Árni er kominn í frí sem er megin ástæðan fyrir lélegu bloggstandi þessa dagana. Við erum búin að vera ágætlega dugleg í fríinu. Byrjuðum á því að fara til Bergþórs pabba seinustu helgi. Hvolparnir hennar Tinnu eru auðvitað langsætastir, var nú reyndar fljótt læknuð af því að fá einn með mér heim því að þeir væla frekar mikið og ég nenni ekki að vakna við þá á nóttunni svona loksins þegar að Benedikt sefur vel :). Það er alltaf jafn æðislegt að komast í sveitasæluna enda er ég algjör sveitakerling. Eftir að við komum heim erum við búin að fara í fyrsta skipti í Smáralindina öll fjölskyldan, niður á tjörn að gefa öndunum og í heimsókn til Þuríðar og Steina til að sjá litla prinsinn þeirra. Í næstu viku er reyndar lítið planað, við kíkjum kannski í einhverja dagsferð út á land og svo langar okkur að fara í Húsdýragarðinn. Það er alveg æðislegt að hafa Árna heima allan daginn, frábært að við getum bara dúllað okkur öll 3 saman.
Við erum búin að vera að kíkja á dagmömmur fyrir Benedikt og fundum eina sem okkur líst mjög vel á. Hún sagði okkur þær "skemmtilegu" fréttir að þar sem að við Árni eigum rétt á 9 mánaða fæðingarorlofi samtals þá byrjar Hafnarfjarðarbær að greiða niður fyrir Benedikt þegar að hann verður 9 mánaða. Þeir ætlast semsagt ekki til að foreldrar taki einhvern hluta eða allt fæðingarorlofið saman. Við lendum nú ekkert svakalega illa í þessu, Árni fer aftur að vinna þegar að Benedikt er 8 og 1/2 mánaða þannig að þetta verða eitthvað um 3 vikur ef að við tökum aðlögunina með. Málið er bara að við vissum þetta alls ekki og þetta kemur ekki neins staðar fram á vef Hafnarfjarðar. Ótrúlega fáránlegt þetta kerfi. Við vorum í raun bara heppin að við skiptum þessu akkúrat svona á milli okkar, við vorum m.a.s. fyrst að spá í að Árni myndi vera heima allan fyrsta mánuðinn með mér en hættum svo við það, vildum frekar að Benedikt yrði eldri þegar að hann færi til dagmömmunnar. En það þýðir víst lítið að velta sér upp úr þessu, okkur finnast bara mjög hallærislegt að þetta komi ekki neins staðar fram.
laugardagur, júní 30, 2007
Birt af Inga Elínborg kl. 6/30/2007 10:33:00 e.h. |
miðvikudagur, júní 20, 2007
Alveg ótrúlegt hvað ég get verið utan við mig þessa dagana. Ég set alltaf á mig rakakrem á morgnana og byrjaði einmitt á því í morgun. Benedikt sat í ömmustólnum sínum og ég var að spjalla við hann á meðan ég bar kremið á mig. Mér fannst kremið eitthvað samt skrýtið, voðalega klesst og gat ég lítið dreift því yfir andlitið. Hugsaði samt ekkert meira um það og hélt bara áfram. Korteri eftir að ég var búin að bera á mig var húðin hálfskrýtin og þá fattaði ég loksins að ég hafði ekki verið að bera á mig rakakrem heldur hreinsikrem! Semsagt búin að vera með hreinsikrem á mér í korter áður en ég áttaði mig á þessu. Túpurnar eru ekki einu sinni líkar í útliti, skil ekki alveg hvernig ég fór að þessu. Árna fannst hinsvegar mjög gaman þegar að ég sagði honum frá þessu enda kallar hann mig oft klaufann sinn :).
Birt af Inga Elínborg kl. 6/20/2007 11:34:00 f.h. |
þriðjudagur, júní 19, 2007
Það var frábært að vera í Laugardalshöllinni á sunnudaginn og fylgjast með strákunum okkar vinna Serba. Við létum okkar ekki eftir liggja í að hvetja strákana áfram enda vorum við frekar hás í gær :), það voru allir í frábæru skapi og stemningin var ólýsanleg.
Við gerðum nú mest lítið annað á þjóðhátíðardaginn. Árni vaknaði á sunnudaginn og gat voðalega lítið hreyft sig vegna bakverks þannig að við ákváðum bara að vera heima og slappa af.
Voðalega lítið að frétta af mér þessa dagana, bíð bara eftir að Árni komist í frí. Hann átti að byrja í fríi á morgun en það er svo mikið að gera í vinnunni að þeir báðu hann um að vinna út vikuna til að klára öll þau verkefni sem hann er með. Sérstaklega þar sem að hann mætir ekki aftur í vinnuna fyrr en um miðjan september því að hann tekur fæðingarorlofið sitt beint á eftir fríinu. Honum finnst það voðalega skrýtið tilhugsun að mæta ekki aftur í vinnuna fyrr en eftir 3 mánuði :).
