fimmtudagur, febrúar 23, 2006

Ritgerðin mjakast svona áfram, finnst samt að ég mætti vera duglegri. Er búin að prófa að taka netsnúruna úr sambandi og ég held að það sé bara málið. Fara eitthvert sem hún nær ekki (er samt frekar erfitt því að sá staður er rúmið) og skrifa þar. En svo er auðvitað svo auðvelt að stinga henni í samband aftur :).

Árni er kominn með skrifstofu í skólanum og er þar flestalla daga frá 9-5. Voða gott fyrir hann því að hann getur alls ekki lært heima, hann er semsagt örugglega búin að vera duglegri þessa fjóra daga heldur en allan seinasta mánuð, tíhí. Hann fær nú samt örugglega of stóran skammt af "tali" þegar að hann kemur heim. Ég er með svo uppsafnaða talþörf þegar að hann kemur heim að hann verður uppgefinn á að hlusta á mig.

Annars er ég búin að vera að horfa á Prison Break þættina og oh my god hvað þeir eru góðir. Þeir og Despó deila fyrsta sætinu yfir bestu þættina að mínu mati. Veit að ég er örugglega dálítið sein að fatta þessa þætti en hey, betra seint en aldrei. Ekki spillir svo fyrir hvað aðalleikarinn er svakalega heillandi.

þriðjudagur, febrúar 21, 2006

Ég er voðalega dugleg að vafra á netinu um þessar stundir, kem mér einhvern veginn ekki í þann gír að byrja strax á morgana á ritgerðinni. Fann einmitt þessa síðu, endilega kíkið inn á hana og merkið við hvaða 5-6 orð ykkur finnst lýsa mér best, ofsa gaman :).

Hnuss, nú er ég ekki sátt. Síðasta færslan mín (frá 18. feb) virðist bara hafa horfið allt í einu, ég finn hana ekki einu sinni inn á síðunni minni á blogger. Skrýtið.

þriðjudagur, febrúar 14, 2006

Ásta vinkona á afmæli í dag. Innilega til hamingju með afmælið elsku Ásta mín. Njóttu dagsins krútta :). Þú færð svo almennilegt afmælisknús í apríl.

Ég horfði á Hotel Rwanda og Crash um helgina. Ég á eiginlega engin orð til að lýsa þessum myndum, mér finnst ekki nægja að segja að þær hafi verið ótrúlega góðar.
Hotel Rwanda er svo átakamikil, ég var með tárin í augunum eiginlega allan tímann meðan að ég horfði á hana. Ekki bara vegna þess sem kom fyrir fólkið heldur líka vegna þess að ég skammaðist mín fyrir að vera hluti af alþjóðasamfélaginu sem gerði nákvæmlega ekki neitt til að hjálpa þessu fólki.
Crash er bara frábær í alla staði, ég held að allir myndu hafa gott að horfa á hana og finna að þeir séu með "innbyggða" fordóma. Ekki vegna þess að þessir fordómar hafa við eitthvað að styðjast heldur er þetta innprentað í mann frá unga aldri, t.d. frá fjölmiðlum. Allavega, mæli með þessum myndum fyrir alla.

sunnudagur, febrúar 12, 2006

Gærkvöldið fór nú aðeins öðruvísi en planað var. Ég og Hildur ákváðum semsagt bara að slá þessu kvöldi upp í allsherjar djamm. Fórum niður í bæ um miðnætti en skildum strákana eftir heima hjá þeim sötrandi rauðvín. Þræddum nokkra staði áður en við enduðum á Gas station og dönsuðum frá okkur allt vit :). Alveg frábært kvöld, skemmti mér þvílíkt vel enda fórum við ekki heim fyrr en um fimmleytið.

Dagurinn í dag er svo bara búinn að fara í rólegheit. Horfði auðvitað á Tíminn líður hratt, dýrka þennan þátt og er einmitt búin að safna nokkrum spurningum í sarpinn fyrir Eurovisionpartý. Forkeppni Dana fyrir Eurovision var einmitt í gær og vann 17 ára stelpa frá Árósum keppnina. Ég man nú ekkert hvað hún heitir því að ég vildi að annað lag myndi vinna sem bar nafnið En som dig. Þvílíkt flott lag en Danir voru greinilega ekki sammála mér og Hildi.

laugardagur, febrúar 11, 2006

Takk elskurnar, fyrir kveðjurnar í síðustu færslu. Alltaf gott að fá bloggknús :).

