Ég er í þvílíku bloggstuði þessa dagana. Var að lesa gömul blogg (ekkert að gera í vinnunni semsagt) og fékk alveg sælutilfinningu við að lesa um sumarið og hvað maður gerir alltaf mikið þá. Er nú reyndar ekki hrifinn af miklum hita en það er samt alltaf gaman að hafa bjart allan sólarhringinn, fara í ísbíltúra, fara í útilegur og bara njóta þess að vera til og hafa gaman af lífinu.
Annars er ég byrjuð að finna fyrir einhverjum bakverkjum, er að spá í að skella mér í meðgöngujóga/meðgöngusund hjá Mecca Spa. Mér líður auðvitað svo vel í vatni og alltaf fínt að hreyfa sig meira. Hreyfði mig ekkert þegar að ég gekk með Benedikt og væri alveg til í að gera eitthvað meira á þessari meðgöngu :).
miðvikudagur, febrúar 27, 2008
Birt af Inga Elínborg kl. 2/27/2008 03:16:00 e.h. |
þriðjudagur, febrúar 26, 2008
Á seinasta ári ákvað ég að fara loksins í tannréttingar. Búin að fara í alla gagnatöku og er á leiðinni til tannlæknis í mars til að láta taka 4 tennur og var að tala við tannréttingafræðinginn og fékk tíma í teygjur 11. apríl og svo verða spangirnar settar upp 18. apríl. Í lok mars verða semsagt tennurnar teknar og símadaman hjá tannréttingafræðingnum ætlaði ekki að láta mig fá tíma fyrr en 28. apríl. Ég var nú ekki alveg sátt við að vera "tannlaus" í heilan mánuð þannig að ég spurði hvort að ég mætti ekki bara koma aðeins fyrr. Sem betur fer var það ekkert mál. Reyndar á ekki eftir að sjást mikið í neðri góm en í efri góm eiga allir eftir að taka eftir þessu. Þannig að ég verð voðalega sæt í 2 vikur með bil á milli tannanna og svo verð ég ennþá sætari með spangir :). Eins gott að venjast tilhugsuninni um spangir, ég á eftir að vera með þetta í 2 ár. Finnst þetta samt eitthvað óraunverulegt, búin að hugsa um þetta svo lengi og allt í einu er bara komið að þessu.
Birt af Inga Elínborg kl. 2/26/2008 08:35:00 f.h. |
sunnudagur, febrúar 24, 2008
Það var svo gaman í gær. Ég, Karen, Helga og Ingibjörg hittumst heima hjá Karen og horfðum á Laugardagslögin - ég var mjög sátt við úrslitin, reyndar skil ég ekki þá sem kusu lag Dr. Gunna en þetta er frjálst land :). Eftir mikið spjall var förinni heitið á Nasa á Eurovisionball þar sem Palli var DJ. Það er svo frábært að fara á ball með honum, við vorum á dansgólfinu stanslaust í 2 tíma og meirihlutinn af lögunum voru auðvitað Eurovision lög. Palli sjálfur tók svo nokkur lög og þótt að ég vissi að Eurobandið og fleiri myndu koma og syngja fór ég heim um 2:30. Var eiginlega bara búin á því en ég hef sjaldan skemmt mér jafnvel. Elska að dansa við Eurovision lög.
Strákarnir sem dönsuðu við hliðina á okkur vöktu samt athygli mína. Ef þetta eru metro strákarnir í dag þá hefði mér aldrei dottið í hug (þ.e.a.s. þegar að maður var að svipast um eftir mannsefni :)) að líta tvisvar á svona hrikalega metro stráka. Ég sver það, ég er ekki ennþá viss hvort að þeir voru samkynhneigðir eða ekki og samt voru nokkrir þeirra að dansa mjög svo "áhugaverða" dansa við stelpur. Ekki það að ég vilji ekki að karlmenn hugsi um útlitið en mér fannst þetta bara svo fyndið að ég varð að minnast á það.
Setti inn nokkrar bumbumyndir í albúmið mitt, set link inn á það á síðunni hans Benedikts. Endilega kíkið á þær, finnst ég vera orðin frekar "stór" miðað við meðgöngulengd.
Birt af Inga Elínborg kl. 2/24/2008 08:14:00 e.h. |
fimmtudagur, febrúar 21, 2008
Loksins fást úrslit úr Laugardalslögunum, þ.e.a.s. eftir tvo daga. Ég hef nú reyndar ekki fylgst neitt alltof vel með þessu, þessi þáttur hefur ekki alveg náð til mín. Hinsvegar er ég búin að mynda mér skoðun um hvaða lag sé best, ég vona að Friðrik Ómar og Regína vinni. Er búin að heyra ensku útgáfuna og finnst hún algjört æði.
