Komin í upplestrarfrí!! Jibbí, seinasta próftörnin mín í HÍ er byrjuð, ekkert smá gaman.
Við erum semsagt komin með leigjendur að Laugateiginum, loksins. Þetta eru tvær ungar stúlkur og okkur leist bara vel á þær, þær fá afhent líklegast í kvöld þannig að það er bara fínt að vera loksins búin að leigja hana og þurfa ekki lengur að vera að sýna öllum hana.
Svo er ég komin með vinnu, byrja 18. desember (daginn eftir að ég er búin í prófum) á Bæjarhrauni í Landsbankanum. Þetta er alveg pínkupons útibú (bara 4 sem vinna þarna) þannig að maður verður svona allt í öllu, sem er fínt, þá lærir maður bara meira og fær meiri reynslu. Ég er semsagt að leysa eina konu af sem er að fara í barneignarleyfi og það gæti bara ekki hentað betur fyrir mig.
En jæja, þarf að halda áfram að læra.
föstudagur, nóvember 28, 2003
Birt af Inga Elínborg kl. 11/28/2003 09:52:00 f.h. |
þriðjudagur, nóvember 25, 2003
Oh það er svo jólalegt úti, ég elska þegar að það snjóar svona mikið. En ég er líka svo mikið fyrir kulda og veturinn þannig að það er kannski ekkert skrýtið.
Árni kláraði prófin í gær og honum gekk bara mjög vel. Strax eftir prófin fóru hann og einhverjir HR-ingar í sumarbústað og voru að djamma og svona. Og ég er ekki einu sinni byrjuð í prófum!! En svo strax á morgun byrjar hann í sérhæfðu námskeiði þannig að hann er ekki alveg búinn í skólanum.
Svo er bara einn dagur eftir og þá er komið upplestrarfrí, ég ætla reyndar að taka mér frí á morgun og versla jólagjafir en strax á fimmtudag verður byrjað að lesa.
Einar frændi sem er að gera við bílinn okkar hringdi í mig í dag og sagði að kostnaðaráætlunin væri komin í 120.000 krónur og það er bara það sem þeir sjá. Þetta getur hækkað geðveikt mikið þegar að þeir byrja að rífa allt í sundur og svona. Þannig að þetta verður nokkuð dýrt fyrir þessa verktaka.
Birt af Inga Elínborg kl. 11/25/2003 04:38:00 e.h. |
sunnudagur, nóvember 23, 2003
Voh, LOTR: TTT er bara alveg geðveik, þótt að hún sé tæpir fjórir tímar tekur maður ekkert eftir því. Ég get varla beðið eftir þriðju myndinni, hún verður frábær.
Svo fengum við að frétta á föstudaginn að verktakarnir eru 100% bótaskyldir, jibbí. Fyrst var TM reyndar eitthvað að nöldra um að þetta ætti að skiptast í helminga en Árni röflaði í þeim og þá skiptu þeir um skoðun enda kemur ekkert annað til greina. Myndirnar sem voru teknar af staðnum sýna alveg að þetta er stórhættulegt.
Nú svo er seinasta vikan í skólanum að byrja, seinasti kennsludagur á morgun og svo á þriðjudag og á miðvikudag eru svona upprifjunartímar og svo á fimmtudag byrjar maður að lesa, ekki gaman. En svo verður þetta búið 17. desember kl. 12.
Í gær hitti ég svo vinina á Ara í Ögri, fínt að komast aðeins út og spjalla, enda hittir maður vinina ekkert fyrr en prófin eru búin.
Birt af Inga Elínborg kl. 11/23/2003 02:00:00 e.h. |
miðvikudagur, nóvember 19, 2003
Ég fór og keypti LOTR: Two Towers í gær og við ætlum að horfa á hana á morgun, ég get varla beðið!! Árni fer nefnilega í próf á morgun milli 9-12 en svo fer hann ekki í næsta próf fyrr en á mánudag þannig að hann getur tekið sér frí og horft á myndina. Hann er svo líka búinn í einu prófi og gekk bara mjög vel (eins og alltaf).
Fyrir utan þetta er nú mest lítið að frétta, frí í skólanum á morgun og ég hlakka ekkert smá til að sofa út. Svo er bara föstudagur og svo er komin seinasta helgi fyrir upplestrarfrí, enda er helgin alveg fullbókuð. Maður þarf að nýta allar stundir. Svo næsta þriðjudag ætlum við að fara að versla fleiri jólagjafir og reyna bara að klára sem flestar, nenni ekki að standa í þessu eftir próf, þá vil ég bara eiga frí. Við eigum reyndar eftir að kaupa 11 jólagjafir þannig að þær verða ekkert allar kláraðar en vonandi meirihlutinn.
