Í gær var jólasaumó með skvísunum og mennirnir fengu að koma með ;) Það var ekkert smá gaman því að við erum svo sjaldan allar á landinu þannig að það var frábært að allir skyldu hafa tíma til að komast. Og svo var rosalega mikið spjallað og borðað og hlegið. Svo var rosalega mikið dáðst að nýju prinsunum í saumaklúbbnum, þeir eru algjörar dúllur.
Í dag var ég semsagt frekar þreytt í vinnunni því að við komum seint heim. Svo finnst mér líka frekar skrýtið að vera að fara að vinna á morgun (er að vinna til hádegis), ég er eiginlega ekki alveg að ná því að það séu að koma áramót. En það verður samt svo gaman á morgun, ég fer til mömmu og pabba og borða svið, nammi namm. Árna finnst þau hinsvegar vond (skil ekkert í honum) þannig að hann verður hjá mömmu sinni og pabba í mat.
En ég segi bara við alla núna af því að ég nenni örugglega ekkert að blogga á morgun:
Gleðilegt nýtt ár og takk fyrir það liðna!! Megi gæfan fylgja ykkur á nýju ári.
þriðjudagur, desember 30, 2003
Birt af Inga Elínborg kl. 12/30/2003 10:53:00 e.h. |
mánudagur, desember 29, 2003
Oh hvað þetta eru búin að vera yndisleg jól. Ég naut þess alveg að vera í fríi (er komin í vinnuna núna). Ég og Árni vorum heima hjá mömmu og pabba og fengum alveg frábæran mat. Ég og Árni fengum ekkert smá mikið, eiginlega of mikið til að ég nenni að telja það upp ;) Svo var bara legið og lesið og borðað nammi og haft það rosalega kósí.
Á jóladag voru tvö jólaboð, eitt hjá mömmu og pabba og eitt hjá tengdó þannig að við þurftum að skipta okkur en Árni kíkti reyndar aðeins við hjá mömmu og pabba. Eftir boðin var farið til Hrannar og Axels og spilað alveg til hálffimm um morguninn. Svo var afmælispartý hjá Karen 27. des og það var rosalega gaman. Reyndar var geðveikt kalt en það reddaðist nú allt.
Í gær fórum við svo á LOTR og oh my god, hvað hún er geðveikt. Ég ætla nú ekkert að segja neitt meira til að eyðileggja ekki fyrir neinum en það má enginn missa af henni.
Svo er ég búin að fá eina einkunn, fékk 6,5 í félagslegri sálfræði og ég var bara nokkuð ánægð með það, hæsta einkunnin var bara 8,5. Núna á ég bara eftir að fá út úr tveimur prófum.
Birt af Inga Elínborg kl. 12/29/2003 09:11:00 f.h. |
miðvikudagur, desember 24, 2003
Þó að það séu ekki komin jól þá ætla ég samt að segja við alla:
Gleðileg jól elskurnar mínar og vonandi hafið þið það sem allra best um hátíðarnar.
Birt af Inga Elínborg kl. 12/24/2003 03:29:00 e.h. |
mánudagur, desember 22, 2003
Ég og Árni fórum á Love actually á laugardagskvöldið og hún er ekkert smá góð. Ekta jólamynd, svo sæt. Ég mæli með henni fyrir alla. Bara svona að koma þessu á framfæri ;)
Annars er mest lítið að frétta, fór og keypti eina aukagjöf fyrir Árna í gær þannig að núna er ég alveg búin. Enda er ég að vinna í gær og í dag þannig að ég hef engan tíma fyrir jólagjafastúss.
Núna eru allar vinkonurnar komnar heim, ekkert smá gaman. Reyndar er ég ekkert búin að hitta þær en það gerist vonandi sem fyrst, jibbí.
Birt af Inga Elínborg kl. 12/22/2003 11:07:00 f.h. |
laugardagur, desember 20, 2003
Yngsta frændsystkinið mitt á eins árs afmæli í dag, innilega til hamingju með afmælið elsku Adam minn!! Við fórum í afmælið til hans í dag og maður var svo mikið krútt.
