Nóg að gerast um helgina. Benedikt fór í sumarbústaðinn til tengdó á laugardagsmorguninn og við hjónin eyddum deginum í að þrífa íbúðina almennilega og hengja upp myndir, gardínur og vínrekka sem er búið að bíða síðan um jól. Greinilega mikil framtakssemi á þessu heimili :).
Seinna um daginn fórum við í tveggja ára afmæli til Hlyns, voða skrýtið að fara í barnaafmæli og vera ekki með barn, maður er svo afslappaður. Um kvöldið fórum við út að borða á Austur-Indía félagið með Karen og Grétari, ummm það er svo góður matur þar. Við vorum öll alveg útþanin eftir matinn en ákváðum að kíkja á eitthvað kaffihús og spjalla aðeins meira. Við erum greinilega orðin of gömul fyrir miðbæinn, okkur fannst svo mikill hávaði á Oliver að við löbbuðum þaðan út og entumst í svona hálftíma á Vegamótum en þá fannst okkur bara komið gott.
Benedikt kom svo ekki heim fyrr en um sexleytið í gærkvöldi þannig að við vorum án hans í einn og hálfan sólarhring sem er það lengsta sem við höfum verið án hans. En þegar að hann kom heim var hann kominn með 39,5 stiga hita og er voðalega lítill í sér í dag. Litla grey, vonandi batnar honum fljótt.
mánudagur, apríl 28, 2008
Birt af Inga Elínborg kl. 4/28/2008 09:29:00 f.h. |
þriðjudagur, apríl 22, 2008
Ég er eitthvað svo pirruð þessa dagana, veit að hormónarnir eru á fullu hjá mér en það er náttúrulega engin afsökun. Greyið Árni lendir oftast í tuðinu í mér og ég er nú að reyna að passa mig. Alveg hræðilegt þegar að maður getur tuðað yfir öllu :).
Annars er allt voðalega rólegt hjá okkur, reyndar búið að vera mikið að gera í hittingum hjá mér. Fór á tvo bumbuklúbbahittinga í seinustu viku og svo var saumó í gær. Er líka búin að skrá mig á brjóstagjafanámskeið sem verður í júní. Um að gera að reyna að undirbúa sig sem best ef allt skyldi ekki ganga eins og planað.
Var einmitt að segja við stelpurnar í gær að þetta kríli væri greinilega mjög hlýðið. Ég bað það um að hafa fylgjuna aftaná svo að ég og Árni gætum fundið meiri spörk og viti menn, fylgjan er aftaná :). Svo er ég líka búin að biðja það um að halda sig aðeins lengur inni en Benedikt, þ.e.a.s. allavega fram yfir viku 36 því að þá er maður ekki lengur fyrirburi. Og í það þriðja að brjóstagjöfin myndi ganga betur. Nú er bara svo hversu vel það hlýðir öllu þessu sem mamman er að biðja það um. Auðvitað skiptir samt bara mestu máli að það sé heilbrigt.
Birt af Inga Elínborg kl. 4/22/2008 11:35:00 f.h. |
mánudagur, apríl 14, 2008
20 vikna sónarinn búinn og sem betur fer kom allt vel út. Litla krílið spriklaði fyrir okkur á fullu, var m.a.s. alltaf að veifa okkur og svo gleypti það legvatn líka. Ekkert smá sætt að sjá það hreyfa sig :). Við fengum að vita að fylgjan er aftaná en með Benedikt var hún framaná. Við erum rosa ánægð með það því að fylgjan er hálfgerður dempari og Árni fann t.d. ekki spörk með Benedikt fyrr en á 30. viku. Hann er hinsvegar strax búinn að finna spörk núna.
En núna er helmingurinn eftir, finnst þessi fyrri helmingur hafa liðið rosalega hratt. Ég er nú reyndar farin að finna meira fyrir bumbunni og er voðalega þreytt þessa dagana. Á laugardagsnóttina svaf ég t.d. í 10 tíma en lagði mig líka um daginn, Árni skilur ekkert hvernig ég get sofið svona mikið.
Birt af Inga Elínborg kl. 4/14/2008 08:27:00 f.h. |
mánudagur, apríl 07, 2008
Það var svo gaman um helgina. Ég og Benedikt skelltum okkur í sumarbústað í Ölfusborgum með systrum mínum og börnunum þeirra. Það er alltaf svo gott að komast smá í sveitina, sáum fullt af yndislega sætum kanínum, ég var örugglega jafnhrifin af þeim og Benedikt :).
Við komum reyndar heim á laugardaginn því að ég og Árni fórum á árshátíð ÍE um kvöldið en Benedikt fór í næturpössun. Við skemmtum okkur alveg konunglega á árshátíðinni, maturinn var voða fínn, sérstaklega eftirrétturinn og skemmtiatriðin alveg frábær. Palli var DJ og Árni kom m.a.s. á dansgólfið og dansaði og þá er nú mikið sagt :). Alveg nauðsynlegt af og til að setja litla strumpinn í næturpössun og fara bara 2 út saman, njóta þess að vakna um morguninn og geta legið upp í rúmi að lesa og hafa það næs.
Annars er 20 vikna sónarinn á föstudag, getum varla beðið. Trúi varla að meðgangan sé hálfnuð. Vonandi kemur allt vel út en við ætlum heldur ekki að vita kynið á þessari meðgöngu þannig að forvitnir verða að bíða í 20 vikur í viðbót.
Birt af Inga Elínborg kl. 4/07/2008 10:00:00 f.h. |
miðvikudagur, apríl 02, 2008
Ég er svo sátt við vörubílstjóra og aðra þá sem standa í mótmælunum þessa dagana. Ég skil hinsvegar ekki fólk sem spyr hvort að það sé ekki komið nóg? Ríkisstjórnin er ekki að taka þessu nógu alvarlega ennþá og mér finnst að þessi mótmæli eigi að halda áfram þangað til að eitthvað verði gert. Jú, samgönguráðherra er búinn að tilkynna að verið sé að athuga úrbætur varðandi hvíldartímann en þeir eru að berjast fyrir svo miklu meira og þeir eru líka að mótmæla fyrir okkur. Mjög stolt af vörubílstjórum í dag :).
Birt af Inga Elínborg kl. 4/02/2008 08:28:00 f.h. |