Svo fór ég eftir skóla í dag að sækja um vinnu og sótti um vinnu á sex stöðum, vona bara að það komi eitthvað út úr því ;)
Birt af Inga Elínborg kl. 11/19/2003 01:30:00 e.h. |
laugardagur, nóvember 15, 2003
Jæja, búin að flytja og líka búin að þrífa alla íbúðina, með hjálp frá systrunum og bestu mömmu í heimi!! Mamma og pabbi eru nefnilega búin að vera svo frábær í þessum flutningum, búin að koma á hverjum degi liggur við og hjálpa okkur.
Ekkert smá næs að vera búin að þessu öllu og geta byrjað að læra á ný. Við erum reyndar ekki komin með leigjendur, við hringdum í þau í dag (áttu að fá afhent í dag) og þau svara okkur bara ekki. Við erum búin að hringja svona 20 sinnum í þau, það er ekkert mál ef þau eru hætt við, við viljum bara vita það. Andskotans helvítis pakk sem kann sig ekki. Ég er alveg brjáluð.
Kynningin á fimmtudaginn gekk vel, allavega leið ekki yfir mig ;). Svo var ég að komast að því að það er önnur kynning í næstu viku sem á að vera í korter. Maður verður bara orðinn sjóaður í þessu fyrir rest. En þetta er mjög gott að gera svona, ættu að vera fleiri kennarar sem gerðu þetta.
Ég hlakka svo til 24. nóvember af því að þá ætlum við að horfa á Two Towers; extended edition. Hún kemur reyndar út 18. nóvember en Árni er í prófum þá þannig að ég ætla að geyma að horfa hana þangað til hann er búinn. Er ég ekki góð?
Svo er TM búið að komast að því að þessir verktakar eru bótaskyldir en þeir hafa 7 daga andmælarétt þannig að það er ekki ennþá byrjað að gera við bílinn og við erum ennþá á bílaleigubílnum, ef verktakarnir geta fundið einhverja smugu þannig að þeir séu ekki bótaskyldir þá verður það nokkuð dýrt að hafa bílinn :(
Birt af Inga Elínborg kl. 11/15/2003 09:37:00 e.h. |
miðvikudagur, nóvember 12, 2003
Við fórum til löggunnar í dag og kærðum þessa verktaka og svo fórum við til TM og þeir ætla að láta okkur vita á morgun hvað kemur út úr þessu. Við náðum svo í bílaleigubíl í dag upp á von og óvon því ef að þeir eru bótaskyldir þurfa þeir að greiða bílaleigubílinn en annars þurfum við auðvitað að greiða hann. Það gengur bara ekki að vera bíllaus, pabbi var alveg frábær í dag að keyra mig og Árna í skólann og svo keyrði hann okkur líka til löggunnar og TM og líka til að ná í bílaleigubílinn. Takk pabbi ;).
Svo ætlum við að flytja á morgun, mamma kom og pakkaði niður í dag fyrir mig á meðan ég var í skólanum svo að það væri búið að pakka öllu, alveg frábær líka sko. Ég á bara yndislega foreldra.
En á morgun þarf ég að halda smá umræðu (fyrir 80 manns) um niðurstöður í tilrauninni minni þannig að allir verða að hugsa góðar hugsanir um 9.50 á morgun. Reyndar erum við tvær og við megum ekki vera lengur en 10 mínútur en ég kvíði samt frekar mikið fyrir.
En að vera á þessum bílaleigubíl er ekkert smá skrýtið, við fengum Yaris frá þeim, bara ársgamlan og það er svo skrýtið að keyra svona nýjan bíl miðað við 9 ára gamla bílinn okkar. Ég keyrði eins og 17 ára stelpa nýbúin að fá bílpróf, drap á bílnum á hverjum ljósum og svona. En þetta venst.
Birt af Inga Elínborg kl. 11/12/2003 07:53:00 e.h. |
þriðjudagur, nóvember 11, 2003
Jæja, afmælið mitt búið og maður er orðin árinu eldri :=) Það var líka svo rosalega fínt að fá stelpurnar í heimsókn í gær og spjalla aðeins og slappa af. Fyrsta kvöldið í tvær vikur sem fer ekki í það að pakka. Ég fékk margt rosalega flott hjá þeim, þrjá boli og svo svona risastórar ilmkúlur sem maður setur í baðið. Þannig að tengdó á ekkert eftir að komast í bað fyrstu vikurnar sem við búum þarna.
