miðvikudagur, maí 03, 2006

Það eru tveir sem eiga afmæli í dag, innilega til hamingju með afmælið elsku Ingibjörg og Grétar. Njótið dagsins vel :).

Ég fór í keilu í gær með Rakel og Guðlaugu fyrrverandi Landsbankapíum, skemmtum okkur þvílíkt vel. Reyndar tapaði ég báðum leikjunum en það skiptir ekki öllu. Fórum svo í ísbíltúr þar sem að ég fékk mér fyrsta ísinn síðan að ég kom heim, nammi namm.

Í dag eru svo akkúrat þrjár vikur þangað til að ég þarf að senda ritgerðina, ég er ennþá með ritstíflu og veit ekkert hvernig þetta á eftir að verða. Allir að hugsa vel til mín :).

laugardagur, apríl 29, 2006

Við hjónin fórum í dag og heimsóttum Helgu, Frey og litla prinsinn á spítalann. Oh maður er ekkert smá sætur, alveg eins og mamma sín :).

Annars fór mestallur dagurinn í að hjálpa Sollý systur að tæma íbúðina sína en hún flytur til Englands á þriðjudaginn. Frekar skrýtið að hugsa til þess að hún og börnin hennar séu að flytja til annars lands og missa af uppvexti barnanna en maður verður bara að vera duglegur að heimsækja þau. Vona bara að þeim eigi eftir að líða vel.

Á morgun er svo afmælisboð hjá Ingibjörgu skvís, alltaf gaman að vera boðin í afmæli og hitta vinkonurnar. Ingibjörg er orðin svaka myndarleg enda komin ca. 32 vikur á leið með annað barnið sitt. Það eru allir annaðhvort ófrískir eða með nýfædd börn í kringum okkur þessa dagana :) sem er bara skemmtilegt því að það er svo yndislegt að knúsa þessi litlu kríli.

fimmtudagur, apríl 27, 2006

Pabbi minn á afmæli í dag, innilega til hamingju með afmælið elsku pabbi. Við erum einmitt á leiðinni þangað í smá afmæliskaffi, alltaf svo gaman að hitta öll systkinin og systkinabörnin í einu :).

Annars komu stelpurnar til mín í gær og við byrjuðum að plana gæsapartýið hennar Helgu, oh hvað við skemmtum okkur vel við að skipuleggja. Verðum nú ekkert alltof kvikindislegar en samt smá, tíhí.

En vonandi eigið þið öll góða helgi, helgin hjá mér samanstendur af flutningum og ritgerðarskrifum, ótrúlega skemmtilegt.

miðvikudagur, apríl 26, 2006

Kl. 1:03 í nótt kom litli prinsinn þeirra Helgu og Freys í heiminn, 17 merkur og 54 cm. Innilega til hamingju með soninn og við hlökkum mikið til að sjá þann litla og knúsa ykkur öll.

sunnudagur, apríl 23, 2006

Það er enginn tími til að skrifa þessa blessuðu ritgerð því að maður er alltaf svo upptekinn við að hitta annað fólk :). Skemmti mér þvílíkt vel á miðvikudaginn með Jósu, fórum fyrst á Kaffibrennsluna og spjölluðum um heima og geima. Ég spurði hana svo hvert hana langaði að fara og hún sagði Glaumbar (greinilega búin að smita hana) þannig að við kíktum þangað. Reyndar var nú eitthvað voðalega dauft þar inni þannig að við fórum bara fljótlega heim.

Á föstudaginn buðu Helga og Freyr okkur og Karen & Grétari í mat. Reyndar komst Árni ekki vegna deadline á einhverju í sambandi við ritgerðina en við skemmtum okkur bara líka fyrir hann. Helga er orðin þvílíkt mikil um sig enda komin viku framyfir í dag, þeim er nú eitthvað farið að lengja eftir litla krílinu.

Í gær var svo þrítugsafmæli hjá henni Beggu, geðveik íbúð sem þau búa í, frábærar veitingar og vínið flæddi út um allt. Fórum svo niður í bæ þar sem að ég hitti Hrönn og við skelltum okkur einu sinni enn á Glaumbar og dönsuðum eins og við fengjum borgað fyrir það. Ekkert smá gaman.

Svona í lokin þá langar mig:
* að fá Snúðinn okkar aftur á heimilið, minnst 9 mánuðir í að það gerist :(
* að eiga einhvern pening og fara þá til Bandaríkjanna í verslunarferð
* að geta keypt okkur bíl
* að geta keypt okkur íbúð
* að ég væri búin með ritgerðina og komin með framtíðarvinnu

En þegar að maður lítur á björtu hliðarnar:
* á ég yndislegan mann sem tekst alltaf að peppa mig upp þegar að ég er í svartsýniskasti
* á ég frábæra vini og fjölskyldu
* við erum flutt aftur til Íslands
* erum við alveg að verða búin með námið okkar
* bara mánuður eftir af ritgerðarvinnu
* er sumarið alveg að koma og með því fylgir grillmatur, matarboð, útilegur o.fl.
* er ég komin með sumarvinnu

Og þar sem að peningar geta ekki keypt hamingju eða vini & fjölskyldu sem styðja okkur í öllu sem að við gerum og alltaf er hægt að leita til þá vega björtu hliðarnar þó nokkuð mikið meira og því verður maður bara að vona að allt hitt reddist að lokum.

miðvikudagur, apríl 19, 2006

Jæja, páskarnir búnir þetta árið. Það var nóg að gera alla páskana, vorum nú reyndar bara heima á föstudaginn langa en á laugardaginn fórum við í partý hjá Söru skvís. Skemmtum okkur rosalega vel og ég söng m.a.s. nokkur lög í Singstar. Hélt að það myndi aldrei gerast :).

Á páskadag var svo páskaeggjabingó með tengdafjölskyldunni minni þar sem við hjónin unnum samtals 6 egg nr. 1, alveg alltof mikið. Við vorum svo líka búin að kaupa okkur tvö lítil páskaegg þannig að við stóðum á beit eiginlega allan páskadag. Málshátturinn minn passaði rosalega vel við mig: Þangað kemur kötturinn sem honum er klórað.

Svo fór ég í rannsókn hjá Íslenskri erfðagreiningu í dag. Ætla nú ekkert að vera að opinbera af hverju ég fór í rannsókn en langaði bara að tjá mig um hvað starfsfólkið hjá þeim er yndislegt. Þakkaði mér margsinnis fyrir að gefa kost á mér í rannsóknina, Árni þurfti að bíða eftir mér í nokkurn tíma og það var alltaf verið að bjóða honum eitthvað að drekka eða borða og það er svo þægilegt andrúmsloft þarna. Maður býst nefnilega ekki við þessu því að starfsmenn á heilbrigðissviðinu eru nú ekki með besta orðsporið varðandi framkomu.

En svo gengur þetta ekki lengur með ritgerðina mína. Ég er einhvern veginn ekki að komast í gírinn með að klára hana. Átti að senda leiðbeinandanum mínum niðurstöðurnar mínar strax eftir páska en er ekki búin að því ennþá. Ætla að miða við að senda honum þær á föstudaginn. En þegar að niðurstöðurnar eru búnar þá er nú einungis umræðan eftir og það er ekkert erfitt að skrifa hana. Verð bara að vera duglegri :).

Hinsvegar ætla ég nú að kíkja út í kvöld, með henni Jósu sálfræðigellu. Hlakka endalaust mikið til að sjá hana og spjalla enda erum við ekkert búnar að hittast síðan í janúar. Fáum okkur kannski nokkra bjóra og svona. Á laugardaginn er svo þrítugsafmæli hjá vinkonu hans Árna þannig að það er bara feikinóg að gera í félagslífinu hjá okkur enda er það langskemmtilegast.

föstudagur, apríl 14, 2006

Búin að ætla að vera svo dugleg að læra en það hefur ekki alveg gengið eftir.
Fór með Helgu til Ástu og Ívars á miðvikudaginn til að skoða litlu snúlluna þeirra. Maður er sko langsætastur með mikið rautt hár og alveg eins og pabbi sinn. Í gær var hún skírð og fékk nafnið Eyrún Ólöf, innilega til hamingju með fallega nafnið þitt snúllan mín. Hún var nú bara hin rólegasta í skírninni nema rétt á meðan þegar verið var að skíra hana.

Um kvöldið fórum við svo til Karenar og Grétars og spiluðum Buzz í Playstation. Þvílíkt skemmtilegur leikur og við veltumst um af hlátri meiri hlutann af kvöldinu. Það er alltaf svo gaman að hitta þau enda söknuðum við þeirra endalaust mikið þegar að þau fluttu frá Árósum.

Í dag er svo stefnan tekin á sumarbústað rétt hjá Flúðum. Ég, Sigga systir og Adam ætlum að kíkja á Bjarklindi og Vigga. Það er svo næs að komast aðeins út í sveitina þótt að það sé bara einn dagur.

En vonandi njótið þið öll páskana. Ég ætla sko alveg að njóta þess að hafa afsökun til að læra ekki en svo byrjar lærdómurinn aftur á mánudag.

mánudagur, apríl 10, 2006

Það er svo yndislegt að vera flutt heim. Búið að vera nóg að gera síðan að við komum, hittum m.a. Karen og Grétar í hádegismat á Vegamótum, fórum í kvöldmat til Helgu sem á nú bara að fara að eiga á næstu dögum enda orðin þvílíkt stór :), heimsókn til Hrannar og Axels og kveðjupartý hjá Sollý systur en hún er að flytja til Englands í lok mánaðarins. Við systurnar skelltum okkur einmitt á Glaumbar eftir partýið og tókum nokkur dansspor, alltaf gaman að fara á Glaum. Hinsvegar eigum við ennþá eftir að knúsa Snúðinn okkar, komumst ekki til þess í seinustu viku þannig að ég hlakka svaka mikið til að hitta hann á eftir.

Reyndar dó Sóli, hundurinn þeirra Hrannar og Axels, á fimmtudagsnótt. Greyið manns, maður var orðinn svo veikur en við gátum því miður ekki kvatt hann. En honum líður allavega betur núna.

Svo er pínku skrýtið að hugsa til þess að maður þurfi að fara að læra. Alltaf þegar að við höfum komið til Íslands þá höfum við verið í fríi en nú þýðir það ekki. Aðeins 45 dagar þangað til að ég þarf að senda ritgerðina til Danmerkur. En hinsvegar verður nóg að gera næstu daga til að lyfta sér upp. Skírn hjá Ástu og Ívari á fimmtudag, spilakvöld á fimmtudagskvöld, partý á laugardag og svo auðvitað páskaeggin :).

fimmtudagur, apríl 06, 2006

Jæja þá erum við lent á Íslandinu góða :). Þvílíka rokið sem tók á móti okkur, alveg ekta íslenskt veður. Enda fann ég alveg svona: Ég er komin heim tilfinningu, kannski smá væmið en hey maður má það stundum.

Annars voru síðustu dagarnir okkar rosalega fínir. Mánudagurinn var náttúrulega bara rugl, vöknuðum kl. 7 og vorum á fullu allan daginn að flytja og þrífa. Edda var svo yndisleg að koma og hjálpa okkur að þrífa, takk aftur Edda mín. Bjargaðir okkur alveg. Vorum svo ekki komin til Hildar og Konna fyrr en um hálftíu um kvöldið. Rotuðumst um leið og höfuðið snerti koddann.

Þriðjudagurinn var rosalega næs, ég og Hildur röltum niður í bæ og kíktum í nokkrar búðir. Fórum svo á CuCos um kvöldið þar sem að við hámuðum í okkar þennan geðveika mat. Fékk mér svo girnilega súkkulaðiköku í eftirrétt að allir fylgdust með hverjum bita sem ég setti upp í mig :). Svo var bara farið heim til Hildar og Konna þar sem Árni hélt sirkussýningu fyrir okkur, smá einkahúmor. Vöknuðum kl. 6 á miðvikudeginum og fórum í lestina. Takk enn og aftur elsku Hildur og Konni fyrir að leyfa okkur að gista, skemmtum okkur geðveikt vel með ykkur. Fullkominn endir á Árósardvölinni :).

sunnudagur, apríl 02, 2006

Síðustu dagarnir hérna í Árósum eru búnir að vera algjör snilld. Fór og hitti leiðbeinandann minn á fimmtudaginn, hann er mjög ánægður með það sem ég er komin með en skellti jafnfram þeirri sprengju á mig að ég þarf að skila 1. júní í stað 1. júlí. Hann var meira að segja það bjartsýnn að stinga upp á að kannski vildi ég bara skila 1. maí. En ég þarf semsagt að skila 1. júní vegna þess að hann verður gestafyrirlesari í allt sumar á Ítalíu. Ég fékk nú smá áfall fyrst en eftir að ég skoðaði það sem ég er búin með þá verður þetta minnsta málið :). Hlakka bara meira til að skila henni mánuði fyrr.

Ég kíkti á uppáhaldskaffihúsið mitt með Eddu á föstudaginn þar sem við töluðum um allt mögulegt, alltaf jafn gaman að hitta hana og spjalla aðeins og ekki spillti fyrir að ég gæddi mér á frábæru ostakökunni frá Baresso á meðan :).

Á laugardaginn vorum við hjónin rosa dugleg að pakka og ganga frá ýmsum hlutum en ég ákvað svo að skella mér í afmæli hjá Kötu í sálfræðinni. Vá hvað ég skemmti mér vel. Partýið var frábært, allur hópurinn fór svo niður í bæ á stað sem heitir Römer (minnir mig) og þar var besta tónlist sem ég hef heyrt á skemmtistað hérna í bæ. Við vorum stanslaust á gólfinu í tæpa 3 tíma. Kom heim um hálfsex en var svo vöknuð kl. hálfellefu, ótrúlega hress. Dagurinn í dag fer í að ganga frá stóru hlutunum okkar og svo byrjar helsta skemmtunin, þrifin!!

fimmtudagur, mars 30, 2006

Allt í drasli þessa dagana hjá okkur. Kassar út um allt og dót á öllum borðum sem á eftir að pakka niður :). Finnst tilhugsunin um það að við þurfum að flytja aftur í september og svo aftur þegar að við kaupum okkur íbúð ekkert voðalega heillandi þessa stundina. En vá hvað maður getur safnað að sér miklu drasli á einu og hálfu ári og ótrúlegt hvað kemst fyrir í þessari litlu íbúð. Erum semsagt komin langleiðina með pakkninguna, helgin fer í að taka niður hillur, sparsla og þrífa.

Annars er ég búin með 2/3 af ritgerðinni þannig að ég skilaði inn til skólans staðfestingu á því að ég myndi skila 1. júlí. Rosa fínt að vera búin að ákveða fastan dag og ég hlakka endalaust mikið til þess þegar að ég get skilað henni.

Tilhugsunin um að vera að fara frá Árósum er dálítið blendin, ég er auðvitað búin að hlakka til að flytja til Íslands frá því að við komum en ég á eftir að sakna vinanna ótrúlega mikið. Finnst skrýtið að ég hafi náð að kynnast þeim svona vel á stuttum tíma þar sem að ég hleypi fólki ekki mjög auðveldlega að mér. En þau eru öll svo yndisleg að það er kannski engin furða.

