Gleymdi einu. Ég væri sko alveg til í að vera heima á Íslandi núna og horfa á allan snjóinn, kúra sig undir teppi með bók og heitt súkkulaði.
En í staðinn horfi ég út um gluggann á grænt gras. Björtu hliðarnar eru hinsvegar þær að það er búið að spá mjög hörðum vetri í Evrópu þannig að kannski snjóar aftur jafnmikið í Árósum eins og seinasta vetur, jibbí.
sunnudagur, október 30, 2005
Birt af Inga Elínborg kl. 10/30/2005 01:02:00 e.h. |
Helgin er búin að vera alveg þvílíkt næs. Á föstudaginn var okkur boðið í mat til Hildar og Hákons þar sem að við fengum ofsa góðan mat, nammi namm. Eftir matinn spiluðum við svo Catan, erum rosa ánægð að hafa fundið einhvern hérna úti sem finnst þetta spil gaman.
Bæði laugardagurinn og dagurinn í dag hafa svo að mestu leyti farið í leti. Er einhvern veginn ekki alveg að nenna að byrja á praktík ritgerðinni minni en þarf nú samt að fara að koma mér í þann gír. Ætla líka að fara uppí skóla í vikunni og reyna að finna mér leiðbeinanda fyrir mastersritgerðina mína.
Svo eru bara næstu helgar orðnar bókaðar. Sálin auðvitað næsta laugardag, mér tókst að plata Árna með mér vegna þess að þeir tveir aðilar sem ég þekki í Kaupmannahöfn voru auðvitað með gesti hjá sér þessa sömu helgi þannig að ég gat ekki gist hjá þeim. Var semsagt komin á fremsta hlunn með að hætta að fara en þá bauðst Árni til að koma með mér og við tökum bara lestina heim um nóttina, mjög ánægð með það.
Um þarnæstu helgi ætla ég svo að halda upp á afmælið mitt, jibbí. Ætla að bjóða stelpunum í sálfræðinni til mín og slá upp smá partýi. Hlakka mjög mikið til.
Svo erum við hjónin búin að taka ákvörðun um Snúð, það gengur semsagt ekki að hafa hann hjá Bjarklindi þannig að hann fer í Kattholt og verður þar næstu fimm mánuði allavega. Þótt að hann sé kannski ekkert sáttur við það þá vitum við allavega að hann er öruggur þarna og fer ekkert á flakk. Vona bara að honum eigi eftir að líða vel þarna. Það var annaðhvort að setja hann í Kattholt eða lóga honum og það vildum við alls ekki.
Svo eru mamma og pabbi á fullu að flytja núna, hlakka rosa mikið til að koma heim í mars og sjá íbúðina (er nefnilega bara búin að sjá hana þegar að hún var ekki nærri því tilbúin).
Ætlaði líka að minna fólk á að núna erum við bara einum klukkutíma á undan Íslandi, voða næs að sofa til 11 en komast svo að því að maður svaf bara til 10 :).
Birt af Inga Elínborg kl. 10/30/2005 10:12:00 f.h. |
miðvikudagur, október 26, 2005
Sá þetta á netinu. Hræðilega sorglegt, allóþyrmilega minnt á hvað við erum í raun og veru heppin.
Birt af Inga Elínborg kl. 10/26/2005 10:11:00 f.h. |
þriðjudagur, október 25, 2005
Búin að vera rosa dugleg að horfa á þættina sem biðu mín. Oh my god hvað önnur þáttaröð af Lost er spennandi. Önnur þáttaröð af Desperate housewives er alveg að standa fyrir sínu, höfundarnir kunna sko að láta mann bíða í ofvæni eftir næsta þætti. Er líka að horfa á 12. seríu af ER og 3. seríu of One tree hill. Þetta eru bara æðislegir þættir, veit ekki hvað ég geri þegar ER hættir. Svo bíða mín líka þættir úr Stargate Atlantis og Stargate SG-1, jibbí. Humm, finnst ykkur þetta vera nokkuð of margir þættir?
Annars er voða næs að vera komin "heim", sofa í rúminu sínu með koddann sinn, sængina sína og manninn sinn við hliðina. Er alveg búin að sakna þess að hafa engan til að hjúfra sig upp að á nóttunni.
Erum svo að reyna að gera íbúðina aðeins heimilislegri, búin að fara í Ikea og keyptum þar hillur sem eru komnar upp á einn stofuveginn og eru bara að taka sig vel út þar. Vantar svo bara nokkrar körfur til að setja inn á bað og þá ætti þetta bara að vera fínt. Ekki seinna vænna, einungis búin að búa hérna í rúmlega 1 ár. Þannig að núna lítur íbúðin okkar ennþá meira út eins og auglýsing fyrir Ikea, allt fyrir utan sjónvarpið, rúmið og sjónvarpsstandinn er keypt þar.