Birt af Inga Elínborg kl. 6/19/2007 12:09:00 e.h. |
föstudagur, júní 15, 2007
Fyrir ca. mánuði síðan ákváðum við að setja Benedikt í sitt eigið herbergi. Það er reyndar ekki búið að gerast enn vegna þess að við eigum ennþá eftir að hengja upp myrkvagardínur í herbergið vegna þess að hann á mjög erfitt með að sofna í mikilli birtu. Ætlunin er að setja þær upp á morgun, alveg ótrúlegt hvað maður getur verið lengi að koma sér að verki hérna á heimilinu.
Mér finnst samt svo skrýtið/fyndið hvernig viðbrögðin eru hjá fólki. Meirihlutinn af þeim sem ég hef sagt þetta finnst við vera vond við hann, ég næ því nú ekki alveg. Hvernig er ég vond við barnið mitt þótt að ég vilji að það sofi í sínu eigin herbergi? Hann sefur vonandi mikið betur og við sofum betur, þannig að það græða allir. Ég vakna nefnilega upp við minnsta hljóð í honum og get þá verið andvaka í einhverja tíma. Þegar að ég segi fólki að ég vakni mjög auðveldlega við hann þá finnst flestum þetta vera í lagi en þeim finnst ekki vera í lagi að við setjum hann í annað herbergi vegna þess að við viljum það. Það var alltaf ætlun okkar að setja hann fyrir 6 mánaða afmælið sitt í eigið herbergi, alveg sama hvort að ég myndi vera að vakna við hann eða ekki.
Annars er skemmtileg helgi framundan, hittingur hjá sálfræðinemunum sem voru í Árósum í kvöld á Tapas. Hlakka mjög mikið til enda er langt síðan að við höfum öll hist og ekki spillir fyrir hvað það er góður matur á Tapas.
Á morgun er Laufey, systir hans Árna að útskrifast úr KHÍ og verður smá boð hjá henni þannig að við ætlum að skella okkur þangað.
17. júní á sunnudaginn. Þar sem að við hjónin hötum bæði að fara í skrúðgöngu (ohh við pössum svo vel saman :)) þá ætlum við ekki að fara með Benedikt í eitthvað þannig. Mig langar hinsvegar að labba bara aðeins niður í bæ og gefa öndunum og svona. Það er alltaf svo skemmtilegt. Ég hlakka líka endalaust til um kvöldið, það verður svo gaman á landsleiknum! Það er orðið uppselt þannig að það verður örugglega frábær stemmning í höllinni.
Birt af Inga Elínborg kl. 6/15/2007 04:56:00 e.h. |
mánudagur, júní 11, 2007
Fín helgi að baki. Við fjölskyldan fórum í innkaupaleiðangur á laugardaginn og keyptum uppþvottavél, ryksugu og kerru fyrir litla guttann. Við fáum uppþvottavélina heim í dag og ég hlakka svo til. Reyndar finnst mér allt í lagi að vaska upp (ég vaska semsagt alltaf upp en Árni sér um þvottinn) en eftir að Benedikt kom þá hrannast uppvaskið bara upp og maður hefur engan veginn við. Auðvitað er þetta bara leti í manni, mamma komst ágætlega af með enga uppþvottavél og fimm börn!!
Karen og Grétar kíktu til okkar á laugardagskvöldið og við horfðum á Serbía-Ísland. Við hjónin erum einmitt búin að kaupa okkur miða á landsleikinn þann 17. júní. Ísland þarf að vinna með a.m.k. tveggja marka mun til að komast áfram á EM 2008 þannig að þetta verður heljarinnar leikur. Allir að mæta og styðja strákana okkar. Mér finnst alveg frábært að hafa þetta á þjóðhátíðardaginn okkar, allir í svaka stemmningu :).
Magnús Breki þeirra Ingibjargar og Bigga varð svo eins árs í gær og bauð í afmæli. Við vorum nú reyndar stutt, Benedikt var frekar pirraður og nennti ekkert að vera að tala við allt þetta fólk. Stuttu eftir að við komum heim komu vinir hans Árna í heimsókn og það var svo heitt á bakvið hjá okkur að karlarnir skelltu sér út með börnin en ég og Auður röbbuðum bara saman. Semsagt nóg að gera þessa helgina.
