá gaman, sáum Fredrik og Mary, Mjallhvít og Bangsímon meðal annars. Enduðum daginn á að fara út að borða á Vesuvio sem er á Ráðhústorginu, nammi namm. Rosa góður matur og kíktum svo á bruggstaðinn við Tívolí, man samt ekkert hvað hann heitir.

Tókum svo rútuna kl. hálfníu í morgun og erum komin heim. Yndisleg ferð í alla staði og ég er komin í þvílíkt jólaskap. Við tókum svo nokkrar myndir og þær koma inn á næstu dögum.

Annars á Axel hennar Hrannar afmæli í dag, til hamingju með afmælið Axel!! Heyrðum einmitt í þeim áðan og litla bumbukrúttið er ekkert á leiðinni. Miðað við hvað það var að flýta sér í heiminn fyrir nokkrum vikum þá er það greinilega búið að fatta hvað það er gott að vera bara áfram inni í mallanum á mömmu sinni.

fimmtudagur, desember 01, 2005

Ég hélt saumaklúbb í gær fyrir sálfræðiskvísurnar. Reyndar komust ekki allar en við hinar skemmtum okkur bara fyrir þær líka :). Alltaf gaman að hitta þær og spjalla aðeins.

Varð svo andvaka í nótt, vaknaði klukkan fjögur og sofnaði ekki aftur fyrr en níu. Þetta þýddi auðvitað að ég svaf framyfir hádegi, ekki alveg nógu gott. Ætlaði að vera svo dugleg í dag vegna þess að við erum að fara til Kaupmannahafnar á morgun. Hlakka rosa mikið til. Ætlum að prófa að fara með rútunni í fyrsta skipti, munar engu í tíma en alveg miklu ódýrara að taka rútuna miðað við lestina.

Erum eiginlega ekkert búin að plana hvað við ætlum að gera í Kaupmannahöfn, ætlum bara að láta það ráðast. Reyndar ætlum við í jólatívolí á morgun, get varla beðið eftir að sjá allar jólaskreytingarnar þar. Svo var ég að sjá að það er hægt að fara á skauta á einhverju torginu þarna, aldrei að vita nema maður nái að plata manninn í það.

En vonandi eigið þið góða helgi og gleðilega aðventu :).

mánudagur, nóvember 28, 2005

Jæja helgin búin! Þvílíkt skemmtileg helgi, það var rosa næs að rölta niðri í bæ á föstudagskvöldið og sjá þegar að kveikt var á ljósunum. Mér finnst ekkert gaman að sjá þegar að þetta er gert heima en hérna er stemmningin allt öðruvísi. Horfðum svo á skrúðgönguna sem var með 5 mismunandi lúðrasveitum, gaman að sjá fólkið spila og hugsa til þess að ég gerði þetta í einhver 5 ár, minnir mig.

Á laugardaginn var svo farið í þrítugsafmælið hans Konna og oh my god hvað það var gaman. Mikið drukkið, hlegið og bara skemmt sér saman. Ég fór svo ásamt Jósu, Konna og tveimur vinum hans Konna niður í bæ á einhvern pöbb og héldum skemmtuninni áfram þar. Enduðum djammið á að fá okkur pizzu og komum okkur svo heim, enda var klukkan orðin hálfsex!! Langt síðan að ég hef verið svona lengi á djamminu enda tók ég það alveg út daginn eftir. Kastaði fjórum sinnum upp, takk fyrir takk. Allt skotunum sem Jósa og Eiki keyptu að þakka. En alveg frábært kvöld í alla staði, takk aftur fyrir okkur Hildur og Konni.

Fór svo í dag og hitti leiðbeinandann minn fyrir ritgerðina, hann samþykkti semsagt hugmyndina mína að lokaverkefni sem er náttúrulega bara frábært. Þegar að ég verð búin með ritgerðina um starfsþjálfunina get ég hellt mér á fullu í lokaverkefnisvinnu. Trúi því varla að á næsta ári þarf ég að fara að sækja um framtíðarvinnu, maður er orðinn svo stór!!

Endaði kvöldið á að kenna Hildi og tengdamömmu hennar magadans. Fannst frekar skrýtið fyrst að dansa fyrir framan aðra en svo vandist maður því bara. Þær stóðu sig rosalega vel en ég held að ég leggi nú þetta ekki fyrir mig. Samt alltaf gaman að prófa eitthvað nýtt.

fimmtudagur, nóvember 24, 2005

Mikið að gera um helgina, á morgun verður kveikt á ljósunum niðri í bæ og ætlum við að sjálfsögðu ekki að láta okkur vanta þangað. Ætlum svo að fara á einhvern stað á eftir og fá okkur pizzu, nammi namm.
Á laugardaginn er svo þrítugsafmæli hjá Konna hennar Hildar, teitið byrjar kl. 7 þar sem verður boðið upp á mat og alles. Hlakka rosa mikið til.
Sunnudagurinn fer svo líklegast bara í leti, ætla að klára jólasokkinn minn (á bara pínkupons eftir) ásamt því að reyna að finna eitthvað meira að skrifa um í hugleiðingaritgerðinni minni. Er komin með 24.000 slög og vantar þá ca. 14.000 slög í viðbót, vandamálið er að ég er eiginlega búin að skrifa allt sem ég get, hugs hugs.

Þótt að ég hafi sagt þetta áður, þá ætla ég bara að endurtaka mig. Ég á frábærustu og yndislegustu vinkonur í heimi. Þær hittust fyrir stuttu og tóku hittinginn upp með video myndavél. Var að horfa á þetta og það var æðislegt að sjá þær allar (og bumburnar auðvitað líka). Alveg yndislegt að geta fylgst svona með þeim og heyra líka í þeim, enda skemmti ég mér mjög vel yfir þessu. Fannst samt nafnið langbest: Raunveruleikaþáttur um bumbuklúbbinn. Takk elskurnar mínar, þið eruð langbestastar.

Í tilefni fyrsta í aðventu á sunnudaginn, hérna
er sú allra flottasta ljósasýning sem ég hef séð á húsi. Muna að hækka í hátölurunum.

miðvikudagur, nóvember 23, 2005

Fórum í Bilka í gær og náðum að klára stóran hluta af jólagjöfunum þannig að núna eigum við aðeins 6 eftir. Þótt að það taki mann ca. klukkutíma að fara þangað í strætó þá er alltaf svo rosalega gaman þar. Vorum komin um kl. 12 og vorum þar inni í þrjá tíma :). Enda förum við ekki oft þangað, held að þetta sé í fimmta skiptið sem ég hef komið þangað.

Svo tók ég smá forskot á sæluna í gær og skreytti íbúðina, gat ekki beðið lengur. Á bara eftir að fara í Fotex og kaupa aðventukrans og þá er allt tilbúið. Er svo búin að föndra öll jólakortin og á bara eftir að skrifa í þau. Ætla að reyna að klára það í næstu viku sem og jólagjafirnar og þá er bara allt búið sem þarf að gera fyrir þessi jól. Nema auðvitað að pakka inn gjöfunum en það geri ég ekki fyrr en ég kem heim.

Mamma fór í heimsókn til Snúðs á mánudaginn, oh maður var víst alveg rosalega glaður að sjá hana og fá smá klapp frá einhverjum sem maður þekkir. Honum líður bara ágætlega þarna, er byrjaður að borða nóg og leika við hinar kisurnar. Ætla að fara til hans daginn eftir að við lendum. Hlakka svo til að knúsa hann.

mánudagur, nóvember 21, 2005

Þetta var ekkert smá næs helgi. Ég var rosa dugleg við að skrifa ritgerðina mína en tók mér auðvitað góð frí á milli :). Þeim fríum var ýmist eytt við að hlusta á jólalög (já ég veit, dálítið snemmt), sauma í jólasokkinn minn og svo horfðum við hjónin á allar LOTR myndirnar. Alveg frábærar myndir, elska að horfa á þær aftur og aftur, finn alveg ekkert fyrir því að hver mynd er ca. 4 tímar.
Fattaði svo loksins að fara inn á tonlist.is til að niðurhala íslenskum jólalögum, sit núna og er að hlusta á Frostrósir, alveg yndisleg lög með þeim.

Annars á ég fund með kennara á morgun til að ræða um lokaritgerðina mína. Honum leist semsagt bara vel á hugmyndina mína og ætlum við að ræða aðeins betur saman. Þannig að ef hann samþykkir þetta þá verð ég komin með efni fyrir ritgerðina, rosa fínt :).

Ætlum svo niður í bæ í vikunni og reyna að klára eitthvað af jólagjöfunum okkar, erum bara búin með 6 þannig að það er fullt eftir. Svo verður kveikt á jólaljósunum á Strikinu á föstudaginn og við ætlum að fara niður í bæ og fylgjast með því. Oh jólin eru svo æðislegur tími. Svo má ég byrja að skreyta næsta sunnudag, jibbí!

mánudagur, nóvember 14, 2005

Seinustu dagar eru búnir að vera æðislegir. Á föstudaginn lá ég uppi í sófa mestallan daginn og horfði á Sex and the city (sem betur fer er í lagi með alla aðra diska). Á laugardaginn var ég svo bara að hafa allt tilbúið fyrir partýið um kvöldið. Þvílíkt skemmtilegt partý, mikið hlegið og mikið drukkið. Fékk rosa flottar gjafir, m.a. kisu sem mjálmar og labbar fram og til baka, svona smá staðgengill fyrir Snúð.
Fórum svo á Gas station og ég dansaði þvílíkt mikið, eitthvað voru stelpurnar samt orðnar þreyttar á að dansa á tímabili því að þær skiptust á að koma á dansgólfið með mér :). Takk fyrir æðislegt kvöld stelpur.
Sunnudeginum var eytt aftur uppi í sófa að horfa á Sexið. Í dag ætlaði ég svo að vera rosa dugleg að læra en það gekk ekki eftir, er semsagt að verða búin með þriðju seríu, þetta eru bara svoooo skemmtilegir þættir. En ætla nú reyna að vera dugleg á morgun.

laugardagur, nóvember 12, 2005

Jæja fyrst að Helga og Ásta eru báðar byrjaðar að tala um/sýna kúluna sína á blogginu þá má ég líklegast tala um það líka :).
Semsagt Hrönn, Ásta og Helga eru allar óléttar og Hrönn á að eiga í lok desember, Ásta um miðjan mars og Helga um miðjan apríl. Og vegna þess að þær eru svo yndislegar vinkonur þá hittust þær, tóku bumbumyndir og sendu mér. Maður má sko ekki missa af neinu í sambandi við óléttuna.
Ég er líka svo ánægð að koma heim um jólin vegna þess að þá get ég vonandi knúsað barnið hennar Hrannar (ef það kemur á réttum tíma) og séð Helgu og Ástu með enn stærri bumbu, jibbí. Ég er líka ennþá ánægðari með það að við flytjum heim í mars og að það líði ekki lengri tími frá því að Hrönn fæðir og þangað til að ég kem heim. Ásta mín, þú fæðir bara ekkert fyrr en að ég kem heim, samþykkt? Tíhí.
Það verður líka alveg frábært í apríl þegar að Helga á að eiga, hinsvegar held ég að það muni aldrei eftir að klingja eins mikið hjá mér eins og þá, hehe.

Ég á líka alveg yndislega foreldra. Ég saumaði jólapóstpoka fyrir jólin í fyrra en svo er hann bara búin að vera hjá mömmu og pabba vegna þess að það átti eftir að gana alveg frá honum, ætlaði alltaf að gera það þegar að ég væri heima en svo fórst það fyrir. Þau sendu mér hann semsagt í afmælisgjöf, voru búin að láta fóðra hann, sauma hann allan saman og setja hanka í hann þannig að núna á bara eftir að hengja hann upp, oh ég var svo ánægð þegar að ég opnaði pakkann.