Birt af Inga Elínborg kl. 10/25/2005 06:56:00 e.h. |
laugardagur, október 22, 2005
Snúðurinn skilaði sér loksins í gærkvöldi en ekki heim til Bjarklindar. Hann kom heim á Ásbúðartröðina um áttaleytið í gærkvöldi. Við heyrðum bara allt í einu mjálmað inni og þá var maður kominn. Maður er alveg duglegastur sko. Æ ég var svo ánægð að sjá hann og ekki sakaði það að hann svaf hjá mér í alla nótt. Ætla semsagt að hafa hann aðeins lengur hjá mömmu og pabba en svo fer hann líklegast aftur til Bjarklindar. Vona bara að hann skilji að hann eigi heima þar núna, ekki á Ásbúðartröðinni.
Í rauninni var mjög gott að Snúður kom heim því að hann vakti okkur um hálfsex í morgun, ætluðum að vakna fimm en við sváfum öll yfir okkur. En það reddaðist nú alveg og ég náði fluginu léttilega. Flugið gekk svo bara vel og þá var komið að lestarferðinni.
Lestin til Århus skiptist í rauninni í þrennt, nokkrir vagnar fara bara til Fredericia og ekki lengra, nokkrir vagnar fara til Århus o.s.frv. Ég átti semsagt að vera í vagni 31 og það er venjulega merkt hvaða vagn er númer hvað. En þá voru einhverjir tæknilegir örðugleikar í lestinni þannig að maður sá ekki númerin á vögnunum, þannig að ég fer bara inn í einhvern vagn. Auðvitað var það vagn á leiðinni til Fredericia þannig að ég fór að koma mér í réttan vagn. Ég semsagt dröslaðist með 25 kg tösku, snyrtiboxið mitt, bakpokann með fartölvunni og veskið mitt yfir 5 heila vagna. Alveg hræðilegt, sérstaklega þar sem að gangarnir á milli sætanna eru aðeins of þröngir til að maður geti dregið töskuna þannig að ég þurfti í rauninni að halda á henni allan tímann. Og svo vegna þess að þetta tæknilega vandamál hélt áfram þá vissi ég aldrei hvort að ég var komin í réttan vagn. Þurfti sífellt að vera að spyrja hvort að ég væri komin í vagn 31, örugglega mjög vinsæl :). En þetta semsagt reddaðist allt.
Og það var svo gott að sjá Árnann minn og knúsa hann. Hann fór svo bara snemma að sofa, er alveg búinn að snúa við sólarhringnum og ákvað þess vegna að fara ekkert að sofa seinustu nótt, ég skil ekki hvernig hann getur haldið sér vakandi svona lengi. Á morgun ætlum við svo bara að hafa það næs og njóta þess að vera saman því að skólinn byrjar svo aftur eftir vetrarfrí á mánudaginn hjá Árna.
En núna er ég bara búin með starfsþjálfunina mína, fékk voða góða umsögn frá leiðbeinandum, rosa ánægð með það. Þarf núna bara að skrifa nokkurs konar hugleiðingaritgerð um þjálfunina og þá get ég byrjað á lokaritgerðinni.
Birt af Inga Elínborg kl. 10/22/2005 09:12:00 e.h. |
föstudagur, október 21, 2005
Núna er minn dapur og alveg með tárin í augunum. Snúðurinn okkar er ekki búinn að láta sjá sig í 30 tíma. Hann kemur yfirleitt þegar að ég kalla á hann en ég er búin að fara tvisvar til Bjarklindar og ekkert bólar á honum. Finnst mjög líklegt að hann sé bara týndur, sé í fýlu út í foreldra sína að vera alltaf að láta hann í nýtt húsnæði til nýrra aðila, æ litla greyið manns. Vona samt svo innilega að hann komi áður en ég fer.
Birt af Inga Elínborg kl. 10/21/2005 09:44:00 f.h. |
fimmtudagur, október 20, 2005
Rosa mikið að gera hjá mér þessa dagana. Ég og Guðlaug fórum til Rakelar í gær og skoðuðum brúðkaupsmyndirnar og allar gjafirnar. Þvílíkt flottar myndir og geðveikar gjafir. Fengum rosa góða gulrótarköku og spjölluðum saman. Alltaf svo gaman að hitta þær.
Í kvöld er svo matarboð hjá Hrönn & Axel og Ásta & Ívar koma líka. Ég ætla líka að reyna að kveðja tengdó í kvöld þannig að ég kemst líklegast ekki í magadansinn, ekki alveg sátt með það en það eru bara ekki nægir tímar í sólarhringnum núna.
