laugardagur, desember 17, 2005

Alveg búin að snúa sólarhringnum við, klukkan er núna hálffjögur að nóttu til og ég er glaðvakandi. Árni hlýtur að vera búinn að smita mig af þessari svefnvenju að vaka á nóttunni og sofa svo langt fram á dag. Reyndar sló ég nú öll met í gær (fyrradag í rauninni) þegar að ég fór að sofa á miðnætti, vaknaði eftir fjóra tíma og fór framúr. Var svo auðvitað orðin dauðþreytt um eftirmiðdaginn og lagði mig auðvitað þannig að það er kannski ekki skrýtið að ég skuli vera vakandi núna. Skil ekki hvað hefur komið yfir mig vegna þess að ég er alls ekki nátthrafn. Næ örugglega ekki að snúa sólarhringnum við fyrr en við erum komin til Íslands, þurfum nefnilega að "vakna" kl. 3 á sunnudagsnóttina til að taka lestina til Kastrup. Held að við förum bara ekkert að sofa.

Annars er ég búin að vera hugsa til þess hvað kemur mér í jólaskap. Búin að vera hlusta á Létt í gegnum netið og njóta þess að hlusta á íslensk jólalög, mér finnst þau æði. Mér finnst íslensk jólalög (og þá sérstaklega þessi í eldri kantinum) einhvern veginn koma mér í meira jólaskap heldur en þessi erlendu.
Reyndar held ég að ég komist í mesta jólaskap á Þorláksmessu. Hef eiginlega alltaf eytt deginum í að pakka inn fyrir mömmu og pabba (er alltaf löngu búin að pakka inn okkar gjöfum), hlusta á jólalög og bara njóta þess að vera með foreldrunum. Mamma og pabbi borða alltaf skötu um kvöldið og mér finnst ómissandi að vera með þeim þegar að þau borða, þó að mér finnist skata frekar vond finnst mér skötulyktin svo jólaleg. Svo sýður mamma hangikjötið svona klukkutíma eftir að þau eru búin að borða skötuna og þá kemur þessi yndislega jólalega lykt.

Þegar að ég og Árni bjuggum á Laugateiginum bjuggum við reyndar til okkar eigin hefð, keyptum pússl og við sátum á Þorláksmessukvöld og pússluðum. Vorum með Nóa konfekt til að narta í og jólaöl, hlustuðum á jólalög og höfðum það bara kósý. Ætlum pottþétt að halda í þessa hefð þegar að við kaupum næstu íbúð.