Annars var stefnan sett á það að flytja á morgun en Árni á að skila tveim verkefnum þannig að við þurfum örugglega að fresta því fram á fimmtudag og þá hef ég bara einn dag til að þrífa, gúlp. Kannski fínt að það frestaðist af því að ég á ennþá eftir að pakka smá, verð að reyna að klára það í kvöld.
Svo erum við vonandi komin með leigjendur, þau ætla að tala betur við okkur í dag. Læt ykkur vita af því seinna.
En vá hvað það er ömurlegt að vera bíllaus, það tekur geðveikt langan tíma að komast allt, reyndar er fjölskyldan mín búin að vera rosalega dugleg við að keyra okkur en samt alveg hryllilegt. Löggan ætlar samt að koma að skoða bílinn í kvöld, Einar frændi sem er bifvélavirki er búinn að skoða bílinn og hann er bara rosalega mikið eyðilagður, stýrisdælan farin og olíupannan lekur og eitthvað meira held ég. Svo er búið að taka myndir af þessum stað sem Árni keyrði ofan í holuna og við látum lögguna fá þær og þá getum við kannski fengið bílaleigubíl út á trygginguna hjá þessum verktökum. Við fáum nefnilega ekki bílaleigubíl nema við notum kaskótrygginguna (þar sem sjálfsábyrgðin er 74.000) og við ætlum ekkert að borga neitt sjálf. Enda sagði maðurinn sem tók myndirnar að þetta væri bara stórhættulegt að skilja þetta eftir svona.
Birt af Inga Elínborg kl. 11/11/2003 03:44:00 e.h. |
sunnudagur, nóvember 09, 2003
Vá hvað það gengur allt á afturfótunum hjá okkur. Árni var að keyra uppí HR og keyrði ofan í einhverja risastóra holu (sem var ekkert merkt) og bíllinn er bilaður. Einar frændi kom og kíkti á hann og við þurfum að láta draga hann upp á verkstæði á morgun og þar ætlar Einar að líta betur á hann (hann gat ekkert sagt hvað var að). Við ætlum að hringja í Gatnamálastjóra á morgun og heimta að þeir borgi alla viðgerðina, þeir eru að laga eitthvað og merkja ekki einu sinni neitt. Ekkert smá hallærislegt og ég er svo pirruð. Það gengur nefnilega ekkert að vera bíllaus og þá sérstaklega ekki þegar að maður er að flytja.
Birt af Inga Elínborg kl. 11/09/2003 10:02:00 e.h. |
Ég og Sólveig héldum upp á afmælið okkar í gær heima hjá Sólveigu. Það var rosalega fínt, við buðum bara fjölskyldunni og svona og ég fékk ekkert smá mikið, 2 hálsmen, bol, peysu, loðna inniskó, handklæði og kisusokka frá sock shop.
Í dag fluttum við rosalega mikið heim til tengdó, Bergþór pabbi var í bænum á stóra vörubílnum sínum þannig að við nýttum tækifærið og fluttum allt sem við getum verið án. Ég vildi bara að ég hefði vitað fyrr að hann hefði verið í bænum því að þá hefðum við getað verið alveg tilbúin með allt og bara klárað að flytja. Það hefði þá sparað okkur að fá sendibíl á miðvikudaginn. En samt frábært að vera búin með geymsluna og alla kassa.
Eftir að við fluttum fórum við til mömmu og pabba með Snúð og ég er búin að vera hérna í tvo tíma og hann er búinn að vera undir rúmi allan tímann að deyja úr hræðslu. Greyið manns, ég vorkenni honum svo mikið.
Mamma og pabbi voru líka svo góð að leyfa mér að halda upp á afmælið mitt á morgun hjá þeim vegna þess að það eru engir stólar eftir í íbúðinni, bara einn sófi og það er ekki nóg fyrir vinkonurnar. Það er líka allt í drasli þannig að ég hefði ekki nennt að þrífa alla íbúðina fyrir þær ;).
Birt af Inga Elínborg kl. 11/09/2003 06:18:00 e.h. |
föstudagur, nóvember 07, 2003
Jæja, við erum búin að auglýsa í fréttablaðinu og það eru nokkrir búnir að koma að skoða íbúðina en enginn sem hefur sagt neitt ákveðið. Ég er samt búin að vera rosalega dugleg að pakka þannig að við ætlum samt að flytja í næstu viku, bara til þess að vera búin áður en við byrjum í prófum og svona.