Á morgun ætla ég svo að reyna að hætta í þjálfuninni um hádegi því að ég á eftir að kaupa nammi fyrir Árna, fara á bókhlöðuna út af lokaverkefninu mínu, kveðja nánustu fjölskyldu, pakka niður o.fl. Ég ætla líka að reyna að kaupa þær jólagjafir sem ég er búin að ákveða svo að ég geti bara skilið þær hérna eftir og þurfi ekki að senda þær frá Århus.
Finnst rosalega óþægilegt að hafa svona mikið að gera á seinustu stundu en svona er það þegar að maður ákveður með svona stuttum fyrirvara að koma ekki heim um jólin. Annars hefði ég nú alveg getað dreift þessu meira.
Birt af Inga Elínborg kl. 10/20/2005 10:46:00 f.h. |
miðvikudagur, október 19, 2005
Mér finnst að fleiri fyrirtæki ættu að fylgja fordæmi Sparisjóðs Norðlendinga.
Ef ég væri yfir höfuð að vinna þá myndi ég labba út kl. 14:08.
Birt af Inga Elínborg kl. 10/19/2005 09:50:00 f.h. |
Fór og hitti nokkrar sálfræðistelpur á kaffihúsi í gær, rosa gaman að hitta þær og spjalla. Líka gott að frétta hvernig aðrir eru að fíla starfsþjálfunina sína.
Þurfti reyndar að sleppa magadansinum til að hitta þær þannig að það er bara einn tími eftir :(. Ætla sko pottþétt að kaupa mér aftur kort þegar að við komum aftur.
Svo er ég búin að kaupa mér miða á Sálina í Kaupmannahöfn. Ég ætla að skella mér með Hildi sálfræðigellu, hlakka ekkert smá til :).
Í dag eru 3 dagar þangað til að ég fer aftur til Árósa, voða skrýtin tilfinning að vita til þess að við verðum þarna í 5 mánuði án þess að koma nokkuð heim. En ég hlakka nú bara líka til, sérstaklega að hitta Árnann minn. En svo verður maður bara að vera jákvæður. Eins og Alda sagði í gær, maður á eftir að búa á Íslandi allt sitt líf þannig að nokkrir mánuðir í öðru landi skipta kannski ekki svo miklu máli.
Svo eru líka 3 dagar þangað til að ég er búin í starfsþjálfuninni minni. Mér finnst nú eiginlega enn skrýtnari tilhugsun að vita að ég á bara lokaritgerðina mína eftir í náminu mínu, maður er bara að vera stór :).
Það er nú líka dálítið spes að missa af fæðingu krónsprinsins í Danmörku, sjónvarpsdagskráin var rofin þegar að Mary var flutt upp á spítalann og ég hef heyrt að það var þvílíkt fyllerí í öllu landinu til að fagna fæðingu hans :). Danir dýrka auðvitað kóngafjölskylduna sína.
Birt af Inga Elínborg kl. 10/19/2005 09:04:00 f.h. |
mánudagur, október 17, 2005
Amma mín varð 95 ára í gær og í tilefni þess hittist stórfjölskyldan á Hrafnistu þar sem að amma býr. Fengum rosa góða rjómatertu og spjölluðum smá saman.
Helgin var nú bara að mestu leyti róleg. Gisti hjá Bjarklindi systur alla helgina vegna þess að hún var í Boston og ég var að passa köttinn hennar, Simbu. Ég fór líka með Snúð til hennar vegna þess að hún ætlar að vera svo góð að vera með hann þangað til að við komum aftur heim. Mamma og pabbi voru nefnilega að kaupa sér íbúð þar sem að má ekki vera með dýr.
Snúður og Simba gerðu nú ekkert annað en að hvæsa á hvort annað, þvílíkt stuð. Ég reyndi svo að halda Snúð inni en hann slapp auðvitað út um glugga en kom sem betur fer aftur heim. Svo núna situr Simba í kattarlúgunni og neitar að hleypa Snúði inn þegar að hann vill koma heim. Vona bara að hann fari ekki á flakk.
Svo kíkti ég á Ingibjörgu á laugardagskvöldið, við pöntuðum okkur pizzu og spjölluðum saman, voða næs.
Annars erum ég og Árni búin að ákveða að vera í Danmörku þangað til í mars (eitthvað vesen með kúrsana hans Árna) og við komum líklegast ekki heldur heim um jólin. Frekar skrýtin tilhugsun en svona er að vera fátækur námsmaður. Mér finnst reyndar yndislegt að vera bara tvö ein á aðfangadagskvöld en ég verð nú dálítið lítil í mér þegar að ég hugsa til þess að geta ekkert hitt fjölskyldu og vini um jólin.
Birt af Inga Elínborg kl. 10/17/2005 01:26:00 e.h. |
fimmtudagur, október 13, 2005
Ég er búin að vera að lesa í gegnum gamalt blogg hjá mér og það er ekkert smá gaman að eiga svona "dagbók" um líf mitt fyrir undanfarin tvö og hálft ár.