Annars er bara mest lítið að frétta, er bara búin að vera að slappa af og svo kláraði ég að pakka inn jólagjöfunum, allar búnar.
Mikið var ég annars sátt við úrslitin í Idol í gær, Helgi Rafn átti alveg skilið að vera rekinn út að mínu mati. Er eiginlega ekki búinn að standa sig neitt vel síðan að þau voru svona fá eftir.
Birt af Inga Elínborg kl. 12/20/2003 08:03:00 e.h. |
föstudagur, desember 19, 2003
Jæja búin að vera tvo daga í vinnunni og það er bara fínt. Mjög góðir vinnufélagar og alltaf nóg að gera. Gaman að vera aftur komin fram í afgreiðslu í staðinn fyrir að vera alltaf í bakvinnslunni.
Svo fékk ég jólagjöf í dag frá Landsbankanum, allir fengu risastóra ostakörfu og það var líka graflax og reyktur lax. Svo var einn pakki sem var pakkaður inn og ég var svo forvitinn að ég opnaði hann og þá var það Heimur spendýranna eftir David Attenborough, ekkert smá flottar gjafir. Reyndar var Árni ekkert alltof sáttur því að hann var búinn að kaupa Heim spendýranna í jólagjöf handa mér þannig að hann þarf að kaupa eitthvað annað í staðinn :(
Árni fékk lokaeinkunnina sína í dag, fékk 9,0 í Fallaforritun (og er þá með 9,2 í meðaleinkunn) þannig að hann kemst á forsetalistann og fær skólagjöldin niðurfelld á næsta önn, ekkert smá flott hjá honum. Til hamingju krúsin mín.
Birt af Inga Elínborg kl. 12/19/2003 06:52:00 e.h. |
miðvikudagur, desember 17, 2003
Jibbí, ég er búin í prófum. Oh það er svo frábært. Reyndar veit ég ekki alveg hvernig mér gekk, það voru nefnilega bara ritgerðarspurningar í prófinu og ég gat alveg skrifað eitthvað við allt en kannski sagði maður ekki nákvæmlega það sem kennarinn var að leita eftir o.s.frv. En það þýðir víst ekki að stressa sig á því, þetta er búið og maður gerði það besta sem maður gat.
Svo fór ég bara í strípur og ætla svo bara að slappa af í kvöld. Ég er nefnilega að deyja úr þreytu, fór að sofa klukkan tólf í gær en vaknaði um hálfþrjú og gat ekki sofnað aftur fyrr en fimm útaf stressi.
Vinur hans Árna fékk boðsmiða á LOTR í lúxussal og bauð Árna með sér í kvöld. Árni sagði auðvitað já sem ég skil mjög vel (en hann er samt að fara í próf á morgun) en mig langar líka að sjá hana í kvöld. Svo förum við bara aftur 28. Gaman gaman. Hinsvegar má Árni ekki segja mér neitt úr myndinni, þá verð ég alveg brjáluð.
Birt af Inga Elínborg kl. 12/17/2003 04:50:00 e.h. |
þriðjudagur, desember 16, 2003
Mér líður mikið betur núna í hendinni, er allavega laus við fatlann og get byrjað að tjá mig aftur, jibbí.
En núna er bara eitt próf eftir (á morgun) og ég er frekar stressuð, frekar lítill tími miðað við hvað það er mikið efni fyrir prófið. Svo verða bara líka 5 spurningar í prófinu þannig að maður verður annaðhvort heppin eða óheppin, það er ekki fræðilegur að maður muni kunna allt jafnvel.
En svo á morgun klukkan tólf verð ég komin í jólafrí!! Reyndar ekkert mikið frí því að ég verð að vinna um jólin en samt þá allavega prófafrí.
Ætla bara að láta þetta nægja og líta enn einu sinni yfir glósurnar.
