Fór til tannlæknisins á hverjum morgni síðastliðnu viku til þess að skipta um grisju og setja nýja. Tók grisjuna svo sjálf úr í gærmorgun og vonandi er þetta að lagast. Þori eiginlega ekki að segja neitt meira til að "jinxa" ekki neitt.
Annars var vikan voðalega fín, kíkti í Tvö líf á miðvikudaginn og keypti mér rosalega flottan kjól, bol, peysu og óléttunærbuxur. Keypti mér aldrei þannig þegar að ég gekk með Benedikt þannig að þetta var í fyrsta skipti sem ég og Árni sáum svona flíkur. Árni sagði við mig að ég hefði ekkert þurft að kaupa þetta, hefði alveg eins getað notað tjaldið okkar :). En alveg þægilegustu nærbuxur í heimi. Hlakka líka svo til að fara í nýja kjólinn á árshátíð ÍE sem er næstu helgi. Palli verður DJ þannig að þetta verður geðveikt stuð.
Reyndar varð svo litli strumpurinn veikur á fimmtudag, ég var greinilega of fljót að hrósa happi með að hann hefur bara einu sinni verið veikur frá áramótum. En hann er að lagast núna og er svoooo pirraður yfir því að þurfa að hanga heima einn daginn enn. En þar sem að hann var hitalaus í gær þá ætlum við að kíkja eitthvað út á eftir, hann verður örugglega mjög sáttur.
sunnudagur, mars 30, 2008
Birt af Inga Elínborg kl. 3/30/2008 08:55:00 f.h. |
þriðjudagur, mars 25, 2008
Eftir enn eina svefnlausa og verkjamikla nótt (þrátt fyrir að hafa tekið parkódín) fór ég til tannlæknisins míns og fékk græðandi grisju inn í sárið og vá hvað mér líður betur. En ég ákvað hinsvegar, í samráði við tannréttingarfræðinginn minn, að bíða með tannréttingarnar, allavega fram yfir fæðingu. Átti auðvitað að fara í aðra tanntöku á föstudaginn og þótt að það sé mjög ólíklegt að þetta gerist aftur (það á að myndast blóðköggull í sárinu en einhverra hluta vegna myndaðist hann ekki hjá mér) þá vil ég eiginlega ekki taka áhættuna á því. Er búin að taka 9 parkódín töflur á 3 dögum og er með geðveikt samviskubit yfir því. Betra að gera þetta þegar að ég má dæla í mig verkjatöflum :). Þannig að núna verð ég voðalega sæt svona tannlaus. Ekki búast við að ég brosi mikið á næstunni.
Birt af Inga Elínborg kl. 3/25/2008 11:20:00 f.h. |
sunnudagur, mars 23, 2008
Fór í tanntöku á miðvikudaginn, þarf nefnilega að taka 4 tennur úr mér fyrir tannréttingarnar og það voru 2 teknar. Ég bjóst við að þetta yrði ekkert mál, hef látið taka endajaxl úr mér og fann eiginlega ekkert fyrir því og þessar tennur sem var verið að taka eiga að vera frekar "lausar". Nei nei, ég var tæpa tvo tíma í stólnum, hann var í ca. hálftíma að ná tönninni í efri góm úr og sagði við mig að þær í neðri gómi væru vanalega auðveldari. Hann var í þrjúkorter að ná henni úr. Vanalega væri mér nú alveg sama um verkina en þar sem að ég er ófrísk þá má ég taka voðalega takmarkað af verkjalyfjum. Má taka Paratabs og er búin að vera taka þær en þær slá voðalega lítið á verkina. Á Parkódín líka en hef ekki tekið þær vegna þess að á fylgiseðlinum stendur að það sé takmörkuð vitneskja um áhrif þeirra á fóstur. Ég talaði hinsvegar við tannlækni í dag og hann sagði mér að ég ætti bara að taka Parkódín, sé til hvernig ég verð í nótt. Er nefnilega búin að sofa mjög slitrótt um páskana vegna verkja. Næsta tanntaka verður svo á föstudaginn, get ekki sagt að ég hlakki til þess en það þarf allavega ekki að taka fleiri tennur úr mér.
Annars eru páskarnir búnir að vera voða ljúfir. Fórum í gær í tveggja ára afmæli til Eyrúnar, alltaf gaman að hitta vinina og fá gott að borða.
Í dag fórum við í bústaðinn til tengdó og borðuðum þar. Herbergið okkar er alveg tilbúið, þ.e.a.s. á bara eftir að parketleggja þannig að það styttist í að við getum verið þar yfir nótt.
Málshátturinn sem við fengum passaði mjög vel við okkur: Blessun vex með barni hverju. Það er hinsvegar ekki mikið borðað af páskaeggjum á þessu heimili, ég auðvitað með verki og Árni virðist ekkert vera hrifinn af þessu. Gleðilega páska allir saman.
Birt af Inga Elínborg kl. 3/23/2008 09:52:00 e.h. |
mánudagur, mars 17, 2008
Jæja, þá er fjölskyldan orðin frísk, þ.e.a.s. ég og Benedikt. Árni er ekki enn orðinn veikur (7-9-13) og við höldum í vonina að þar sem að hann fékk bólusetningu í haust þá muni hún duga. Benedikt varð semsagt veikur í seinustu viku en fór til dagmömmunnar í morgun. Okkur finnst það nú samt gott að þetta er í fyrsta skipti eftir áramót sem hann verður veikur.
Annars er nóg að gera þessa dagana, sérstaklega hvað varðar bumbuna :). Er í tveimur bumbugrúppum á netinu og það var hittingur hjá annarri í seinustu viku og svo hjá hinni á morgun. Voðalega gaman að hitta aðrar bumbulínur og spjalla um óléttuna. Við vorum svo í mæðraskoðun nr. 2 í dag og allt kom vel út. Hjartslátturinn heyrðist strax, sem betur fer.
