Jólahátíðin hófst eiginlega í gær hjá okkur hjónunum. Byrjuðum á að fara að leiði ömmu og afa, mér finnst alltaf svo hátíðlegt að fara í kirkjugarðinn um jólin og minnast þeirra sem eru ekki lengur með okkur.
Eftir það kíktum við til Karenar í smá jólaglögg, ekkert smá æðislegt að sjá hana og knúsa. Ekki spillti fyrir að það voru 8 kettir þarna, ekkert smá yndislegir. Fórum svo til Laufeyjar og Eiðs og enduðum kvöldið á að fara til Hrannar og Axels. Frábært kvöld í alla staði.
Eitthvað gekk mér nú illa að sofa í nótt, svaf bara í 4 tíma og var semsagt vöknuð um 6. Veit eiginlega ekki af hverju. Tókum daginn semsagt snemma og fórum til ömmu og afa hans Árna með pakka til þeirra og svo fórum við til mömmu og pabba þar sem að við öll systkinin hittumst alltaf á aðfangadag til að skiptast á gjöfum.
Það eina sem er eftir núna er að gera sig tilbúinn fyrir kvöldið. Ég og Árni verðum reyndar aftur í sitthvoru lagi á aðfangadagskvöld en það verður þá bara ennþá skemmtilegra næstu jól þegar að við verðum komin í okkar eigin íbúð og höldum jólin tvö ein.
Bráðum klukkur hringja,
kalla heims um ból
vonandi þær hringja flestum
gleði- og friðarjól.
laugardagur, desember 24, 2005
Birt af Inga Elínborg kl. 12/24/2005 02:37:00 e.h.
|