Við keyptum okkur miða til Egilsstaða :), förum sunnudaginn 26. júní. Verðum reyndar bara tvær nætur en það er alltaf gott að komast út úr bænum og slappa af, ég tala nú ekki um þegar að maður getur knúsað hvolpa allan tímann. Ég er búin að biðja Árna um að taka mig burt frá hvolpunum þegar að ég vil fá einn með mér heim :). Í fyrsta lagi þá myndi Snúður líklegast fara að heiman ef að við kæmum með hvolp með okkur og mér finnst alveg nóg að sjá um Benedikt, hvað þá einn lítinn hvolp sem nagar allt. Ég veit bara að ég á eftir að gleyma allri rökhugsun þegar að ég sé þá.
Birt af Inga Elínborg kl. 6/11/2007 09:01:00 f.h. |
mánudagur, júní 04, 2007
Þótt að ég sé ekki lengur með Benedikt á brjósti þá virðist brjóstagjafaþokan ekki alveg hafa yfirgefið mig. Ég fór semsagt út í búð í gær og keypti m.a. tyggjó. Ég var næstum því búin að gleyma að setja það í pokann en mundi eftir því á síðustu stundu. Ég raðaði svo inn í ísskáp og setti einn hlut í frystinn en ekki fann ég tyggjóið. Mér fannst það nú nokkuð skrýtið vegna þess að ég var pottþétt á því að hafa sett það í pokann. Svo opnaði ég frystinn áðan og viti menn, þar lá tyggjóið. Ekki veit ég hvað ég ætlaði að gera við það frosið :).
Birt af Inga Elínborg kl. 6/04/2007 12:23:00 e.h. |
Í dag eru 15 dagar þangað til að Árni fer í sumarfrí. Oh hvað ég hlakka til, verður endalaust gaman að vera öll 3 saman og hafa það þægilegt. Við ætlum m.a. að fara á Snæfellsnesið í gömlu sveitina mína en þar verður reunion. Fríða (konan sem mamma var hjá í vist) og öll börnin hennar + makar + barnabörn eru að fara að hittast og Fríða bauð okkur öllum að koma líka. Þetta verður enginn smá hópur þar sem að Fríða á 9 börn á lífi og barnabörnin eru auðvitað eitthvað fleiri. Það verður rosa gaman að hitta þau öll í einu, held að það séu um 10-12 ár síðan að ég hitti þau öll saman.
Svo langar mig alveg rosalega að kíkja aðeins til Bergþórs pabba í nokkra daga. Planið er þá að fljúga á Egilsstaði og pabbi myndi sækja okkur þangað. Það eru bara ca. 2 tímar á milli Bakkafjarðar og Egilsstaðar þannig að þetta væri mjög passlegt fyrir Benedikt. Ekki skemmir það svo fyrir að Tinna, hundurinn hans pabba, var að eignast hvolpa á föstudaginn, alveg 6 stykki (reyndar voru þeir 8 en tveir þeirra fæddust andvana). Mig langar svo mikið að sjá þá og knúsa, litlu krúttin. En Árni er ekki alveg viss um þetta, heldur að Benedikt verði eitthvað erfiður en það verður þá bara að hafa það. Ég ætla ekkert að hætta að gera þá hluti sem mig langar til þótt að ég sé komin með börn. En við sjáum bara til, Árna langar auðvitað að fara líka þannig að líkurnar eru nú meiri að við förum en ekki.
Við kíktum svo í bíó í gær, á Spiderman 3. Hún var ekki alveg að gera sig, fannst hún mikið lélegri heldur en hinar 2 og við sáum eiginlega bara eftir peningnum. Hins vegar finnst mér svo pirrandi þegar að foreldrar taka ung börn með sér á svona myndir. Myndin er frekar löng eða ca. 2 og hálfur tími og börnin voru löngu hætt að nenna að sitja kyrr. Það var m.a.s. einn sem stóð allan síðasta hálftímann og var endalaust að vesenast og pabbinn gerði ekki neitt. Og það er nú ekki eins og þessi mynd sé eitthvað barnvæn, mikið af ofbeldi í henni. Skil heldur ekki þegar að foreldrar kenna ekki börnunum sínum að í bíói á ekki að tala. Ég skil mjög vel að börn hafa mikla þörf fyrir að tjá sig þegar að þau sjá eitthvað flott og ég er ekkert að tala um að þau eigi að vera gjörsamlega þögul allan tímann en þegar að þau tjá sig eftir hvert einasta atriði þá er það orðið mjög pirrandi. Og foreldrarnir sussa ekki einu sinni á þau, hugsa greinilega ekki um að það eru fleiri í bíó en bara þau.
Birt af Inga Elínborg kl. 6/04/2007 09:28:00 f.h. |
föstudagur, maí 25, 2007
Ekki skil ég af hverju þeir vilja fara að flytja inn nýsjálenskt lambakjöt. Við keyptum okkur einu sinni lambakjöt frá Nýja-Sjálandi í Árósum og við vorum fljót að henda því eftir að hafa smakkað fyrsta bitann. Einhvers konar ullarbragð var af því og ég sannfærðist enn betur um að íslenska lambakjötið er best!!