Birt af Inga Elínborg kl. 12/16/2003 04:30:00 e.h. |
sunnudagur, desember 14, 2003
Ætlaði bara að láta vita að það verður ekki skrifað mikið á næstunni því að ég datt í hálku í gær, beint á vinstri olnbogann (sem betur fer er ég ekki brotin) og er núna með tvöfaldan olnboga af því að ég er svo bólgin. Þannig að núna er ég með hendina í fatla. Sem betur fer datt ég á vinstri því að ég er að fara í próf eftir 3 daga og þar sem ég er rétthent get ég alveg skrifað í prófinu. Þar sem að það er búið að taka mig ca. 5 mínútur að skrifa svona lítið ætla ég bara að láta þetta nægja.
Birt af Inga Elínborg kl. 12/14/2003 12:26:00 e.h. |
laugardagur, desember 13, 2003
Jæja, annað próf búið og þá er bara eitt eftir. Mér gekk held ég bara ágætlega í dag, prófið var frekar stutt bara 80 krossar og ég var búin eftir 25 mínútur. En þar sem að maður má ekki fara fyrr en eftir klukkutíma þá fór ég fjórum sinnum yfir prófið!! Mér finnst svo hræðilegt að hafa svona langan tíma því að þá fer ég alltaf að breyta öllum svörunum mínum, reyndar breytti ég bara þrem en samt.
Svo var Idol í gær, mér fannst þau öll mjög góð, erfitt að reka einhvern burt. Ég var nú reyndar búin að sjá fyrir mér að Rannveig myndi vinna keppnina en það gekk víst ekki eftir.
Ég og Árni fórum í gær og keyptum miða í lúxussal á LOTR, 3 myndina. Við fórum þrem tímum eftir að byrjað var að selja miðana og samt var búið að selja upp fyrir tvo daga.
En núna eru bara 4 dagar eftir í próflok, jibbí. Ég get varla beðið.
Birt af Inga Elínborg kl. 12/13/2003 05:25:00 e.h. |
fimmtudagur, desember 11, 2003
Tveir dagar í næsta próf og ég get varla beðið. Ég hef semsagt fjóra daga fyrir þetta próf og það er bara of mikið, þetta er nefnilega valfag (bara 3 einingar) og það eru um 350 bls. í lesefni, sem er náttúrulega ekki neitt. Og þar sem að ég er að lesa bókina í þriðja skiptið þá er ég bara búin að vera að lesa um þrjá kafla á dag sem þýðir að ég er búin að sofa til ellefu og læra svo til svona fjögur og láta mér svo leiðast, vegna þess að ef ég myndi reyna að lesa bókina í fjórða skiptið myndi ég bara rugla öllu saman.
En svo í kvöld verður smá gaman, tengdamamma á nefnilega afmæli, til hamingju með afmælið Ingibjörg. Og hún er búin að baka kökur og svona þannig að ég fæ nammigott. Og svo koma nokkrir gestir þannig að maður getur spjallað við einhverja, maður einangrar sig alltaf svo mikið í prófum.
Birt af Inga Elínborg kl. 12/11/2003 04:57:00 e.h. |
mánudagur, desember 08, 2003
Eitt próf búið og tvö eftir. Það gekk bara betur en ég hélt að myndi ganga í dag. Þetta voru samt 3 ritgerðir og ég gat alveg skrifað fullt um hvert efni en þetta er alltaf svo huglægt mat. En bara fínt að vera búin.
Svo fór ég í klippingu og er orðin rosa sæt, tíhí. Svo fórum ég og Árni og kláruðum að versla allar jólagjafirnar, jibbí. Ég fékk líka fyrirfram jólagjöf frá tengdó, af því að mig vantaði svo pils og skó fyrir jólin (á ekkert pils og enga spariskó) þá gáfu þau mér þannig í dag, ekkert smá flott. Þannig að ég er búin að fá tvær jólagjafir, gaman gaman.