En smá nöldurblogg, annar diskurinn í fyrstu seríu Sex and the city er bilaður, það er ekki hægt að horfa á fyrsta eða seinasta þáttinn á disknum. Var sko ekki sátt í gær þegar að ég var að horfa á þetta. Við skoðuðum líka hina diskana og fyrsti diskurinn í seríu 2 er þvílíkt rispaður, ætla að prófa að horfa á hann á eftir en ég verð rosalega fúl ef að hann virkar ekki heldur. Hinir diskarnir litu allt í lagi út en Árni ætlar að fara í næstu viku og heimta að við fáum nýjan disk.

fimmtudagur, nóvember 10, 2005

Jæja þá er maður víst orðinn árinu eldri :), alltaf gaman að eiga afmæli. Sollý á líka afmæli í dag, til hamingju með daginn elsku systir.
Ég fékk pening í afmælisgjöf bæði frá mömmu & pabba og tengdó og ég fór niður í bæ í gær og verslaði fullt. Keypti mér undirföt, snyrtivörur og tvö hálsmen og ég á ennþá pening eftir, ekkert smá gaman.
Helga sendi mér svo pakka og í honum voru sætustu náttföt í heimi, takk Helga mín. Ástin mín gaf mér svo allar seríurnar af Sex and the city, alveg alltof mikið. Ég dýrka samt hvernig búið er um seríurnar, eru í skókassa, algjör snilld. Svo fékk ég líka eina bók, það er sko ekki afmæli/jól án þess að fá bók. Laufey, Eiður og fjölskylda gáfu mér svo kisupússl, ekkert smá sætt, takk fyrir það.
Í dag ætla ég svo að njóta þess að læra ekki, hjúfra mig undir teppi í sófanum mínum og lesa nýju bókina mína. Uhmmm æðislegur dagur :).

Annars er ég nú með fréttir, við komum heim um jólin!! Bergþór pabbi beit það í sig að hann ætlaði nú ekki að leyfa okkur að halda jólin í öðru landi og hann bauðst til þess að borga farið fyrir okkur heim, alveg ótrúlega góður við okkur, algjört yndi. Ég var nú sterk í fyrstu skiptin sem hann bauð okkur þetta og sagði alltaf nei en svo lét ég undan í gær. Þannig að við lendum 19. des og fljúgum aftur út 1. jan, þorðum allavega ekki að panta annan dag vegna þess að próftímabilið hjá Árna er frá 2. jan. En ef það kemur í ljós að hann fer seinna í próf þá breytum við líklegast miðanum. Takk elsku pabbi minn :).
Þannig að ég er bara byrjuð að hlakka til að sjá alla, veit alveg að eyða einum jólum ekki á Íslandi er ekki mikið þegar að maður lítur á lífið í heild sinni. En ég er samt svaka ánægð að geta komið heim í faðm fjölskyldunnar og njóta þess að vera með þeim sem mér þykir vænt um. Ætla einmitt að fara eins oft og ég get í Kattholt til að klappa Snúðinum mínum.

þriðjudagur, nóvember 08, 2005

Fór í saumó með sálfræðiskvísunum í gær. Ekkert smá gaman að hitta þær allar eftir svona langan tíma :). Hlógum endalaust mikið eins og alltaf þegar að við hittumst.
Þóra kom með Margréti dóttur sína sem er aðeins 5 vikna enda stal hún alveg athyglinni, ekkert smá mikil dúlla.

Dagarnir eru allir voðalega líkir núna, vakna og fer að skrifa þessa blessuðu ritgerð. Er reyndar búin að fá svar frá kennaranum í sambandi við mastersritgerðina þannig að vonandi fara hjólin að snúast með hana.

mánudagur, nóvember 07, 2005

Ef þið viljið sjá myndir af Sálartónleikunum, þá eru þær hér. Fyrstu myndirnar tengjast reyndar ekki Sálinni þannig að þið skippið bara yfir þær.
Þetta eru reyndar myndirnar hennar Hildar, vona að það sé í lagi að ég linki á þær :).

sunnudagur, nóvember 06, 2005

Ég var klukkuð af Hildi.

Núverandi föt: Joggingbuxur og bolur
Núverandi skap: Ennþá brosandi eftir Sálartónleika
Núverandi hár: Nær niður fyrir axlir, er með kopar/ljósar strípur
Núverandi pirringur: Að kennari skuli ekki vera búinn að svara emailinu mínu sem ég sendi fyrir viku.
Núverandi lykt: Emporio Armani
Núverandi hlutur sem þú ættir að vera að gera: Læra
Núverandi skartgripir: Giftingarhringurinn
Núverandi áhyggja: Að skrifa hugleiðingaritgerð um starfsþjálfunina
Núverandi löngun: Ostafylltar brauðstangir
Núverandi ósk: Að Snúður gæti verið hjá mér
Núverandi farði: Enginn
Núverandi eftirsjá: Vá sé ekki eftir neinu akkúrat núna
Núverandi vonbrigði: Að sjá ekki þegar að bumbulínurnar mínar byrja að stækka, þ.e.a.s. þegar að fer að sjást á ófrísku vinkonunum.
Núverandi skemmtun: Allir þættirnir sem ég "verð" að horfa á
Núverandi ást: Árninn minn
Núverandi staður: Sófinn í stofunni minni
Núverandi bók: Black rose
Núverandi bíómynd: Love actually
Núverandi íþrótt: Magadans
Núverandi tónlist: Sálin!!!!
Núverandi lag á heilanum: La tortura með Shakiru og Alejandro Sanz
Núverandi blótsyrði: Andskotans djöfulsins
Núverandi msn manneskjur: Er ekki skráð inn
Núverandi desktop mynd: Snúður, hver annar?
Núverandi áætlanir fyrir kvöldið: Klára að horfa á OC og fara upp í rúm að lesa
Núverandi manneskja sem ég er að forðast: Enginn
Núverandi dót á veggnum: Nokkrar myndir, hillur, spegill o.s.frv.

Klukka Ástu, Karen, Möggu og Tótu.

Minnir mig á það, þarf að fara að taka til í þessum tenglum mínum, örugglega um 1/4 sem eru hættir að blogga.

Sálin var æði, frábær, meiriháttar!!! Þvílíkir tónleikar, geðveik stemmning. Þeir eru svo miklir snillingar. Ég hef sjaldan skemmt mér svona vel á tónleikum, ég, Hildur, Jósa og systir hennar Jósu vorum fremstar allan tímann og sungum með, enda er ég frekar hás í dag.
Tónleikarnir voru svo búnir um þrjú og þá tókum við leigubíl á lestarstöðina en við héldum að hún væri opin alla nóttina. Það kom svo í ljós að hún opnaði ekki fyrr en um fimm þannig að við sáum úti í ca. einn og hálfan tíma enda var okkur orðið frekar kalt. Lestin fór ekki fyrr en sex og við sofnuðum bæði um leið og við settumst í sætið og sváfum allan tímann. Tókum svo strætó heim þar sem að við sváfum líka allan tímann og fórum beint upp í rúm til að sofa meira :). En þetta var sko alveg þess virði.
Það var líka mjög gaman að fara til Köben og hitta Jónasi og Steinunni, flökkuðum á milli kráa með þeim og fengum okkur bjór, þvílíkt næs.

föstudagur, nóvember 04, 2005

Sálin á morgun!! Hlakka þvílíkt til. Verður rosa gaman að fara á tónleika með íslenskri hljómsveit í Danmörku. Ætlum að leggja af stað um hálftíu á morgun með lestinni og verðum þá komin um hálfeitt til Kaupmannahafnar. Planið er svo að hitta Jónas og Steinunni, vini hans Árna og gera eitthvað skemmtilegt með þeim. Hlakka mjög til að sjá Köben loksins, labba Strikið og svona.
Reyndar er dagurinn svo ekkert meira planaður, hittum Hildi, Hákon og Jórunni einhvern tímann um kvöldið og förum á tónleikana með þeim. Eina sem ég kvíði fyrir er að þurfa að halda mér vakandi til 5 um nóttina því að þá fer lestin aftur heim til Árósa. Verður örugglega mjög næs að vera í lestinni í þrjá tíma og geta sofið :).

miðvikudagur, nóvember 02, 2005

Laufey á afmæli í dag, til hamingju með afmælið Laufey mín.
Voðalega rólegir dagar hjá mér núna. Er bara heima og að skrifa ritgerðina um starfsþjálfunina, er svo búin að senda tölvupóst á einn kennarann í sambandi við mastersritgerðina en er ekki búin að fá neitt svar. Vona að hann svari mér fljótlega, langar að komast að því hvort að hugmyndin mín sé nothæf.

sunnudagur, október 30, 2005

Gleymdi einu. Ég væri sko alveg til í að vera heima á Íslandi núna og horfa á allan snjóinn, kúra sig undir teppi með bók og heitt súkkulaði.
En í staðinn horfi ég út um gluggann á grænt gras. Björtu hliðarnar eru hinsvegar þær að það er búið að spá mjög hörðum vetri í Evrópu þannig að kannski snjóar aftur jafnmikið í Árósum eins og seinasta vetur, jibbí.

Helgin er búin að vera alveg þvílíkt næs. Á föstudaginn var okkur boðið í mat til Hildar og Hákons þar sem að við fengum ofsa góðan mat, nammi namm. Eftir matinn spiluðum við svo Catan, erum rosa ánægð að hafa fundið einhvern hérna úti sem finnst þetta spil gaman.
Bæði laugardagurinn og dagurinn í dag hafa svo að mestu leyti farið í leti. Er einhvern veginn ekki alveg að nenna að byrja á praktík ritgerðinni minni en þarf nú samt að fara að koma mér í þann gír. Ætla líka að fara uppí skóla í vikunni og reyna að finna mér leiðbeinanda fyrir mastersritgerðina mína.
Svo eru bara næstu helgar orðnar bókaðar. Sálin auðvitað næsta laugardag, mér tókst að plata Árna með mér vegna þess að þeir tveir aðilar sem ég þekki í Kaupmannahöfn voru auðvitað með gesti hjá sér þessa sömu helgi þannig að ég gat ekki gist hjá þeim. Var semsagt komin á fremsta hlunn með að hætta að fara en þá bauðst Árni til að koma með mér og við tökum bara lestina heim um nóttina, mjög ánægð með það.
Um þarnæstu helgi ætla ég svo að halda upp á afmælið mitt, jibbí. Ætla að bjóða stelpunum í sálfræðinni til mín og slá upp smá partýi. Hlakka mjög mikið til.
Svo erum við hjónin búin að taka ákvörðun um Snúð, það gengur semsagt ekki að hafa hann hjá Bjarklindi þannig að hann fer í Kattholt og verður þar næstu fimm mánuði allavega. Þótt að hann sé kannski ekkert sáttur við það þá vitum við allavega að hann er öruggur þarna og fer ekkert á flakk. Vona bara að honum eigi eftir að líða vel þarna. Það var annaðhvort að setja hann í Kattholt eða lóga honum og það vildum við alls ekki.
Svo eru mamma og pabbi á fullu að flytja núna, hlakka rosa mikið til að koma heim í mars og sjá íbúðina (er nefnilega bara búin að sjá hana þegar að hún var ekki nærri því tilbúin).
Ætlaði líka að minna fólk á að núna erum við bara einum klukkutíma á undan Íslandi, voða næs að sofa til 11 en komast svo að því að maður svaf bara til 10 :).

miðvikudagur, október 26, 2005

þetta á netinu. Hræðilega sorglegt, allóþyrmilega minnt á hvað við erum í raun og veru heppin.