Annars finnst mér þessi nýja stjórn ekki alveg að gera sig. Samfylkingin þurfti að bakka með mikið af sínum aðalmálefnum, t.d. stjóriðjustefnuna og ESB umræðuna. Ég er nú reyndar ekki hlynnt því að ganga í ESB en mér finnst samt á öllu að Samfylkingin hafi "selt sig" til að komast í stjórn, nægir þar að nefna að við vorum ekki tekin af lista hinna vígfúsu þjóða þótt að það standi mjög skýrt hjá þeim að það verði eitt fyrsta verk þeira. Í stjórnarsáttmálanum stendur aðeins að þau harmi ástandið í Írak. Ekki virðist heldur vera mikil samstaða um virkjanamál. Ég er algjörlega á móti frekari virkjunum og Ingibjörg sagði að ekki væri hægt að fara í Norðlingaölduveitu en Geir virðist vera á öðru máli og vitnar þar í stefnuyfirlýsingu nýju stjórnarinnar. Mér finnst að Samfylkingin hafi einfaldlega verið of gráðug til að komast í stjórn og hafi þ.a.l. gefið of mikið eftir.
En svo er skemmtileg helgi framundan, afmælispartý hjá Hrönn vinkonu á morgun. Ætla m.a.s. að fara aðeins að tjútta. Mamma ætlar að koma og vera hjá Benedikt en Árni ætlar svo bara að fara fyrr heim enda hefur hann takmarkaðan áhuga á að fara niður í bæ. Vonandi breytist það nú eftir að reykingabannið tekur gildi, hlakka endalaust mikið til að geta farið að skemmta mér án þess að anga af reykingastybbu.
Á sunnudaginn verður Óli Matti eins árs og förum við fjölskyldan í afmælið til hans. Alltaf gaman að hitta alla fjölskylduna í einu og fá sér eitthvað nammigott.
Svona í lokin, ég er loksins búin að setja inn myndir frá Evrópuferðinni okkar :). Það eru nú einungis tvö ár síðan að við fórum í ferðina þannig að ég er ekkert sein á ferð eða hvað finnst ykkur?
Birt af Inga Elínborg kl. 5/25/2007 10:28:00 f.h. |
þriðjudagur, maí 22, 2007
Undanfarnar þrjár vikur er ég búin að vakna við minnsta hljóð frá Benedikt og get ekki sofnað aftur. Núna er klukkan t.d. 4:10 og ég er búin að vera vakandi síðan kl. 3:30. Alveg hata ég þegar að þetta kemur fyrir. Loksins þegar að Benedikt er byrjaður að sofa eiginlega alla nóttina þá get ég ekki sofið. Enda fær hann að sofa í eigin herbergi í nótt og vonandi get ég þá sofið betur. Orðin frekar pirruð á að fara að sofa kl. 21 á kvöldin, annars verð ég bara út úr heiminum af þreytu.
Helgin var voðalega fín. Buðum vinnufélögum hans Árna í sælkeraklúbbinn, vorum nú reyndar frekar fá miðað við seinast en við skemmtum okkur mjög vel. Benedikt var settur í næturpössun þannig að ég naut þess að geta sofið heila nótt án þess að vakna :). Á sunnudaginn fór ég í bíó með Hildi og Eddu, fórum á The painted veil með Edward Norton og Naomi Watts. Ekta stelpumynd, frekar róleg en mér fannst hún voða fín. Alltof langt síðan að ég hef farið í bíó, fór seinast þegar að ég var komin ca. 6 mánuði á leið minnir mig.
Birt af Inga Elínborg kl. 5/22/2007 04:07:00 f.h. |
föstudagur, maí 18, 2007
Í einum þætti af Sex and the city talar Carrie um þetta þrennt í lífinu sem skiptir okkur mestu máli; vinirnir, starfið og makinn. Hún veltir þeirri spurningu fyrir sér af hverju við erum aldrei ánægð með tvennt af þessu þrennu, t.d. frábæra vini og yndislegan maka. Í mínu tilviki vantar mig starf, ekki það að ég sé ekki yfir mig ánægð með Árnann minn og vinina mína. Það sem við störfum er bara svo gríðarlega stór hluti af lífi okkar. Þegar að við kynnumst nýjum aðila þá er vanalega fyrsta spurningin: Hvað gerirðu? Og hvað á maður að segja þegar að maður gerir í raun ekki neitt? Er ekki skilgreindur sem neitt ákveðið?