En ætla að halda áfram að pakka og drasla meira til :). Þetta er örugglega í síðasta skipti sem ég blogga frá Árósum, heyrumst aftur á Íslandi.

sunnudagur, mars 26, 2006

Helgin hjá okkur er búin að vera rosalega fín, enda er þetta seinasta helgin sem við höfum í að gera ekki neitt. Árni kíkti út með nokkrum strákum á föstudaginn, þeir skelltu sér á Hereford og drukku nokkrar rauðvínsflöskur. Ég fór svo út í gær með nokkrum sálfræðiskvísum, fórum fyrst á kaffihús og svo á Gaz station. Skemmti mér þvílíkt vel þótt að tónlistin á Gaz hafi ekki alveg verið að gera sig.
Kom heim um þrjúleytið sem var í rauninni um fjögurleytið því að við erum komin á sumartíma hérna í Danmörku. Ekki er nú mjög sumarlegt hjá okkur, það snjóaði í nótt og núna er slydda :).

En næsta vika fer í að pakka og ganga frá öllum okkar málum. Flytjum þarnæsta mánudag, sýnum íbúðina á þriðjudagsmorgninum og fljúgum heim á miðvikudeginum. Hildur og Konni voru svo yndisleg að bjóða okkur að gista hjá þeim seinustu tvær næturnar, rosa þægilegt að þurfa ekki að taka hótelherbergi.

En bara 10 dagar í heimkomu, jibbí. Ætla sko að fara strax í Kattholt og knúsa Snúðinn minn, er búin að sakna hans endalaust mikið.

fimmtudagur, mars 23, 2006

Kl. 21:44 í gærkvöldi kom prinsessan þeirra Ástu og Ívars í heiminn. Innilega til hamingju með litlu dótturina og við getum ekki beðið eftir að koma heim og knúsa ykkur öll!!

Jæja, þá er annað barnið í þessum vinahóp komið og eftir ca. mánuð kemur það þriðja. Skemmtilegt sumar framundan með fullt af litlum börnum til að knúsa.

laugardagur, mars 18, 2006

Það var svo gaman á stelpudjamminu í gær. Kvöldið byrjaði hjá Hildi þar sem að ég, Víó, Edda og Sigga Lóa fengum rosa góðan fordrykk, Pina Colada með ferskum ananas, nammi namm. Fengum svakalega góðan mat á veitingastaðnum, þeir eru með gómsætasta forréttarhlaðborð sem að ég hef smakkað, hummus, djúpsteika smokkfiska, sushi, prosciutto og margt fleira. Ég fæ bara vatn í munninn við tilhugsunina. Fórum svo til Eddu og allt í einu var klukkan orðin svo margt að við komumst aldrei á kokkteilabarinn, fórum bara beint á Gaz station til að dansa. Fórum heim um fjögurleytið, enda byrjaði djammið klukkan hálfsex :). Takk fyrir frábært kvöld, stelpur.

Í dag eru svo bara 18 dagar þangað til að við komum heim, tíminn líður ekkert smá hratt. Ritgerðin hjá mér gengur bara vel, ég er búin með fræðilega hlutann af skýrslunni minni og er meira en hálfuð blaðsíðulega séð. Hlakka nú samt til þegar að þetta verður búið :). Annars finnst mér ég hafa ekkert að segja þessa dagana, enda er það ástæðan fyrir því að það líður svona langt á milli færslna, finnst ég alltaf vera að tönglast á því sama.

mánudagur, mars 13, 2006

Seinasta helgi einkenndist mest af afslöppun, við lærðum eiginlega ekki neitt en slöppuðum þeim mun meira af :). Fórum til Hildar og Konna á laugardagskvöldið og elduðum saman þennan æðislega mat, sátum svo frameftir kvöldi og spiluðum Catan. Alltaf svo gaman að hitta þau.

Er strax byrjuð að hlakka til næstu helgi. Ætlum nefnilega nokkrar skvísur að fara á djammið. Kvöldið byrjar á fordrykk hjá Hildi, svo farið verður út að borða á Cucos sem er grískur staður. Eftir matinn er förinni heitið til Eddu þar sem að stelpupartýi verður slegið upp og svo er planið að fara á kokkteilabar niðri í bæ og fara svo að dansa :). Hljómar ekkert smá vel enda hlakka ég þvílíkt til.

þriðjudagur, mars 07, 2006

Voðalega lítið að gerast hjá okkur í Árósum, erum bara alla daga að læra. Enda gengur ritgerðin ágætlega, komin með 40 bls. og var að senda leiðbeinandanum mínum helminginn af því til yfirlestrar. Vona bara að hann verði sáttur við það sem komið er.

Ég horfði á March of the penguins um helgina. Ekkert smá yndisleg mynd, ótrúlega flott myndataka og alltaf svo skemmtilegt að fylgjast með dýrum :). Þannig að það kom mér nú ekki á óvart að hún skyldi vinna Óskarinn fyrir bestu heimildamyndina, átti það alveg skilið.

Svo styttist nú alltaf í heimkomu, minna en mánuður. Var líka að fatta að það eru 3 mánuðir þangað til að við förum til Mallorca með tengdafjölskyldunni minni. Verðum í húsi með sér sundlaug og alles, ekkert smá gaman. Ætla að njóta þess að liggja við sundlaugarbakkann, með sólhlíf og lesa bækur. Markmiðið er einmitt að vera búin með ritgerðina þá enda verða þá bara tvær vikur í skil.

föstudagur, mars 03, 2006

Sjaldan er ein báran stök. Mágur hans pabba, Maggi, lést núna á þriðjudaginn. Maggi var giftur Laufeyju sem lést fyrir þremur vikum. Maður getur nú varla ímyndað sér hvernig börnunum þeirra líður, nýbúin að missa mömmu sína og þá kveður pabbi þeirra þennan heim. Örugglega mikil sorg á heimilum þeirra núna, allóþyrmileg minning á hvað þetta líf er stundum óskiljanlegt.

mánudagur, febrúar 27, 2006

Síðustu dagar eru búnir að vera ótrúlega næs. Laugardagurinn var tekinn í leti en um kvöldið var farið í æðislegan mat + spjall hjá Tótu og Gumma. Takk aftur fyrir okkur :). Í gær var ég bara nokkuð dugleg að læra en í dag fór ég og keypti mér 3 bækur eftir uppáhaldshöfundinn minn og eru þær síðbúin afmælisgjöf frá Hrönn, takk dúllan mín. Ég má reyndar ekki byrja að lesa þær strax því að þá myndi ég ekkert vinna í ritgerðinni en ég hlakka endalaust til þegar að ég get byrjað að lesa þær.

Hitti svo Hildi og Eddu sálfræðigellur á kaffihúsi í dag, sátum í rúmlega tvo tíma og spjölluðum. Þvílíkt skemmtilegt enda alveg kærkomin hvíld að komast aðeins út úr húsi.

fimmtudagur, febrúar 23, 2006

Ritgerðin mjakast svona áfram, finnst samt að ég mætti vera duglegri. Er búin að prófa að taka netsnúruna úr sambandi og ég held að það sé bara málið. Fara eitthvert sem hún nær ekki (er samt frekar erfitt því að sá staður er rúmið) og skrifa þar. En svo er auðvitað svo auðvelt að stinga henni í samband aftur :).

Árni er kominn með skrifstofu í skólanum og er þar flestalla daga frá 9-5. Voða gott fyrir hann því að hann getur alls ekki lært heima, hann er semsagt örugglega búin að vera duglegri þessa fjóra daga heldur en allan seinasta mánuð, tíhí. Hann fær nú samt örugglega of stóran skammt af "tali" þegar að hann kemur heim. Ég er með svo uppsafnaða talþörf þegar að hann kemur heim að hann verður uppgefinn á að hlusta á mig.

Annars er ég búin að vera að horfa á Prison Break þættina og oh my god hvað þeir eru góðir. Þeir og Despó deila fyrsta sætinu yfir bestu þættina að mínu mati. Veit að ég er örugglega dálítið sein að fatta þessa þætti en hey, betra seint en aldrei. Ekki spillir svo fyrir hvað aðalleikarinn er svakalega heillandi.

þriðjudagur, febrúar 21, 2006

Ég er voðalega dugleg að vafra á netinu um þessar stundir, kem mér einhvern veginn ekki í þann gír að byrja strax á morgana á ritgerðinni. Fann einmitt þessa síðu, endilega kíkið inn á hana og merkið við hvaða 5-6 orð ykkur finnst lýsa mér best, ofsa gaman :).

Hnuss, nú er ég ekki sátt. Síðasta færslan mín (frá 18. feb) virðist bara hafa horfið allt í einu, ég finn hana ekki einu sinni inn á síðunni minni á blogger. Skrýtið.

þriðjudagur, febrúar 14, 2006

Ásta vinkona á afmæli í dag. Innilega til hamingju með afmælið elsku Ásta mín. Njóttu dagsins krútta :). Þú færð svo almennilegt afmælisknús í apríl.

Ég horfði á Hotel Rwanda og Crash um helgina. Ég á eiginlega engin orð til að lýsa þessum myndum, mér finnst ekki nægja að segja að þær hafi verið ótrúlega góðar.
Hotel Rwanda er svo átakamikil, ég var með tárin í augunum eiginlega allan tímann meðan að ég horfði á hana. Ekki bara vegna þess sem kom fyrir fólkið heldur líka vegna þess að ég skammaðist mín fyrir að vera hluti af alþjóðasamfélaginu sem gerði nákvæmlega ekki neitt til að hjálpa þessu fólki.
Crash er bara frábær í alla staði, ég held að allir myndu hafa gott að horfa á hana og finna að þeir séu með "innbyggða" fordóma. Ekki vegna þess að þessir fordómar hafa við eitthvað að styðjast heldur er þetta innprentað í mann frá unga aldri, t.d. frá fjölmiðlum. Allavega, mæli með þessum myndum fyrir alla.

sunnudagur, febrúar 12, 2006

Gærkvöldið fór nú aðeins öðruvísi en planað var. Ég og Hildur ákváðum semsagt bara að slá þessu kvöldi upp í allsherjar djamm. Fórum niður í bæ um miðnætti en skildum strákana eftir heima hjá þeim sötrandi rauðvín. Þræddum nokkra staði áður en við enduðum á Gas station og dönsuðum frá okkur allt vit :). Alveg frábært kvöld, skemmti mér þvílíkt vel enda fórum við ekki heim fyrr en um fimmleytið.

Dagurinn í dag er svo bara búinn að fara í rólegheit. Horfði auðvitað á Tíminn líður hratt, dýrka þennan þátt og er einmitt búin að safna nokkrum spurningum í sarpinn fyrir Eurovisionpartý. Forkeppni Dana fyrir Eurovision var einmitt í gær og vann 17 ára stelpa frá Árósum keppnina. Ég man nú ekkert hvað hún heitir því að ég vildi að annað lag myndi vinna sem bar nafnið En som dig. Þvílíkt flott lag en Danir voru greinilega ekki sammála mér og Hildi.

laugardagur, febrúar 11, 2006

Takk elskurnar, fyrir kveðjurnar í síðustu færslu. Alltaf gott að fá bloggknús :).

Annars erum við hjónin bara heima þessa dagana og erum að vinna í ritgerðinni.
Reyndar fór ég út að borða í gær með nokkrum vinkonum úr MR sem eru líka í námi hérna í Árósum, m.a. ein sem er í sama námi og ég, bara einu ári á eftir. Fórum á Indian Curry House þar sem við fengum nokkuð góðan mat og kíktum eftir það á fredagsbarinn í sálfræðideildinni (þar sem fleiri sálfræðingar bættust í hópinn hjá okkur). Það var nú frekar léleg stemmning þar þannig að við fórum fljótlega á fredagsbar hjá arkitektadeildinni. Enduðum kvöldið svo á að fara á einhvern kokkteilabar niðri í bæ og sátum þar og spjölluðum saman. Rosa skemmtilegt kvöld.

Í kvöld er svo stefnan tekin til Hildar og Konna til að spila Catan, jibbí. Verður örugglega mjög gaman.

þriðjudagur, febrúar 07, 2006

Alltaf sorglegt að fá fréttir um að fjölskyldumeðlimur sé dáinn. Mamma og pabbi hringdu í gær til að segja mér að Laufey, systir hans pabba væri látin. Hún lést úr krabbameini aðeins 67 ára gömul. En ég hugga við mig það að henni líður allavega vel núna.
Ég fór að hugsa til þegar að ég var lítil og við keyrðum til Akureyrar og gistum hjá Laufeyju og Magga. Alltaf svo gaman að koma til þeirra, húsið fullt af börnum til að leika við og ég skemmti mér alltaf svo vel.
Ég er nú dálítið sorgmædd yfir því að komast ekki í jarðarförina sem verður á morgun, hugur minn verður allavega hjá fjölskyldunni á morgun.

mánudagur, febrúar 06, 2006

Þvílíkt gaman að fá tengdamömmu og Fjólu í heimsókn á laugardagskvöldið. Þær komu með íslenskt nammi, graflax + graflaxsósu, ekkert smá gott. Við höfðum það bara næs um kvöldið og þær fóru svo eldsnemma á sunnudagsmorgninum, hefðum alveg viljað hafa þær lengur.

Við hlustuðum svo á Söngvakeppnina á sunnudaginn. Ég hef aldrei fílað Sylvíu Nótt (og mun aldrei koma til með að taka hana í sátt) en ég hinsvegar dýrka lagið hennar. Búin að hlusta á það endalaust oft. Ég er samt á báðum áttum með hvort að ég vilji að hún vinni. Æðislegt lag en hún er ekki besta landkynningin miðað við hvernig hún hagar sér og talar.

Við horfðum líka á spurningakeppninga Tíminn líður hratt, oh hvað ég elska svona þætti sem tengjast Eurovision. Búin að horfa á tvo eldri þættina líka og bíð spennt eftir næsta þætti. Alveg búin að ákveða að ef við höldum Eurovisionpartý í maí þá verður spurningakeppni líka :).

laugardagur, febrúar 04, 2006

Hvet alla til að skrifa undir þessa áskorun.

Við undirrituð skorum á alla alþingismenn að styðja jafnrétti samkynneigðra í verki og samþykkja bæði stjórnarfrumvarp um réttarbætur og breytingartillögu sem veitir forstöðumönnum safnaða heimild til vígslu samkynhneigðra para. Um leið mótmælum við afskiptum biskups af málinu enda óviðunandi að hans afskipti takmarki rétt annara trúfélaga. Það er ekki eftir neinu að bíða. Við styðjum rétt samkynhneigðra til fjölskyldulífs og þar með hjónavígslu og heitum á þingmenn að standa með jafnréttinu og gegn misrétti.

föstudagur, febrúar 03, 2006

Ég og Árni eigum 6 ára afmæli í dag. Vá hvað tíminn líður hratt. Í tilefni dagsins ætlum við að fara út að borða, eigum reyndar eftir að ákveða staðinn en við ætlum bara að labba meðfram síkinu og sjá hvaða stað okkur líst best á.

Jæja, ekki gekk það eftir hjá strákunum að vinna Norðmenn, því miður. Ég er nú samt rosa stolt af þeim, 7. sæti á EM sem er næstbesti árangur okkar á því móti. En þeir standa sig bara betur næst og hafa þá alla sína leikmenn í toppstandi. Alexander og Einar meiðast það mikið að þeir geta ekki spilað meira, Óli missti af tveimur leikjum og þurfti alltaf að fá staðdeyfingu til að geta spilað og Garcia var aldrei inni í myndinni út af táaðgerð, ekki beint draumastaða.