þriðjudagur, október 25, 2005

Búin að vera rosa dugleg að horfa á þættina sem biðu mín. Oh my god hvað önnur þáttaröð af Lost er spennandi. Önnur þáttaröð af Desperate housewives er alveg að standa fyrir sínu, höfundarnir kunna sko að láta mann bíða í ofvæni eftir næsta þætti. Er líka að horfa á 12. seríu af ER og 3. seríu of One tree hill. Þetta eru bara æðislegir þættir, veit ekki hvað ég geri þegar ER hættir. Svo bíða mín líka þættir úr Stargate Atlantis og Stargate SG-1, jibbí. Humm, finnst ykkur þetta vera nokkuð of margir þættir?
Annars er voða næs að vera komin "heim", sofa í rúminu sínu með koddann sinn, sængina sína og manninn sinn við hliðina. Er alveg búin að sakna þess að hafa engan til að hjúfra sig upp að á nóttunni.
Erum svo að reyna að gera íbúðina aðeins heimilislegri, búin að fara í Ikea og keyptum þar hillur sem eru komnar upp á einn stofuveginn og eru bara að taka sig vel út þar. Vantar svo bara nokkrar körfur til að setja inn á bað og þá ætti þetta bara að vera fínt. Ekki seinna vænna, einungis búin að búa hérna í rúmlega 1 ár. Þannig að núna lítur íbúðin okkar ennþá meira út eins og auglýsing fyrir Ikea, allt fyrir utan sjónvarpið, rúmið og sjónvarpsstandinn er keypt þar.

laugardagur, október 22, 2005

Snúðurinn skilaði sér loksins í gærkvöldi en ekki heim til Bjarklindar. Hann kom heim á Ásbúðartröðina um áttaleytið í gærkvöldi. Við heyrðum bara allt í einu mjálmað inni og þá var maður kominn. Maður er alveg duglegastur sko. Æ ég var svo ánægð að sjá hann og ekki sakaði það að hann svaf hjá mér í alla nótt. Ætla semsagt að hafa hann aðeins lengur hjá mömmu og pabba en svo fer hann líklegast aftur til Bjarklindar. Vona bara að hann skilji að hann eigi heima þar núna, ekki á Ásbúðartröðinni.
Í rauninni var mjög gott að Snúður kom heim því að hann vakti okkur um hálfsex í morgun, ætluðum að vakna fimm en við sváfum öll yfir okkur. En það reddaðist nú alveg og ég náði fluginu léttilega. Flugið gekk svo bara vel og þá var komið að lestarferðinni.
Lestin til Århus skiptist í rauninni í þrennt, nokkrir vagnar fara bara til Fredericia og ekki lengra, nokkrir vagnar fara til Århus o.s.frv. Ég átti semsagt að vera í vagni 31 og það er venjulega merkt hvaða vagn er númer hvað. En þá voru einhverjir tæknilegir örðugleikar í lestinni þannig að maður sá ekki númerin á vögnunum, þannig að ég fer bara inn í einhvern vagn. Auðvitað var það vagn á leiðinni til Fredericia þannig að ég fór að koma mér í réttan vagn. Ég semsagt dröslaðist með 25 kg tösku, snyrtiboxið mitt, bakpokann með fartölvunni og veskið mitt yfir 5 heila vagna. Alveg hræðilegt, sérstaklega þar sem að gangarnir á milli sætanna eru aðeins of þröngir til að maður geti dregið töskuna þannig að ég þurfti í rauninni að halda á henni allan tímann. Og svo vegna þess að þetta tæknilega vandamál hélt áfram þá vissi ég aldrei hvort að ég var komin í réttan vagn. Þurfti sífellt að vera að spyrja hvort að ég væri komin í vagn 31, örugglega mjög vinsæl :). En þetta semsagt reddaðist allt.
Og það var svo gott að sjá Árnann minn og knúsa hann. Hann fór svo bara snemma að sofa, er alveg búinn að snúa við sólarhringnum og ákvað þess vegna að fara ekkert að sofa seinustu nótt, ég skil ekki hvernig hann getur haldið sér vakandi svona lengi. Á morgun ætlum við svo bara að hafa það næs og njóta þess að vera saman því að skólinn byrjar svo aftur eftir vetrarfrí á mánudaginn hjá Árna.
En núna er ég bara búin með starfsþjálfunina mína, fékk voða góða umsögn frá leiðbeinandum, rosa ánægð með það. Þarf núna bara að skrifa nokkurs konar hugleiðingaritgerð um þjálfunina og þá get ég byrjað á lokaritgerðinni.

föstudagur, október 21, 2005

Núna er minn dapur og alveg með tárin í augunum. Snúðurinn okkar er ekki búinn að láta sjá sig í 30 tíma. Hann kemur yfirleitt þegar að ég kalla á hann en ég er búin að fara tvisvar til Bjarklindar og ekkert bólar á honum. Finnst mjög líklegt að hann sé bara týndur, sé í fýlu út í foreldra sína að vera alltaf að láta hann í nýtt húsnæði til nýrra aðila, æ litla greyið manns. Vona samt svo innilega að hann komi áður en ég fer.

fimmtudagur, október 20, 2005

Rosa mikið að gera hjá mér þessa dagana. Ég og Guðlaug fórum til Rakelar í gær og skoðuðum brúðkaupsmyndirnar og allar gjafirnar. Þvílíkt flottar myndir og geðveikar gjafir. Fengum rosa góða gulrótarköku og spjölluðum saman. Alltaf svo gaman að hitta þær.
Í kvöld er svo matarboð hjá Hrönn & Axel og Ásta & Ívar koma líka. Ég ætla líka að reyna að kveðja tengdó í kvöld þannig að ég kemst líklegast ekki í magadansinn, ekki alveg sátt með það en það eru bara ekki nægir tímar í sólarhringnum núna.
Á morgun ætla ég svo að reyna að hætta í þjálfuninni um hádegi því að ég á eftir að kaupa nammi fyrir Árna, fara á bókhlöðuna út af lokaverkefninu mínu, kveðja nánustu fjölskyldu, pakka niður o.fl. Ég ætla líka að reyna að kaupa þær jólagjafir sem ég er búin að ákveða svo að ég geti bara skilið þær hérna eftir og þurfi ekki að senda þær frá Århus.
Finnst rosalega óþægilegt að hafa svona mikið að gera á seinustu stundu en svona er það þegar að maður ákveður með svona stuttum fyrirvara að koma ekki heim um jólin. Annars hefði ég nú alveg getað dreift þessu meira.

miðvikudagur, október 19, 2005

Mér finnst að fleiri fyrirtæki ættu að fylgja fordæmi Sparisjóðs Norðlendinga.
Ef ég væri yfir höfuð að vinna þá myndi ég labba út kl. 14:08.

Fór og hitti nokkrar sálfræðistelpur á kaffihúsi í gær, rosa gaman að hitta þær og spjalla. Líka gott að frétta hvernig aðrir eru að fíla starfsþjálfunina sína.
Þurfti reyndar að sleppa magadansinum til að hitta þær þannig að það er bara einn tími eftir :(. Ætla sko pottþétt að kaupa mér aftur kort þegar að við komum aftur.
Svo er ég búin að kaupa mér miða á Sálina í Kaupmannahöfn. Ég ætla að skella mér með Hildi sálfræðigellu, hlakka ekkert smá til :).
Í dag eru 3 dagar þangað til að ég fer aftur til Árósa, voða skrýtin tilfinning að vita til þess að við verðum þarna í 5 mánuði án þess að koma nokkuð heim. En ég hlakka nú bara líka til, sérstaklega að hitta Árnann minn. En svo verður maður bara að vera jákvæður. Eins og Alda sagði í gær, maður á eftir að búa á Íslandi allt sitt líf þannig að nokkrir mánuðir í öðru landi skipta kannski ekki svo miklu máli.
Svo eru líka 3 dagar þangað til að ég er búin í starfsþjálfuninni minni. Mér finnst nú eiginlega enn skrýtnari tilhugsun að vita að ég á bara lokaritgerðina mína eftir í náminu mínu, maður er bara að vera stór :).
Það er nú líka dálítið spes að missa af fæðingu krónsprinsins í Danmörku, sjónvarpsdagskráin var rofin þegar að Mary var flutt upp á spítalann og ég hef heyrt að það var þvílíkt fyllerí í öllu landinu til að fagna fæðingu hans :). Danir dýrka auðvitað kóngafjölskylduna sína.

mánudagur, október 17, 2005

Amma mín varð 95 ára í gær og í tilefni þess hittist stórfjölskyldan á Hrafnistu þar sem að amma býr. Fengum rosa góða rjómatertu og spjölluðum smá saman.
Helgin var nú bara að mestu leyti róleg. Gisti hjá Bjarklindi systur alla helgina vegna þess að hún var í Boston og ég var að passa köttinn hennar, Simbu. Ég fór líka með Snúð til hennar vegna þess að hún ætlar að vera svo góð að vera með hann þangað til að við komum aftur heim. Mamma og pabbi voru nefnilega að kaupa sér íbúð þar sem að má ekki vera með dýr.
Snúður og Simba gerðu nú ekkert annað en að hvæsa á hvort annað, þvílíkt stuð. Ég reyndi svo að halda Snúð inni en hann slapp auðvitað út um glugga en kom sem betur fer aftur heim. Svo núna situr Simba í kattarlúgunni og neitar að hleypa Snúði inn þegar að hann vill koma heim. Vona bara að hann fari ekki á flakk.
Svo kíkti ég á Ingibjörgu á laugardagskvöldið, við pöntuðum okkur pizzu og spjölluðum saman, voða næs.
Annars erum ég og Árni búin að ákveða að vera í Danmörku þangað til í mars (eitthvað vesen með kúrsana hans Árna) og við komum líklegast ekki heldur heim um jólin. Frekar skrýtin tilhugsun en svona er að vera fátækur námsmaður. Mér finnst reyndar yndislegt að vera bara tvö ein á aðfangadagskvöld en ég verð nú dálítið lítil í mér þegar að ég hugsa til þess að geta ekkert hitt fjölskyldu og vini um jólin.

fimmtudagur, október 13, 2005

Ég er búin að vera að lesa í gegnum gamalt blogg hjá mér og það er ekkert smá gaman að eiga svona "dagbók" um líf mitt fyrir undanfarin tvö og hálft ár.
Svo var ég líka að lesa gömlu dagbækurnar mínar frá árunum 1997 - 2000 og oh my god hvað ég lá í kasti yfir þeim, alveg frábært að sjá hugsanir sínar frá þessum tíma.

mánudagur, október 10, 2005

Ég og Árni vorum að panta okkur hótel í Kaupmannahöfn 2.- 4. desember. Oh hlakka svo til að koma þangað (hef nefnilega aldrei komið til borgarinnar, ótrúlegt en satt), fara í jólatívolí, labba Strikið, komast í jólaskap og bara njóta lífsins með manninum mínum :).

Kíkti út á lífið með Helgu á laugardaginn. Fórum á Glaumbar (hvert annað?) og dönsuðum smá. Rosa gaman en alveg óþolandi að fara á djammið og lykta eins og maður hafi reykt í 12 tíma, jakk. Svo í gær lá ég bara uppi í rúmi og las 3 bækur, rosa skrýtið (en jafnframt alveg yndislegt) að þurfa ekki að vera að læra um helgar.

Í dag eru svo aðeins 12 dagar þangað til að ég fer til Danmerkur, jibbí.

En svo las ég þessa grein í morgun og fékk alveg tár í augun. Það er svo greinilegt að líf barnanna sem lenda í misnotkun eru ekkert metin, allavega ef miðað er við hvernig réttarkerfi okkar tekur á þessum einstaklingum sem brjóta af sér. Dáist alveg að konunni sem skrifar þessa bók, finnst hún sýna svo mikið hugrekki með því.

miðvikudagur, október 05, 2005

Rosa gaman í magadansinum í gær, dönsuðum bæði með slæður og án þeirra, lentum í dálitlum vandræðum að dansa með slæðunum, því að þá þarf maður að hreyfa fæturnar, fingurna og hendurnar í einu og það var ekki alveg að gera sig svona fyrsta tímann. En við erum bara 6 í þessu námskeiði, mjög ánægð með það. Í tímanum á undan okkur voru um 30 manns en maður fær mikið meira út úr þessu þegar að svona fáir eru.
Námskeiðinu er svo skipt þannig að fyrstu vikuna verður magadans kenndur, næstu viku Bollywood (ekki Bollywoo eins og ég skrifaði seinast), þriðju vikuna verður Hawaii hula kennt og svo loksins salsa. Er mjög ánægð með þessa uppröðun vegna þess að ég missi af seinustu vikunni en þar sem að ég kann salsa skiptir það ekki svo miklu máli.
En oh my god hvað Josy (kennarinn) dansar vel, þvílíkt vald á magavöðvunum.

mánudagur, október 03, 2005

Jæja við systurnar búnar að skrá okkur í Suðræna sveiflu ( sem er magadans, salsa, Bollywoo og Hawaii Hula) hjá Magadanshúsinu. Hlakka geðveikt til, byrja annað kvöld og verð þrisvar í viku.

sunnudagur, október 02, 2005

Þvílíkt skemmtileg helgi búin. Á föstudaginn var Helga með saumó, með mat fyrir heilan her. Rosa gaman að hitta stelpurnar og spjalla saman.
Á laugardaginn lá ég nú bara í leti en um kvöldið kíkti ég til Bjarklindar systur þar sem að við ákváðum að byrja í magadansi í næstu viku. Hún sýndi mér atriði í Ísland í dag (síðan í seinustu viku) og við lágum alveg í kasti yfir 3 karatestrákum sem byrjuðu að æfa magadans vegna atriðis í árshátíð en eru núna farnir að sýna um allan bæ. Þetta var reyndar rosalega flott hjá þeim en líka alveg hrikalega fyndið.
Við kíktum svo aðeins á djammið. Fórum fyrst á Hressó og dönsuðum smá, ætluðum svo að kíkja aðeins inn á Glaumbar en það var svo geðveikt góð tónlist þar að við ílengdumst þar og vorum ekki komnar heim fyrr en um fimm. Snúður vakti mig svo klukkan 11, ekki alveg sá vinsælasti í heimi :).
Svo eru bara 20 dagar þangað til að ég sé manninn minn, hlakka mjög mikið til þess. Við erum sko alveg búin að ákveða að vera aldrei svona lengi frá hvort öðru.

miðvikudagur, september 28, 2005

Árni klukkaði mig þannig að ég verð víst að segja frá 5 tilgangslausum staðreyndum um mig:

1. Ég er ofur stundvís. Þetta getur verið mjög pirrandi á Íslandi þegar að maður mætir fyrstur í partý og þarf að bíða eftir því að gestgjafinn fari í sturtu og svona :). Einnig þegar að maður sjálfur heldur partý þá fer rosa mikið í taugarnar á mér að enginn mætir á réttum tíma.