Annars erum við hjónin bara heima þessa dagana og erum að vinna í ritgerðinni.
Reyndar fór ég út að borða í gær með nokkrum vinkonum úr MR sem eru líka í námi hérna í Árósum, m.a. ein sem er í sama námi og ég, bara einu ári á eftir. Fórum á Indian Curry House þar sem við fengum nokkuð góðan mat og kíktum eftir það á fredagsbarinn í sálfræðideildinni (þar sem fleiri sálfræðingar bættust í hópinn hjá okkur). Það var nú frekar léleg stemmning þar þannig að við fórum fljótlega á fredagsbar hjá arkitektadeildinni. Enduðum kvöldið svo á að fara á einhvern kokkteilabar niðri í bæ og sátum þar og spjölluðum saman. Rosa skemmtilegt kvöld.

Í kvöld er svo stefnan tekin til Hildar og Konna til að spila Catan, jibbí. Verður örugglega mjög gaman.

þriðjudagur, febrúar 07, 2006

Alltaf sorglegt að fá fréttir um að fjölskyldumeðlimur sé dáinn. Mamma og pabbi hringdu í gær til að segja mér að Laufey, systir hans pabba væri látin. Hún lést úr krabbameini aðeins 67 ára gömul. En ég hugga við mig það að henni líður allavega vel núna.
Ég fór að hugsa til þegar að ég var lítil og við keyrðum til Akureyrar og gistum hjá Laufeyju og Magga. Alltaf svo gaman að koma til þeirra, húsið fullt af börnum til að leika við og ég skemmti mér alltaf svo vel.
Ég er nú dálítið sorgmædd yfir því að komast ekki í jarðarförina sem verður á morgun, hugur minn verður allavega hjá fjölskyldunni á morgun.

mánudagur, febrúar 06, 2006

Þvílíkt gaman að fá tengdamömmu og Fjólu í heimsókn á laugardagskvöldið. Þær komu með íslenskt nammi, graflax + graflaxsósu, ekkert smá gott. Við höfðum það bara næs um kvöldið og þær fóru svo eldsnemma á sunnudagsmorgninum, hefðum alveg viljað hafa þær lengur.

Við hlustuðum svo á Söngvakeppnina á sunnudaginn. Ég hef aldrei fílað Sylvíu Nótt (og mun aldrei koma til með að taka hana í sátt) en ég hinsvegar dýrka lagið hennar. Búin að hlusta á það endalaust oft. Ég er samt á báðum áttum með hvort að ég vilji að hún vinni. Æðislegt lag en hún er ekki besta landkynningin miðað við hvernig hún hagar sér og talar.

Við horfðum líka á spurningakeppninga Tíminn líður hratt, oh hvað ég elska svona þætti sem tengjast Eurovision. Búin að horfa á tvo eldri þættina líka og bíð spennt eftir næsta þætti. Alveg búin að ákveða að ef við höldum Eurovisionpartý í maí þá verður spurningakeppni líka :).

laugardagur, febrúar 04, 2006

Hvet alla til að skrifa undir þessa áskorun.

Við undirrituð skorum á alla alþingismenn að styðja jafnrétti samkynneigðra í verki og samþykkja bæði stjórnarfrumvarp um réttarbætur og breytingartillögu sem veitir forstöðumönnum safnaða heimild til vígslu samkynhneigðra para. Um leið mótmælum við afskiptum biskups af málinu enda óviðunandi að hans afskipti takmarki rétt annara trúfélaga. Það er ekki eftir neinu að bíða. Við styðjum rétt samkynhneigðra til fjölskyldulífs og þar með hjónavígslu og heitum á þingmenn að standa með jafnréttinu og gegn misrétti.

föstudagur, febrúar 03, 2006

Ég og Árni eigum 6 ára afmæli í dag. Vá hvað tíminn líður hratt. Í tilefni dagsins ætlum við að fara út að borða, eigum reyndar eftir að ákveða staðinn en við ætlum bara að labba meðfram síkinu og sjá hvaða stað okkur líst best á.