Á morgun koma svo tengdamamma og Fjóla, systir hennar í örheimsókn. Ég held að við höfum aldrei fengið styttri heimsókn, þ.e.a.s. þegar að gestirnir gista hjá okkur. Þær koma líklegast um níuleytið á laugardagskvöldið og fara um sjöleytið á sunnudagsmorgni. Þær eru semsagt að fara á sýningu í Herning varðandi búðina sína. Hlökkum til að sjá þær þótt að það sé svona stutt.

Var næstum búin að gleyma aðalfréttunum, erum semsagt búin að segja upp íbúðinni og þurfum að skila henni 3. apríl sem þýðir að við komum heim 4. eða 5. apríl, jibbí. Erum reyndar ekki búin að kaupa miðana en förum að gera það fljótlega.

Annars er ég rosalega ánægð með Energi Danmark. Fengum ávísun frá þeim fyrir viku síðan upp á 800 dk. Í bréfi sem fylgdi með var sagt að veltan hjá þeim hefði verið það mikil að þeir endurgreiddu öllum viðskiptavinum sínum ákveðið hlutfall af notkun. Í gær kom svo önnur ávísun frá þeim upp á 2.200 dk. og var það vegna þess að við höfum greitt of mikið til þeirra á seinasta ári. Alltaf gaman að fá endurgreitt :).

fimmtudagur, febrúar 02, 2006

Ég er svo stolt af strákunum okkar. Þótt að þeir hafi ekki sigrað Króatana þá stóðu þeir samt uppi í hárinu á Ólympíumeisturunum. Það sem mér finnst nú samt sárast er að núna er það í höndum annarra hvort að þeir komist áfram í undanúrslitin, þ.e.a.s. þótt að við vinnum Noreg þá þurfa aðrir að tapa til að við komumst áfram. En maður vonar bara það besta.
Hinsvegar er ég ekkert smá fúl út í danska sjónvarpið, þeir sýna eiginlega alltaf tvo leiki á dag en aldrei íslensku leikina, ullabara. Ég ætlaði auðvitað að horfa á þegar að við spiluðum á móti Dönum en sofnaði rétt áður en leikurinn byrjaði (var eitthvað voðalega þreytt það kvöld). Þannig að núna verða strákarnir að komast áfram því að þá get ég vonandi séð þá í sjónvarpinu :).
Annars væri ég alveg til í að vera heima núna, fyrir utan hvað það er gaman að geta horft á leikina í sjónvarpi þá er bara alltaf svo mikil stemmning heima fyrir handboltanum. Reyndar er ég mjög þakklát fyrir að geta hlustað á leikina í gegnum netið, veit ekki hvað ég myndi gera ef það væri ekki hægt.

þriðjudagur, janúar 31, 2006

Vá hvað strákarnir okkar stóðu sig vel gagnvart Rússum!! Unnu með tveimur stigum, þvílíkt flott hjá þeim. Hlustaði á leikinn í gegnum netið og iðaði í sætinu allan tímann.

Annars er ég að horfa núna á Brokeback Mountain, Heath Ledger og Jake Gyllenhaal sýna báðir stórleik. Skil mjög vel að þessi mynd hafi fengið flestar tilnefningar til Óskarsins, sorgleg en jafnframt ótrúlega góð.

Það er allt vitlaust hérna í Danmörku út af því að Jyllands-Posten birti skopmyndir af Múhameð og hefur þetta vakið mikla reiði hjá múslimum. Þeir hvetja t.d. til þess að fólk í Sádi-Arabíu hætti að kaupa danskar vörur (og í mörgum verslunum hafa allar danskar vörur verið teknar úr hillunum) og Líbýa tilkynnti í gær að sendiráð þeirra í Danmörku myndi loka til að mótmæla þessari birtingu. Þetta er afar viðkvæmt mál og þótt að Jyllands-Posten hafi beðist afsökunar í dag þá virðist það engu máli skipta. Ég ætla nú ekki að taka neina afstöðu í þessu máli, vona bara að þetta leysist fljótlega.

föstudagur, janúar 27, 2006

Aftur komin helgi, alveg ótrúlegt hvað tíminn er eitthvað fljótur að líða. Fæ einmitt væg kvíðaköst yfir því hvað er stutt þangað til að ég þarf að skila ritgerðinni minni. Ákvað nefnilega að setja smá pressu á mig og skrifaði í samninginn að ég myndi skila henni fyrir 1. júlí. Þótt að ég geti svo sem breytt þessari dagsetningu ætla ég mér ekki að gera það, vil klára þetta sem fyrst. Er að lesa heimildir núna og ætla mér að vera komin á gott skrið þegar að við flytjum heim.

Annars eru helstu fréttirnar þær að við komum flakkaranum okkar aftur í gang og gátum loksins náð í yfir 15 GB af tónlist sem var þar inni. Vorum orðin dálítið hrædd um að þessi tónlist + ótrúlega mikið magn af þáttum væri ónýtt en sem betur fer virðist allt í besta lagi.

Ég horfði á myndina Pride and Prejudice í fyrradag, yndisleg saga. Ég var alveg ánægð með myndina en fannst hinsvegar að þeim hafi ekki tekist að gera sögunni nógu góð skil á svona stuttum tíma. Verð nú samt að segja að þótt að mér finnist enginn jafnast á við Colin Firth í hlutverki Mr. Darcy náði Matthew Macfayden alveg að heilla mig upp úr skónum í sama hlutverki.
Langaði samt svo að sjá þættina aftur þannig að ég náði í þá og nota þá núna sem gulrót ef ég er búin að vera dugleg að lesa heimildir. Var einmitt að klára fyrsta þáttinn núna og ætla að horfa á annan þáttinn eftir að ég er búin að lesa 3 greinar :). Finnst þættirnar einhvern veginn ná "andanum" mikið betur heldur en kvikmyndin.

En loksins virðist heilsan mín vera í lagi, allavega fórum við út í fyrradag og mér sló ekki niður. Kíktum í Storcenter Nord þar sem að Árni keypti sér tvenna skó í afmælisgjöf (fékk pening bæði frá mömmu & pabba og tengdó). Fórum í uppáhaldsbúðina okkar, Aldo en ég gæti keypt mér hvert einasta skópar í þessari búð. Ótrúlega flott.

Í kvöld ætla ég svo að horfa á Ísland - Danmörk á DR1. Hlakka mjög mikið til þess enda er þetta eini íslenski leikurinn (úr riðlakeppninni) sem verður sýndur. Áfram Ísland!!!

mánudagur, janúar 23, 2006

Ég er ekki alveg nógu ánægð með heilsuna hjá mér upp á síðkastið. Fór semsagt ekkert út frá þriðjudegi til föstudagskvölds til að vera alveg viss um að ná þessari flensu úr mér og ég hélt að ég væri alveg búin að ná mér. En á laugardagsnótt vaknaði ég með þessa þvílíku magaverki og kastaði upp meirihlutann af sunnudeginum. Ekki alveg nógu gott. Er búin að vera hálf tuskuleg síðan með bakverki og magaverki, skil þetta ekki.

En fyrir utan veikindin á sunnudag var helgin frábær. Fögnuðum því að bæði Grétar og Karen eru komin með mastersgráðu, þið eruð svo klár :). Til hamingju aftur með árangurinn, við erum svo stolt af ykkur. Fengum geðveikan mat hjá Tótu og Gumma og svo var bara setið og spjallað fram á nótt. Við fórum svo líka til þeirra á laugardagskvöldið og héldum smá spilakvöld. Takk kærlega fyrir okkur, skemmtum okkur þvílíkt vel. Hinsvegar er alltaf leiðinlegt að kveðja Grétar og Karen, hefðum viljum að þau hefðu verið lengur.

Svo er ég búin að fá seinustu einkunnina mína fyrir haustönnina, fékk "staðið" fyrir hugleiðingaritgerðina mína um starfsþjálfunina. Voða sátt við það :).

þriðjudagur, janúar 17, 2006

Jæja, þá er ég komin aftur "heim" til Danmerkur. Voða gott að sofa í rúminu sínu og auðvitað ennþá betra að knúsa Árnann minn. Reyndar sló mér nú eiginlega niður í ferðalaginu í gær og er þess vegna bara búin að liggja uppi í rúmi í allan dag og reyna að taka því rólega.

Annars var alveg æðislega skemmtilegt á Íslandi, alltaf jafn yndislegt að hitta fjölskylduna sína og vini. Hlakka svo mikið til að flytja heim í apríl, föst dagsetning er reyndar ekki ennþá komin en við stefnum á að koma á bilinu 8. - 15. apríl.

Svo vildi ég líka bara óska Sólveigu systur til hamingju með útskriftina (reyndar útskrifaðist hún í desember en hélt ekki upp á það fyrr en seinustu helgi). Hún er semsagt orðin sjúkraliði, rosa stolt af henni. Hlýtur að vera rosa erfitt að vera í 100% starfi, 100% námi og þar að auki einstæð móðir.

En svo hitti ég gamla vinkonu úr lúðrasveitinni á Kastrup. Það var reyndar frekar fyndið, við spjölluðum smá saman meðan að við vorum að bíða eftir töskunum (vorum í sama flugi) og þá kom í ljós að hún var að fara til Horsens sem er rétt hjá Århus. Hún fékk töskurnar sínar á undan mér og fór að fá sér að borða og við ætluðum kannski að hittast í lestinni. Svo kom í ljós að við höfðum fengið sæti beint á móti hvor annarri, ekkert smá gaman að ná aðeins að spjalla meira við hana.
Ég er alveg búin að missa sambandið við flesta úr lúðrasveitinni, sem mér finnst frekar leiðinlegt. Þetta fólk var nefnilega þvílíkt stór hluti af lífi mínu í svona 5 ár, æfingar þrisvar í viku og svo var auðvitað farið í æfingaferðir, til útlanda og margt fleira. Vorum einmitt að tala um að við þyrftum að hafa smá reunion. Aldrei að vita nema maður fari í að skipuleggja það :).

Næstu vikur verða nú örugglega frekar rólegar, ætla að fara að koma mér á fullt í ritgerðinni minni enda á ég að skila henni fyrir 1. júlí. Förum reyndar í mat til Tótu og Gumma á föstudaginn og hittum þá Karen og Grétar þar, jibbí. Það verður ekkert smá æðislegt að sjá þau öll :).

föstudagur, janúar 13, 2006

Ætlaði nú bara að óska ástinni minni til hamingju með afmælið. Árninn minn er semsagt 28 ára í dag, kossar og knús til sætasta stráksins.
Er nú frekar ömurleg eiginkona, hann var nefnilega líka einn á afmælisdeginum sínum í fyrra. En ég kem til hans (og hann fær pakka) eftir 3 daga :). Hlakka endalaust mikið til að sjá hann.

Annars er ég nú bara hálfveik þannig að ég ætla að segja þetta gott.

miðvikudagur, janúar 11, 2006

Hvet ykkur til að skrifa undir þessa áskorun.

föstudagur, janúar 06, 2006

Jæja þá er Árninn minn að fara út á morgun. Við verðum nú ekki lengi í sundur þetta skiptið eða aðeins 9 daga. Var einmitt að laga til í herberginu okkar hjá tengdó og ég varð svo ánægð þegar að ég fattaði að þetta er í síðasta skiptið sem við þurfum að búa í ferðatösku yfir jólin. Við erum reyndar mjög heppin með það að meiri hlutinn af gamla dótinu okkar er ennþá í herberginu sem er frábært en þegar að maður er á Íslandi í þrjár vikur og er bara í einu herbergi þá er eitthvað svo lítið pláss fyrir öll fötin, allar jólagjafirnar og allt draslið sem virðist alltaf fylgja manni :). Hlakka mjög til næstu jóla þegar að við verðum vonandi komin í okkar eigin íbúð.

Vorum einmitt að skoða íbúðir á netinu í gær og við sáum eina æðislega. Alveg glæný og er á Eskivöllum í Hafnarfirði (sem er eins og allir vita besta bæjarfélagið, tíhí). Það kom mér nú eiginlega á óvart að Árni skyldi fíla hana vegna þess að hann hefur nú ekki verið á þeim buxunum að vilja kaupa í Hafnarfirði. Þessi tiltekna íbúð á að kosta um 18 milljónir sem er nú reyndar í dýrari kantinum en á móti kemur að hún er 4 herbergja þannig að við gætum verið í henni í mörg ár. Þegar að maður sér svona fullkomna íbúð þá sér maður oggulítið eftir því að hafa selt Laugateiginn en hins vegar voru leigjendurnir svo ömurlegir að þeir væru örugglega búnir að brenna íbúðina í dag. En svona er lífið, þýðir nú ekki mikið að vera að pæla í því sem maður gerði fyrir tveimur árum. Vonandi fáum við bara bæði ágæta vinnu þegar að við erum búin með námið okkar svo að við getum keypt okkur sem fyrst.

þriðjudagur, janúar 03, 2006

Var að horfa á kosningu Íþróttamanns ársins og vá hvað ég varð pirruð á valinu. Að mínu mati hefur Eiður Smári ekki gert neitt til þess að vera verðugur þess að vera valinn. Mér finnst að Guðjón Valur Sigurðsson handknattleiksmaður hefði frekar átt að vera kosinn, hann er markahæsti leikmaðurinn í þýsku úrvalsdeildinni sem er ein besta deild heims og stendur sig alltaf frábærlega með íslenska landsliðinu.
Á hinn bóginn er alveg hægt að segja að Eiður sé nú líka í bestu fótboltadeild heims og að hann standi sig alveg líka vel með landsliðinu okkar en mér finnst árangurinn hans Guðjóns mikið betri á alla kanta.

Reyndar fannst mér nú frekar fallegt hjá Eið að hann gaf peninginn sem hann fékk til Einstakra barna en mér finnst samt sem áður að Guðjón hefði átt þetta meira skilið.

mánudagur, janúar 02, 2006

Litla prinsessan þeirra Hrannar og Axels var skírð í dag og fékk hún nafnið Lára Dís (grunaði einmitt að hún ætti að heita Lára). Innilega til hamingju með fallega nafnið þitt sæta mín. Maður var nú hin rólegasta í skírninni, svaf allan tímann, var greinilega mjög sátt við nafnið sitt.

sunnudagur, janúar 01, 2006

Bergþór pabbi er 65 ára í dag, var einmitt fyrsta barn ársins, árið 1941. Til hamingju með afmælið elsku pabbi minn.

Annars voru áramótin frekar róleg hjá okkur. Við vorum í sitthvoru lagi um kvöldmatinn þar sem að ég vil fá mín svið með mömmu og pabba. Ég fór svo til Árna eftir skaupið og við vorum saman þegar að nýja árið gekk í garð. Þar sem að Árna leið eitthvað illa vorum við svo bara heima að slappa af. Voða næs.
Mér fannst skaupið bara ágætt þetta árið, Björgvin stal samt alveg senunni með öllum eftirhermunum sínum, alveg frábær.

