sunnudagur, desember 04, 2005

Jæja, komin frá Kaupmannahöfn. Það var ekkert smá gaman hjá okkur hjónunum. Reyndar byrjaði ferðin ekkert neitt svakalega vel, við löbbuðum út úr rútunni og inn á lestarstöðina. Vorum að kaupa miða þar þegar að Árni fattaði allt í einu að við höfðum gleymt töskunni í rútunni, algjörir álfar. Hlupum út og sáum í endann á rútunni keyra í burtu. Náðum nú samt að hringja í rútufyrirtækið og fengum töskuna okkar aftur og hlógum að þessu alla helgina.

Byrjuðum semsagt að fara á hótelið okkar, vel staðsett eða alveg við aðallestarstöðina og leit ágætlega út fyrir utan það að það mátti reykja alls staðar. Meira að segja ræstingarkonan reykti á meðan hún var að þrífa herbergin. Enda báðum við um að hún myndi ekki þrífa herbergið okkar. Þannig að öll fötin okkar lykta eins og við séum nýkomin af djamminu, ógeðslegt.

Fórum svo í jólatívolí, oh það er svo frábært að labba þarna um. Alveg eins og maður sé komin í ævintýraland. Jólaskreytingar og básar með jóladóti út um allt. Keyptum piparkökukarla og 12 jólakúlur, ógó flott. Vorum þarna í ca. 2 og hálfan tíma. Fórum svo bara snemma heim um kvöldið.

Á laugardaginn byrjuðum við á að fara á skauta á Kongens Nytorv, eða réttara sagt ég fór á skauta og Árni horfði á. Ég var nú reyndar ekki lengi vegna þess að skautarnir meiddu mig svo. Þeir áttu semsagt ekki venjulega skauta í minni stærð heldur bara hokkískauta og þeir voru ekki alveg að gera sig. En samt gaman :).
Kíktum svo á Litlu Hafmeyjuna og fórum svo á vaxmyndasafnið. Ekkert smá gaman, sáum Fredrik og Mary, Mjallhvít og Bangsímon meðal annars. Enduðum daginn á að fara út að borða á Vesuvio sem er á Ráðhústorginu, nammi namm. Rosa góður matur og kíktum svo á bruggstaðinn við Tívolí, man samt ekkert hvað hann heitir.

Tókum svo rútuna kl. hálfníu í morgun og erum komin heim. Yndisleg ferð í alla staði og ég er komin í þvílíkt jólaskap. Við tókum svo nokkrar myndir og þær koma inn á næstu dögum.

Annars á Axel hennar Hrannar afmæli í dag, til hamingju með afmælið Axel!! Heyrðum einmitt í þeim áðan og litla bumbukrúttið er ekkert á leiðinni. Miðað við hvað það var að flýta sér í heiminn fyrir nokkrum vikum þá er það greinilega búið að fatta hvað það er gott að vera bara áfram inni í mallanum á mömmu sinni.