Jæja, ekki gekk það eftir hjá strákunum að vinna Norðmenn, því miður. Ég er nú samt rosa stolt af þeim, 7. sæti á EM sem er næstbesti árangur okkar á því móti. En þeir standa sig bara betur næst og hafa þá alla sína leikmenn í toppstandi. Alexander og Einar meiðast það mikið að þeir geta ekki spilað meira, Óli missti af tveimur leikjum og þurfti alltaf að fá staðdeyfingu til að geta spilað og Garcia var aldrei inni í myndinni út af táaðgerð, ekki beint draumastaða.

Á morgun koma svo tengdamamma og Fjóla, systir hennar í örheimsókn. Ég held að við höfum aldrei fengið styttri heimsókn, þ.e.a.s. þegar að gestirnir gista hjá okkur. Þær koma líklegast um níuleytið á laugardagskvöldið og fara um sjöleytið á sunnudagsmorgni. Þær eru semsagt að fara á sýningu í Herning varðandi búðina sína. Hlökkum til að sjá þær þótt að það sé svona stutt.

Var næstum búin að gleyma aðalfréttunum, erum semsagt búin að segja upp íbúðinni og þurfum að skila henni 3. apríl sem þýðir að við komum heim 4. eða 5. apríl, jibbí. Erum reyndar ekki búin að kaupa miðana en förum að gera það fljótlega.

Annars er ég rosalega ánægð með Energi Danmark. Fengum ávísun frá þeim fyrir viku síðan upp á 800 dk. Í bréfi sem fylgdi með var sagt að veltan hjá þeim hefði verið það mikil að þeir endurgreiddu öllum viðskiptavinum sínum ákveðið hlutfall af notkun. Í gær kom svo önnur ávísun frá þeim upp á 2.200 dk. og var það vegna þess að við höfum greitt of mikið til þeirra á seinasta ári. Alltaf gaman að fá endurgreitt :).

fimmtudagur, febrúar 02, 2006

Ég er svo stolt af strákunum okkar. Þótt að þeir hafi ekki sigrað Króatana þá stóðu þeir samt uppi í hárinu á Ólympíumeisturunum. Það sem mér finnst nú samt sárast er að núna er það í höndum annarra hvort að þeir komist áfram í undanúrslitin, þ.e.a.s. þótt að við vinnum Noreg þá þurfa aðrir að tapa til að við komumst áfram. En maður vonar bara það besta.
Hinsvegar er ég ekkert smá fúl út í danska sjónvarpið, þeir sýna eiginlega alltaf tvo leiki á dag en aldrei íslensku leikina, ullabara. Ég ætlaði auðvitað að horfa á þegar að við spiluðum á móti Dönum en sofnaði rétt áður en leikurinn byrjaði (var eitthvað voðalega þreytt það kvöld). Þannig að núna verða strákarnir að komast áfram því að þá get ég vonandi séð þá í sjónvarpinu :).
Annars væri ég alveg til í að vera heima núna, fyrir utan hvað það er gaman að geta horft á leikina í sjónvarpi þá er bara alltaf svo mikil stemmning heima fyrir handboltanum. Reyndar er ég mjög þakklát fyrir að geta hlustað á leikina í gegnum netið, veit ekki hvað ég myndi gera ef það væri ekki hægt.

þriðjudagur, janúar 31, 2006

Vá hvað strákarnir okkar stóðu sig vel gagnvart Rússum!! Unnu með tveimur stigum, þvílíkt flott hjá þeim. Hlustaði á leikinn í gegnum netið og iðaði í sætinu allan tímann.

Annars er ég að horfa núna á Brokeback Mountain, Heath Ledger og Jake Gyllenhaal sýna báðir stórleik. Skil mjög vel að þessi mynd hafi fengið flestar tilnefningar til Óskarsins, sorgleg en jafnframt ótrúlega góð.