2. Mér finnst gaman að pússla (bæði venjuleg pússl og líka á netinu). Get eytt óratíma í það.

3. Ég er algjör bókaormur og er einmitt að njóta þess núna að lesa skáldsögur í stað námsbóka. Mörgum finnst mjög skrýtið að ég get líka lesið sömu bækurnar aftur og aftur.

4. Mig langar mjög mikið að vinna í Kattholti. Örugglega margir sem skilja ekkert í mér að vilja það en kettir eru bara yndislegustu dýr í heimi.

5. Ég er gjörsamlega háð ýmsum þáttum; ER, One Tree Hill, Desperate Housewifes, Stargate og Lost. Mér fannst alveg hræðilegt þegar að Friends hættu á sínum tíma en maður lærir þá bara þættina utanað í staðinn :).

Ég á víst að klukka aðra fimm og ég er að spá í að klukka þá sem eru búnir að vera mjög latir að blogga undanfarið; semsagt Árni (hann er ekki búinn að skrifa þessi 5 atriði um sig þótt að hann klukkaði mig), Ásta, Grétar, Ívar og Laufey

föstudagur, september 23, 2005

Í tilefni helgarinnar ákvað ég að skella inn smá gríni. Tók þetta af heimasíðunni hennar Möggu í Sviss. Góða helgi allir :)


Námskeið fyrir karlmenn
ALLIR VELKOMNIR
AÐEINS FYRIR KARLA

Athugasemd: námskeiðin eru flókin þannig að aðeins átta geta sótt hvert námskeið

Hvert námskeið tekur tvo daga og efnið er eftirfarandi:

FYRRI DAGUR

HVERNIG Á AÐ FYLLA ÍSMOLAMÓT ?
Skref fyrir skref með glærusýningu

KLÓSETTRÚLLUR: VAXA ÞÆR Á KLÓSETTRÚLLUHALDARANUM?
Hringborðsumræður

MUNURINN Á RUSLAFÖTUM OG GÓLFI
Æfingar með körfuefni (teikningar og módel)

DISKAR OG HNÍFAPÖR: FER ÞETTA SJÁLFKRAFA Í VASKINN EÐA UPPÞVOTTAVÉLINA?
Pallborðsumræður nokkrir sérfræðingar

AÐ TAPA GETUNNI
Að missa fjarstýringuna til makans.
Stuðningshópar

LÆRA AÐ FINNA HLUTI
Byrja að leita á réttum stöðum í stað þess að snúa húsinu við gargandi.
Opin umræða


SEINNI DAGUR

TÓMAR MJÓLKURFERNUR; EIGA ÞÆR AÐ VERA Í ÍSSKÁPNUM EÐA Í RUSLINU?
Hópvinna og hlutverkaleikir

HEILSUVAKT: ÞAÐ ER EKKI HÆTTULEGT HEILSUNNI AÐ GEFA HENNI BLÓM
PowerPoint kynning

SANNIR KARLMENN SPYRJA TIL VEGAR ÞEGAR ÞEIR VILLAST
Sönn saga frá manninum sem spurði til vegar

ER ERFÐAFRÆÐILEGA ÓMÖGULEGT AÐ SITJA ÞEGJANDI MEÐAN HÚN LEGGUR BÍL?
Ökuhermir

AÐ BÚA MEÐ FULLORÐNUM: GRUNDVALLARMUNUR Á ÞVÍ AÐ BÚA MEÐ MÖMMU ÞINNI OG MAKA Fyrirlestur og hlutverkaleikir

HVERNIG Á AÐ FARA MEÐ EIGINKONUNNI Í BÚÐIR
Slökunaræfingar, hugleiðsla og öndunartækni

AÐ MUNA MIKILVÆGAR DAGSETNINGAR OG AÐ HRINGJA ÞEGAR ÞÉR SEINKAR
Komdu með dagatalið þitt í tímann

AÐ LÆRA AÐ LIFA MEÐ ÞVÍ AÐ HAFA ALLTAF RANGT FYRIR SÉR
Einstaklingsráðgjöf og samtöl

þriðjudagur, september 20, 2005

Er búin að breyta flugmiðanum mínum, flýg semsagt til Danmerkur 22. október í stað 29. október. Lýk starfsþjálfuninni 21. okt. og ákvað bara að drífa mig strax út til Árna. Þannig að niðurtalningin er komin niður í 32 daga :).

mánudagur, september 19, 2005

Fór út að borða með nokkrum stelpum í vinnunni á föstudag. Fyrst var farið í fordrykk í boði fyrirtækisins og þaðan lá leiðin á Tapas barinn þar sem við fengum annan fordrykk og 7 rétta óvissuferð (maður veit þá ekkert hvað verður borið á borð). Við fengum m.a. beikonvafða hörpuskel með steiktum döðlum, parmaskinku og rækjur í chilli sósu, nammi namm. Eftir þetta löbbuðum við aðeins um bæinn og enduðum kvöldið á Ölstofunni en svo fór ég bara heim um eittleytið. Hefði alveg verið til í að vera lengur en þar sem að ég gat fengið far heim þá tímdi ég ekki að sleppa því. Rosa skemmtilegt kvöld og gaman að kynnast stelpunum aðeins.
Laugardagurinn var svo bara rólegur, ætlaði bara að vera heima um kvöldið en ákvað svo að kíkja til Helgu í nýju íbúðina sem er ógó sæt. Við tókum myndina The wedding date, alveg ekta svona stelpumynd sem reyndist bara vera mjög skemmtileg.
Svo man ég nú ekki hvort að ég var búin að upplýsa þá sem lesa bloggið að Hrönn vinkona er ólétt og á að eiga í lok desember, hlakka svo mikið til að knúsa barnið. Verð sko alveg ekta svona frænka sem gefur hávær leikföng og spillir barninu út í eitt.
En svo að maður haldi í hefðina þá eru bara 40 dagar þangað til að ég get knúsað Árnann minn, jíbbí :).

þriðjudagur, september 13, 2005

Horfði loksins á spóluna með gæsuninni minni. Helga kom með spóluna til mín daginn áður en við fluttum til Danmerkur og þar sem við erum ekki með video úti þá var ég ekkert að taka spóluna með. Setti hana bara uppí skáp hjá mömmu og pabba og gleymdi eiginlega svo að hún væri þarna.
En semsagt, það var svo frábært að horfa á þetta allt aftur. Ég lá í kasti allan tímann. Svo voru systurnar + vinkonurnar líka búnar að tala inn á spóluna (ég vissi ekkert af því) og það var svo sætt allt sem þær sögðu. Takk æðislega fyrir elskurnar mínar, þið eruð langbestar.

mánudagur, september 12, 2005

Búið að vera þvílíkt gaman seinustu daga. Á miðvikudaginn fór ég út að borða á Vegamótum og nammi namm ógó góður matur þar. Rosa gaman að hitta vinkonurnar og mikið spjallað. Á fimmtudaginn komu svo systkinin og fjölskyldur þeirra í heimsókn vegna þess að mamma átti afmæli og þá voru nú þvílíkar kræsingar í boði. Á föstudaginn fór ég svo aftur út að borða á Tapas barinn og rosa góður matur þar líka. Mikið hlegið hjá okkur stelpunum enda alltaf svo frábært að hitta þær, við enduðum kvöldið á að kíkja á Cafe Paris og litum aðeins inn á Hressó en svo fór ég bara heim.
Á laugardaginn var ég svo að þjóna til borðs í brúðkapinu hjá Rakel og Vigga. Oh hvað þau voru sæt saman og kjóllinn alveg geðveikur. Svo fannst öllum alveg frábært að þau dönsuðu brúðarvalsinn við fugladansinn, það lágu allir í kasti. En ég fékk nú smá fiðring í magann við að hugsa til brúðkaupsins míns og langaði alveg þvílíkt að fá að knúsa manninn minn. En ég fæ að hitta hann eftir 47 daga :).

fimmtudagur, september 08, 2005

Mamma á afmæli í dag, til hamingju með afmælið elsku mamma mín! Var einmitt að hjálpa henni að baka í gær, nammi namm, hlakka til að fá kökur þegar að ég kem heim úr vinnunni.

þriðjudagur, september 06, 2005

Tengdapabbi á afmæli í dag, til hamingju með afmælið Einar! Sætasti kisinn í heimi á líka afmæli í dag og er 3 ára. Maður fær sko pottþétt eitthvað gott að borða í kvöld, rækjur og rjóma :).
Annars er nú mest lítið að frétta, er bara á fullu í vinnunni og kvöldin eru búin að vera frekar róleg. Reyndar verður aðeins meira að gera næstu daga, er að fara út að borða annað kvöld á Vegamótum með öðrum vinkonuhópnum og svo á föstudagskvöldið fer ég út að borða á Tapas barnum með hinum vinkonuhópnum.
Á laugardaginn er Rakel, sem ég var að vinna með í Landsbankanum, að fara að gifta sig og ég ætla að þjóna til borðs þar. Gaman gaman, hlakka til að sjá hana í kjólnum. Verður örugglega svaka sæt.
Mamma á svo afmæli á fimmtudaginn og nánasta fjölskylda kemur örugglega til okkar um kvöldið, semsagt nóg að gera.

miðvikudagur, ágúst 31, 2005

Nafnið mitt merkir:

Inga = konungborin
Elín = hin bjarta og borg = vörn

Bara nokkuð ánægð með það :).

Árna nafn merkir hinsvegar örn. Og þar sem örninn er konungur fuglanna þá eigum við greinilega mjög vel saman því að Inga er konungborin, tíhí.

Fékk þessar upplýsingar á mannanöfn.com. Búin að vera að fletta upp nöfnum fjölskyldunnar og vinanna. Þvílíkt stuð.

mánudagur, ágúst 29, 2005

Ég vaknaði klukkan korter í fimm í morgun til að keyra Árna út á flugvöll. Oh hvað mér leið ekki vel á leiðinni þangað. Ég var rosa lítil í mér þegar að við kvöddumst, var alveg á mörkunum að fara að hágráta en gat harkað það af mér. Svo var ég með tárin í augunum eiginlega alla leið heim aftur.
Hann er semsagt núna kominn í loftið og þar sem að hann svaf ekkert í nótt ætti hann að geta sofið í vélinni. Hlakka til að heyra í honum í kvöld. Bara 61 dagur þangað til að við hittumst aftur :). Vona að ferðin gangi vel ástin mín.

sunnudagur, ágúst 28, 2005

Nákvæmlega engin frammistaða í þessu bloggi mínu :). Ég er bara búin að vera svo upptekin í seinustu viku að það gafst enginn tími til þess.
Ég er semsagt byrjuð á fullu hjá IMG og gengur bara rosa vel. Allt fólkið voða indælt og verkefnin mín gífurlega skemmtileg.
Í dag var svo verið að skíra litlu frænku og fékk hún nafnið Ríkey. Innilega til hamingju með nafnið krútta. Mjög fallegt nafn og passar vel við hana :).
Árni flýgur svo á morgun til Danmerkur og þá hefst grasekkjutímabilið mitt sem stendur í tvo mánuði, snökt snökt. Þetta verður nú örugglega fljótt að líða, vona það allavega. Ég semsagt flyt til mömmu og pabba á morgun, hlakka til að sofa með Snúðinn uppi í rúmi í tvo mánuði.

laugardagur, ágúst 20, 2005

Jæja, þá er ég svona nokkurn veginn byrjuð í praktíkinni, mætti til þeirra seinasta mánudag en þar sem að fyrirtækið er að flytja fékk ég bara heimaverkefni, þ.e. fékk tvær bækur um ákveðið efni og á að skila mínu áliti á þeim (hvort að IMG geti innleitt þetta í verkefni sín, kosti, galla og svona). Flutningarnir verða svo vonandi búnir á mánudaginn og þá verður pláss fyrir mig :). Líst bara rosalega vel á þetta.
Svo héldum við annað matarboð í gær fyrir vini hans Árna, ekkert smá skemmtilegt. Enda alveg komin tími á að ég hitti vini hans í sumar, er ekkert búin að hitta nokkra þannig að þetta var alveg á seinasta snúning því að Árni fer eftir 9 daga. Kíktum svo aðeins niður í bæ og vorum komin heim um fjögurleytið.
Annars er ég búin að komast að því að það er algjör snilld að bjóða upp á þessi jelly shots :). Allir svo ánægðir með þau.