Áramótaheitin mín voru nokkur þetta árið en ég ætla ekki að upplýsa þau hérna á blogginu. Aldrei að vita nema að ég segi frá þegar að ég verð búin að ná þeim markmiðum (veit að þið bíðið spennt, tíhí).

laugardagur, desember 31, 2005

Þvílíkt mikið að gera hjá okkur þessa dagana. Fórum með Grétari og Karen á Narníu myndina á afmælisdaginn hennar Karenar, mjög skemmtileg mynd og þótt að hún sé stíluð mjög inn á börn þá naut ég hennar alveg í botn.

Á fimmtudaginn var svo jólasaumó hjá hinum vinahópnum mínum. Ákváðum bara að kaupa okkur mat frá American Style og svo var borðað, spjallað og litla prinsessan þeirra Hrannar og Axels fékk að ganga á milli svo að allir fengu að halda á henni. Maður er alveg langsætastur. Það á einmitt að skíra hana 2. janúar, hlakka mjög til að vita nafnið vegna þess að ég tel mig vita hvað hún á að heita :).

Í gær hélt Karen upp á afmælið sitt, við skemmtum okkur svakalega vel. Dönsuðum út í eitt (þ.e.a.s. ég, Árni dansar nú voða lítið) og alltaf svo gaman að hitta vinina og djamma saman. Þetta var bara með bestu partýum sem ég hef farið í. Um hálfþrjú ætluðum við svo að fara heim en ákváðum að taka einn hring á Glaum áður. Þar hittum við nokkra af vinum hans Árna og djömmuðum með þeim til að verða 5. Frábært kvöld :). Svo var auðvitað farið á Hlölla um morguninn, nammi namm.

Ég ætlaði að skrifa smá pistil um árið 2005 en eftir nokkrar tilraunir ákvað ég bara að sleppa því. Finn einhvern veginn ekki réttu orðin. Ætla því bara að óska ykkur gleðilegs nýs árs og vonandi á árið 2006 eftir að veita ykkur mikla gæfu og gleði.

miðvikudagur, desember 28, 2005

Við erum búin að hafa það rosalega gott undanfarna daga, eiginlega of gott. Alveg búin að snúa sólarhringnum við og maður er síborðandi.

Annars var aðfangadagur svaka næs, maturinn hjá mömmu bregst auðvitað aldrei og við fengum margar fallegar gjafir og jólakort. Takk fyrir okkur elskurnar. Á jóladag var svo boð hjá báðum fjölskyldunum þannig að við þurfum að skipta okkur en á annan í jólum var bara slappað af. Reyndar fórum við til vina hans Árna og spiluðum Scene it sem er kvikmyndaspil, geðveikt gaman. Árni og Nonni eru kannski ekki alveg þeir skemmtilegustu í þessu spili, kunna allar myndir og alla leikara utanað en ég og Auður vorum nú nokkuð góðar líka :).

Í gær var svo jólasaumó hjá Ingibjörgu, þvílíkar kræsingar í boði og alltaf svo gaman að hitta allar vinkonurnar + mennina þeirra sem fá alltaf að fljóta með í jólasaumóinn.

En í dag á svo Karen mín afmæli og meira að segja stórafmæli. Innilega til hamingju með 25 ára afmælið elsku Karen. Njóttu dagsins í alla staði og við bíðum spennt eftir föstudeginum :).

laugardagur, desember 24, 2005

Jólahátíðin hófst eiginlega í gær hjá okkur hjónunum. Byrjuðum á að fara að leiði ömmu og afa, mér finnst alltaf svo hátíðlegt að fara í kirkjugarðinn um jólin og minnast þeirra sem eru ekki lengur með okkur.

Eftir það kíktum við til Karenar í smá jólaglögg, ekkert smá æðislegt að sjá hana og knúsa. Ekki spillti fyrir að það voru 8 kettir þarna, ekkert smá yndislegir. Fórum svo til Laufeyjar og Eiðs og enduðum kvöldið á að fara til Hrannar og Axels. Frábært kvöld í alla staði.

Eitthvað gekk mér nú illa að sofa í nótt, svaf bara í 4 tíma og var semsagt vöknuð um 6. Veit eiginlega ekki af hverju. Tókum daginn semsagt snemma og fórum til ömmu og afa hans Árna með pakka til þeirra og svo fórum við til mömmu og pabba þar sem að við öll systkinin hittumst alltaf á aðfangadag til að skiptast á gjöfum.

Það eina sem er eftir núna er að gera sig tilbúinn fyrir kvöldið. Ég og Árni verðum reyndar aftur í sitthvoru lagi á aðfangadagskvöld en það verður þá bara ennþá skemmtilegra næstu jól þegar að við verðum komin í okkar eigin íbúð og höldum jólin tvö ein.

Bráðum klukkur hringja,
kalla heims um ból
vonandi þær hringja flestum
gleði- og friðarjól.

fimmtudagur, desember 22, 2005

Jæja þá er maður kominn á Íslandið góða. Oh það er svo yndislegt að vera heima um jólin, sjá allar jólaskreytingarnar, hafa svona dimmt og auðvitað geta hitt fjölskyldu og vini.

Fyrsta daginn fórum við auðvitað til Snúðarins okkar, hann þekkti okkur alveg og var ekkert smá ánægður að hafa einhvern sem kann alveg að klappa manni. Ég vildi svo taka allar hinar kisurnar að mér líka en Árni var nú ekki par hrifinn af því, skil ekkert í honum.

Er búin að vera frekar dugleg að hitta vinina, er búin að fara að sjá litlu prinsessuna hjá Hrönn og Axel, maður er nú langsætastur. Hitti svo Ástu og Helgu í gær, alveg yndislegt að sjá þær með bumbu. Við áttum að hitta Helgu á Kastrup og fljúga svo saman heim en þá bilaði vélin sem hún átti að fara með frá Gautaborg til Kaupmannahafnar þannig að hún missti af Icelandair vélinni, ekki skemmtilegt. Sem betur fer náði hún svo reyndar næstu vél en við gátum ekki flogið saman.

Svo er nærri allt búið, eigum bara eftir að kaupa eina gjöf. Erum hinsvegar búin að senda öll jólakort, pakka öllum gjöfum inn og erum bara mest að slappa af. Reyndar finnst mér pínku leiðinlegt að mamma og pabba ætla ekki að hafa skötu þetta árið, mamma nennir ekki að fá lyktina í íbúðina þannig að þau ætla bara að fara eitthvert til að fá sér hana sem þýðir að ég missi af jólalyktinni núna í ár. Ég var nú ekkert neitt voðalega ánægð í gær þegar að mamma sagði mér þetta en skil hana nú alveg :). Enda hefði ég líklegast misst af skötulyktinni því að ég ætla að hjálpa tengdó í búðinni á morgun og verð örugglega langt fram á kvöld þar.

En stressið ykkur ekki um of á jólunum, þau koma alveg sama hvort að það sé búið að þrífa hvern krók og kima eða baka allar smákökutegundirnar. Njótið jólanna og verið góð hvort við annað :).

sunnudagur, desember 18, 2005

Jæja, búin að öllu sem þarf að gera áður en við förum til Íslands. Meira að segja búin að pakka þannig að næstu tímar fara í að spila leiki á netinu, búin að finna einn alveg hrikalega skemmtilegan og er eiginlega orðin dálítið háð honum :). En það er allt í lagi, komin í jólafrí og þá á maður bara að vera að dúlla sér og svona.

Annars fórum við á King Kong í gær, oh my god hvað hún er góð. Hef sjaldan lifað mig eins mikið inn í mynd eins og í gær, fann ekkert fyrir því að hún er um þrír tímar. Fór samt að pæla í hvort að Peter Jackson geti gert myndir í venjulegri tímalengd?

Búin að fá rosalega margt flott í skóinn, mest ótrúlega sætt jóladót en svo fékk ég líka Pretty Woman. Yndisleg mynd enda horfði ég á hana sama dag og skemmti mér konunglega yfir henni.

En við tökum semsagt lestina kl. 4:25 til Kastrup. Helgan mín lendir aðeins eftir að komum og svo fljúgum við öll saman heim. Hlakka endalaust mikið til að sjá hana enda er bumban orðin aðeins sýnilegri en þegar að ég fór í október.

Er nú samt voðalega róleg yfir því að við séum að fara til Íslands, var mikið meira spennt í fyrra. Kannski bara byrjuð að venjast því að vera alltaf að fljúga fram og til baka. Hlakka allavega svo mikið til að fara í Kattholt og klappa Snúðinum mínum. Ef að þið viljið sjá mig meðan að ég verð heima þá getið þið fundið mig þar :).

laugardagur, desember 17, 2005

Alveg búin að snúa sólarhringnum við, klukkan er núna hálffjögur að nóttu til og ég er glaðvakandi. Árni hlýtur að vera búinn að smita mig af þessari svefnvenju að vaka á nóttunni og sofa svo langt fram á dag. Reyndar sló ég nú öll met í gær (fyrradag í rauninni) þegar að ég fór að sofa á miðnætti, vaknaði eftir fjóra tíma og fór framúr. Var svo auðvitað orðin dauðþreytt um eftirmiðdaginn og lagði mig auðvitað þannig að það er kannski ekki skrýtið að ég skuli vera vakandi núna. Skil ekki hvað hefur komið yfir mig vegna þess að ég er alls ekki nátthrafn. Næ örugglega ekki að snúa sólarhringnum við fyrr en við erum komin til Íslands, þurfum nefnilega að "vakna" kl. 3 á sunnudagsnóttina til að taka lestina til Kastrup. Held að við förum bara ekkert að sofa.

Annars er ég búin að vera hugsa til þess hvað kemur mér í jólaskap. Búin að vera hlusta á Létt í gegnum netið og njóta þess að hlusta á íslensk jólalög, mér finnst þau æði. Mér finnst íslensk jólalög (og þá sérstaklega þessi í eldri kantinum) einhvern veginn koma mér í meira jólaskap heldur en þessi erlendu.
Reyndar held ég að ég komist í mesta jólaskap á Þorláksmessu. Hef eiginlega alltaf eytt deginum í að pakka inn fyrir mömmu og pabba (er alltaf löngu búin að pakka inn okkar gjöfum), hlusta á jólalög og bara njóta þess að vera með foreldrunum. Mamma og pabbi borða alltaf skötu um kvöldið og mér finnst ómissandi að vera með þeim þegar að þau borða, þó að mér finnist skata frekar vond finnst mér skötulyktin svo jólaleg. Svo sýður mamma hangikjötið svona klukkutíma eftir að þau eru búin að borða skötuna og þá kemur þessi yndislega jólalega lykt.

Þegar að ég og Árni bjuggum á Laugateiginum bjuggum við reyndar til okkar eigin hefð, keyptum pússl og við sátum á Þorláksmessukvöld og pússluðum. Vorum með Nóa konfekt til að narta í og jólaöl, hlustuðum á jólalög og höfðum það bara kósý. Ætlum pottþétt að halda í þessa hefð þegar að við kaupum næstu íbúð.

þriðjudagur, desember 13, 2005

Fór með Jósu í bíó í gær á myndina Just like heaven. Oh ekkert smá yndisleg mynd og þó nokkur atriði þar sem við lágum í hláturskasti.

Annars er ég bara á fullu að læra núna, þarf að skrifa nokkurs konar inngang fyrir lokaritgerðina mína, ca. 4-5 bls. Þar á að koma fram hvað ég ætla mér að gera, helstu rannsóknir sem hafa verið gerðar á þessu efni, af hverju er þetta áhugavert o.s.frv. Þarf að skila þessu fyrir jól þannig að markmiðið er að klára þetta á morgun og þar sem að ég er ekki að fara í nein próf þetta árið þá ætla ég bara að skipa sjálfri mér að fara í jólafrí frá og með fimmtudeginum. Er þá nefnilega búin að öllu fyrir skólann, þarf ekki að skila hugleiðingaritgerðinni fyrr en 10. janúar þannig að ég hef nógan tíma til að lesa yfir hana og fínpússa eftir jólin.

Á fimmtudaginn ætla ég svo að fara niður í bæ og reyna að klára jólagjafirnar sem við eigum eftir. Held að ég hafi aldrei verið svona sein að klára þær, eigum reyndar bara 5 eftir þannig að það verður lítið mál. Er sem betur fer búin með Árna enda finnst mér erfiðast að kaupa handa honum. Annars er honum að batna og fer líklegast í skólann á morgun. Má ekki seinna vera þar sem að hann þarf að skila tveimur stórum verkefnum á föstudaginn en þá er hann búinn með allt sem tengist skólanum fyrir jólin.

Við ætlum svo að skella okkur á King Kong á laugardeginu. Hlakka mikið til þess. Árni ætlar reyndar niður í bæ áður vegna þess að hann á eftir að kaupa jólagjöf handa mér, hann segir að það sé svo erfitt að kaupa handa mér, skil ekkert í honum. Bara kaupa nógu mikið af bókum og þá er ég ánægð :).
Einhvern tímann um helgina ætla ég svo að horfa á Love actually, mér finnst bara vera hluti af aðventunni að horfa á hana. Yndisleg mynd í alla staði, manni líður svo vel þegar að maður er búinn að horfa á hana.

Svo eru tveir jólasveinar búnir að heimsækja okkur. Reyndar átti Árni að fá fyrst í skóinn og svo ég en þar sem að Árni var veikur þá fékk hann tvisvar í skóinn í röð (hafði semsagt gleymt að láta jólasveininn kaupa í skóinn fyrir mig) og þá fæ ég í nótt og næstu nótt. Jólasveinninn var voða góður við Árna og gaf honum Ocean's eleven í gær og svo dagatal með kettlingum, hvolpum og kanínuungum í morgun. Oh ekkert smá sætt. Reyndar spurði Árni hvort að jólasveinninn hefði ruglast í ríminu og haldið að ég ætti að fá gjöfina því að ég var svo ánægð með gjöfina hans. Dýrka dagatöl með dýrum.

Ein jólaminning svona í lokin. Þegar að ég var á skóladagheimilinu lék ég Bjúgnakræki ein jólin, mig minnir að ég hafi verið ca. 7 ára. Bjúgunum var vafið utan um bita í loftinu og hékk smá spotti niður og ég átti að hlaupa þangað og kippa þeim niður. Eitthvað hafði nú gleymst að taka með í reikninginn að ég var ekki sú stærsta í heimi þannig að ég hoppaði á fullu í svona 2-3 mínútur til að ná bjúgunum niður en ekkert gekk. Þurfti loksins að fá hjálp frá einni fóstrunni :).

sunnudagur, desember 11, 2005

Kl. 14.31 í dag kom litla prinsessan þeirra Hrannar og Axels í heiminn. Innilega til hamingju með litla gullmolann ykkar, hlökkum endalaust mikið til að sjá hana!!
Maður var nú frekar nettur eða 3325 g og 50 cm.

Þá er fyrsta barnið í þessum vinahóp komið í heiminn og eftir ca. 4 mánuði verða 2 önnur börn búin að bætast í hópinn. Hlakka svo mikið til :).

Tengdamamma á afmæli í dag, innilega til hamingju með daginn elsku Ingibjörg.

En svo er auðvitað týpískt að um leið og mér batnaði þá veikist Árni. Alveg ekki gott fyrir hann því að hann þarf að skila tveimur risastórum verkefnum í næstu viku, m.a.s. einu á morgun. En allavega gott að mér skuli vera batnað því að það þarf einhver að stjana við hann, fara út í búð og svona.