Það er allt vitlaust hérna í Danmörku út af því að Jyllands-Posten birti skopmyndir af Múhameð og hefur þetta vakið mikla reiði hjá múslimum. Þeir hvetja t.d. til þess að fólk í Sádi-Arabíu hætti að kaupa danskar vörur (og í mörgum verslunum hafa allar danskar vörur verið teknar úr hillunum) og Líbýa tilkynnti í gær að sendiráð þeirra í Danmörku myndi loka til að mótmæla þessari birtingu. Þetta er afar viðkvæmt mál og þótt að Jyllands-Posten hafi beðist afsökunar í dag þá virðist það engu máli skipta. Ég ætla nú ekki að taka neina afstöðu í þessu máli, vona bara að þetta leysist fljótlega.

föstudagur, janúar 27, 2006

Aftur komin helgi, alveg ótrúlegt hvað tíminn er eitthvað fljótur að líða. Fæ einmitt væg kvíðaköst yfir því hvað er stutt þangað til að ég þarf að skila ritgerðinni minni. Ákvað nefnilega að setja smá pressu á mig og skrifaði í samninginn að ég myndi skila henni fyrir 1. júlí. Þótt að ég geti svo sem breytt þessari dagsetningu ætla ég mér ekki að gera það, vil klára þetta sem fyrst. Er að lesa heimildir núna og ætla mér að vera komin á gott skrið þegar að við flytjum heim.

Annars eru helstu fréttirnar þær að við komum flakkaranum okkar aftur í gang og gátum loksins náð í yfir 15 GB af tónlist sem var þar inni. Vorum orðin dálítið hrædd um að þessi tónlist + ótrúlega mikið magn af þáttum væri ónýtt en sem betur fer virðist allt í besta lagi.

Ég horfði á myndina Pride and Prejudice í fyrradag, yndisleg saga. Ég var alveg ánægð með myndina en fannst hinsvegar að þeim hafi ekki tekist að gera sögunni nógu góð skil á svona stuttum tíma. Verð nú samt að segja að þótt að mér finnist enginn jafnast á við Colin Firth í hlutverki Mr. Darcy náði Matthew Macfayden alveg að heilla mig upp úr skónum í sama hlutverki.
Langaði samt svo að sjá þættina aftur þannig að ég náði í þá og nota þá núna sem gulrót ef ég er búin að vera dugleg að lesa heimildir. Var einmitt að klára fyrsta þáttinn núna og ætla að horfa á annan þáttinn eftir að ég er búin að lesa 3 greinar :). Finnst þættirnar einhvern veginn ná "andanum" mikið betur heldur en kvikmyndin.

En loksins virðist heilsan mín vera í lagi, allavega fórum við út í fyrradag og mér sló ekki niður. Kíktum í Storcenter Nord þar sem að Árni keypti sér tvenna skó í afmælisgjöf (fékk pening bæði frá mömmu & pabba og tengdó). Fórum í uppáhaldsbúðina okkar, Aldo en ég gæti keypt mér hvert einasta skópar í þessari búð. Ótrúlega flott.

Í kvöld ætla ég svo að horfa á Ísland - Danmörk á DR1. Hlakka mjög mikið til þess enda er þetta eini íslenski leikurinn (úr riðlakeppninni) sem verður sýndur. Áfram Ísland!!!

mánudagur, janúar 23, 2006

Ég er ekki alveg nógu ánægð með heilsuna hjá mér upp á síðkastið. Fór semsagt ekkert út frá þriðjudegi til föstudagskvölds til að vera alveg viss um að ná þessari flensu úr mér og ég hélt að ég væri alveg búin að ná mér. En á laugardagsnótt vaknaði ég með þessa þvílíku magaverki og kastaði upp meirihlutann af sunnudeginum. Ekki alveg nógu gott. Er búin að vera hálf tuskuleg síðan með bakverki og magaverki, skil þetta ekki.