fimmtudagur, ágúst 11, 2005

Er núna í búðinni fyrir tengdó og það gengur bara ágætlega. Samt dálítið erfitt að vita ekki nákvæmlega hvar allir hlutirnir eru inni á lager eða hvað þeir kosta en viðskiptavinirnir eru búnir að vera mjög þolinmóðir við mig :).
Ég og Árni fórum að heimsækja Karen á þriðjudaginn, ekkert smá gaman að sjá hana. Sérstaklega þar sem að við sjáum hana ekkert fyrr en um jólin aftur. Hún fer svo aftur til Danmerkur á sunnudaginn en ég ætla að reyna að kíkja til hennar einu sinni enn.
Svo ætlum við að halda smá matarboð á laugardaginn. Helga, Freyr, Ásta, Ívar og Hrönn ætla að kíkja til okkar. Ég ætla einmitt að búa til svona hlaupskot, smakkaði þannig hjá Helgu í afmælinu hans Freys og nammi namm hvað þetta er gott :). Reyndar dálítið hættulegt þar sem að lítið áfengisbragð finnst en maður passar sig bara.

mánudagur, ágúst 08, 2005

Núna eru ég og Árni búin að vera gift í eitt ár (og einn dag :)). Sunnudagurinn var ekkert smá næs. Árni fór út í bakarí fyrir okkur og keypti smá góðgæti. Hann keypti líka eina rauða rós handa mér, rosa sætur. Ég gaf honum það sem ég var búin að föndra en ég límdi inn í gestabókina okkar allt sem tengdist brúðkaupinu, hjörtun sem ættingjar/vinir skrifuðu heilræði á til okkar, litlu hjörtun sem voru til skrauts á borðunum, myndir af okkur þegar að við vorum lítil og ýmislegt fleira. Ég skrifaði líka inn textana á lögunum sem við létum syngja í kirkjunni.
Árni var svo búinn að plana að fara í Dýragarðinn í Slakka en við þurftum að hætta við það vegna veðurs. Fórum þangað svo í dag og klöppuðum kettlingum, folöldum, kálfi og fleiri dýrum. Ég gjörsamlega dýrka þennan stað.
Á sunnudagskvöldinu fórum við svo á Humarhúsið og við fengum okkur bæði humarsúpu í forrétt, algjör lostæti. Svo fékk ég mér gratineraða humarhala með humarsósu og Árni fékk sér haf og haga, þ.e.a.s. nautasteik og humarhala. Geðveikt gott.
Enduðum kvöldið á að fara í bíó, á The wedding crashers. Oh my god hvað hún er fyndin, rosa góð mynd. Semsagt alveg yndislegur dagur, bíð bara eftir næsta brúðkaupsafmæli :).

föstudagur, ágúst 05, 2005

Jæja þá er letilífið núna að mestu búið (og alveg kominn tími til). Tengdó eru nefnilega að fara út til Danmerkur næsta miðvikudag og báðu okkur um að vera í búðinni fyrir þau á meðan. Þannig að ég er búin að vera í smá þjálfun þar og verð ein frá miðvikudegi til laugardags í næstu viku. Rosa gaman og svo verða allir að koma að versla hjá mér, tíhí.
Afmælið hjá Frey seinustu helgi var ekkert smá skemmtilegt. Fámennt en bara þeim mun skemmtilegra fólk, við sátum heillengi og spjölluðum saman og fórum svo aðeins niður í bæ. Kíktum á Glaumbar, Thorvaldsen og Hressó en svo fór ég heim um fjögurleytið.
Svo eigum við auðvitað eins árs brúðkaupsafmæli á sunnudaginn, trúi því varla að það sé strax komið eitt ár. Er einmitt búin að vera að föndra dálítið til að gefa Árna og hann er nú orðinn frekar forvitinn um hvað það er. Ætlum svo út að borða um kvöldið, býst við að við förum á Humarhúsið. Alltaf svo geðveikt góður matur þar.

sunnudagur, júlí 31, 2005

Erum nýkomin úr afmæli hjá Matta bróður en hann er 45 ára í dag. Innilega til hamingju með afmælið elsku Matti minn.
Förum svo í annað afmæli í kvöld hjá Frey hennar Helgu. Ætla svona aðeins að fá mér í aðra tána og fara kannski á Glaumbar að dansa :).

fimmtudagur, júlí 28, 2005

Ég fór í sumarbústað á þriðjudaginn með Siggu, Bjarklindi, Hjörvari og Rítu. Voða gaman og fengum rosa gott veður á þriðjudaginn. Í gær var líka heiðskírt en samt alveg þvílíkur vindur þannig að ég sat nú bara inni og las meðan að Sigga og Bjarklind streittust við að vera í sólbaði :).
Árni kom svo seinna um kvöldið og við grilluðum saman. Grillið misheppnaðist nú eitthvað því að við vorum ca. 4 tíma að grilla því að kolin voru eitthvað svo köld og héldu engum hita. Við fórum svo smá í heitapottinn og fórum heim um miðnættið. Það er alltaf svo gaman að fara í sumarbústað :).
Verslunarmannahelgin verður svo líklegast bara róleg, reyndar er eitthvað planað á laugardaginn en ekkert meira. Svo styttist bara alltaf í að ég byrji í starfsþjálfuninni minni hjá IMG, hlakka til en kvíði líka smá fyrir. Í 4 ár er maður bara búin að vera með höfuðið ofan í bækurnar og mér finnst einhvern veginn eins og ég kunni ekki neitt. En samt rosalega fínt að fá svona starfsþjálfun, þá get ég líka gert betur upp við mig hvort að það eigi við mig að vera í vinnusálfræði.

sunnudagur, júlí 24, 2005

Jæja komin heim af ættarmótinu. Það var þvílíkt gaman, rosa gott veður og allir í góðu skapi. Árni fór reyndar heim í gær því að hann fór í afmælispartý til vinar síns en ég var eftir og kom heim í morgun. Föstudagurinn fór nú bara í það að tjalda og kynnast fólkinu sem var að koma. Á laugardeginum fórum við svo í smá bíltúr um Snæfellsnesið, fórum á Ytri-Rauðamel þar sem að afi minn (í móðurætt) fæddist og líka í Straumfjarðartungu þar sem að ég var í sveit. Rosa gaman að sýna Árna þetta allt :). Við vorum með Tinnu (hundinn hans pabba) með okkur um daginn og hún svaf líka hjá mér seinni nóttina, þvílíkt sæt og góð. Ég er alveg orðin sjúk í að fá mér einn labrador, þeir eru svo yndislegir.
Árni fór svo heim um miðjan daginn en ég sat aðeins úti og las. Brenndist þvílíkt en samt var ég í peysu og sneri baki í sólina. Um kvöldið var svo sameiginlegur kvöldverður með allri ættinni. Ég er bara strax byrjuð að hlakka til næsta ættarmóts sem verður eftir 5 ár.

mánudagur, júlí 18, 2005

Eitthvað voðalega lítið að gerast hjá mér þessa dagana. Enda ekki skrýtið þar sem að maður er búinn að vera í fríi í meira en sex vikur (þrjár vikur fóru auðvitað í Evrópuferðina).
Ég og Árni fórum nú reyndar á Madagascar á föstudaginn, þvílíkt fyndin mynd og svo krúttleg stundum. Næsta helgi verður nú líklegast eitthvað fjörmeiri því að þá verður ættarmót hjá ætt föðurömmu minnar á Snæfellsnesi. Hlakka mikið til að hitta ættingjana mína :).
Svo á Sigga systir afmæli í dag, innilega til hamingju með afmælið elsku Sigga mín. Hún var nú ekkert á því að halda upp á afmælið sitt (enda ekkert stórafmæli).
Mér finnst hinsvegar alltaf jafn gaman að halda upp á afmælið mitt og fannst ekkert gaman að þurfa að vera í Danmörku einmitt það ár sem ég varð 25. Það bjargaði nú alveg að geta haldið upp á daginn með Árna, Karen, Grétari og Helgu en samt langaði mig að geta haldið stórt afmælisboð enda orðin aldarfjórðungsgömul :). Svo verð ég líka í Danmörku þegar að ég verð 26. Ég held kannski bara þvílíkt partý þegar að ég verð 27 :).

þriðjudagur, júlí 12, 2005

Bjarni Þór frændi minn er 15 ára í dag, innilega til hamingju með afmælið!!
Ji hvað tíminn líður samt fljótt. Ég man svo innilega vel eftir því þegar að ég var að passa þennan litla gutta sem er nú liggur við orðinn stærri en ég.

sunnudagur, júlí 10, 2005

Jæja, þá er maður búinn að sjá myndina War of the worlds, mjög góð mynd, mæli hiklaust með henni. Ég og Árni fórum á hana á föstudaginn en í sitthvoru lagi :), ég með Hrönn og Axel og Árni með skólafélögum úr HR.
Í gær var svo afmælispartý hjá Röggu, vinkonu Árna úr HR. Þvílíkt skemmtilegt partý enda vorum við þar alveg til hálfþrjú og nenntum svo ekkert í bæinn. Fórum bara heim og horfðum smá á sjónvarpið og sofnuðum svo. Dagurinn í dag er svo búinn að fara í leti, voða þægilegt :).
Sætasti strákurinn fór svo út í búð og keypti handa mér Bridget Jones 2, alveg yndisleg mynd í alla staði.

fimmtudagur, júlí 07, 2005

Litla frænka kom í heiminn klukkan hálfsjö í morgun, lét semsagt bíða eftir sér í tvo daga. Innilega til hamingju elsku Laufey, Eiður og Einar Loki. Fæðingin gekk rosalega vel þrátt fyrir að hún sé algjör bolti, eða rúmar 17 merkur og 53 cm. Við hlökkum nú frekar mikið til að sjá hana :).
Árni er loksins búin að fá allar einkunnir og náði hann öllu, ekki við öðru að búast. Fékk m.a.s. 11 í einu faginu, er svo duglegur þessi elska.
Svo er maður bara í hálfgerðu sjokki eftir það sem gerðist í morgun í Lundúnum. Alveg hræðilegt að þetta geti átt sér stað. Maður vonar að tala látinna og særða eigi ekki eftir að hækka mikið, þótt að það sé nú örugglega frekar mikil bjartsýni.