Svo var ég líka að lesa gömlu dagbækurnar mínar frá árunum 1997 - 2000 og oh my god hvað ég lá í kasti yfir þeim, alveg frábært að sjá hugsanir sínar frá þessum tíma.
Birt af Inga Elínborg kl. 10/13/2005 03:43:00 e.h. |
mánudagur, október 10, 2005
Ég og Árni vorum að panta okkur hótel í Kaupmannahöfn 2.- 4. desember. Oh hlakka svo til að koma þangað (hef nefnilega aldrei komið til borgarinnar, ótrúlegt en satt), fara í jólatívolí, labba Strikið, komast í jólaskap og bara njóta lífsins með manninum mínum :).
Birt af Inga Elínborg kl. 10/10/2005 03:22:00 e.h. |
Kíkti út á lífið með Helgu á laugardaginn. Fórum á Glaumbar (hvert annað?) og dönsuðum smá. Rosa gaman en alveg óþolandi að fara á djammið og lykta eins og maður hafi reykt í 12 tíma, jakk. Svo í gær lá ég bara uppi í rúmi og las 3 bækur, rosa skrýtið (en jafnframt alveg yndislegt) að þurfa ekki að vera að læra um helgar.
Í dag eru svo aðeins 12 dagar þangað til að ég fer til Danmerkur, jibbí.
En svo las ég þessa grein í morgun og fékk alveg tár í augun. Það er svo greinilegt að líf barnanna sem lenda í misnotkun eru ekkert metin, allavega ef miðað er við hvernig réttarkerfi okkar tekur á þessum einstaklingum sem brjóta af sér. Dáist alveg að konunni sem skrifar þessa bók, finnst hún sýna svo mikið hugrekki með því.
Birt af Inga Elínborg kl. 10/10/2005 08:48:00 f.h. |
miðvikudagur, október 05, 2005
Rosa gaman í magadansinum í gær, dönsuðum bæði með slæður og án þeirra, lentum í dálitlum vandræðum að dansa með slæðunum, því að þá þarf maður að hreyfa fæturnar, fingurna og hendurnar í einu og það var ekki alveg að gera sig svona fyrsta tímann. En við erum bara 6 í þessu námskeiði, mjög ánægð með það. Í tímanum á undan okkur voru um 30 manns en maður fær mikið meira út úr þessu þegar að svona fáir eru.
Námskeiðinu er svo skipt þannig að fyrstu vikuna verður magadans kenndur, næstu viku Bollywood (ekki Bollywoo eins og ég skrifaði seinast), þriðju vikuna verður Hawaii hula kennt og svo loksins salsa. Er mjög ánægð með þessa uppröðun vegna þess að ég missi af seinustu vikunni en þar sem að ég kann salsa skiptir það ekki svo miklu máli.
En oh my god hvað Josy (kennarinn) dansar vel, þvílíkt vald á magavöðvunum.
Birt af Inga Elínborg kl. 10/05/2005 08:22:00 f.h. |
mánudagur, október 03, 2005
Jæja við systurnar búnar að skrá okkur í Suðræna sveiflu ( sem er magadans, salsa, Bollywoo og Hawaii Hula) hjá Magadanshúsinu. Hlakka geðveikt til, byrja annað kvöld og verð þrisvar í viku.
Birt af Inga Elínborg kl. 10/03/2005 11:35:00 f.h. |
sunnudagur, október 02, 2005
Þvílíkt skemmtileg helgi búin. Á föstudaginn var Helga með saumó, með mat fyrir heilan her. Rosa gaman að hitta stelpurnar og spjalla saman.
Á laugardaginn lá ég nú bara í leti en um kvöldið kíkti ég til Bjarklindar systur þar sem að við ákváðum að byrja í magadansi í næstu viku. Hún sýndi mér atriði í Ísland í dag (síðan í seinustu viku) og við lágum alveg í kasti yfir 3 karatestrákum sem byrjuðu að æfa magadans vegna atriðis í árshátíð en eru núna farnir að sýna um allan bæ. Þetta var reyndar rosalega flott hjá þeim en líka alveg hrikalega fyndið.
Við kíktum svo aðeins á djammið. Fórum fyrst á Hressó og dönsuðum smá, ætluðum svo að kíkja aðeins inn á Glaumbar en það var svo geðveikt góð tónlist þar að við ílengdumst þar og vorum ekki komnar heim fyrr en um fimm. Snúður vakti mig svo klukkan 11, ekki alveg sá vinsælasti í heimi :).
Svo eru bara 20 dagar þangað til að ég sé manninn minn, hlakka mjög mikið til þess. Við erum sko alveg búin að ákveða að vera aldrei svona lengi frá hvort öðru.
Birt af Inga Elínborg kl. 10/02/2005 11:27:00 f.h. |