Ég er hamingjusöm þegar að ég lít á lífið mitt frá sjónarhorni manneskju sem er ánægð með fjölskylduna sína. Ég á frábæran mann sem virðist alltaf skynja hvernig mér líður, getur komið mér til að hlæja þegar mér líður illa og er í raun besti vinur minn . Ég á yndislegan dreng sem vantar allan minn stuðning til að geta orðið hamingjusamur einstaklingur og ég vona að ég geti veitt honum allt sem hann þarf á lífsleiðinni. Ég á æðislega vini, vini sem ég get treyst á að séu til staðar þegar að mig vantar einhvern til að taka utan um mig, hlusta á mig eða hlæja með mér.
Ef ég hinsvegar lít á lífið mitt frá sjónarhorni manneskju sem er búin að mennta sig og vil fara að nýta sér námið í góðu starfi þá er ég ekki hamingjusöm. Ég er mjög niðurdregin, það að fara í viðtöl aftur og aftur og vera alltaf neitað er mjög niðurdrepandi. Mér líður eins og ég sé óhæf, sé búin að eyða 5 árum af lífi mínu í nám sem kannski hentar mér ekki. Fólkið í kringum mig er mjög duglegt að segja að ég eigi ekki að hafa áhyggjur, þetta komi allt með kalda vatninu. Þeir sem þekkja mig hins vegar best vita að það er ekki í mínu eðli að hafa ekki áhyggjur, ég þarf helst að vera komin með vinnu 3 mánuðum áður en ég á að hefja störf. Núna eru ca. 8 vikur þangað til að fæðingarorlofið mitt er búið og ég er ekki komin með starf. Mér líður alls ekki vel. Við fjölskyldan þurfum á því að halda að ég fái starf, við erum með ýmsar fjárhagslegar skuldbindingar sem ekkert er hægt að neita með því að segja: Ég er ekki með vinnu og get því ekki borgað.
Allir virðast líka hafa skoðun á þessu vandamáli mínu. Sumir segja að ég eigi bara að taka hvaða vinnu sem er - ég er hinsvegar ekki sammála því. Ég er búin að mennta mig í ákveðnu fagi í 5 ár og auðvitað vil ég vinna við eitthvað tengt því. Það er nú samt ekki þar með sagt að ég segi nei við vinnu sem er ekki sálfræðitengd, ég ætla mér hinsvegar ekki að fara að vinna við skúringar eða þess háttar. Ég lít alls ekki niður á þá sem vinna þannig vinnu og ég er á engan hátt betri en þeir en ég er með menntun og ég tími ekki að láta hana fara til spillis. Erfiðar spurningar sem hvíla á manni þessa dagana, á ég að halda áfram að leita mér að vinnu sem ég verð ánægð með eða bara sækja um "einhver" störf og láta menntunina lönd og leið?
Það eru örugglega einhverjir sem hugsa: Hvaða röfl er þetta í manneskjunni, ekkert mál að fara bara að vinna einhvers staðar og skipta svo um vinnu. Ég er hinsvegar komin með upp í kok að sætta mig við vinnuna mína, ég gerði það allan þann tíma sem ég var í námi. Ég vann sumarstörf sem mér líkaði í raun ekki við, fannst vinnan hundleiðinleg og gat ekki beðið eftir því að skólinn byrjaði aftur. Mér finnst ég alveg eiga skilið núna að fá vinnu sem ég verð ánægð í.
Birt af Inga Elínborg kl. 5/18/2007 06:35:00 f.h. |
föstudagur, maí 11, 2007
Jæja, ekki náðum við að komast upp úr undankeppninni. Eiríkur stóð sig samt rosalega vel og má alveg vera stoltur af frammistöðunni. Þetta er greinilega orðið Austur-Eurovision, þ.e.a.s. öll þau 10 lög sem komast áfram eru á því svæði. En þar sem að allar bloggsíður eru uppfullar um þetta efni þá er ég eiginlega komin með upp í kok af þessu umræðuefni. Við ráðum hvort sem er ekki neinu hvort/hvenær keppninni verður breytt þannig að það þýðir voðalega lítið að æsa sig yfir þessu. Hinsvegar finnst mér Sigmar alltaf jafn frábær sem þulur, hann var alveg að brillera með ýmsum skotum á keppendurna/lögin.
Ég fann mér eitt land til að halda með, Serbía. Fannst lagið frá þeim alveg svakalega grípandi og vel sungið. Ég var líka búin að heyra lagið frá Grikklandi og finnst það ekta sumarsmellur þannig að þessi tvö lönd fá mitt atkvæði.
Við vorum búin að bjóða Karen og Grétari í heimsókn annað kvöld og ég var búin að búa til spurningalista um Eurovision (enda algjör nörd þegar að kemur að Eurovision) og smá keppni um fimm efstu sætin. En svo komast þau kannski ekki því að Grétar er hálfveikur, vona nú samt að þau komist :). Alltaf svo gaman að fara í smá keppni um Eurovision.
