laugardagur, ágúst 30, 2008

Það eru komnar myndir á myndasíðuna hans Benedikts.

fimmtudagur, ágúst 28, 2008

Fórum með litlu prinsessuna í 5 daga skoðun í dag. Hún kom voðalega vel út, er búin að ná fæðingarþyngdinni sinni og 50 gr. betur. Hún er reyndar smá gul þannig að við þurfum að vekja hana á ca. 3 tíma fresti en greinilega ekkert sem þarf að hafa áhyggjur af, fyrst að hún er að þyngjast svona vel.

Reyndar heyrði læknirinn smá smelli í öðrum mjaðmaliðnum og hún þarf að fara í ómun einhvern tímann á næstunni. Ef það kemur eðlilega út þá þarf hún samt sem áður að fara í röntgenmyndatöku þegar hún er 6 mánaða. Læknirinn tók nú samt fram að þetta væri líklegast allt í lagi en vildi bara vera viss.

Annars erum við bara að venjast þessu nýja lífi, mér finnst voðalega skrýtið að ná lítið sem ekkert að vera með Benedikt þessa dagana. Við mæðgurnar erum oftast sofandi þegar að feðgarnir vakna á morgnana þannig að ég sé hann eiginlega ekkert fyrr en eftir leikskólann og þá þarf ég auðvitað oft að vera að sinna litlunni líka. Sem betur fer eru þeir feðgar voða nánir og skemmta sér vel en mömmuhjartað er nú samt frekar lítið í sér og ég hlakka til þegar að ég get farið að vera meira með honum.

Svo finnst mér heldur ekkert skemmtilegt að Árni er búinn að sofa inni hjá honum í ca. 2 vikur. Hann er eitthvað óöruggur og ef Árni er ekki inni hjá honum, vaknar hann 3-4 sinnum á nóttu og er ca. hálftíma að sofna aftur og vaknar svo alveg kl. 6 á morgnana. Hinsvegar sefur hann alveg til 7 - 7:30 þegar að Árni er inni hjá honum og hann þarf alveg á því að halda, annars verður hann svo pirraður í leikskólanum. Þannig að ég sef ein í þessu stóra rúmi á nóttunni (reyndar læt ég nú bara litluna sofa hjá mér) en ég hlakka voða mikið til þegar að ég fæ manninn minn aftur :).

laugardagur, ágúst 23, 2008

Yndislega falleg stelpa leit dagsins ljós í gærmorgun kl. 6:46. Þá voru aðeins liðnir rúmir tveir tímar frá fyrsta verk og foreldrarnir voru einungis búnir að vera hálftíma í Hreiðrinu þegar að hún kom í heiminn. Eins gott að Benedikt var með ömmu sinni og afa í sumarbústaðnum vegna þess að það hefði ekki verið neinn tími að bíða eftir neinum til að líta eftir honum. Þá hefði litla stelpuskottið komið í heiminn annaðhvort heima eða í bílnum. Annars vissum við foreldrarnir að við ættum von á stelpu, við ákváðum semsagt að kíkja í pakkann í 20 vikna sónarnum en sögðum ekki neinum frá :).

Öllum líður vel, mamman og pabbinn eru voðalega stolt og litlan sefur bara og drekkur. Reyndar var nóttin frekar erfið, hún fékk smá í magann og vildi helst bara vera á brjóstinu en þar sem hún er svo dugleg að drekka þá getur maður ekki kvartað. Benedikt kemur svo heim seinna í dag, við hlökkum mjög mikið til að sjá viðbrögðin hans.

Okkur fannst alveg frábært að geta verið í Hreiðrinu, yndislegt andrúmsloft, allir svo rólegir og tilbúnir til að hjálpa. Við vorum þar í 12 tíma en fórum svo heim og erum að njóta þess að kynnast öll betur.

Takk fyrir allar kveðjurnar, þið eruð yndisleg.