Svo eru bara 8 dagar þangað til að við komum heim, jibbí. Get varla beðið eftir að knúsa alla. Árni er búinn að fá próftöfluna sína og hann fer ekki í próf fyrr en 10. -12. janúar þannig að hann þarf ekki að fara 1. janúar. Oh, ég er svo ánægð með það. Ég er svo bara á fullu að hafa samband við fyrirtæki út af lokaritgerðinni þannig að þetta er allt á réttri leið.

Annars fylltist maður þvílíku þjóðarstolti í gær þegar að Unnur Birna var kosin Miss World. Þriðja skiptið sem Ísland vinnur í þessari keppni, annars eru íslenskar konur svo myndarlegar að þetta kemur ekkert á óvart :).

En ætla að halda áfram að stjana við sjúklinginn og vinna í lokaritgerðinni.

Gleðilegan 3. í aðventu :).

miðvikudagur, desember 07, 2005

Helga vinkona á afmæli í dag, til hamingju með daginn elsku Helga mín. Vona að þú eigir góðan dag. Hlakka til að knúsa þig eftir 12 daga :).

Annars er nú mest lítið að frétta, ég er reyndar orðin veik. Er þvílíkt stífluð, með hálsbólgu og höfuðverk þannig að ég er lítið búin að geta lært. Er orðin dálítið stressuð vegna þess að ég ætla að leggja fyrir spurningalista í jólafríinu og þarf þ.a.l. að vera búin að þýða hann en er varla byrjuð. En vonandi batnar mér fljótt.

Sá þetta á netinu og fannst þetta svakalega sætt. Fékk tár í augun meira að segja.

What does love mean? Slow down for three minutes to read this. A group of professional people posed this question to a group of 4 to 8 year-olds, "What does love mean?" The answers they got were broader and deeper than anyone could have imagined. See what you think:

"When my grandmother got arthritis, she couldn't bend over and paint her toenails anymore. So my grandfather does it for her all the time, even when his hands got arthritis too. That's love." Rebecca- age 8

"When someone loves you, the way they say your name is different. You just know that your name is safe in their mouth." Billy - age 4

"Love is when a girl puts on perfume and a boy puts on shaving cologne and they go out and smell each other." Karl - age 5

"Love is when you go out to eat and give somebody most of your French fries without making them give you any of theirs." Chrissy - age 6

"Love is what makes you smile when you're tired." Terri - age 4

"Love is when my mommy makes coffee for my daddy and she takes a sip before giving it to him, to make sure the taste is OK." Danny - age 7

"Love is when you kiss all the time. Then when you get tired of kissing, you still want to be together and you talk more. My Mommy and Daddy are like that. They look gross when they kiss" Emily - age 8

"Love is what's in the room with you at Christmas if you stop opening presents and listen." Bobby - age 7 (Wow!)

"If you want to learn to love better, you should start with a friend who you hate," Nikka - age 6 (we need a few million more Nikka's on this planet)

"Love is when you tell a guy you like his shirt, then he wears it everyday." Noelle - age 7

"Love is like a little old woman and a little old man who are still friends even after they know each other so well." Tommy - age 6

"During my piano recital, I was on a stage and I was scared. I looked at all the people watching me and saw my daddy waving and smiling. He was the only one doing that. I wasn't scared anymore." Cindy - age 8

"My mommy loves me more than anybody . You don't see anyone else kissing me to sleep at night." Clare - age 6

"Love is when Mommy gives Daddy the best piece of chicken." Elaine-age 5

"Love is when Mommy sees Daddy smelly and sweaty and still says he is handsomer than Brad Pitt." Chris - age 7

"Love is when your puppy licks your face even after you left him alone all day." Mary Ann - age 4

"I know my older sister loves me because she gives me all her old clothes and has to go out and buy new ones." Lauren - age 4

"When you love somebody, your eyelashes go up and down and little stars come out of you." (what an image) Karen - age 7

"You really shouldn't say 'I love you' unless you mean it. But if you mean it, you should say it a lot. People forget." Jessica - age 8

And the final one -- Author and lecturer Leo Buscaglia once talked about a contest he was asked to judge. The purpose of the contest was to find the most caring child. The winner was a four year old child whose next door neighbor was an elderly gentleman who had recently lost his wife.

Upon seeing the man cry, the little boy went into the old gentleman's yard, climbed onto his lap, and just sat there. When his Mother asked what he had said to the neighbor, the little boy said, "Nothing, I just helped him cry"

"Though my soul may set in darkness, It will rise in perfect light, I have loved the stars too fondly, To be fearful of the night" Sarah Williams

þriðjudagur, desember 06, 2005

Sá þennan lista hjá Jósu og bara varð að "stela" honum :). Vona að það sé í lagi.

En allavega, settu nafnið þitt í komment og:

1. Ég segi þér eitthvað handahófskennt um þig
2. Ég segi þér hvaða lag/mynd minnir mig á þig
3. Ég segi þér hvaða bragð minnir mig á þig
4. Ég segi þér eitthvað sem meikar bara séns fyrir mig & þig
5. Ég segi þér fyrstu ljósu minninguna mína af þér
6. Ég segi þér á hvaða dýr þú minnir mig á
7. Ég spyr þig að einhverju sem ég hef velt lengi fyrir mér um þig

sunnudagur, desember 04, 2005

Jæja, komin frá Kaupmannahöfn. Það var ekkert smá gaman hjá okkur hjónunum. Reyndar byrjaði ferðin ekkert neitt svakalega vel, við löbbuðum út úr rútunni og inn á lestarstöðina. Vorum að kaupa miða þar þegar að Árni fattaði allt í einu að við höfðum gleymt töskunni í rútunni, algjörir álfar. Hlupum út og sáum í endann á rútunni keyra í burtu. Náðum nú samt að hringja í rútufyrirtækið og fengum töskuna okkar aftur og hlógum að þessu alla helgina.

Byrjuðum semsagt að fara á hótelið okkar, vel staðsett eða alveg við aðallestarstöðina og leit ágætlega út fyrir utan það að það mátti reykja alls staðar. Meira að segja ræstingarkonan reykti á meðan hún var að þrífa herbergin. Enda báðum við um að hún myndi ekki þrífa herbergið okkar. Þannig að öll fötin okkar lykta eins og við séum nýkomin af djamminu, ógeðslegt.

Fórum svo í jólatívolí, oh það er svo frábært að labba þarna um. Alveg eins og maður sé komin í ævintýraland. Jólaskreytingar og básar með jóladóti út um allt. Keyptum piparkökukarla og 12 jólakúlur, ógó flott. Vorum þarna í ca. 2 og hálfan tíma. Fórum svo bara snemma heim um kvöldið.

Á laugardaginn byrjuðum við á að fara á skauta á Kongens Nytorv, eða réttara sagt ég fór á skauta og Árni horfði á. Ég var nú reyndar ekki lengi vegna þess að skautarnir meiddu mig svo. Þeir áttu semsagt ekki venjulega skauta í minni stærð heldur bara hokkískauta og þeir voru ekki alveg að gera sig. En samt gaman :).
Kíktum svo á Litlu Hafmeyjuna og fórum svo á vaxmyndasafnið. Ekkert smá gaman, sáum Fredrik og Mary, Mjallhvít og Bangsímon meðal annars. Enduðum daginn á að fara út að borða á Vesuvio sem er á Ráðhústorginu, nammi namm. Rosa góður matur og kíktum svo á bruggstaðinn við Tívolí, man samt ekkert hvað hann heitir.

Tókum svo rútuna kl. hálfníu í morgun og erum komin heim. Yndisleg ferð í alla staði og ég er komin í þvílíkt jólaskap. Við tókum svo nokkrar myndir og þær koma inn á næstu dögum.

Annars á Axel hennar Hrannar afmæli í dag, til hamingju með afmælið Axel!! Heyrðum einmitt í þeim áðan og litla bumbukrúttið er ekkert á leiðinni. Miðað við hvað það var að flýta sér í heiminn fyrir nokkrum vikum þá er það greinilega búið að fatta hvað það er gott að vera bara áfram inni í mallanum á mömmu sinni.

fimmtudagur, desember 01, 2005

Ég hélt saumaklúbb í gær fyrir sálfræðiskvísurnar. Reyndar komust ekki allar en við hinar skemmtum okkur bara fyrir þær líka :). Alltaf gaman að hitta þær og spjalla aðeins.

Varð svo andvaka í nótt, vaknaði klukkan fjögur og sofnaði ekki aftur fyrr en níu. Þetta þýddi auðvitað að ég svaf framyfir hádegi, ekki alveg nógu gott. Ætlaði að vera svo dugleg í dag vegna þess að við erum að fara til Kaupmannahafnar á morgun. Hlakka rosa mikið til. Ætlum að prófa að fara með rútunni í fyrsta skipti, munar engu í tíma en alveg miklu ódýrara að taka rútuna miðað við lestina.

Erum eiginlega ekkert búin að plana hvað við ætlum að gera í Kaupmannahöfn, ætlum bara að láta það ráðast. Reyndar ætlum við í jólatívolí á morgun, get varla beðið eftir að sjá allar jólaskreytingarnar þar. Svo var ég að sjá að það er hægt að fara á skauta á einhverju torginu þarna, aldrei að vita nema maður nái að plata manninn í það.

En vonandi eigið þið góða helgi og gleðilega aðventu :).

mánudagur, nóvember 28, 2005

Jæja helgin búin! Þvílíkt skemmtileg helgi, það var rosa næs að rölta niðri í bæ á föstudagskvöldið og sjá þegar að kveikt var á ljósunum. Mér finnst ekkert gaman að sjá þegar að þetta er gert heima en hérna er stemmningin allt öðruvísi. Horfðum svo á skrúðgönguna sem var með 5 mismunandi lúðrasveitum, gaman að sjá fólkið spila og hugsa til þess að ég gerði þetta í einhver 5 ár, minnir mig.

Á laugardaginn var svo farið í þrítugsafmælið hans Konna og oh my god hvað það var gaman. Mikið drukkið, hlegið og bara skemmt sér saman. Ég fór svo ásamt Jósu, Konna og tveimur vinum hans Konna niður í bæ á einhvern pöbb og héldum skemmtuninni áfram þar. Enduðum djammið á að fá okkur pizzu og komum okkur svo heim, enda var klukkan orðin hálfsex!! Langt síðan að ég hef verið svona lengi á djamminu enda tók ég það alveg út daginn eftir. Kastaði fjórum sinnum upp, takk fyrir takk. Allt skotunum sem Jósa og Eiki keyptu að þakka. En alveg frábært kvöld í alla staði, takk aftur fyrir okkur Hildur og Konni.

Fór svo í dag og hitti leiðbeinandann minn fyrir ritgerðina, hann samþykkti semsagt hugmyndina mína að lokaverkefni sem er náttúrulega bara frábært. Þegar að ég verð búin með ritgerðina um starfsþjálfunina get ég hellt mér á fullu í lokaverkefnisvinnu. Trúi því varla að á næsta ári þarf ég að fara að sækja um framtíðarvinnu, maður er orðinn svo stór!!

Endaði kvöldið á að kenna Hildi og tengdamömmu hennar magadans. Fannst frekar skrýtið fyrst að dansa fyrir framan aðra en svo vandist maður því bara. Þær stóðu sig rosalega vel en ég held að ég leggi nú þetta ekki fyrir mig. Samt alltaf gaman að prófa eitthvað nýtt.

fimmtudagur, nóvember 24, 2005

Mikið að gera um helgina, á morgun verður kveikt á ljósunum niðri í bæ og ætlum við að sjálfsögðu ekki að láta okkur vanta þangað. Ætlum svo að fara á einhvern stað á eftir og fá okkur pizzu, nammi namm.
Á laugardaginn er svo þrítugsafmæli hjá Konna hennar Hildar, teitið byrjar kl. 7 þar sem verður boðið upp á mat og alles. Hlakka rosa mikið til.
Sunnudagurinn fer svo líklegast bara í leti, ætla að klára jólasokkinn minn (á bara pínkupons eftir) ásamt því að reyna að finna eitthvað meira að skrifa um í hugleiðingaritgerðinni minni. Er komin með 24.000 slög og vantar þá ca. 14.000 slög í viðbót, vandamálið er að ég er eiginlega búin að skrifa allt sem ég get, hugs hugs.

Þótt að ég hafi sagt þetta áður, þá ætla ég bara að endurtaka mig. Ég á frábærustu og yndislegustu vinkonur í heimi. Þær hittust fyrir stuttu og tóku hittinginn upp með video myndavél. Var að horfa á þetta og það var æðislegt að sjá þær allar (og bumburnar auðvitað líka). Alveg yndislegt að geta fylgst svona með þeim og heyra líka í þeim, enda skemmti ég mér mjög vel yfir þessu. Fannst samt nafnið langbest: Raunveruleikaþáttur um bumbuklúbbinn. Takk elskurnar mínar, þið eruð langbestastar.

Í tilefni fyrsta í aðventu á sunnudaginn, hérna
er sú allra flottasta ljósasýning sem ég hef séð á húsi. Muna að hækka í hátölurunum.

miðvikudagur, nóvember 23, 2005

Fórum í Bilka í gær og náðum að klára stóran hluta af jólagjöfunum þannig að núna eigum við aðeins 6 eftir. Þótt að það taki mann ca. klukkutíma að fara þangað í strætó þá er alltaf svo rosalega gaman þar. Vorum komin um kl. 12 og vorum þar inni í þrjá tíma :). Enda förum við ekki oft þangað, held að þetta sé í fimmta skiptið sem ég hef komið þangað.

Svo tók ég smá forskot á sæluna í gær og skreytti íbúðina, gat ekki beðið lengur. Á bara eftir að fara í Fotex og kaupa aðventukrans og þá er allt tilbúið. Er svo búin að föndra öll jólakortin og á bara eftir að skrifa í þau. Ætla að reyna að klára það í næstu viku sem og jólagjafirnar og þá er bara allt búið sem þarf að gera fyrir þessi jól. Nema auðvitað að pakka inn gjöfunum en það geri ég ekki fyrr en ég kem heim.

Mamma fór í heimsókn til Snúðs á mánudaginn, oh maður var víst alveg rosalega glaður að sjá hana og fá smá klapp frá einhverjum sem maður þekkir. Honum líður bara ágætlega þarna, er byrjaður að borða nóg og leika við hinar kisurnar. Ætla að fara til hans daginn eftir að við lendum. Hlakka svo til að knúsa hann.

mánudagur, nóvember 21, 2005

Þetta var ekkert smá næs helgi. Ég var rosa dugleg við að skrifa ritgerðina mína en tók mér auðvitað góð frí á milli :). Þeim fríum var ýmist eytt við að hlusta á jólalög (já ég veit, dálítið snemmt), sauma í jólasokkinn minn og svo horfðum við hjónin á allar LOTR myndirnar. Alveg frábærar myndir, elska að horfa á þær aftur og aftur, finn alveg ekkert fyrir því að hver mynd er ca. 4 tímar.
Fattaði svo loksins að fara inn á tonlist.is til að niðurhala íslenskum jólalögum, sit núna og er að hlusta á Frostrósir, alveg yndisleg lög með þeim.

Annars á ég fund með kennara á morgun til að ræða um lokaritgerðina mína. Honum leist semsagt bara vel á hugmyndina mína og ætlum við að ræða aðeins betur saman. Þannig að ef hann samþykkir þetta þá verð ég komin með efni fyrir ritgerðina, rosa fínt :).