Kosningar á morgun, ég er nú sammála flestum að mér finnst þessi kosningabarátta hafa verið frekar daufleg. Reyndar skiptir það nú ekki máli fyrir mig þar sem að ég læt ekki stjórnast af auglýsingum rétt fyrir kosningar, hvað þá þegar að stjórnarflokkarnir reyna að ná sér í atkvæði með því að gera eitthvað þremur vikum fyrir kosningar en eru búnir að vera nokkurn veginn aðgerðalausir seinustu 4 ár (og rauninni lengur).
Birt af Inga Elínborg kl. 5/11/2007 03:32:00 e.h. |
miðvikudagur, maí 09, 2007
Það var svaka gaman á stelpukvöldinu. Við pöntuðum pizzu, drukkum kokteila og jellyskot, fórum í drykkjuleik og dönsuðum út um alla íbúð. Fórum svo niður í bæ um eittleytið, kíktum fyrst á Glauminn en leist ekkert á stemmninguna þar þannig að við fórum á Hressó þar sem að við dönsuðum samfleytt í tvo tíma. Frábær tónlist þar. Ég fór reyndar heim um þrjúleytið en hinar stelpurnar voru eitthvað lengur. Erum að spá í að gera þetta að árlegum viðburði, við skemmtum okkur svo vel.
Annars virðist ég hafa náð mér í einhverja kvefpest, var frekar mikið slöpp í gær en líður betur í dag. Sem betur fer var Árni heima bæði í dag og í gær, var ekki alveg að geta hugsað um Benedikt svona veik, sérstaklega þar sem að mér leið eins og hausinn á mér væri að springa. Ekki alveg það besta í heimi þegar að litli stubburinn æfir söngröddina :).
Svo er það Eurovision á morgun, ég er ekki búin að geta fylgst með undanfara keppninnar eins og ég hef vanalega gert, þannig að ég heyri flest öll lögin í fyrsta skipti á morgun og er þ.a.l. ekki búin að mynda mér skoðun um hvort að við ættum að komast áfram eða ekki. Vona bara að Eiríki takist að koma okkur upp úr undankeppninni.
Birt af Inga Elínborg kl. 5/09/2007 01:50:00 e.h. |
laugardagur, maí 05, 2007
Árni sýndi mér þennan leik í gær. Allir að fara inn og smella nokkuð oft á takkann :). Alveg ótrúlega ávanabindandi, maður er alltaf að bíða eftir því að sjá Ísland færast upp um sæti en ég hef bara séð það fara neðar.
Ég og Árni erum búin að smella samtals 10.000 sinnum, geggjað lið!! Tek það reyndar fram að við smellum þegar að við erum að horfa á þætti, þannig að við sitjum ekki við tölvuna einungis til að smella.
Birt af Inga Elínborg kl. 5/05/2007 04:01:00 e.h. |
mánudagur, apríl 30, 2007
Við Árni keyptum okkur bíl á föstudaginn :). Þvílíkt gaman, í rauninni í fyrsta skipti sem ég kaupi mér bíl, orðin 27 ára gömul. Árni átti Golfinn þegar að við byrjuðum saman og við seldum hann þegar að við fórum út. Þegar að við fluttum heim þá var tengdapabbi að kaupa sér nýjan bíl og þar sem að hann sá fram á að geta ekkert selt gamla bílinn þá gaf hann okkur bara hann. Alveg frábært að fá bíl gefins, sérstaklega þegar að maður er nýfluttur aftur heim og þarf að kaupa sér íbúð en bíllinn er ekki alveg upp á sitt besta enda frá árinu 1996. Hann gæti nú alveg dugað okkur lengur en Árni klessti smá á rétt fyrir jólin (sem betur fer sást ekkert á hinum bílnum) þannig að húddið festist og það er ekki hægt að opna það. Það kostar ábyggilega einhvern pening að gera við það og okkur finnst það bara ekki þess virði og fórum þess vegna að leita okkur að öðrum bíl.
Fundum þennan fína bíl, Nissan Note, kóngabláan og árgerð 2006. Alveg yndislegt að keyra hann. Ég og Árni vorum í samningaviðræðum alla helgina um hver fengi að keyra hann þegar að við fórum eitthvað um helgina, mjög skemmtilegt :) og hvert tækifæri nýtt til að komast aðeins út og keyra hann.