Sætasta prinsessan



Pabbinn svo stoltur



Mamman pínku þreytuleg

fimmtudagur, ágúst 21, 2008

Það bólar ennþá ekkert á krílinu en miðað við stríðnina í föðurfjölskyldu þess þá er alveg bókað að það vilji koma í heiminn kl. 12:15 á morgun svo að mamman missi nú af handboltaleiknum :). Ef það ákveður að koma í heiminn á morgun þá á það sama afmælisdag og Harpa frænka, á laugardag á Einar frændi afmæli, þann 26. á Fjóla frænka hans Árna afmæli og þann 28. (sem er settur dagur) átti langafi hans Árna afmæli. Nóg af dögum til að velja um.

Ég hef hinsvegar pínku áhyggjur ef ég geng framyfir því að ljósmæður eru búnar að boða til sólarhringsverkfalls 5. -6. september og hvað ef maður fer í gang þá?? Er þá engin ljósmóðir starfandi á fæðingargangi/Hreiðrinu? Þann 11. september er ég svo gengin 42 vikur og þá er maður settur í gang en það er einmitt verkfallsboðun hjá þeim 11. -12. sem myndi líklegast þýða að ég yrði ekki sett í gang fyrr en 15. september, ég neita að bíða það lengi eftir krílinu. Plús það að ég vil nú helst ekki fæða 11. september, ekki neitt voðalega skemmtilegur afmælisdagur fyrir litla krílið. Ég trúi nú samt ekki öðru en að ríkið semji fyrir þann tíma, þetta er svo mikilvæg þjónusta og ljósmæður eiga skilið að menntunin þeirra sé metin að verðleikum.

Annars er ég svo stolt af strákunum okkar, ég horfði á seinni hálfleikinn á móti Póllandi meðan að strákarnir mínir sváfu og það var frekar erfitt að mega ekki öskra og láta öllum illum látum. En þar sem að ég verð ein heima á morgun þá get ég hagað mér alveg eins og ég vil ;).

Jæja, ætla að fara að horfa á Grey´s, búin að horfa á 10 seríur af ER, 4 seríur af Friends og er núna byrjuð á Grey´s. Lífið mitt er mjög svo spennandi þessa dagana.

föstudagur, ágúst 15, 2008

Komin 38 vikur og 1 dag. Væri nú alveg til í að litla krílið myndi láta sjá sig mjög fljótlega, er orðin frekar þreytt á þessum fyrirvaraverkjum sem halda fyrir mér vöku næstum hverja nótt. En sem betur fer er ég hætt að vinna þannig að ég get hvílt mig vel á daginn.

Við hjónin áttum fjögurra ára brúðkaupsafmæli seinasta fimmtudag og fórum út að borða á Argentínu í tilefni dagsins. Um að gera að nýta tímann og fá pössun fyrir einungis eitt barn :). Nammi namm, hvað maturinn var góður. Rúsínan í pylsuendanum var auðvitað súkkulaðikakan þeirra, þvílíkt hnossgæti.

Annars er voðalega lítið að frétta, ég er mestmegnis heima þessa dagana, Árni er að vinna og Benedikt er auðvitað í leikskólanum. Þannig að allir að senda góða hríðar- og fæðingarstrauma til mín :).

mánudagur, ágúst 04, 2008

Ég var útskrifuð af sjúkrahúsinu á föstudaginn, mjög ánægð með það. Ekki það að starfsfólkið á meðgöngudeildinni sé ekki yndislegt en heima er best. Núna eru bara 3 dagar í að krílið flokkist ekki sem fyrirburi þannig að ég er ekkert neitt voðalega róleg hérna heima. Árni vill helst að ég liggi uppi í rúmi og hreyfi mig ekki neitt en ég er komin á fulla ferð, þ.e.a.s. hreyfi mig eins mikið eins og bumban leyfir. Ég er nú samt dugleg að setjast niður og hvíla mig enda finnst mér ég verða þreytt við minnsta verk. En það er allt tilbúið fyrir litla krílið þannig að það má alveg fara að koma. Reyndar verður verst ef það kemur frá 6. ágúst - 12. ágúst því að þá er Benedikt í aðlögun á leikskólanum en það reddast nú örugglega einhvern veginn. Ætli það sé ekki týpískt að það komi þá :).