þriðjudagur, júlí 05, 2005

Þetta kommentakerfi mitt er alveg hræðilegt. Sýnir aldrei rétta tölu á því hversu margir hafa kommentað, fussum svei.

föstudagur, júlí 01, 2005

Jibbí, búin með alla fyrirlestra í sálfræðináminu mínu :). Er semsagt búin að fá einkunnir fyrir fögin mín og náði öllu, mjög stolt enda var ég í 150% námi. Núna á ég einungis eftir starfsþjálfun og mastersritgerðina, rosa gaman.
Núna erum við svo búin að vera heima í viku, ekkert smá næs. Erum bara að slappa af og svona. Ætla reyndar að fara að merkja myndirnar úr Evrópuferðinni og koma þeim á netið, nenni samt einhvern veginn ekki að byrja á því enda eru þetta um 700 myndir (Árni alveg að missa sig með myndavélina) en þetta kemur vonandi á næstunni.
Svo bíðum við spennt eftir nýjasta fjölskyldumeðlimnum, Laufey er sett 5. júlí enda er hún orðin frekar stór um sig. Hlakka svo mikið til að sjá litla krúttið.

sunnudagur, júní 26, 2005

Þá erum við komin heim og það er svo gott að vera komin. Við ákváðum semsagt að koma heim degi fyrr, þ.e.a.s. á föstudeginum, við höfðum hreinlega bara ekki orku í að fara til Kaupmannahafnar og labba þar um og svona. Ætlum bara frekar að fara þangað í nóvember eða eitthvað.
Við lentum um þrjúleytið á föstudeginum og tengdapabbi sótti okkur. Ég var ekki búin að láta mömmu og pabba vita af breytingunni með flugið því að ég ætlaði að koma þeim á óvart. Þau eru núna í sumarbústað og við systurnar fórum í gær og heimsóttum þau. Þeim brá ekkert smá við að sjá mig og mamma öskraði alveg upp yfir sig, mjög gaman :). Svo erum við búin að fara og hitta Snúðinn okkar, hann var ekkert smá ánægður að sjá okkur, algjört krútt.
En núna er maður semsagt bara komin í 2 mánaða sumarfrí, frekar skrýtin tilhugsun. Ef einhverjum langar að gera eitthvað á daginn þá er ég alltaf laus.

laugardagur, júní 18, 2005

Thyska lyklabordid er hatid midad vid franska lyklabordid, madur tharf ad yta a shift til ad fa punkt, a er thar sem z er hja okkur, m er thar sem ae er hja okkur, komman er thar sem m er hja okkur, o.s.frv.
Vid erum semsagt komin til Parisar, saum Eiffelturninn i dag og Sigurbogann og lobbudum nidur Champs Elysee. A morgun er stefnan tekin a Notre Dame og Louvre safnid. Hitinn herna er hinsvegar alveg ad gera ut af vid okkur enda stoppum vid mjog reglulega til ad fa okkur eitthvad ad drekka.
Ekki a morgun heldur hinn leggjum vid svo af stad til Brussel og gistum thar eina nott, forum svo til Amsterdam og gistum lika thar eina nott og komum svo til Aarhus degi fyrr en vid aetludum fyrst. Thurfum bara adeins ad slappa af ;), thott ad thetta se svakalega gaman tha er thetta lika pinku threytandi. Vid aetlum lika ad vera taepa tvo daga i Kaupmannahofn og svo ad vid eydum ekki ollum dogunum thar sofandi uppi a hotelherbergi tha kemur thetta best ut svona.
Bjarklind systir atti svo afmaeli i gaer, til hamingju med afmaelid elsku systir.
En jaeja, aetladi bara ad hafa thetta stutt, setjum inn myndir seinna.

miðvikudagur, júní 08, 2005



Jaeja, tha er seinni dagurinn okkar i Vin ad verda buinn. Thad er buid ad vera mikid ad gera hja okkur, enda margt ad skoda. Vid byrjudum a thvi ad labba nidur helstu verslunargotu Vin, Mariahilfer strasse, fyrsta morguninn okkar. Thegar ad vid vorum komin nidur i midbae var thetta eitt thad fyrsta sem vid saum. Ekkert sma flott.




Thetta var semsagt byrjunin a Hofburg gardinum en Hofburg er keisarahollin thar sem t.d. keisarahjonin Elisabeth og Frans Joseph bjuggu.




Vid akvadum svo ad fara i hestatur um gamla baeinn i Vin, thad var frekar skemmtilegt thvi ad vid keyrdum bara a gotunum og a timabili voru komnir tveir leigubilar og einn vorubill fyrir aftan okkur, hofum liklegast verid mjog vinsael :).




Vid forum svo lika inn i hollina sjalfa og fengum ad sja hvernig keisarahjonin bjuggu en tvhi midur matti ekki taka myndir thar.
A ymsum stodum i Vin eru svo styttur af fraegum einstaklingum, eins og Goethe og Mozart.




Eftir thetta drifum vid okkur til Schonbrunn (sem er sumarhollin, Hofburg var vetrarhollin) og eyddum thar thonokkrum tima.




Thegar ad madur labbar fyrir aftan Schonbrunn hollina er thessi gosbrunnur med thvi fyrsta sem madur ser, Neptunus gosbrunnurinn.




Gardurinn fyrir aftan Schonbrunn er ekkert sma fallegur og vid forum m.a. i volundarhus thar, gedveikt gaman. Tok okkur svolitinn tima ad finna retta leid en that tokst ad lokum.



Svo forum vid aftur i dyragard, en thessi dyragardur er sa elsti i heimi og er hluti af Schonbrunn gardinum. Vid saum t.d. thar blettatigur, koalabjorn og kenguru i fyrsta skipti, ekkert sma gaman.











Eftir dyragardinn roltum vid upp a haedina fyrir aftan hollina en thar stendur gedveikt flott hlid, Gloriette, og thar sest ekkert sma vel yfir Vin.









Thetta allt gerdum vid semsagt i gaer enda vorum vid frekar threytt thegar vid vorum komin upp a hotelherbergi. I dag forum vid svo aftur i Schonbrunn og skodudum meira, kiktum lika a Stephansdom og margt fleira. Vid erum bara ekki buin ad uploada theim myndum, thvi midur.

A morgun leggjum vid svo snemma af stad til Feneyja, Arni sa einmitt um ad panta hotel thar og vid vorum rosa anaegd med verdid a herberginu, thangad til ad vid tokum eftir thvi ad vid verdum i tjaldi :s. En thad verdur vonandi bara gaman.

sunnudagur, júní 05, 2005

Jaeja, erum nuna i Berlin og erum buin ad skemmta okkur rosa vel. Akvadum ad fara inn ur rigningunni og blogga sma en Arni er vist buin ad blogga ferdasoguna (medan ad eg var sett i ad finna hotel fyrir Vin) thannig ad thid kikjid bara thangad ef thid viljid lesa hana.
Annars er alveg otrulega erfitt ad skrifa a thyskt lyklabord thvi ad y thar sem z er hja okkur og ofugt, alveg ekki ad gera sig. Tschuss :).

fimmtudagur, júní 02, 2005

Ég ætlaði bara aðeins að blogga um kvöldið í kvöld (þótt að ég sagði að ég myndi lítið blogga næstu þrjár vikurnar). Það var alveg frábært að hitta alla krakkana í sálfræðinni, njóta þess að vera búin í prófum og skemmta sér saman. Þau eru líka öll alveg yndisleg og ég á eftir að sakna þess að hitta þau ekki í haust þegar að skólinn byrjar. En ég kem nú aftur til Árósa í nóvember þannig að ég hitti þau allavega þá.
Við fórum út að borða á Jensen´s bofhus og það var rosa næs. Svo löbbuðum við að síkinu og sátum í dálitla stund fyrir utan eitt kaffihús. En svo ákváðum við hjónin bara að drífa okkur snemma heim, enda verður mikið að gera hjá okkur á morgun.

Jæja búin að skila ritgerðunum, jibbí :).
Planið í dag er svo bara að gera okkur tilbúin fyrir Evrópuferðina og svo ætlum við út að borða með sálfræðinemunum. Þvílíkt gaman. Var einmitt að bæta við nokkrum linkum á fólkið sem er með mér í sálfræðinni.
En það verður nú líklegast lítið bloggað næstu þrjár vikurnar, reynum nú samt að kíkja á netcafé en ég lofa ekki neinu. Við verðum svo líka með íslensku númerin okkar í ferðinni. En annars komum við svo bara til Íslands 25. júní, vei vei.

þriðjudagur, maí 31, 2005

Karen og Grétar komu í mat í kvöld. Eftir matinn var sest niður og spilaður póker. Þetta var semsagt í fyrsta sinn sem ég spila póker og það verður bara að segjast að ég hef sjaldnast skemmt mér eins vel í spili. Árni, Karen og Grétar skemmtu sér líka mjög vel yfir spilastílnum mínum, því að ég fór sjaldnast eftir spilunum þegar að ég ákvað hversu miklu ég ætti að veðja. Enda endaði það með því að ég tapaði :). En allavega, frábært spil.
Svo var þetta nokkurn veginn kveðjustund líka. Ég og Karen ætlum reyndar að hittast í hádegismat þegar að ég verð búin að skila ritgerðunum mínum en svo sjáumst við líklegast bara ekkert fyrr en í lok ágúst. Það er búið að vera alveg frábært að hitta þau svona oft og við verðum bara að vera jafndugleg að hittast þegar að við verðum öll komin á Ísland aftur :).

föstudagur, maí 27, 2005

Hrönn vinkona á afmæli í dag, til hamingju með afmælið elsku Hrönn :).
Annars skilaði ég heimaprófinu mínu í gær, voða gaman. Svo á ég að skila ritgerðunum mínum eftir 6 daga og þá er ég bara búin. Hlakka rosa mikið til þess. Ætla einmitt að reyna að klára ritgerðirnar um helgina og hafa mánudag og þriðjudag til að versla aðeins fyrir Evrópuferðina.

mánudagur, maí 23, 2005

Eva Sóley frænka mín á afmæli í dag, til hamingju með 8 ára afmælið elsku Eva mín.
Annars er nú allt voðalega rólegt hjá okkur núna. Árni fór í eina prófið sitt á þessari önn í morgun og núna eru bara verkefni eftir hjá honum.
Ég er bara á fullu í heimaprófinu mínu og á að skila því núna á fimmtudaginn. Í heimaprófinu eigum við að setja okkur í spor skólasálfræðings sem fær inn á borð til sín vandamál varðandi hana Idu. Við fáum svo lýsingu með bæði frá kennurum og foreldrum um hvað þeim finnst vera að og út frá því eigum við að mynda okkur skoðun á því hvernig við myndum reyna að laga þetta vandamál. Bara frekar gaman að pæla í þessu.

laugardagur, maí 21, 2005

Jæja Eurovision búið þetta árið. Vinningslagið var svona lala að mínu mati. Ég vildi svo innilega að Noregur myndi vinna, alveg frábært lag hjá þeim :).
En tókuð þið samt eftir því að þau 4 lönd sem eru alltaf örugg inn, þ.e.a.s Spánn, England, Þýskaland og Frakkland röðuðu sér í neðstu sætin?? Hmmm, af hverju eiga þau ekki að þurfa að taka þátt í forkeppninni, finnst þetta svo hallærislegar reglur að þau séu alltaf sjálfkrafa inni í aðalkeppninni.

fimmtudagur, maí 19, 2005

Er bara frekar sár að við komumst ekki áfram :(. Mér fundust ömurlegt lög komast áfram eins og Króatía, Sviss og Ungverjaland. En mjög gaman hinsvegar að bæði Noregur og Danmörk komust áfram, stóðu sig mjög vel.
Kenni reyndar Árna um að Króatía komst áfram, hann kaus þá nefnilega óvart ;), mjög vinsælt sko. Alveg hægt að ímynda sér að það munaði bara einu atkvæði, tíhí.

Alltaf styttist í Eurovision! Er einmitt að hlusta núna á gömul Eurovisionlög - eins og Diggi Loo Diggi Ley og Nína - þvílíkt stuð.
Annars hlýtur Selma að komast áfram í kvöld. Ég er samt eiginlega ekkert búin að hugsa um þann möguleika á því að við komumst ekki áfram. Maður verður auðvitað að halda í íslensku hefðina og halda að við vinnum!! Og hafa áhyggjur af því að við höfum ekki efni á því að halda keppnina, haha. En allavega, skemmtið ykkur vel í kvöld :), veit að ég geri það.

mánudagur, maí 16, 2005

Jæja, þá fæ ég heimaprófið mitt á morgun. Hlakka nú ekkert voðalega til þess en vonandi gengur þetta allt. Ég sat einmitt út í glugga (glugginn opnast semsagt alveg upp á gátt og er svona 1 meter á hæð) í gær og var að læra í sólinni, voða þægilegt.
Svo styttist alltaf í Eurovision, hlakka ekkert smá til. Ég fylgist einmitt alltaf með blogginu frá Kænugarði, alveg frábært að lesa það sem Gísli Marteinn skrifar. Svo þurfti auðvitað að minna mig á það að við getum kosið Ísland í keppninni, mjög gott :).
Við náðum í bíómiðana fyrir Star Wars í fyrradag, vei vei. Svo er ein stöðin hérna að sýna allar hinar myndirnar núna um hvítasunnuhelgina, voða næs. Mynd nr. II verður einmitt sýnd í kvöld, gott að geta horft á hana og rifjað aðeins upp það sem er búið að gerast.
Hrönn og Axel áttu eins árs brúðkapsafmæli í gær, mér finnst svo stutt síðan að þau giftu sig :). Til hamingju krúsurnar mínar. Sem þýðir líka að bráðum er komið eitt ár síðan að við fórum til Flórida, væri sko alveg til í að fara til Bandaríkjanna aftur og versla. En það verður víst aðeins að bíða, þá verður bara skemmtilegra þegar að maður fer næst.

föstudagur, maí 13, 2005

Það er búið að vera æðislegt veður hérna í Árósum, bæði í dag og í gær, heiðskírt og þvílíkt heitt. Ég ákvað einmitt að skella mér aðeins í skólann í dag og hitta sálfræðinemana í hádegismat, það var voða næs að komast aðeins út og spjalla. Svo fórum við aðeins upp á þak og vorum þar í sólbaði :).
Svo er planið að fara út að borða með sálfræðinemunum 2. júní (sama dag og við eigum að skila ritgerðunum), það verður örugglega rosa gaman. Enda á ég ekkert eftir að hitta fólkið aftur fyrr en einhvern tímann í nóvember.

fimmtudagur, maí 12, 2005

Ummm, ég elska lyktina af nýslegnu grasi :).

miðvikudagur, maí 11, 2005

Það er nú bara ekkert að gerast hjá okkur hjónunum þessa dagana, erum heima að læra og förum varla út úr húsi. Enda eru bara 6 dagar þangað til að heimaprófið byrjar.
Annars er ég búin að setja inn niðurtalningar hérna til hægri (þær halda í mér lífinu þessa dagana), get varla beðið eftir að skólinn verði búinn.
En svo verður nú smá gaman þarnæstu helgi, Eurovision auðvitað bæði 19. og 21. maí og svo ætlum við að skella okkur á Star Wars 20. maí. Reyndar verð ég í heimaprófinu alla þessa daga en það hlýtur að reddast.

föstudagur, maí 06, 2005

Ríta Margit frænka mín á 5 ára afmæli í dag, til hamingju með afmælið elsku Ríta mín. Oh hvað ég væri til í að komast í afmælið til hennar á laugardaginn. Bjarklind systir (mamma hennar Rítu) gerir nefnilega bestu ostaköku í heimi, nammi namm. Svo er bara líka svo langt síðan að ég fór í barnaafmæli og gat hitt alla fjölskylduna. Ég á semsagt 9 frændsystkini en ég er bara búin að komast í eitt afmæli síðan í ágúst, ekki alveg að fíla það.