Erum svo að fara með Benedikt í ungbarnasund sem byrjar 15. maí. Hlakka mikið til að sjá hvernig honum líkar í vatninu. Vona að þetta verði til þess að hann verði ekki vatnshræddur eins og ég var þegar að ég var lítil. Sem betur fer eltist það af mér en ég var hræðileg á tímabili. Ég var með kúta, bæði um magann og á handleggjunum en samt mátti ekki sleppa mér nema þegar ég hélt mér í bakkann.
Birt af Inga Elínborg kl. 4/30/2007 11:22:00 f.h. |
fimmtudagur, apríl 26, 2007
Vegna fjölda áskoranna (ehemm, það var nú reyndar bara ein frá Karen) þá ætla ég aðeins að prófa að hafa bloggið lengur.
En um leið og ég settist niður við tölvuna gleymdi ég öllu því sem ég ætlaði að blogga um, hmmm. Ekki alveg nógu gott. Ég gæti bloggað um komandi kosningar eða hvað það fer í taugarnar á mér þegar að fólk styttir íslensk orð. Hvað er málið með að skammstafa orðið fyrir með einum staf? Gjörsamlega hatandi. Eða þegar að fólk segir tvíbbarnir til að spara sér pláss, halló það munar einum staf. Og ammæli er víst orðið voðalega vinsælt, næ þessu ekki. Hverju munar hvort maður skrifar afmæli eða ammæli nema það að annað orðið er rétt, hitt vitlaust. Ég gæti haldið áfram endalaust en það er komið nóg af röfli. Nenni heldur ekki að skrifa um kosningarnar, ég er nokkurn veginn búin að gera upp minn hug og þá er ég sátt :).
Annars erum ég, Helga, Hrönn og Ásta á fullu að skipuleggja stelpukvöldið okkar en það verður þarnæstu helgi. Oh það verður svo gaman. Við erum nefnilega ekki búnar að hittast og hafa ekta stelpukvöld síðan snemma árið 2005!! Fyrst varð Hrönn auðvitað ófrísk, svo Ásta og Helga. Um leið og Helga var búin að eiga varð ég svo ófrísk þannig að það er lítið búið að vera um djamm hjá okkur öllum saman. Við ætlum að gera kokteila, hafa jellyskot, panta okkur mat og bara hafa það gaman, vívíví.
Birt af Inga Elínborg kl. 4/26/2007 09:50:00 f.h. |
þriðjudagur, apríl 17, 2007
Ég og Árni fórum á Pabbann seinasta föstudag. Skemmtum okkur alveg svakalega vel. Lágum í kasti meirihlutann af tímanum, könnuðumst svo sannarlega við okkur þegar að hann var að lýsa ýmsu því sem tengist því að verða foreldri.
Annars er nú mest lítið að frétta, Benedikt verður skírður núna á laugardaginn þannig að við erum bara á fullu að undirbúa það. Veislan verður semsagt tvískipt, fyrst nánasta fjölskylda sem telur samt um 25 manns og svo vinirnir seinna um daginn.
Reyndar er ég að spá í að hætta með bloggið mitt, finnst ég hafa voðalega lítið fram að færa þessa dagana. Getur verið að það breytist þegar að ég verð ekki lengur heimavinnandi en allavega núna finnst mér þetta einhvern veginn hálfleiðinlegt blogg. Er samt ekki alveg búin að ákveða mig, kemur allt í ljós.
Birt af Inga Elínborg kl. 4/17/2007 11:48:00 f.h. |
mánudagur, apríl 09, 2007
Þann 5. apríl var akkúrat ár síðan að við Árni fluttum aftur heim til Íslands, ótrúlegt hvað tíminn er fljótur að líða. Enda hefur í rauninni allt breyst, við erum orðnir foreldrar, komin í okkar eigin íbúð, Árni er kominn með vinnu (og er að rembast við að skrifa ritgerðina sína) og ég er búin með námið mitt (en ekki komin með vinnu).
Það var rosa mikið að gerast um páskana. Á miðvikudagskvöldið hélt Guðlaug vinkona upp á þrítugsafmælið sitt, ég var nú bara róleg og fór snemma heim. Á fimmtudaginn vorum við fjölskyldan bara að slappa af en á föstudaginn komu Ásta og Ívar í heimsókn með Eyrúnu Ólöfu. Árni fékk svo nokkra vini í heimsókn um kvöldið og þeir voru eitthvað að tölvunördast, spila einhverja leiki og svona. Ég var nú bara mest ánægð með að bæði ég og Benedikt vöknuðum ekkert við lætin í þeim :), um að gera að venja börnin við að sofa í gegnum hvað sem er.
Á laugardagskvöldið komu Karen og Grétar í mat, í rauninni fyrsta matarboðið sem við höldum og ekki nema 7 mánuðir síðan við fluttum inn!!! Í gær var svo páskamatur hjá tengdó þannig að við erum vel úthvíld og mjög södd eftir þessa skemmtilegu páska.