Ætlum svo niður í bæ í vikunni og reyna að klára eitthvað af jólagjöfunum okkar, erum bara búin með 6 þannig að það er fullt eftir. Svo verður kveikt á jólaljósunum á Strikinu á föstudaginn og við ætlum að fara niður í bæ og fylgjast með því. Oh jólin eru svo æðislegur tími. Svo má ég byrja að skreyta næsta sunnudag, jibbí!

mánudagur, nóvember 14, 2005

Seinustu dagar eru búnir að vera æðislegir. Á föstudaginn lá ég uppi í sófa mestallan daginn og horfði á Sex and the city (sem betur fer er í lagi með alla aðra diska). Á laugardaginn var ég svo bara að hafa allt tilbúið fyrir partýið um kvöldið. Þvílíkt skemmtilegt partý, mikið hlegið og mikið drukkið. Fékk rosa flottar gjafir, m.a. kisu sem mjálmar og labbar fram og til baka, svona smá staðgengill fyrir Snúð.
Fórum svo á Gas station og ég dansaði þvílíkt mikið, eitthvað voru stelpurnar samt orðnar þreyttar á að dansa á tímabili því að þær skiptust á að koma á dansgólfið með mér :). Takk fyrir æðislegt kvöld stelpur.
Sunnudeginum var eytt aftur uppi í sófa að horfa á Sexið. Í dag ætlaði ég svo að vera rosa dugleg að læra en það gekk ekki eftir, er semsagt að verða búin með þriðju seríu, þetta eru bara svoooo skemmtilegir þættir. En ætla nú reyna að vera dugleg á morgun.

laugardagur, nóvember 12, 2005

Jæja fyrst að Helga og Ásta eru báðar byrjaðar að tala um/sýna kúluna sína á blogginu þá má ég líklegast tala um það líka :).
Semsagt Hrönn, Ásta og Helga eru allar óléttar og Hrönn á að eiga í lok desember, Ásta um miðjan mars og Helga um miðjan apríl. Og vegna þess að þær eru svo yndislegar vinkonur þá hittust þær, tóku bumbumyndir og sendu mér. Maður má sko ekki missa af neinu í sambandi við óléttuna.
Ég er líka svo ánægð að koma heim um jólin vegna þess að þá get ég vonandi knúsað barnið hennar Hrannar (ef það kemur á réttum tíma) og séð Helgu og Ástu með enn stærri bumbu, jibbí. Ég er líka ennþá ánægðari með það að við flytjum heim í mars og að það líði ekki lengri tími frá því að Hrönn fæðir og þangað til að ég kem heim. Ásta mín, þú fæðir bara ekkert fyrr en að ég kem heim, samþykkt? Tíhí.
Það verður líka alveg frábært í apríl þegar að Helga á að eiga, hinsvegar held ég að það muni aldrei eftir að klingja eins mikið hjá mér eins og þá, hehe.

Ég á líka alveg yndislega foreldra. Ég saumaði jólapóstpoka fyrir jólin í fyrra en svo er hann bara búin að vera hjá mömmu og pabba vegna þess að það átti eftir að gana alveg frá honum, ætlaði alltaf að gera það þegar að ég væri heima en svo fórst það fyrir. Þau sendu mér hann semsagt í afmælisgjöf, voru búin að láta fóðra hann, sauma hann allan saman og setja hanka í hann þannig að núna á bara eftir að hengja hann upp, oh ég var svo ánægð þegar að ég opnaði pakkann.

En smá nöldurblogg, annar diskurinn í fyrstu seríu Sex and the city er bilaður, það er ekki hægt að horfa á fyrsta eða seinasta þáttinn á disknum. Var sko ekki sátt í gær þegar að ég var að horfa á þetta. Við skoðuðum líka hina diskana og fyrsti diskurinn í seríu 2 er þvílíkt rispaður, ætla að prófa að horfa á hann á eftir en ég verð rosalega fúl ef að hann virkar ekki heldur. Hinir diskarnir litu allt í lagi út en Árni ætlar að fara í næstu viku og heimta að við fáum nýjan disk.

fimmtudagur, nóvember 10, 2005

Jæja þá er maður víst orðinn árinu eldri :), alltaf gaman að eiga afmæli. Sollý á líka afmæli í dag, til hamingju með daginn elsku systir.
Ég fékk pening í afmælisgjöf bæði frá mömmu & pabba og tengdó og ég fór niður í bæ í gær og verslaði fullt. Keypti mér undirföt, snyrtivörur og tvö hálsmen og ég á ennþá pening eftir, ekkert smá gaman.
Helga sendi mér svo pakka og í honum voru sætustu náttföt í heimi, takk Helga mín. Ástin mín gaf mér svo allar seríurnar af Sex and the city, alveg alltof mikið. Ég dýrka samt hvernig búið er um seríurnar, eru í skókassa, algjör snilld. Svo fékk ég líka eina bók, það er sko ekki afmæli/jól án þess að fá bók. Laufey, Eiður og fjölskylda gáfu mér svo kisupússl, ekkert smá sætt, takk fyrir það.
Í dag ætla ég svo að njóta þess að læra ekki, hjúfra mig undir teppi í sófanum mínum og lesa nýju bókina mína. Uhmmm æðislegur dagur :).

Annars er ég nú með fréttir, við komum heim um jólin!! Bergþór pabbi beit það í sig að hann ætlaði nú ekki að leyfa okkur að halda jólin í öðru landi og hann bauðst til þess að borga farið fyrir okkur heim, alveg ótrúlega góður við okkur, algjört yndi. Ég var nú sterk í fyrstu skiptin sem hann bauð okkur þetta og sagði alltaf nei en svo lét ég undan í gær. Þannig að við lendum 19. des og fljúgum aftur út 1. jan, þorðum allavega ekki að panta annan dag vegna þess að próftímabilið hjá Árna er frá 2. jan. En ef það kemur í ljós að hann fer seinna í próf þá breytum við líklegast miðanum. Takk elsku pabbi minn :).
Þannig að ég er bara byrjuð að hlakka til að sjá alla, veit alveg að eyða einum jólum ekki á Íslandi er ekki mikið þegar að maður lítur á lífið í heild sinni. En ég er samt svaka ánægð að geta komið heim í faðm fjölskyldunnar og njóta þess að vera með þeim sem mér þykir vænt um. Ætla einmitt að fara eins oft og ég get í Kattholt til að klappa Snúðinum mínum.

þriðjudagur, nóvember 08, 2005

Fór í saumó með sálfræðiskvísunum í gær. Ekkert smá gaman að hitta þær allar eftir svona langan tíma :). Hlógum endalaust mikið eins og alltaf þegar að við hittumst.
Þóra kom með Margréti dóttur sína sem er aðeins 5 vikna enda stal hún alveg athyglinni, ekkert smá mikil dúlla.

Dagarnir eru allir voðalega líkir núna, vakna og fer að skrifa þessa blessuðu ritgerð. Er reyndar búin að fá svar frá kennaranum í sambandi við mastersritgerðina þannig að vonandi fara hjólin að snúast með hana.

mánudagur, nóvember 07, 2005

Ef þið viljið sjá myndir af Sálartónleikunum, þá eru þær hér. Fyrstu myndirnar tengjast reyndar ekki Sálinni þannig að þið skippið bara yfir þær.
Þetta eru reyndar myndirnar hennar Hildar, vona að það sé í lagi að ég linki á þær :).

sunnudagur, nóvember 06, 2005

Ég var klukkuð af Hildi.

Núverandi föt: Joggingbuxur og bolur
Núverandi skap: Ennþá brosandi eftir Sálartónleika
Núverandi hár: Nær niður fyrir axlir, er með kopar/ljósar strípur
Núverandi pirringur: Að kennari skuli ekki vera búinn að svara emailinu mínu sem ég sendi fyrir viku.
Núverandi lykt: Emporio Armani
Núverandi hlutur sem þú ættir að vera að gera: Læra
Núverandi skartgripir: Giftingarhringurinn
Núverandi áhyggja: Að skrifa hugleiðingaritgerð um starfsþjálfunina
Núverandi löngun: Ostafylltar brauðstangir
Núverandi ósk: Að Snúður gæti verið hjá mér
Núverandi farði: Enginn
Núverandi eftirsjá: Vá sé ekki eftir neinu akkúrat núna
Núverandi vonbrigði: Að sjá ekki þegar að bumbulínurnar mínar byrja að stækka, þ.e.a.s. þegar að fer að sjást á ófrísku vinkonunum.
Núverandi skemmtun: Allir þættirnir sem ég "verð" að horfa á
Núverandi ást: Árninn minn
Núverandi staður: Sófinn í stofunni minni
Núverandi bók: Black rose
Núverandi bíómynd: Love actually
Núverandi íþrótt: Magadans
Núverandi tónlist: Sálin!!!!
Núverandi lag á heilanum: La tortura með Shakiru og Alejandro Sanz
Núverandi blótsyrði: Andskotans djöfulsins
Núverandi msn manneskjur: Er ekki skráð inn
Núverandi desktop mynd: Snúður, hver annar?
Núverandi áætlanir fyrir kvöldið: Klára að horfa á OC og fara upp í rúm að lesa
Núverandi manneskja sem ég er að forðast: Enginn
Núverandi dót á veggnum: Nokkrar myndir, hillur, spegill o.s.frv.

Klukka Ástu, Karen, Möggu og Tótu.

Minnir mig á það, þarf að fara að taka til í þessum tenglum mínum, örugglega um 1/4 sem eru hættir að blogga.

Sálin var æði, frábær, meiriháttar!!! Þvílíkir tónleikar, geðveik stemmning. Þeir eru svo miklir snillingar. Ég hef sjaldan skemmt mér svona vel á tónleikum, ég, Hildur, Jósa og systir hennar Jósu vorum fremstar allan tímann og sungum með, enda er ég frekar hás í dag.
Tónleikarnir voru svo búnir um þrjú og þá tókum við leigubíl á lestarstöðina en við héldum að hún væri opin alla nóttina. Það kom svo í ljós að hún opnaði ekki fyrr en um fimm þannig að við sáum úti í ca. einn og hálfan tíma enda var okkur orðið frekar kalt. Lestin fór ekki fyrr en sex og við sofnuðum bæði um leið og við settumst í sætið og sváfum allan tímann. Tókum svo strætó heim þar sem að við sváfum líka allan tímann og fórum beint upp í rúm til að sofa meira :). En þetta var sko alveg þess virði.
Það var líka mjög gaman að fara til Köben og hitta Jónasi og Steinunni, flökkuðum á milli kráa með þeim og fengum okkur bjór, þvílíkt næs.

föstudagur, nóvember 04, 2005

Sálin á morgun!! Hlakka þvílíkt til. Verður rosa gaman að fara á tónleika með íslenskri hljómsveit í Danmörku. Ætlum að leggja af stað um hálftíu á morgun með lestinni og verðum þá komin um hálfeitt til Kaupmannahafnar. Planið er svo að hitta Jónas og Steinunni, vini hans Árna og gera eitthvað skemmtilegt með þeim. Hlakka mjög til að sjá Köben loksins, labba Strikið og svona.
Reyndar er dagurinn svo ekkert meira planaður, hittum Hildi, Hákon og Jórunni einhvern tímann um kvöldið og förum á tónleikana með þeim. Eina sem ég kvíði fyrir er að þurfa að halda mér vakandi til 5 um nóttina því að þá fer lestin aftur heim til Árósa. Verður örugglega mjög næs að vera í lestinni í þrjá tíma og geta sofið :).

miðvikudagur, nóvember 02, 2005

Laufey á afmæli í dag, til hamingju með afmælið Laufey mín.
Voðalega rólegir dagar hjá mér núna. Er bara heima og að skrifa ritgerðina um starfsþjálfunina, er svo búin að senda tölvupóst á einn kennarann í sambandi við mastersritgerðina en er ekki búin að fá neitt svar. Vona að hann svari mér fljótlega, langar að komast að því hvort að hugmyndin mín sé nothæf.

sunnudagur, október 30, 2005

Gleymdi einu. Ég væri sko alveg til í að vera heima á Íslandi núna og horfa á allan snjóinn, kúra sig undir teppi með bók og heitt súkkulaði.
En í staðinn horfi ég út um gluggann á grænt gras. Björtu hliðarnar eru hinsvegar þær að það er búið að spá mjög hörðum vetri í Evrópu þannig að kannski snjóar aftur jafnmikið í Árósum eins og seinasta vetur, jibbí.

Helgin er búin að vera alveg þvílíkt næs. Á föstudaginn var okkur boðið í mat til Hildar og Hákons þar sem að við fengum ofsa góðan mat, nammi namm. Eftir matinn spiluðum við svo Catan, erum rosa ánægð að hafa fundið einhvern hérna úti sem finnst þetta spil gaman.
Bæði laugardagurinn og dagurinn í dag hafa svo að mestu leyti farið í leti. Er einhvern veginn ekki alveg að nenna að byrja á praktík ritgerðinni minni en þarf nú samt að fara að koma mér í þann gír. Ætla líka að fara uppí skóla í vikunni og reyna að finna mér leiðbeinanda fyrir mastersritgerðina mína.
Svo eru bara næstu helgar orðnar bókaðar. Sálin auðvitað næsta laugardag, mér tókst að plata Árna með mér vegna þess að þeir tveir aðilar sem ég þekki í Kaupmannahöfn voru auðvitað með gesti hjá sér þessa sömu helgi þannig að ég gat ekki gist hjá þeim. Var semsagt komin á fremsta hlunn með að hætta að fara en þá bauðst Árni til að koma með mér og við tökum bara lestina heim um nóttina, mjög ánægð með það.
Um þarnæstu helgi ætla ég svo að halda upp á afmælið mitt, jibbí. Ætla að bjóða stelpunum í sálfræðinni til mín og slá upp smá partýi. Hlakka mjög mikið til.
Svo erum við hjónin búin að taka ákvörðun um Snúð, það gengur semsagt ekki að hafa hann hjá Bjarklindi þannig að hann fer í Kattholt og verður þar næstu fimm mánuði allavega. Þótt að hann sé kannski ekkert sáttur við það þá vitum við allavega að hann er öruggur þarna og fer ekkert á flakk. Vona bara að honum eigi eftir að líða vel þarna. Það var annaðhvort að setja hann í Kattholt eða lóga honum og það vildum við alls ekki.
Svo eru mamma og pabbi á fullu að flytja núna, hlakka rosa mikið til að koma heim í mars og sjá íbúðina (er nefnilega bara búin að sjá hana þegar að hún var ekki nærri því tilbúin).
Ætlaði líka að minna fólk á að núna erum við bara einum klukkutíma á undan Íslandi, voða næs að sofa til 11 en komast svo að því að maður svaf bara til 10 :).

miðvikudagur, október 26, 2005

þetta á netinu. Hræðilega sorglegt, allóþyrmilega minnt á hvað við erum í raun og veru heppin.