Svo er ég bara núna að hlusta á jólalög og pakka inn nokkrum jólagjöfum. Reyndar verð ég frekar mikið pirruð á því, vegna þess að ég er svo mikill fullkomnunarsinni og svo rosalega smámunasöm þá fara böndin alltaf svo í taugarnar á mér því þau vilja aldrei tolla alveg eins og ég vil hafa þau, ég veit ég er pínku skrýtin.
Núna er Árni búinn að fá allar einkunnirnar sínar, hann var búinn að fá eina 9,5 í stærðfræði, í dag fékk hann að vita að hann er með 9,0 í málstofu, 9,0 í tölvugrafík og 9,5 í forritunarmálum. Ekkert smá flott hjá honum, til hamingju ástin mín. Þannig að þetta þýðir að hann þarf bara að fá 8 í faginu sem hann er í núna og þá er hann með 9 í meðaleinkunn, kemst á forsetalistann og fær skólagjöldin niðurfelld, jibbí.
Birt af Inga Elínborg kl. 12/08/2003 07:17:00 e.h. |
Jæja hálftími í próf og ég er svo stressuð. Ekki bætti það úr að ég fór að sofa klukkan tólf í gær en vaknaði aftur um hálftvö og gat ekki sofnað aftur fyrr en hálffimm, þannig að ég er frekar þreytt.
En vonandi gengur þetta allt vel ;)
En svo á öðrum nótum, Helga vinkona átti afmæli í gær, til hamingju með afmælið elsku Helga mín. Hlakka svo til að sjá þig þegar að þú kemur frá Keele.
Birt af Inga Elínborg kl. 12/08/2003 08:27:00 f.h. |
fimmtudagur, desember 04, 2003
Það er gjörsamlega ekkert að gerast hjá mér, kannski ekki skrýtið miðað við það að ég fer ekki út úr húsi vegna þess að ég er að læra. En á mánudaginn verður þetta próf búið og þá ætla ég í klippingu, jibbí. Maður verður nú að líta sómasamlega út um jólin.
En eins og ég segi þá er ekkert að frétta, ég sit og les allan daginn og svo þegar Árni kemur heim þá þarf hann að hlusta á allan pirringinn í mér vegna þess að ég held alltaf að ég kunni ekki neitt (sérstaklega þegar að maður hefur 11 daga fyrir eitt próf), eftir því sem ég læri meira því minna finnst mér ég kunna. Ekki alveg nógu gott en þetta hlýtur að reddast :s.
Svo er Árni búinn að fá út úr einu próf, fékk 9,5 í Stærðfræðilegri greiningu, ekkert smá flott hjá honum.
Ég fór og skrifaði undir ráðningarsamninginn hjá Landsbankanum í gær þannig að það er alveg klappað og klárt. Reyndar var ég nú ekkert sátt við það að ég þarf að vinna til hádegis á gamlársdag og líka á aðfangadag held ég. Veit einhver hvort að það er opið í bönkum á aðfangadag? (vá ég veit þetta ekki en er samt búin að vera að vinna í banka síðan árið 2000).
Birt af Inga Elínborg kl. 12/04/2003 02:22:00 e.h. |
mánudagur, desember 01, 2003
Vá hvað ég er ekki alveg komin í stuðið fyrir upplestrarfríið, ég er alveg búin að vera dugleg að læra (mætti samt alveg vera duglegri) og svona en mér finnst ég ekki kunna neitt. Enda er líka vika í fyrsta prófið núna, ég held að ég sé bara ekki orðin nógu stressuð.
En núna er semsagt niðurtalningin í próflokin byrjuð og líka niðurtalningin í jólin, 16 dagar þangað til að ég verð búin í prófum og 23 dagar í jólin. Ég og Árni eigum bara eftir að versla 4 jólagjafir og ég er búin að kaupa allar jólagjafirnar handa honum þannig að það er ekki mikið eftir. Ég er rosalega ánægð með það, aðeins minna að gera í fríinu.
Birt af Inga Elínborg kl. 12/01/2003 12:06:00 e.h. |