En fyrir utan veikindin á sunnudag var helgin frábær. Fögnuðum því að bæði Grétar og Karen eru komin með mastersgráðu, þið eruð svo klár :). Til hamingju aftur með árangurinn, við erum svo stolt af ykkur. Fengum geðveikan mat hjá Tótu og Gumma og svo var bara setið og spjallað fram á nótt. Við fórum svo líka til þeirra á laugardagskvöldið og héldum smá spilakvöld. Takk kærlega fyrir okkur, skemmtum okkur þvílíkt vel. Hinsvegar er alltaf leiðinlegt að kveðja Grétar og Karen, hefðum viljum að þau hefðu verið lengur.

Svo er ég búin að fá seinustu einkunnina mína fyrir haustönnina, fékk "staðið" fyrir hugleiðingaritgerðina mína um starfsþjálfunina. Voða sátt við það :).

þriðjudagur, janúar 17, 2006

Jæja, þá er ég komin aftur "heim" til Danmerkur. Voða gott að sofa í rúminu sínu og auðvitað ennþá betra að knúsa Árnann minn. Reyndar sló mér nú eiginlega niður í ferðalaginu í gær og er þess vegna bara búin að liggja uppi í rúmi í allan dag og reyna að taka því rólega.

Annars var alveg æðislega skemmtilegt á Íslandi, alltaf jafn yndislegt að hitta fjölskylduna sína og vini. Hlakka svo mikið til að flytja heim í apríl, föst dagsetning er reyndar ekki ennþá komin en við stefnum á að koma á bilinu 8. - 15. apríl.

Svo vildi ég líka bara óska Sólveigu systur til hamingju með útskriftina (reyndar útskrifaðist hún í desember en hélt ekki upp á það fyrr en seinustu helgi). Hún er semsagt orðin sjúkraliði, rosa stolt af henni. Hlýtur að vera rosa erfitt að vera í 100% starfi, 100% námi og þar að auki einstæð móðir.

En svo hitti ég gamla vinkonu úr lúðrasveitinni á Kastrup. Það var reyndar frekar fyndið, við spjölluðum smá saman meðan að við vorum að bíða eftir töskunum (vorum í sama flugi) og þá kom í ljós að hún var að fara til Horsens sem er rétt hjá Århus. Hún fékk töskurnar sínar á undan mér og fór að fá sér að borða og við ætluðum kannski að hittast í lestinni. Svo kom í ljós að við höfðum fengið sæti beint á móti hvor annarri, ekkert smá gaman að ná aðeins að spjalla meira við hana.
Ég er alveg búin að missa sambandið við flesta úr lúðrasveitinni, sem mér finnst frekar leiðinlegt. Þetta fólk var nefnilega þvílíkt stór hluti af lífi mínu í svona 5 ár, æfingar þrisvar í viku og svo var auðvitað farið í æfingaferðir, til útlanda og margt fleira. Vorum einmitt að tala um að við þyrftum að hafa smá reunion. Aldrei að vita nema maður fari í að skipuleggja það :).

Næstu vikur verða nú örugglega frekar rólegar, ætla að fara að koma mér á fullt í ritgerðinni minni enda á ég að skila henni fyrir 1. júlí. Förum reyndar í mat til Tótu og Gumma á föstudaginn og hittum þá Karen og Grétar þar, jibbí. Það verður ekkert smá æðislegt að sjá þau öll :).

föstudagur, janúar 13, 2006

Ætlaði nú bara að óska ástinni minni til hamingju með afmælið. Árninn minn er semsagt 28 ára í dag, kossar og knús til sætasta stráksins.
Er nú frekar ömurleg eiginkona, hann var nefnilega líka einn á afmælisdeginum sínum í fyrra. En ég kem til hans (og hann fær pakka) eftir 3 daga :). Hlakka endalaust mikið til að sjá hann.