Í kvöld ætla svo Hildur, Jósa og Edda að kíkja til mín, alltof langt síðan að við höfum hist. Ætla að gera eitthvað nammigott fyrir þær, alltaf gott að fá afsökun til að gera eitthvað "óhollt".
Páskarnir eru á næsta leiti og ég er búin að fá eitt páskaegg nr. 5 frá vinnunni, held að við látum það bara duga. Ég er ekkert fyrir nammi þessa dagana, nammigrísinn sjálfur, sem kemur mér voðalega mikið á óvart. Hinsvegar er ég komin með æði fyrir tómötum og borða alveg upp undir 6 á dag. Benedikt kemur heldur ekki til með að fá páskaegg, allavega ekki frá okkur. Hann er ekki einu sinni búinn að smakka súkkulaði þannig að það er algjör óþarfi.
Birt af Inga Elínborg kl. 3/17/2008 11:38:00 f.h. |
laugardagur, mars 08, 2008
Þá er ég loksins að stíga upp úr þessari viðbjóðslegu flensu. Reyndar hvarf hitinn á mánudaginn en þá tók hóstinn við. Er semsagt búin að vera hóstandi á fullu í 5 daga. Ljósmóðirin mín vildi endilega að ég myndi láta hlusta mig, fannst ég hljóma eins og ég gæti verið komin með lungnabólgu þannig að á miðvikudagsmorguninn fórum við Árni á Sólvang. Þar var hinsvegar engin laus til að hlusta mig, við vorum þarna um áttaleytið og fengum þau skilaboð að við gætum prófað að mæta aftur um hádegi og þá yrði kannski einhver laus. Ég sagði við hjúkrunarfræðinginn að við myndum bara fara á Bráðamóttökuna en hún var nú ekki sátt við það, sagði að fyrst að ég gæti hreyft mig þá ætti ég ekkert erindi þangað. Við vorum ekki alveg að skilja hana. En við förum semsagt þangað og komumst strax að, ég var sem betur fer ekki með lungnabólgu en þeir vildu endilega láta mig fá næringu í æð vegna þess að ég var búin að vera svo lystarlaus.
Svo komum við heim seinna um daginn og ég held bara áfram að vera veik. Í gær byrjaði svo að blæða, ég var nú ekkert hrædd strax því að ég fékk enga verki en í morgun blæddi meira og þá voru komnir einhverjir verkir þannig að við drifum okkur á Kvennadeildina og þar hlustaði ljósmóðir eftir hjartslættinum í ca. 5 mínútur en ekkert heyrðist. Ég og Árni vorum nú orðin dálítið stressuð en ég var svo sett í sónar og þá sást lítið kríli með hjartslátt. Greinilega prakkari eins og pabbi sinn :). Blæðingin er líklegast bara komin út af áreynslu við að hósta.
Okkur finnst samt rosa skrýtið hvernig það er tekið á móti manni á Kvennadeildinni, ég hringdi í morgun og fékk þau skilaboð að ég ætti ekkert að vera að koma, ætti frekar að fara á Læknavaktina vegna þess að þetta vandamál tengdist Kvennadeildinni ekki neitt. Ég skil þau rök nú ekki. En allavega, ég fór á Sólvang og hitti vakthafandi lækni sem hlustaði á mig í ca. 2 mínútur en sagði svo að hann vildi senda mig á Kvennadeildina. Hann hringdi þangað og reifst hálfgert í símann við þá sem svaraði vegna þess að hún vildi bara alls ekki fá mig. Skil þetta ekki alveg. En allavega, allt er gott sem endar vel.
Birt af Inga Elínborg kl. 3/08/2008 05:26:00 e.h. |
mánudagur, mars 03, 2008
Helga, Ingibjörg og Karen komu í saumó til mín á fimmtudaginn. Alltaf gaman að hitta þær skvísur, mikið spjallað og borðað. Á föstudaginn fór ég síðan snemma heim úr vinnunni, var hálf slöpp með höfuðverk. Gat lagt mig um daginn og við hjónin ákváðum að kíkja í afmæli til vinar hans Árna um kvöldið. Afmælið var haldið á Nasa og þar sem að þetta var einkasamkvæmi reyktu allir inni, oj oj oj. Reykurinn fór alveg þvílíkt illa í mig enda vorum við ekki lengi.
Á laugardaginn leið mér ágætlega en um hádegið var þessi höfuðverkur kominn aftur ásamt hita þannig að ég eyddi laugardeginum og mestöllum sunnudeginum uppi í rúmi. Var með 39 stiga hita á tímabili og var í hálfgerðu móki allan tímann. En er semsagt núna glaðvakandi klukkan hálfeitt að nóttu til, er ekki með eins háan hita en er komin með kvef og allt sem því fylgir. Ætla ekki í vinnuna á morgun, vil frekar reyna að ná þessu úr mér almennilega í stað þess að láta mér slá niður.
Er bara að vona að Benedikt og Árni smitist ekki, erum að fara með Benedikt í myndatöku á föstudaginn þannig að hann þarf nú helst að vera frískur. Það var samt svo sætt í dag, ég er eiginlega ekkert búin að vera með hann alla helgina, bæði vegna veikindanna og líka til að smita hann ekki. Ég kíkti fram í ca. 10 mínútur í dag og hann skreið strax til mín og knúsaði mig þvílíkt. Awww, litla mömmuhjartað bráðnaði alveg.
Birt af Inga Elínborg kl. 3/03/2008 12:34:00 f.h. |