Ég er hinsvegar ekki alveg að fíla lagið hans Barða, ef ég hlusta á það í útvarpinu þá finnst mér það fínt en mér fannst það alveg hræðilegt þegar að ég sá þau á sviði.
Ég skil ekki hvernig Ragnheiður Gröndal komst áfram, jú hún syngur þetta voða vel en lagið er alveg hræðilegt að mínu mati.
Ég hlustaði svo á lagið sem Magni syngur og þótt að það sé ekki Eurovision vænt þá finnst mér lagið svaka flott, ekki spillir svo fyrir að mér finnst hann alltaf svo heillandi. Hefði viljað sjá hvernig það kom út þegar að Birgitta var með.
En allavega, ég vil að Friðrik Ómar og Regína vinni þetta, finnst mikill klassi yfir þeim og þetta eru alveg pottþéttir söngvarar sem eiga eftir að standa sig fullkomlega.
Birt af Inga Elínborg kl. 2/21/2008 07:45:00 e.h. |
þriðjudagur, febrúar 19, 2008
Jæja, er ekki kominn tími á nýja færslu, sérstaklega þar sem að ég er með fréttir. Fjölskyldan okkar er að fara að stækka enn meira í ágúst en þá á ég von á mér. Fórum í 12 vikna sónarinn í dag og ég er komin 12 vikur og 5 daga og er settur dagur 28. ágúst. Þessi fyrsti hluti meðgöngunnar hefði nú alveg mátt vera skárri en mér er búið að vera flökurt allan sólarhringinn í ca. 9 vikur. En sem betur fer er ógleðin í rénum, ég er hinsvegar ennþá alveg svakalega þreytt, fer liggur við að sofa um leið og Benedikt á kvöldin ;).
En krílið lék á alls oddi í sónarnum, sparkaði á fullu en var samt sem áður nógu stillt til að hægt væri að mæla allt sem átti að mæla. Oh, það er svo gaman að allt leit vel út og við getum farið að segja öllum.
Birt af Inga Elínborg kl. 2/19/2008 12:48:00 e.h. |
mánudagur, febrúar 11, 2008
Oh hvað mig langar til að kasta upp akkúrat núna. Að hlusta á Vilhjálm tala um hvernig hann "hefur lent í þessu máli" og "finnist það rosalega leiðinlegt". Eins og gjörðir hans hafa ekki skipt neinu máli og hann sé bara algjörlega ábyrgðarlaus í öllu þessu veseni. Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík er ekki að gera sig þessa dagana, algjörlega óþolandi flokkur.
En voðalega lítið að gerast þessa dagana, erum bara að vinna, sofa og vera með Benedikt. Hann er alltaf að þroskast meira og meira þessa dagana og alveg yndislegt að fylgjast með honum. Litla krúttið okkar :). Finnst alveg ótrúlegt að við foreldarnir höfum búið til þennan yndislega strump. Kannski spurning um að hætta áður en lesendur fara að kasta upp af væmni?
Birt af Inga Elínborg kl. 2/11/2008 02:25:00 e.h. |
mánudagur, febrúar 04, 2008
Mér hefur nú alveg liðið betur en mér leið seinustu viku. Er búin að vera með einhverja kvefpest og það er svo mikið slím upp í mér (voða lekkert, ég veit) að ég kúgast liggur við í hvert skipti sem ég kyngi. Ég var alveg búin á því á miðvikudaginn og fór heim veik úr vinnunni, var svona lala á fimmtudaginn en á föstudaginn var litli snúðurinn orðinn veikur þannig að við mæðginin vorum veik heima saman. Árni var svo yndislegur að vakna með Benedikt báða dagana um helgina svo að ég gæti reynt að ná þessu úr mér. Er í vinnunni en er ennþá með þetta slím.
Ég kíkti reyndar í þrítugsafmæli til Eddu vinkonu á laugardaginn. Þetta var semsagt skvísupartý og ég skemmti mér rosalega vel. Hún átti nú reyndar afmæli á seinasta ári en betra er seint en aldrei að halda upp á afmælið sitt :).
Við hjónin áttum átta ára sambandsafmæli í gær. Alveg ótrúlegt hvað tíminn er fljótur að líða. Við vorum nú eiginlega búin að ákveða að gera ekki neitt út af því að við mæðginin vorum svona hálf veikindalega ennþá. En æðislegi maðurinn minn kom mér á óvart með því að bjóða mér í bíó. Var búin að hringja í mömmu sína og hún kom að passa fyrir okkur. Alltaf svo frábært að láta koma sér á óvart. Fórum á National Treasure: Book of Secrets sem er mjög góð. Skemmtum okkur alveg konunglega :).
Birt af Inga Elínborg kl. 2/04/2008 08:28:00 f.h. |