þriðjudagur, maí 03, 2005

Það eru tveir sem eiga afmæli í dag :). Grétar baunabúi og Ingibjörg vinkona, innilega til hamingju með daginn bæði tvö. Vona að dagurinn verði góður hjá ykkur.
Annars er fyrirlesturinn minn búinn og hann gekk bara rosa vel. Var reyndar frekar stressuð og stelpurnar sögðu að ég hefði talað rosa hratt en það skildist allt sem betur fer.
Svo er ég alveg að verða búin með ritgerðina í Vinnusálfræði mína og ég er ekkert smá ánægð með það því að ég er alveg að mygla yfir þessum ritgerðum. Á samt aðeins eftir að laga ritgerðina fyrir Átraskanir.
En svo á morgun er seinasti fyrirlesturinn minn í sálfræðináminu, vei vei :).

miðvikudagur, apríl 27, 2005

Pabbi minn á afmæli í dag, til hamingju með afmælið elsku pabbi minn. Vildi að ég væri á landinu svo að ég gæti komið kaffiboðið sem á að vera í kvöld en það verður víst að bíða aðeins.
Annars er nú voðalega lítið að frétta, ég er á fullu að gera fyrirlesturinn minn í Átröskunum en ég á að flytja hann núna á föstudaginn og ég kvíði nú dálítið fyrir. Hlakka líka til þegar að hann verður búinn :).
Svo í dag eru 2 kennsludagar eftir, á föstudaginn og næsta miðvikudag, jibbí.

laugardagur, apríl 23, 2005

Við erum búin að panta flugfar heim :). Lendum á Keflavíkuflugvelli þann 26. júní á miðnætti, Árni flýgur svo aftur til Árósa 24. ágúst :( en svo flýg ég aftur út 29. október og planið er að vera hérna í 3 vikur, bæði til að vera eitthvað með Árnanum mínum og líka að finna mér leiðbeinanda fyrir mastersritgerðina.

fimmtudagur, apríl 21, 2005

Jæja, þá er sumardagurinn fyrsti kominn á Íslandi :). Gleðilegt sumar allir. Ég man þegar að ég var að spila með Lúðrasveitinni að þá var alltaf kalt og rigning á þessum degi, það var semsagt ekkert voðalega gaman að spila í skrúðgöngunni. En samt gaman að hugsa til þess eftir á.
Annars er nú loksins komið á hreint hvenær Árni er búinn í skólanum sínum. Hann verður semsagt búinn 2. júní, alveg eins og ég. Gæti ekki verið betra. Við ætlum að taka bílinn 3. júní og leggja bara strax af stað í reisuna okkar. Þetta verður ógó gaman.
Svo er nokkurskonar saumó í sálfræðinni í kvöld, alltaf gaman að hitta stelpurnar :).
En jæja, ætli ég verði ekki að halda áfram að skrifa þessa blessuðu ritgerð mína, ég er alveg komin með upp í kok af henni en takmarkið er að klára hana nokkurn veginn fyrir 4. maí.

sunnudagur, apríl 17, 2005

Við fórum til Karenar og Grétars í gær, alltaf gaman að hitta þau :). Nóg af nammi og snakki og við spjölluðum rosa mikið enda frekar langt síðan að við hittumst. Svo var tekið eitt Friends spil. Eftir smá stund var ég greinilega byrjuð að lifa mig aðeins of mikið inn í spilið vegna þess að ég kallaði Grétar Chandler :). En allavega, alltaf gaman að spila þetta spil.
Svo ætla þau skötuhjú að koma til okkar á eftir og við ætlum að panta okkur pizzu, nammi namm. Fyrst að maður borðaði svona mikið í gær er alveg jafn gott að halda því áfram.

föstudagur, apríl 15, 2005

Ég sá á einu bloggi eina sem var að auglýsa eftir einbeitingu og ég ákvað bara að gera slíkt hið sama :). Endilega semsagt að senda mér einbeitingu, ég er búin að vera svo ódugleg við að skrifa undanfarna daga.
En annars verður þetta smá niðurtalningarblogg enda er ég búin að vera að dunda mér við það þegar að ég á að vera að læra, rosa sniðug ;). Það eru semsagt 19 dagar þangað til kennsla er búin, 32 dagar þangað til að heimaprófið í Skólasálfræði byrjar og 48 dagar þangað til að skólinn er búinn í sumar :). Hlakka svooo mikið til, get varla beðið.

miðvikudagur, apríl 13, 2005

Alveg ennþá minna að gerast hjá okkur núna heldur en seinast þegar að ég bloggaði og ég hélt sko að það væri ekki hægt :).
Ég er loksins búin að fá svar frá kennaranum mínum í Vinnuálfræði og hann er búinn að samþykkja ritgerðarefnið mitt. Mjög ánægð með það, sérstaklega þar sem að hann svaraði mér aðeins eftir 2 vikna bið. Þannig að núna get ég byrjað að skrifa á fullu.
En annars er semsagt voðalega lítið að frétta. Ef maður fer ekki í skólann er maður bara heima og skrifa ritgerð, allt rosa spennandi. Öfunda einmitt Helgu og Frey af því að vera að fara til New York á föstudaginn. Skemmtið ykkur rosa vel krúttin mín og njótið þess að slappa smá af, þið eigið það svo mikið skilið :).
Svo er ég reyndar að fara að flytja fyrirlestur þann 29. apríl í Átröskunum, kvíði nú dálítið fyrir því. Það er nú ekki mín besta hlið að flytja svona fyrirlestur, verð svo þvílíkt stressuð að þurfa að tala fyrir framan fólk. En það er bara gott að fá smá æfingu í þessu.

miðvikudagur, apríl 06, 2005

Alveg ekkert að gerast hjá okkur þessa dagana, samanber bloggið hjá Árna :). Ég er bara á fullu að skrifa ritgerðina mína og Árni er nýbyrjaður aftur í skólanum eftir 3 vikna frí. Ég er hinsvegar dálítið spennt að vita hvenær hann er búinn í prófum (til þess að geta planað sumarið) en Danirnir eru ekkert að flýta sér í þessum málum. Allavega ekki í deildinni hans, ég vissi hvenær skólinn myndi klárast hjá mér í vor áður en vorönnin byrjaði ;).
Annars er ég eitthvað slöpp þessa dagana, með þvílíkan hausverk, flökurt og bara almennan slappleika. Vona að ég nái þessu úr mér, hef ekki tíma til þess að vera veik núna.
Svo er alltaf að styttast í Evrópuferðina okkar, hlakka svo mikið til þegar að skólinn verður búinn, keyra um alla Evrópu og skoða alla flottu staðina sem við ætlum að sjá.

föstudagur, apríl 01, 2005

Jæja þá erum við komin aftur til Danmerkur, skólinn byrjaður hjá mér aftur á fullu og núna þarf ég að fara að skrifa ritgerðina mína í Vinnusálfræði. Ég er loksins búin að finna mér efni og er bara að bíða eftir samþykki kennarans míns og þá get ég byrjað á því að fara að skrifa. Ritgerðin í Átröskunum gengur bara ágætlega, komin með 14 bls. og um helgina ætla ég að reyna að klára sem mest í henni og snúa mér svo algjörlega að Vinnusálfræðinni. Planið er að klára þá ritgerð í lok apríl og þá tekur bara við lestur fyrir heimapróf sem verður 17. maí.
Annars er ekkert smá gott veður hérna núna, alltaf heiðskírt og alveg þó nokkuð heitt. Við hjónin fórum einmitt niður í bæ í dag og ég keypti mér rosalega flottan teinóttan sumarjakka, vei vei.
Svo hittumst við nokkrar stelpur úr sálfræðinni í gær heima hjá Regínu. Alltaf gaman að hitta þær, enda mikið hlegið, spjallað og borðað :).
En jæja, best að fara að byrja á þvílíka skemmtilega föstudagskvöldinu, kvöldinu verður nefnilega eytt í að lesa yfir heimildir, jibbí. Góða helgi allir saman.

mánudagur, mars 28, 2005

Gleðilega páska allir saman :).
Það er nú frekar langt síðan að ég hef skrifað hérna inn en það er bara búið að vera svoooo gaman hérna á Íslandi að maður hefur nú látið bloggið aðeins sitja á hakanum :). Ég er bara ekki alveg að trúa því að við séum að fara til Danmerkur á morgun því að tíminn hefur verið svo fljótur að líða.
Annars hlakka ég nú til eins og það er að fá ný gler í gleraugun mín og það gerist einmitt á morgun í flugstöðinni. Sjónin er nefnilega búin að versna um einn heilan á öðru auganum (það er ekki von að mér fannst ég vera byrjuð að sjá illa) þannig að núna er ég komin með -6,25 á hægra auga sem er frekar mikið. En semsagt um sexleytið á morgun sé ég aftur vel :).
Annars er nú bara búið að vera stíf dagskrá síðan að við komum til þess að ná því að hitta alla en maður bjóst svo sem við því. Bara frábært að geta aðeins komist heim og stytt tímann aðeins úti.

þriðjudagur, mars 15, 2005

Við erum á leiðinni heim í páskafrí :). Ákváðum semsagt í gær að kaupa okkur miða og við lendum á morgun kl. 22:30 og fljúgum til Danmerkur aftur um morguninn þann 29. Árna langaði eitthvað svo heim í gær vegna þess að hann er kominn í þriggja vikna frí og hefur ekkert að gera og það þarf nú ekki að biðja mig tvisvar um að fara heim. Jej jej jej, ég hlakka ekkert smá til að knúsa Snúðinn minn, fjölskyldu og vini :).

fimmtudagur, mars 10, 2005

Í gær var ég næstum því búin að panta flug heim fyrir okkur frá 16. mars - 29. mars en Árni tók upp á því að vera eitthvað voðalega skynsamur og fékk mig ofan af því að fara. Betra að eiga peningana í Evrópuferðinni okkar :(. Hann vildi ekki einu sinni gefa sig þegar að ég sagði honum að þá gæti hann fengið sér eins marga þrista og hann gæti torgað. En oh, hvað mig langar að fara.
Ég var svo líka nærri því búin að panta páskaegg á nammi.is en þar sem að eitt páskaegg nr. 5 frá Nóa - Síríus kostar 3.990 með sendingarkostnaði vorum við ekki alveg tilbúin til þess :(.
En mig langar svoooo mikið í páskaegg. Ef að foreldrar okkar senda okkur ekki páskaegg "hint hint" þá er Karen búin að bjóðast til þess að kaupa páskaegg þegar að þau eru heima um páskana og koma með það til okkar, ekkert smá góð :).
Annars erum við búin að breyta einu varðandi Evrópuferðina, ætlum að fara að skoða Róm líka en á móti kemur að þá verðum við styttra í Mílanó. En það er allt í lagi, okkur langar mikið meira að fara til Rómar :).

