þriðjudagur, desember 13, 2005

Fór með Jósu í bíó í gær á myndina Just like heaven. Oh ekkert smá yndisleg mynd og þó nokkur atriði þar sem við lágum í hláturskasti.

Annars er ég bara á fullu að læra núna, þarf að skrifa nokkurs konar inngang fyrir lokaritgerðina mína, ca. 4-5 bls. Þar á að koma fram hvað ég ætla mér að gera, helstu rannsóknir sem hafa verið gerðar á þessu efni, af hverju er þetta áhugavert o.s.frv. Þarf að skila þessu fyrir jól þannig að markmiðið er að klára þetta á morgun og þar sem að ég er ekki að fara í nein próf þetta árið þá ætla ég bara að skipa sjálfri mér að fara í jólafrí frá og með fimmtudeginum. Er þá nefnilega búin að öllu fyrir skólann, þarf ekki að skila hugleiðingaritgerðinni fyrr en 10. janúar þannig að ég hef nógan tíma til að lesa yfir hana og fínpússa eftir jólin.

Á fimmtudaginn ætla ég svo að fara niður í bæ og reyna að klára jólagjafirnar sem við eigum eftir. Held að ég hafi aldrei verið svona sein að klára þær, eigum reyndar bara 5 eftir þannig að það verður lítið mál. Er sem betur fer búin með Árna enda finnst mér erfiðast að kaupa handa honum. Annars er honum að batna og fer líklegast í skólann á morgun. Má ekki seinna vera þar sem að hann þarf að skila tveimur stórum verkefnum á föstudaginn en þá er hann búinn með allt sem tengist skólanum fyrir jólin.

Við ætlum svo að skella okkur á King Kong á laugardeginu. Hlakka mikið til þess. Árni ætlar reyndar niður í bæ áður vegna þess að hann á eftir að kaupa jólagjöf handa mér, hann segir að það sé svo erfitt að kaupa handa mér, skil ekkert í honum. Bara kaupa nógu mikið af bókum og þá er ég ánægð :).
Einhvern tímann um helgina ætla ég svo að horfa á Love actually, mér finnst bara vera hluti af aðventunni að horfa á hana. Yndisleg mynd í alla staði, manni líður svo vel þegar að maður er búinn að horfa á hana.

Svo eru tveir jólasveinar búnir að heimsækja okkur. Reyndar átti Árni að fá fyrst í skóinn og svo ég en þar sem að Árni var veikur þá fékk hann tvisvar í skóinn í röð (hafði semsagt gleymt að láta jólasveininn kaupa í skóinn fyrir mig) og þá fæ ég í nótt og næstu nótt. Jólasveinninn var voða góður við Árna og gaf honum Ocean's eleven í gær og svo dagatal með kettlingum, hvolpum og kanínuungum í morgun. Oh ekkert smá sætt. Reyndar spurði Árni hvort að jólasveinninn hefði ruglast í ríminu og haldið að ég ætti að fá gjöfina því að ég var svo ánægð með gjöfina hans. Dýrka dagatöl með dýrum.

Ein jólaminning svona í lokin. Þegar að ég var á skóladagheimilinu lék ég Bjúgnakræki ein jólin, mig minnir að ég hafi verið ca. 7 ára. Bjúgunum var vafið utan um bita í loftinu og hékk smá spotti niður og ég átti að hlaupa þangað og kippa þeim niður. Eitthvað hafði nú gleymst að taka með í reikninginn að ég var ekki sú stærsta í heimi þannig að ég hoppaði á fullu í svona 2-3 mínútur til að ná bjúgunum niður en ekkert gekk. Þurfti loksins að fá hjálp frá einni fóstrunni :).