Annars er ég nú bara hálfveik þannig að ég ætla að segja þetta gott.

miðvikudagur, janúar 11, 2006

Hvet ykkur til að skrifa undir þessa áskorun.

föstudagur, janúar 06, 2006

Jæja þá er Árninn minn að fara út á morgun. Við verðum nú ekki lengi í sundur þetta skiptið eða aðeins 9 daga. Var einmitt að laga til í herberginu okkar hjá tengdó og ég varð svo ánægð þegar að ég fattaði að þetta er í síðasta skiptið sem við þurfum að búa í ferðatösku yfir jólin. Við erum reyndar mjög heppin með það að meiri hlutinn af gamla dótinu okkar er ennþá í herberginu sem er frábært en þegar að maður er á Íslandi í þrjár vikur og er bara í einu herbergi þá er eitthvað svo lítið pláss fyrir öll fötin, allar jólagjafirnar og allt draslið sem virðist alltaf fylgja manni :). Hlakka mjög til næstu jóla þegar að við verðum vonandi komin í okkar eigin íbúð.

Vorum einmitt að skoða íbúðir á netinu í gær og við sáum eina æðislega. Alveg glæný og er á Eskivöllum í Hafnarfirði (sem er eins og allir vita besta bæjarfélagið, tíhí). Það kom mér nú eiginlega á óvart að Árni skyldi fíla hana vegna þess að hann hefur nú ekki verið á þeim buxunum að vilja kaupa í Hafnarfirði. Þessi tiltekna íbúð á að kosta um 18 milljónir sem er nú reyndar í dýrari kantinum en á móti kemur að hún er 4 herbergja þannig að við gætum verið í henni í mörg ár. Þegar að maður sér svona fullkomna íbúð þá sér maður oggulítið eftir því að hafa selt Laugateiginn en hins vegar voru leigjendurnir svo ömurlegir að þeir væru örugglega búnir að brenna íbúðina í dag. En svona er lífið, þýðir nú ekki mikið að vera að pæla í því sem maður gerði fyrir tveimur árum. Vonandi fáum við bara bæði ágæta vinnu þegar að við erum búin með námið okkar svo að við getum keypt okkur sem fyrst.

þriðjudagur, janúar 03, 2006

Var að horfa á kosningu Íþróttamanns ársins og vá hvað ég varð pirruð á valinu. Að mínu mati hefur Eiður Smári ekki gert neitt til þess að vera verðugur þess að vera valinn. Mér finnst að Guðjón Valur Sigurðsson handknattleiksmaður hefði frekar átt að vera kosinn, hann er markahæsti leikmaðurinn í þýsku úrvalsdeildinni sem er ein besta deild heims og stendur sig alltaf frábærlega með íslenska landsliðinu.
Á hinn bóginn er alveg hægt að segja að Eiður sé nú líka í bestu fótboltadeild heims og að hann standi sig alveg líka vel með landsliðinu okkar en mér finnst árangurinn hans Guðjóns mikið betri á alla kanta.

Reyndar fannst mér nú frekar fallegt hjá Eið að hann gaf peninginn sem hann fékk til Einstakra barna en mér finnst samt sem áður að Guðjón hefði átt þetta meira skilið.

mánudagur, janúar 02, 2006

Litla prinsessan þeirra Hrannar og Axels var skírð í dag og fékk hún nafnið Lára Dís (grunaði einmitt að hún ætti að heita Lára). Innilega til hamingju með fallega nafnið þitt sæta mín. Maður var nú hin rólegasta í skírninni, svaf allan tímann, var greinilega mjög sátt við nafnið sitt.

sunnudagur, janúar 01, 2006

Bergþór pabbi er 65 ára í dag, var einmitt fyrsta barn ársins, árið 1941. Til hamingju með afmælið elsku pabbi minn.

Annars voru áramótin frekar róleg hjá okkur. Við vorum í sitthvoru lagi um kvöldmatinn þar sem að ég vil fá mín svið með mömmu og pabba. Ég fór svo til Árna eftir skaupið og við vorum saman þegar að nýja árið gekk í garð. Þar sem að Árna leið eitthvað illa vorum við svo bara heima að slappa af. Voða næs.
Mér fannst skaupið bara ágætt þetta árið, Björgvin stal samt alveg senunni með öllum eftirhermunum sínum, alveg frábær.

Áramótaheitin mín voru nokkur þetta árið en ég ætla ekki að upplýsa þau hérna á blogginu. Aldrei að vita nema að ég segi frá þegar að ég verð búin að ná þeim markmiðum (veit að þið bíðið spennt, tíhí).