þriðjudagur, október 25, 2005

Búin að vera rosa dugleg að horfa á þættina sem biðu mín. Oh my god hvað önnur þáttaröð af Lost er spennandi. Önnur þáttaröð af Desperate housewives er alveg að standa fyrir sínu, höfundarnir kunna sko að láta mann bíða í ofvæni eftir næsta þætti. Er líka að horfa á 12. seríu af ER og 3. seríu of One tree hill. Þetta eru bara æðislegir þættir, veit ekki hvað ég geri þegar ER hættir. Svo bíða mín líka þættir úr Stargate Atlantis og Stargate SG-1, jibbí. Humm, finnst ykkur þetta vera nokkuð of margir þættir?
Annars er voða næs að vera komin "heim", sofa í rúminu sínu með koddann sinn, sængina sína og manninn sinn við hliðina. Er alveg búin að sakna þess að hafa engan til að hjúfra sig upp að á nóttunni.
Erum svo að reyna að gera íbúðina aðeins heimilislegri, búin að fara í Ikea og keyptum þar hillur sem eru komnar upp á einn stofuveginn og eru bara að taka sig vel út þar. Vantar svo bara nokkrar körfur til að setja inn á bað og þá ætti þetta bara að vera fínt. Ekki seinna vænna, einungis búin að búa hérna í rúmlega 1 ár. Þannig að núna lítur íbúðin okkar ennþá meira út eins og auglýsing fyrir Ikea, allt fyrir utan sjónvarpið, rúmið og sjónvarpsstandinn er keypt þar.

laugardagur, október 22, 2005

Snúðurinn skilaði sér loksins í gærkvöldi en ekki heim til Bjarklindar. Hann kom heim á Ásbúðartröðina um áttaleytið í gærkvöldi. Við heyrðum bara allt í einu mjálmað inni og þá var maður kominn. Maður er alveg duglegastur sko. Æ ég var svo ánægð að sjá hann og ekki sakaði það að hann svaf hjá mér í alla nótt. Ætla semsagt að hafa hann aðeins lengur hjá mömmu og pabba en svo fer hann líklegast aftur til Bjarklindar. Vona bara að hann skilji að hann eigi heima þar núna, ekki á Ásbúðartröðinni.
Í rauninni var mjög gott að Snúður kom heim því að hann vakti okkur um hálfsex í morgun, ætluðum að vakna fimm en við sváfum öll yfir okkur. En það reddaðist nú alveg og ég náði fluginu léttilega. Flugið gekk svo bara vel og þá var komið að lestarferðinni.
Lestin til Århus skiptist í rauninni í þrennt, nokkrir vagnar fara bara til Fredericia og ekki lengra, nokkrir vagnar fara til Århus o.s.frv. Ég átti semsagt að vera í vagni 31 og það er venjulega merkt hvaða vagn er númer hvað. En þá voru einhverjir tæknilegir örðugleikar í lestinni þannig að maður sá ekki númerin á vögnunum, þannig að ég fer bara inn í einhvern vagn. Auðvitað var það vagn á leiðinni til Fredericia þannig að ég fór að koma mér í réttan vagn. Ég semsagt dröslaðist með 25 kg tösku, snyrtiboxið mitt, bakpokann með fartölvunni og veskið mitt yfir 5 heila vagna. Alveg hræðilegt, sérstaklega þar sem að gangarnir á milli sætanna eru aðeins of þröngir til að maður geti dregið töskuna þannig að ég þurfti í rauninni að halda á henni allan tímann. Og svo vegna þess að þetta tæknilega vandamál hélt áfram þá vissi ég aldrei hvort að ég var komin í réttan vagn. Þurfti sífellt að vera að spyrja hvort að ég væri komin í vagn 31, örugglega mjög vinsæl :). En þetta semsagt reddaðist allt.
Og það var svo gott að sjá Árnann minn og knúsa hann. Hann fór svo bara snemma að sofa, er alveg búinn að snúa við sólarhringnum og ákvað þess vegna að fara ekkert að sofa seinustu nótt, ég skil ekki hvernig hann getur haldið sér vakandi svona lengi. Á morgun ætlum við svo bara að hafa það næs og njóta þess að vera saman því að skólinn byrjar svo aftur eftir vetrarfrí á mánudaginn hjá Árna.
En núna er ég bara búin með starfsþjálfunina mína, fékk voða góða umsögn frá leiðbeinandum, rosa ánægð með það. Þarf núna bara að skrifa nokkurs konar hugleiðingaritgerð um þjálfunina og þá get ég byrjað á lokaritgerðinni.

föstudagur, október 21, 2005

Núna er minn dapur og alveg með tárin í augunum. Snúðurinn okkar er ekki búinn að láta sjá sig í 30 tíma. Hann kemur yfirleitt þegar að ég kalla á hann en ég er búin að fara tvisvar til Bjarklindar og ekkert bólar á honum. Finnst mjög líklegt að hann sé bara týndur, sé í fýlu út í foreldra sína að vera alltaf að láta hann í nýtt húsnæði til nýrra aðila, æ litla greyið manns. Vona samt svo innilega að hann komi áður en ég fer.

fimmtudagur, október 20, 2005

Rosa mikið að gera hjá mér þessa dagana. Ég og Guðlaug fórum til Rakelar í gær og skoðuðum brúðkaupsmyndirnar og allar gjafirnar. Þvílíkt flottar myndir og geðveikar gjafir. Fengum rosa góða gulrótarköku og spjölluðum saman. Alltaf svo gaman að hitta þær.
Í kvöld er svo matarboð hjá Hrönn & Axel og Ásta & Ívar koma líka. Ég ætla líka að reyna að kveðja tengdó í kvöld þannig að ég kemst líklegast ekki í magadansinn, ekki alveg sátt með það en það eru bara ekki nægir tímar í sólarhringnum núna.
Á morgun ætla ég svo að reyna að hætta í þjálfuninni um hádegi því að ég á eftir að kaupa nammi fyrir Árna, fara á bókhlöðuna út af lokaverkefninu mínu, kveðja nánustu fjölskyldu, pakka niður o.fl. Ég ætla líka að reyna að kaupa þær jólagjafir sem ég er búin að ákveða svo að ég geti bara skilið þær hérna eftir og þurfi ekki að senda þær frá Århus.
Finnst rosalega óþægilegt að hafa svona mikið að gera á seinustu stundu en svona er það þegar að maður ákveður með svona stuttum fyrirvara að koma ekki heim um jólin. Annars hefði ég nú alveg getað dreift þessu meira.

miðvikudagur, október 19, 2005

Mér finnst að fleiri fyrirtæki ættu að fylgja fordæmi Sparisjóðs Norðlendinga.
Ef ég væri yfir höfuð að vinna þá myndi ég labba út kl. 14:08.

Fór og hitti nokkrar sálfræðistelpur á kaffihúsi í gær, rosa gaman að hitta þær og spjalla. Líka gott að frétta hvernig aðrir eru að fíla starfsþjálfunina sína.
Þurfti reyndar að sleppa magadansinum til að hitta þær þannig að það er bara einn tími eftir :(. Ætla sko pottþétt að kaupa mér aftur kort þegar að við komum aftur.
Svo er ég búin að kaupa mér miða á Sálina í Kaupmannahöfn. Ég ætla að skella mér með Hildi sálfræðigellu, hlakka ekkert smá til :).
Í dag eru 3 dagar þangað til að ég fer aftur til Árósa, voða skrýtin tilfinning að vita til þess að við verðum þarna í 5 mánuði án þess að koma nokkuð heim. En ég hlakka nú bara líka til, sérstaklega að hitta Árnann minn. En svo verður maður bara að vera jákvæður. Eins og Alda sagði í gær, maður á eftir að búa á Íslandi allt sitt líf þannig að nokkrir mánuðir í öðru landi skipta kannski ekki svo miklu máli.
Svo eru líka 3 dagar þangað til að ég er búin í starfsþjálfuninni minni. Mér finnst nú eiginlega enn skrýtnari tilhugsun að vita að ég á bara lokaritgerðina mína eftir í náminu mínu, maður er bara að vera stór :).
Það er nú líka dálítið spes að missa af fæðingu krónsprinsins í Danmörku, sjónvarpsdagskráin var rofin þegar að Mary var flutt upp á spítalann og ég hef heyrt að það var þvílíkt fyllerí í öllu landinu til að fagna fæðingu hans :). Danir dýrka auðvitað kóngafjölskylduna sína.

mánudagur, október 17, 2005

Amma mín varð 95 ára í gær og í tilefni þess hittist stórfjölskyldan á Hrafnistu þar sem að amma býr. Fengum rosa góða rjómatertu og spjölluðum smá saman.
Helgin var nú bara að mestu leyti róleg. Gisti hjá Bjarklindi systur alla helgina vegna þess að hún var í Boston og ég var að passa köttinn hennar, Simbu. Ég fór líka með Snúð til hennar vegna þess að hún ætlar að vera svo góð að vera með hann þangað til að við komum aftur heim. Mamma og pabbi voru nefnilega að kaupa sér íbúð þar sem að má ekki vera með dýr.
Snúður og Simba gerðu nú ekkert annað en að hvæsa á hvort annað, þvílíkt stuð. Ég reyndi svo að halda Snúð inni en hann slapp auðvitað út um glugga en kom sem betur fer aftur heim. Svo núna situr Simba í kattarlúgunni og neitar að hleypa Snúði inn þegar að hann vill koma heim. Vona bara að hann fari ekki á flakk.
Svo kíkti ég á Ingibjörgu á laugardagskvöldið, við pöntuðum okkur pizzu og spjölluðum saman, voða næs.
Annars erum ég og Árni búin að ákveða að vera í Danmörku þangað til í mars (eitthvað vesen með kúrsana hans Árna) og við komum líklegast ekki heldur heim um jólin. Frekar skrýtin tilhugsun en svona er að vera fátækur námsmaður. Mér finnst reyndar yndislegt að vera bara tvö ein á aðfangadagskvöld en ég verð nú dálítið lítil í mér þegar að ég hugsa til þess að geta ekkert hitt fjölskyldu og vini um jólin.

fimmtudagur, október 13, 2005

Ég er búin að vera að lesa í gegnum gamalt blogg hjá mér og það er ekkert smá gaman að eiga svona "dagbók" um líf mitt fyrir undanfarin tvö og hálft ár.
Svo var ég líka að lesa gömlu dagbækurnar mínar frá árunum 1997 - 2000 og oh my god hvað ég lá í kasti yfir þeim, alveg frábært að sjá hugsanir sínar frá þessum tíma.

mánudagur, október 10, 2005

Ég og Árni vorum að panta okkur hótel í Kaupmannahöfn 2.- 4. desember. Oh hlakka svo til að koma þangað (hef nefnilega aldrei komið til borgarinnar, ótrúlegt en satt), fara í jólatívolí, labba Strikið, komast í jólaskap og bara njóta lífsins með manninum mínum :).

Kíkti út á lífið með Helgu á laugardaginn. Fórum á Glaumbar (hvert annað?) og dönsuðum smá. Rosa gaman en alveg óþolandi að fara á djammið og lykta eins og maður hafi reykt í 12 tíma, jakk. Svo í gær lá ég bara uppi í rúmi og las 3 bækur, rosa skrýtið (en jafnframt alveg yndislegt) að þurfa ekki að vera að læra um helgar.

Í dag eru svo aðeins 12 dagar þangað til að ég fer til Danmerkur, jibbí.

En svo las ég þessa grein í morgun og fékk alveg tár í augun. Það er svo greinilegt að líf barnanna sem lenda í misnotkun eru ekkert metin, allavega ef miðað er við hvernig réttarkerfi okkar tekur á þessum einstaklingum sem brjóta af sér. Dáist alveg að konunni sem skrifar þessa bók, finnst hún sýna svo mikið hugrekki með því.

miðvikudagur, október 05, 2005

Rosa gaman í magadansinum í gær, dönsuðum bæði með slæður og án þeirra, lentum í dálitlum vandræðum að dansa með slæðunum, því að þá þarf maður að hreyfa fæturnar, fingurna og hendurnar í einu og það var ekki alveg að gera sig svona fyrsta tímann. En við erum bara 6 í þessu námskeiði, mjög ánægð með það. Í tímanum á undan okkur voru um 30 manns en maður fær mikið meira út úr þessu þegar að svona fáir eru.
Námskeiðinu er svo skipt þannig að fyrstu vikuna verður magadans kenndur, næstu viku Bollywood (ekki Bollywoo eins og ég skrifaði seinast), þriðju vikuna verður Hawaii hula kennt og svo loksins salsa. Er mjög ánægð með þessa uppröðun vegna þess að ég missi af seinustu vikunni en þar sem að ég kann salsa skiptir það ekki svo miklu máli.
En oh my god hvað Josy (kennarinn) dansar vel, þvílíkt vald á magavöðvunum.

mánudagur, október 03, 2005

Jæja við systurnar búnar að skrá okkur í Suðræna sveiflu ( sem er magadans, salsa, Bollywoo og Hawaii Hula) hjá Magadanshúsinu. Hlakka geðveikt til, byrja annað kvöld og verð þrisvar í viku.

sunnudagur, október 02, 2005

Þvílíkt skemmtileg helgi búin. Á föstudaginn var Helga með saumó, með mat fyrir heilan her. Rosa gaman að hitta stelpurnar og spjalla saman.
Á laugardaginn lá ég nú bara í leti en um kvöldið kíkti ég til Bjarklindar systur þar sem að við ákváðum að byrja í magadansi í næstu viku. Hún sýndi mér atriði í Ísland í dag (síðan í seinustu viku) og við lágum alveg í kasti yfir 3 karatestrákum sem byrjuðu að æfa magadans vegna atriðis í árshátíð en eru núna farnir að sýna um allan bæ. Þetta var reyndar rosalega flott hjá þeim en líka alveg hrikalega fyndið.
Við kíktum svo aðeins á djammið. Fórum fyrst á Hressó og dönsuðum smá, ætluðum svo að kíkja aðeins inn á Glaumbar en það var svo geðveikt góð tónlist þar að við ílengdumst þar og vorum ekki komnar heim fyrr en um fimm. Snúður vakti mig svo klukkan 11, ekki alveg sá vinsælasti í heimi :).
Svo eru bara 20 dagar þangað til að ég sé manninn minn, hlakka mjög mikið til þess. Við erum sko alveg búin að ákveða að vera aldrei svona lengi frá hvort öðru.

miðvikudagur, september 28, 2005

Árni klukkaði mig þannig að ég verð víst að segja frá 5 tilgangslausum staðreyndum um mig:

1. Ég er ofur stundvís. Þetta getur verið mjög pirrandi á Íslandi þegar að maður mætir fyrstur í partý og þarf að bíða eftir því að gestgjafinn fari í sturtu og svona :). Einnig þegar að maður sjálfur heldur partý þá fer rosa mikið í taugarnar á mér að enginn mætir á réttum tíma.

2. Mér finnst gaman að pússla (bæði venjuleg pússl og líka á netinu). Get eytt óratíma í það.

3. Ég er algjör bókaormur og er einmitt að njóta þess núna að lesa skáldsögur í stað námsbóka. Mörgum finnst mjög skrýtið að ég get líka lesið sömu bækurnar aftur og aftur.

4. Mig langar mjög mikið að vinna í Kattholti. Örugglega margir sem skilja ekkert í mér að vilja það en kettir eru bara yndislegustu dýr í heimi.

5. Ég er gjörsamlega háð ýmsum þáttum; ER, One Tree Hill, Desperate Housewifes, Stargate og Lost. Mér fannst alveg hræðilegt þegar að Friends hættu á sínum tíma en maður lærir þá bara þættina utanað í staðinn :).