Svo fer Snúður til mömmu og pabba á sunnudaginn, ég kvíði ekkert smá fyrir að fara með hann og fara svo án hans. Ég vona bara að hann skilji að hann á að eiga heima þarna og fari ekki á neitt flakk, ég veit ekki hvað ég myndi gera ef hann myndi týnast :(.
Ég og Árni fórum svo á Matrix 3 í dag, hún er ekkert smá góð og Carrie-Ann Moss er bara frábær sem Trinity, hún er svo flott. Væri sko alveg til í að vera eins og hún.
Svo fór ég til Rakel vinkonu í kvöld, hún var að eiga lítinn strák fyrir 5 vikum og maður var svo sætur. Alveg eins og pabbi sinn og svo rólegur. Hann sofnaði meira að segja í fanginu á mér.
Birt af Inga Elínborg kl. 11/07/2003 11:23:00 e.h. |
þriðjudagur, nóvember 04, 2003
Við erum búin að missa leigjandann, það kom upp smá misskiningur sem varð til af okkar hálfu og við hringdum í hana og sögðum henni frá þessum misskilningi (leigan myndi semsagt hækka um 2.000 kr á mánuði) og hún varð bara brjáluð og skellti tvisvar á okkur og sagði að við værum óheiðarleg og eitthvað þannig. Við ákváðum að segja henni að við værum búin að finna nýja leigjendur því að við viljum ekki leigja svona fólki sem skelllir á mann, er hún 5 ára?
Brjálað að gera í skólanum, er að skila skýrslu núna á fimmtudaginn í félagslegri sálfræði og við erum í geðveikt miklum vandræðum því að við vissum ekki hvort að við mættum nota eitt próf til að reikna út marktekt og þannig. Það er stundakennari í þessu fagi og við fórum að hitta hann og hann gat ekkert sagt okkur um þetta því að hann vissi það ekki!! Ekki alveg nógu gott finnst mér. Þannig að við þurfum að tala við kennarann á morgun og skrifa niðurstöður og túlka þær og skila bara svo daginn eftir. Reyndar eru þetta ekki lokaskil, kennarinn ætlar bara að lesa yfir og sjá svona hvernig þetta lítur út en maður verður nú samt að skrifa eitthvað í niðurstöður!!
Svo á ég afmæli eftir 6 daga, gaman gaman. Verð geðveikt gömul. Eftir eitt ár þá verð ég aldarfjórðungsgömul, vá. Ég og Sollý systir ætlum að halda saman upp á afmælin okkar á laugardagskvöldinu (þar sem að við eigum afmæli sama dag) heima hjá henni. Hún verður reyndar rosalega gömul eða fertug!! Við ætlum bara að bjóða fjölskyldunni og svona. Svo ætla ég að bjóða vinkonunum heim á afmælisdaginn, reyndar verður allt í kössum en þær verða bara að sætta sig við það. Reyndar finnst mér mest leiðinlegt að Árni þarf að skila tveim verkefnum fyrir klukkan tólf á miðnætti á afmælisdaginn minn þannig að hann getur ekkert verið heima á afmælisdaginn (og stjanað við mig) en hann ætlar samt að reyna að kíkja í partýið sem verður heima hjá Sollý.
Birt af Inga Elínborg kl. 11/04/2003 06:29:00 e.h. |
sunnudagur, nóvember 02, 2003
Helgin var rosalega fín, ég og Árni tókum okkur frí frá lærdómi á laugardaginn og fórum og versluðum jólagjafir. Oh það var ekkert smá næs að læra ekkert og vera bara að dunda sér. Erum búin að kaupa jólagjafir fyrir öll frændsystkinin sem eru alveg 11 stykki þannig að það er mjög gott að vera búin með það. Svo á laugardagskvöldið var svona matarklúbbshittingur hjá vinum hans Árna. Það var ekkert smá gaman, rosalega góður matur og mikið spjallað og hlegið. Ekkert smá gaman að lyfta sér smá upp svona áður en flutningar og próflestur byrjar. Alveg nauðsynlegt.
Í dag erum við svo bara búin að vera að taka því rólega, systir hans Árna hún Laufey á afmæli í dag. Til hamingju með afmælið Laufey. Við fórum til þeirra í dag og þvííkar kræsingar, það var eins og heill her væri að koma í afmælið ;).
Við erum líka búin að vera rosalega dugleg að pakka, allar styttur og allt svona brothætt smádót komið ofan í kassa sem og meirihlutinn af stellinu okkar og fínu glösunum. Mér finnst nefnilega leiðinlegast að pakka svona brothættu þannig að það er fínt að vera búin með það.
Birt af Inga Elínborg kl. 11/02/2003 10:00:00 e.h. |