Benedikt fékk 2 páskaegg, sitthvort eggið frá ömmum sínum og öfum. Þar sem að hann getur nú ekkert smakkað á þeim erum við foreldrarnir sjálfkjörnir í að borða þau + ástareggið sem við keyptum handa okkur. Einum of mikið af páskaeggjum :).
Birt af Inga Elínborg kl. 4/09/2007 11:31:00 f.h. |
sunnudagur, apríl 01, 2007
Við fjölskyldan fórum í fyrsta skipti út í göngutúr í gær, foreldarnir fóru að kjósa um stækkun álversins en Benedikt svaf bara á meðan. Ég er voðalega sátt við Hafnfirðinga í dag, sem betur fer var nýja deiliskipulagið ekki samþykkt enda var þetta bara vitleysa út í eitt. En nóg um það, kosningarnar búnar og þá er alveg óþarfi að tala meira um þetta :).
Hildur og Konni eru flutt heim frá Danmörku, ekkert smá gaman og komu í heimsókn til okkar á miðvikudagskvöldið. Ég, Hildur og Edda kíktum svo til Jósu á föstudagskvöldið og skemmtum okkur svaka vel. Við kíktum svo aðeins niður í bæ en aftur varð ég bara að fara heim um tvöleytið, líkaminn þolir greinilega ekki meira þessa dagana. Ég var nú dálítið mikið þreytt á laugardaginn en gat sofið vel í nótt þannig að mér líður betur.
Á laugardaginn hélt Eyrún Ólöf upp á eins árs afmælið sitt. Þar sem Benedikt er búinn að vera veikur þá vildum við nú ekki fara með hann þannig að ég fór bara ein og skemmti mér rosa vel. Alveg yndislegt að sjá öll þessi litlu börn sem eru nýbyrjuð að labba og detta svo til skiptis :).
Hlakka mikið til næstu viku, páskarnir að koma!! Reyndar er nú ekki mikið gert á heimilinu fyrir þá enda einhvern veginn ekki tími til þess en Árni verður þá heima samfleytt í 5 daga, ekkert smá næs.
Það eru allir mjög hjálpsamir að benda mér á hugsa um hvernig heimilislífið væri ef við ættum annað barn fyrir, hugurinn á mér getur nú bara ekki hugsað þá hugsun til enda. Get ekki ímyndað mér ef annað barn þyrfti líka á athygli minni að halda, finnst alveg nóg að vera "bara" með Benedikt. Reyndar er hann mjög erfiður að sofa á nóttunum, mér finnst t.d. mjög erfitt þegar að ég fæ 4 tíma svefn og þá ekki einu sinni samfleytt en ég er alltaf að vona að hann fari nú allavega að sofa í ca. 5 tíma í einu en þar sem maður er ennþá smá stíflaður þá vaknar hann eftir ca. 3-4 tíma og er svo kannski vakandi í 1-2 tíma, ekki alveg að ganga upp.
Birt af Inga Elínborg kl. 4/01/2007 10:39:00 f.h. |
fimmtudagur, mars 29, 2007
Birt af Inga Elínborg kl. 3/29/2007 12:37:00 e.h. |
mánudagur, mars 26, 2007
Það er sko aldeilis ástand á litlu fjölskyldunni í dag. Allir meira og minna veikir. Benedikt er þvílíkt kvefaður, með stíflað nef og síhóstandi. Pabbi er hálfslappur með hita og mamma svaf eitthvað skakkt um nóttina þannig að hún er alveg stíf í bakinu og hálsinum og getur varla haldið á litla stubbinum sínum. Ekki neitt voðalega gaman.
Hinsvegar var rosa gaman um helgina. Benedikt fór í sína fyrstu næturpössun til afa og ömmu í Kópavogi og það gekk bara svona svaka vel. Við hjónin fórum saman í fordrykkinn fyrir árshátíðina hjá Árna (þar sem að sumir voru orðnir vel í því um sjöleytið, nefni engin nöfn) en svo skildu leiðir, ég fór í partý og Árni á árshátíðina. Ég var nú bara frekar róleg, kíkti reyndar aðeins á Glaum en það var ömurleg tónlist þar þannig að ég fór fljótlega heim. Var líka dauðþreytt og var búin að sjá rúmið mitt í hyllingum allt kvöldið. Árni var semsagt komin heim um tólfleytið og sofnaði strax en ég kom heim um tvö og svo sváfum við til hálftólf, ekkert smá gott. Frekar skrýtið samt að hafa engan til að vekja sig nokkrum sinnum um nóttina en samt sem áður vöknuðum við tvisvar-þrisvar af gömlum vana.
Birt af Inga Elínborg kl. 3/26/2007 10:27:00 f.h. |