Ég á víst að klukka aðra fimm og ég er að spá í að klukka þá sem eru búnir að vera mjög latir að blogga undanfarið; semsagt Árni (hann er ekki búinn að skrifa þessi 5 atriði um sig þótt að hann klukkaði mig), Ásta, Grétar, Ívar og Laufey

föstudagur, september 23, 2005

Í tilefni helgarinnar ákvað ég að skella inn smá gríni. Tók þetta af heimasíðunni hennar Möggu í Sviss. Góða helgi allir :)


Námskeið fyrir karlmenn
ALLIR VELKOMNIR
AÐEINS FYRIR KARLA

Athugasemd: námskeiðin eru flókin þannig að aðeins átta geta sótt hvert námskeið

Hvert námskeið tekur tvo daga og efnið er eftirfarandi:

FYRRI DAGUR

HVERNIG Á AÐ FYLLA ÍSMOLAMÓT ?
Skref fyrir skref með glærusýningu

KLÓSETTRÚLLUR: VAXA ÞÆR Á KLÓSETTRÚLLUHALDARANUM?
Hringborðsumræður

MUNURINN Á RUSLAFÖTUM OG GÓLFI
Æfingar með körfuefni (teikningar og módel)

DISKAR OG HNÍFAPÖR: FER ÞETTA SJÁLFKRAFA Í VASKINN EÐA UPPÞVOTTAVÉLINA?
Pallborðsumræður nokkrir sérfræðingar

AÐ TAPA GETUNNI
Að missa fjarstýringuna til makans.
Stuðningshópar

LÆRA AÐ FINNA HLUTI
Byrja að leita á réttum stöðum í stað þess að snúa húsinu við gargandi.
Opin umræða


SEINNI DAGUR

TÓMAR MJÓLKURFERNUR; EIGA ÞÆR AÐ VERA Í ÍSSKÁPNUM EÐA Í RUSLINU?
Hópvinna og hlutverkaleikir

HEILSUVAKT: ÞAÐ ER EKKI HÆTTULEGT HEILSUNNI AÐ GEFA HENNI BLÓM
PowerPoint kynning

SANNIR KARLMENN SPYRJA TIL VEGAR ÞEGAR ÞEIR VILLAST
Sönn saga frá manninum sem spurði til vegar

ER ERFÐAFRÆÐILEGA ÓMÖGULEGT AÐ SITJA ÞEGJANDI MEÐAN HÚN LEGGUR BÍL?
Ökuhermir

AÐ BÚA MEÐ FULLORÐNUM: GRUNDVALLARMUNUR Á ÞVÍ AÐ BÚA MEÐ MÖMMU ÞINNI OG MAKA Fyrirlestur og hlutverkaleikir

HVERNIG Á AÐ FARA MEÐ EIGINKONUNNI Í BÚÐIR
Slökunaræfingar, hugleiðsla og öndunartækni

AÐ MUNA MIKILVÆGAR DAGSETNINGAR OG AÐ HRINGJA ÞEGAR ÞÉR SEINKAR
Komdu með dagatalið þitt í tímann

AÐ LÆRA AÐ LIFA MEÐ ÞVÍ AÐ HAFA ALLTAF RANGT FYRIR SÉR
Einstaklingsráðgjöf og samtöl

þriðjudagur, september 20, 2005

Er búin að breyta flugmiðanum mínum, flýg semsagt til Danmerkur 22. október í stað 29. október. Lýk starfsþjálfuninni 21. okt. og ákvað bara að drífa mig strax út til Árna. Þannig að niðurtalningin er komin niður í 32 daga :).

mánudagur, september 19, 2005

Fór út að borða með nokkrum stelpum í vinnunni á föstudag. Fyrst var farið í fordrykk í boði fyrirtækisins og þaðan lá leiðin á Tapas barinn þar sem við fengum annan fordrykk og 7 rétta óvissuferð (maður veit þá ekkert hvað verður borið á borð). Við fengum m.a. beikonvafða hörpuskel með steiktum döðlum, parmaskinku og rækjur í chilli sósu, nammi namm. Eftir þetta löbbuðum við aðeins um bæinn og enduðum kvöldið á Ölstofunni en svo fór ég bara heim um eittleytið. Hefði alveg verið til í að vera lengur en þar sem að ég gat fengið far heim þá tímdi ég ekki að sleppa því. Rosa skemmtilegt kvöld og gaman að kynnast stelpunum aðeins.
Laugardagurinn var svo bara rólegur, ætlaði bara að vera heima um kvöldið en ákvað svo að kíkja til Helgu í nýju íbúðina sem er ógó sæt. Við tókum myndina The wedding date, alveg ekta svona stelpumynd sem reyndist bara vera mjög skemmtileg.
Svo man ég nú ekki hvort að ég var búin að upplýsa þá sem lesa bloggið að Hrönn vinkona er ólétt og á að eiga í lok desember, hlakka svo mikið til að knúsa barnið. Verð sko alveg ekta svona frænka sem gefur hávær leikföng og spillir barninu út í eitt.
En svo að maður haldi í hefðina þá eru bara 40 dagar þangað til að ég get knúsað Árnann minn, jíbbí :).

þriðjudagur, september 13, 2005

Horfði loksins á spóluna með gæsuninni minni. Helga kom með spóluna til mín daginn áður en við fluttum til Danmerkur og þar sem við erum ekki með video úti þá var ég ekkert að taka spóluna með. Setti hana bara uppí skáp hjá mömmu og pabba og gleymdi eiginlega svo að hún væri þarna.
En semsagt, það var svo frábært að horfa á þetta allt aftur. Ég lá í kasti allan tímann. Svo voru systurnar + vinkonurnar líka búnar að tala inn á spóluna (ég vissi ekkert af því) og það var svo sætt allt sem þær sögðu. Takk æðislega fyrir elskurnar mínar, þið eruð langbestar.

mánudagur, september 12, 2005

Búið að vera þvílíkt gaman seinustu daga. Á miðvikudaginn fór ég út að borða á Vegamótum og nammi namm ógó góður matur þar. Rosa gaman að hitta vinkonurnar og mikið spjallað. Á fimmtudaginn komu svo systkinin og fjölskyldur þeirra í heimsókn vegna þess að mamma átti afmæli og þá voru nú þvílíkar kræsingar í boði. Á föstudaginn fór ég svo aftur út að borða á Tapas barinn og rosa góður matur þar líka. Mikið hlegið hjá okkur stelpunum enda alltaf svo frábært að hitta þær, við enduðum kvöldið á að kíkja á Cafe Paris og litum aðeins inn á Hressó en svo fór ég bara heim.
Á laugardaginn var ég svo að þjóna til borðs í brúðkapinu hjá Rakel og Vigga. Oh hvað þau voru sæt saman og kjóllinn alveg geðveikur. Svo fannst öllum alveg frábært að þau dönsuðu brúðarvalsinn við fugladansinn, það lágu allir í kasti. En ég fékk nú smá fiðring í magann við að hugsa til brúðkaupsins míns og langaði alveg þvílíkt að fá að knúsa manninn minn. En ég fæ að hitta hann eftir 47 daga :).

fimmtudagur, september 08, 2005

Mamma á afmæli í dag, til hamingju með afmælið elsku mamma mín! Var einmitt að hjálpa henni að baka í gær, nammi namm, hlakka til að fá kökur þegar að ég kem heim úr vinnunni.

þriðjudagur, september 06, 2005

Tengdapabbi á afmæli í dag, til hamingju með afmælið Einar! Sætasti kisinn í heimi á líka afmæli í dag og er 3 ára. Maður fær sko pottþétt eitthvað gott að borða í kvöld, rækjur og rjóma :).
Annars er nú mest lítið að frétta, er bara á fullu í vinnunni og kvöldin eru búin að vera frekar róleg. Reyndar verður aðeins meira að gera næstu daga, er að fara út að borða annað kvöld á Vegamótum með öðrum vinkonuhópnum og svo á föstudagskvöldið fer ég út að borða á Tapas barnum með hinum vinkonuhópnum.
Á laugardaginn er Rakel, sem ég var að vinna með í Landsbankanum, að fara að gifta sig og ég ætla að þjóna til borðs þar. Gaman gaman, hlakka til að sjá hana í kjólnum. Verður örugglega svaka sæt.
Mamma á svo afmæli á fimmtudaginn og nánasta fjölskylda kemur örugglega til okkar um kvöldið, semsagt nóg að gera.

miðvikudagur, ágúst 31, 2005

Nafnið mitt merkir:

Inga = konungborin
Elín = hin bjarta og borg = vörn

Bara nokkuð ánægð með það :).

Árna nafn merkir hinsvegar örn. Og þar sem örninn er konungur fuglanna þá eigum við greinilega mjög vel saman því að Inga er konungborin, tíhí.

Fékk þessar upplýsingar á mannanöfn.com. Búin að vera að fletta upp nöfnum fjölskyldunnar og vinanna. Þvílíkt stuð.

mánudagur, ágúst 29, 2005

Ég vaknaði klukkan korter í fimm í morgun til að keyra Árna út á flugvöll. Oh hvað mér leið ekki vel á leiðinni þangað. Ég var rosa lítil í mér þegar að við kvöddumst, var alveg á mörkunum að fara að hágráta en gat harkað það af mér. Svo var ég með tárin í augunum eiginlega alla leið heim aftur.
Hann er semsagt núna kominn í loftið og þar sem að hann svaf ekkert í nótt ætti hann að geta sofið í vélinni. Hlakka til að heyra í honum í kvöld. Bara 61 dagur þangað til að við hittumst aftur :). Vona að ferðin gangi vel ástin mín.

sunnudagur, ágúst 28, 2005

Nákvæmlega engin frammistaða í þessu bloggi mínu :). Ég er bara búin að vera svo upptekin í seinustu viku að það gafst enginn tími til þess.
Ég er semsagt byrjuð á fullu hjá IMG og gengur bara rosa vel. Allt fólkið voða indælt og verkefnin mín gífurlega skemmtileg.
Í dag var svo verið að skíra litlu frænku og fékk hún nafnið Ríkey. Innilega til hamingju með nafnið krútta. Mjög fallegt nafn og passar vel við hana :).
Árni flýgur svo á morgun til Danmerkur og þá hefst grasekkjutímabilið mitt sem stendur í tvo mánuði, snökt snökt. Þetta verður nú örugglega fljótt að líða, vona það allavega. Ég semsagt flyt til mömmu og pabba á morgun, hlakka til að sofa með Snúðinn uppi í rúmi í tvo mánuði.

laugardagur, ágúst 20, 2005

Jæja, þá er ég svona nokkurn veginn byrjuð í praktíkinni, mætti til þeirra seinasta mánudag en þar sem að fyrirtækið er að flytja fékk ég bara heimaverkefni, þ.e. fékk tvær bækur um ákveðið efni og á að skila mínu áliti á þeim (hvort að IMG geti innleitt þetta í verkefni sín, kosti, galla og svona). Flutningarnir verða svo vonandi búnir á mánudaginn og þá verður pláss fyrir mig :). Líst bara rosalega vel á þetta.
Svo héldum við annað matarboð í gær fyrir vini hans Árna, ekkert smá skemmtilegt. Enda alveg komin tími á að ég hitti vini hans í sumar, er ekkert búin að hitta nokkra þannig að þetta var alveg á seinasta snúning því að Árni fer eftir 9 daga. Kíktum svo aðeins niður í bæ og vorum komin heim um fjögurleytið.
Annars er ég búin að komast að því að það er algjör snilld að bjóða upp á þessi jelly shots :). Allir svo ánægðir með þau.

fimmtudagur, ágúst 11, 2005

Er núna í búðinni fyrir tengdó og það gengur bara ágætlega. Samt dálítið erfitt að vita ekki nákvæmlega hvar allir hlutirnir eru inni á lager eða hvað þeir kosta en viðskiptavinirnir eru búnir að vera mjög þolinmóðir við mig :).
Ég og Árni fórum að heimsækja Karen á þriðjudaginn, ekkert smá gaman að sjá hana. Sérstaklega þar sem að við sjáum hana ekkert fyrr en um jólin aftur. Hún fer svo aftur til Danmerkur á sunnudaginn en ég ætla að reyna að kíkja til hennar einu sinni enn.
Svo ætlum við að halda smá matarboð á laugardaginn. Helga, Freyr, Ásta, Ívar og Hrönn ætla að kíkja til okkar. Ég ætla einmitt að búa til svona hlaupskot, smakkaði þannig hjá Helgu í afmælinu hans Freys og nammi namm hvað þetta er gott :). Reyndar dálítið hættulegt þar sem að lítið áfengisbragð finnst en maður passar sig bara.

mánudagur, ágúst 08, 2005

Núna eru ég og Árni búin að vera gift í eitt ár (og einn dag :)). Sunnudagurinn var ekkert smá næs. Árni fór út í bakarí fyrir okkur og keypti smá góðgæti. Hann keypti líka eina rauða rós handa mér, rosa sætur. Ég gaf honum það sem ég var búin að föndra en ég límdi inn í gestabókina okkar allt sem tengdist brúðkaupinu, hjörtun sem ættingjar/vinir skrifuðu heilræði á til okkar, litlu hjörtun sem voru til skrauts á borðunum, myndir af okkur þegar að við vorum lítil og ýmislegt fleira. Ég skrifaði líka inn textana á lögunum sem við létum syngja í kirkjunni.
Árni var svo búinn að plana að fara í Dýragarðinn í Slakka en við þurftum að hætta við það vegna veðurs. Fórum þangað svo í dag og klöppuðum kettlingum, folöldum, kálfi og fleiri dýrum. Ég gjörsamlega dýrka þennan stað.
Á sunnudagskvöldinu fórum við svo á Humarhúsið og við fengum okkur bæði humarsúpu í forrétt, algjör lostæti. Svo fékk ég mér gratineraða humarhala með humarsósu og Árni fékk sér haf og haga, þ.e.a.s. nautasteik og humarhala. Geðveikt gott.
Enduðum kvöldið á að fara í bíó, á The wedding crashers. Oh my god hvað hún er fyndin, rosa góð mynd. Semsagt alveg yndislegur dagur, bíð bara eftir næsta brúðkaupsafmæli :).

föstudagur, ágúst 05, 2005

Jæja þá er letilífið núna að mestu búið (og alveg kominn tími til). Tengdó eru nefnilega að fara út til Danmerkur næsta miðvikudag og báðu okkur um að vera í búðinni fyrir þau á meðan. Þannig að ég er búin að vera í smá þjálfun þar og verð ein frá miðvikudegi til laugardags í næstu viku. Rosa gaman og svo verða allir að koma að versla hjá mér, tíhí.
Afmælið hjá Frey seinustu helgi var ekkert smá skemmtilegt. Fámennt en bara þeim mun skemmtilegra fólk, við sátum heillengi og spjölluðum saman og fórum svo aðeins niður í bæ. Kíktum á Glaumbar, Thorvaldsen og Hressó en svo fór ég heim um fjögurleytið.
Svo eigum við auðvitað eins árs brúðkaupsafmæli á sunnudaginn, trúi því varla að það sé strax komið eitt ár. Er einmitt búin að vera að föndra dálítið til að gefa Árna og hann er nú orðinn frekar forvitinn um hvað það er. Ætlum svo út að borða um kvöldið, býst við að við förum á Humarhúsið. Alltaf svo geðveikt góður matur þar.