mánudagur, mars 07, 2005

Ákvað að taka eitt próf og ég er Bree í Desperative Housewifes :) sem er by the way frábær þáttaröð.
Og þetta er það sem er sagt um Bree: You´re the perfect wife, mother and housekeeper, and just a bit of a control freak. Everyone admires you, but maybe they´re just a little bit afraid of you. Step away from the souffle, ease up on the hairspray and learn to go with the flow.

laugardagur, mars 05, 2005

Varð bara að segja frá einni æðislegustu mynd sem ég hef séð lengi. Ég og Árni tókum semsagt The Notebook og hún er ekkert smá góð. Reyndar alveg ekta stelpumynd enda held ég að ég hafi aldreið grátið svona mikið yfir einni mynd :).

fimmtudagur, mars 03, 2005

Eitthvað voðalega lítið að gerast hjá mér þessa dagana. Kannski ekki skrýtið vegna þess að ég er bara 2 daga í skólanum í hverri viku og Árni er búin að vera rosalega upptekin í verkefnavinnu þannig að ég er mestmegnis ein heima :(.
Annars er ég loksin byrjuð að annarri af ritgerðunum sem ég á að skila á þessari önn. Þarf semsagt að skila 2 ritgerðum sem eru ca. 20 bls. og svo fer ég í eitt heimapróf í maí. Þannig að planið er að klára aðra ritgerðina í núna mars og hina ritgerðina í apríl og nota svo fyrri hluta maí til að læra fyrir heimaprófið, sjáum til hvernig það gengur.
Annars langar mig alveg rosalega mikið heim núna. Sakna fjölskyldunnar, vinanna og auðvitað Snúðsins okkars. Ef Árninn minn væri ekki hérna með mér þá hefði ég líklegast ekkert komið aftur eftir áramót. Alveg er það pottþétt að mig langar alls ekki að búa annars staðar en á Íslandi og þótt að við séum bara tímabundið hérna í Danmörku þá get ég ekki beðið eftir að flytja alfarin heim í sumar.

mánudagur, febrúar 28, 2005

Fannst þetta svo meiriháttar að ég varð að skella þessu inn :)

Ert þú að velta því fyrir þér hvort þú sért tilbúin(n) til að eignast barn? Þá ættirðu kannski að taka þetta próf fyrst!

Fituprófið

Smurðu hnetusmjöri á sófann og aðeins upp á gardínurnar. Settu nokkrar kjötbollur á bak við sófann og láttu þær vera þar yfir sumarið.

Leikfangaprófið

Náðu í kassa með 25 kílóum af Legó-kubbum. Fáðu vin þinn til að dreifa vel úr kubbunum á gólfið í íbúðinni. Láttu binda fyrir augun á þér. Reyndu svo að fara frá svefnherberginu og inn í eldhús og aftur til baka. Það er bannað að vera í skóm og alveg bannað að æpa því það getur vakið barnið um nætur.

Stórmarkaðsprófið

Fáðu lánað eitt dýr af millistærð (t.d. geit) og farðu með hana í næsta stórmarkað að versla. Hafðu auga með geitinni allan tímann og borgaðu fyrir allt sem hún étur eða eyðileggur.

Fataprófið

Hefurðu prófað að klæða tveggja ára gamalt barn í föt? Fáðu þér stóran, lifandi og spriklandi kolkrabba. Troddu honum í lítið innkaupanet og passaðu að hafa alla armana inni í pokanum.

Matarprófið

Kauptu þér stóra plastkönnu. Fylltu hana til hálfs með vatni og hengdu hana svo upp í loftið í snúru. Láttu könnuna sveiflast til og frá eins og pendúl. Reyndu nú að koma einni matskeið af hafragraut niður um stútinn á könnunni um leið og þú leikur flugvél með skeiðinni. Helltu svo öllu innihaldinu á gólfið.

Næturprófið

Saumaðu þér lítinn poka úr sterku efni og fylltu hann með 4-5 kílóum af sandi. Klukkan 15 tekur þú pokann upp og byrjar að ganga um gólf með hann um leið og þú raular. Þessu heldur þú áfram til kl. 21. Leggðu þá pokann frá þér og stilltu vekjaraklukkuna á 22. Þá þarftu að vakna, ná í sandpokann og syngja öll þau lög sem þú hefur mögulega heyrt um ævina. Semdu svo 10-12 ný lög og syngdu þau til kl. 4 um morguninn á meðan þú gengur um gólf með pokann. Stilltu vekjaraklukkuna á 5. Vaknaðu og taktu til morgunmat. Gerðu þetta alltaf 5 daga í röð og líttu glaðlega út!

Sköpunargáfuprófið

Fáðu þér eggjabakka. Búðu til krókódíl úr honum með aðstoð skæra og málningar. Fáðu þér svo tóma klósettrúllu og búðu til fallegt jólaljós úr henni. Þú mátt aðeins nota límband og álpappír. Að lokum skaltu fá þér tóma mjólkurfernu, borðtennisbolta og tóman Kornflakes-pakka. Búðu til alvöru eftirlíkingu af Eiffel-turninum.

Bílprófið

Gleymdu því að fá þér BMW og fáðu þér station-bíl (þið vitið þessi löngu að aftan til að geyma vagna, kerrur og alls konar fylgihluti!) Kauptu þér súkkulaðiís í brauði og settu hann í hanskahólfið. Láttu hann vera þar. Finndu krónu. Settu hana inn í geislaspilarann í bílnum. Fáðu þér stóran pakka af kexkökum og myldu þær allar í aftursætið.... Nú er bíllinn tilbúinn!

Þolpróf kvenna

Fáðu lánaðan stóran grjónapúða og festu hann framan á magann á þér. Þú getur notað öryggisnælur og nælt pokann í fötin þín. Hafðu pokann framan á þér í 9 mánuði. Að þeim tíma liðnum geturðu fjarlægt 1/10 af innihaldi pokans - 9/10 verða eftir.

Þolpróf karla

Farðu inn í næsta apótek. Settu seðlaveskið þitt opið á borðið og segðu apótekaranum að taka eins og hann vill. Farðu nú í næsta stórmarkað. Farðu inn á skrifstofu og gerðu samning við eigandann um að launin þín verði lögð inn á reikning búðarinnar um hver mánaðamót. Kauptu þér dagblað. Farðu með það heim og lestu það í ró og næði. Í síðasta sinn!

Lokaprófið

Komdu þér í samband við par sem á barn. Útskýrðu fyrir þeim hvernig þau geta bætt sig í agamálum, þolgæðum, þolinmæði, klósettþjálfun og borðsiðum barnsins. Leggðu áherslu á að þau megi aldrei láta barnið sitt hlaupa um eftirlitslaust. Njóttu kvöldsins, því þú munt aldrei aftur hafa rétt svör við öllu.

Ert þú tilbúin(n) til að eignast barn?

En svo þegar að maður horfir á þessu litlu kríli og alveg sama hvað þau hafa gert af sér þá bráðnar maður alveg ;).

fimmtudagur, febrúar 24, 2005

Það er alveg merkilegt hvað það er búið að snjóa mikið hérna í Danmörku. Maður hefur verið að heyra í Íslendingum sem hafa búið hérna í nokkur ár og þeir hafa bara aldrei séð svona mikinn snjó hérna.
Einmitt þegar að mamma og pabbi ákveða að koma í heimsókn kemur snjórinn. Mamma var nú alveg hrikalega sátt við það (eða ekki) en svo þegar að þau fóru til Köln fór að hlýna og snjórinn að hverfa. Þau keyrðu svo frá Köln til Kaupmannahafnar í gær og voru tæpan sólarhring á leiðinni (tekur um svona 10 tíma vanalega). Það var semsagt frekar mikill vindur og snjókoma í gær og þau sátu föst á þjóðveginum í 10 tíma!! Enda kunna Danir ekkert að keyra í snjór, það voru flutningabílar fastir þvers og krus á veginum. Ekki mjög góður endir á ferðalaginu þeirra. Þau hringdu í mig klukkan 10 og þá voru þau loksins komin á flugvöllinn (áttu flug kl. 12) og voru gjörsamlega að deyja úr þreytu enda gátu þau lítið sem ekkert sofið í bílnum. Og ef þau hefðu komið mikið seinna á flugvöllinn hefðu þau misst af flugvélinni. Æ ég vorkenndi þeim svo mikið. En þau geta nú hvílt sig í flugvélinni og þegar að þau koma heim.
Svo kemst Snúður loksins heim úr Kattholti í dag. Sigga systir ætlar að sækja hann svo að hann þurfi ekki að vera einn aukadag þar (mamma og pabbi geta auðvitað ekkert náð í hann í dag). Oh hvað maður verður ánægður að koma heim.

mánudagur, febrúar 21, 2005

Það var mjög gaman í stelpudjamminu á föstudaginn, fámennt en góðmennt. Ég og Helga Björt (gestgjafinn) vorum semsagt saman í eitt ár í Flensborg, gaman að sjá hana aftur. Svo var líka ein dönsk stelpa þarna þannig að maður æfðist aðeins í dönskunni :). Skrýtið hvað er auðveldara að tala dönsku eftir að maður er búin að fá sér í glas.
Svo var nú bara slappað af og lesið um helgina. Var nefnilega að kaupa mér nýja bók eftir Noru Roberts og er alveg sokkin ofan í hana. Karen og Grétar komu óvænt til okkar á sunnudaginn með bakkelsi (í tilefni konudagsins). Ekkert smá sætt af þeim. Svo fékk ég líka púsl frá Árna í konudagsgjöf, rosa gaman.
Ég og Árni erum loksins búin að ákveða hvaða borgir við ætlum að heimsækja í Evrópuferðinni okkar. Okkur langar semsagt að sjá þessar borgir (og ætlum að keyra um þær í þessari röð): Berlín, Prag, Vín, Feneyjar, Mílanó, Bern, París, Brussel og Amsterdam. Þvílíkt stuð. Ég hlakka ekkert smá til að fara.

föstudagur, febrúar 18, 2005

Jæja, þá eru foreldarnir farnir :(. Þau fóru í dag, ákváðu að vera einn dag lengur hjá okkur en koma þá ekki til okkar aftur þegar að þau eru búin að vera í Þýskalandi. En það var ekkert smá gaman að hafa þau. Ég sýndi þeim allt það helsta hérna í Århus og þau buðu okkur út að borða á XL þar sem að við fengum m.a.s. kengúrukjöt!! sem er bara mjög gott, kom mér dálítið á óvart. Svo komu þau líka með fullt af íslensku nammi og ég og Árni erum búin að vera að rífast um hver á að fá hvað :).
Svo þegar að þau náðu í bílaleigubílinn í gær þá dró ég þau í Bilka (risastór búð hérna) til þess að njóta þess að versla mikið. Við getum nefnilega alltaf bara verslað fyrir tvo daga í einu eða eitthvað (takmarkast við hvað við getum borið á hjólunum). En núna gat ég verslað alveg fullt í einu, rosa gaman.
En svo var voða skrýtið að kveðja þau í morgun, ég var einhvern veginn ekkert að ná því að þau voru að fara en núna er allt svo tómlegt.
Svo er ég að fara í stelpupartý í kvöld með Karen, það verður örugglega rosa gaman. Ég kannast sem betur fer aðeins við gestgjafann en þekki örugglega enga aðra :) en það er bara gaman.
Góða helgi allir saman og verið góð hvort við annað.

mánudagur, febrúar 14, 2005

Helgin var bara mjög fín. Það var ekkert mál fyrir Karen og Grétar að komast til okkar en þau komust svo varla inn fyrir dyrnar af því að það fennti alveg upp á miðja hurð hjá okkur :). Lögin í forkeppninni voru nú samt öll frekar léleg fyrir utan 2-3. Ég og Karen vildum að lagið Jeg tænder på dig myndi vinna enda var það flottasta lagið að okkar mati og það lag vann, jej.
En vá hvað við borðuðum mikið yfir keppninni. Ég og Árni vorum ekkert smá dugleg að buðum upp á hollustusnakk, vínber og niðurskornar gulrætur og gúrkur en þá komu Karen og Grétar með nammi og snakk með sér líka þannig að við borðuðum örugglega stanslaust í tvo tíma.
Svo á Ásta vinkona afmæli í dag. Til hamingju með afmælið elsku Ásta mín. (Sniðugt að heita Ástríður og eiga afmæli á Valentínusardag). Svo heldur þú bara afmælispartý þegar að við komum heim, hvað segirðu um það :).
Svo koma mamma og pabbi í dag. Fer niður á lestarstöð um 4 leytið til að sækja þau, get varla beðið eftir að knúsa þau.