Ekki skil ég af hverju þeir vilja fara að flytja inn nýsjálenskt lambakjöt. Við keyptum okkur einu sinni lambakjöt frá Nýja-Sjálandi í Árósum og við vorum fljót að henda því eftir að hafa smakkað fyrsta bitann. Einhvers konar ullarbragð var af því og ég sannfærðist enn betur um að íslenska lambakjötið er best!!
Annars finnst mér þessi nýja stjórn ekki alveg að gera sig. Samfylkingin þurfti að bakka með mikið af sínum aðalmálefnum, t.d. stjóriðjustefnuna og ESB umræðuna. Ég er nú reyndar ekki hlynnt því að ganga í ESB en mér finnst samt á öllu að Samfylkingin hafi "selt sig" til að komast í stjórn, nægir þar að nefna að við vorum ekki tekin af lista hinna vígfúsu þjóða þótt að það standi mjög skýrt hjá þeim að það verði eitt fyrsta verk þeira. Í stjórnarsáttmálanum stendur aðeins að þau harmi ástandið í Írak. Ekki virðist heldur vera mikil samstaða um virkjanamál. Ég er algjörlega á móti frekari virkjunum og Ingibjörg sagði að ekki væri hægt að fara í Norðlingaölduveitu en Geir virðist vera á öðru máli og vitnar þar í stefnuyfirlýsingu nýju stjórnarinnar. Mér finnst að Samfylkingin hafi einfaldlega verið of gráðug til að komast í stjórn og hafi þ.a.l. gefið of mikið eftir.
En svo er skemmtileg helgi framundan, afmælispartý hjá Hrönn vinkonu á morgun. Ætla m.a.s. að fara aðeins að tjútta. Mamma ætlar að koma og vera hjá Benedikt en Árni ætlar svo bara að fara fyrr heim enda hefur hann takmarkaðan áhuga á að fara niður í bæ. Vonandi breytist það nú eftir að reykingabannið tekur gildi, hlakka endalaust mikið til að geta farið að skemmta mér án þess að anga af reykingastybbu.
Á sunnudaginn verður Óli Matti eins árs og förum við fjölskyldan í afmælið til hans. Alltaf gaman að hitta alla fjölskylduna í einu og fá sér eitthvað nammigott.
Svona í lokin, ég er loksins búin að setja inn myndir frá Evrópuferðinni okkar :). Það eru nú einungis tvö ár síðan að við fórum í ferðina þannig að ég er ekkert sein á ferð eða hvað finnst ykkur?
föstudagur, maí 25, 2007
Birt af Inga Elínborg kl. 5/25/2007 10:28:00 f.h. |
þriðjudagur, maí 22, 2007
Undanfarnar þrjár vikur er ég búin að vakna við minnsta hljóð frá Benedikt og get ekki sofnað aftur. Núna er klukkan t.d. 4:10 og ég er búin að vera vakandi síðan kl. 3:30. Alveg hata ég þegar að þetta kemur fyrir. Loksins þegar að Benedikt er byrjaður að sofa eiginlega alla nóttina þá get ég ekki sofið. Enda fær hann að sofa í eigin herbergi í nótt og vonandi get ég þá sofið betur. Orðin frekar pirruð á að fara að sofa kl. 21 á kvöldin, annars verð ég bara út úr heiminum af þreytu.
Helgin var voðalega fín. Buðum vinnufélögum hans Árna í sælkeraklúbbinn, vorum nú reyndar frekar fá miðað við seinast en við skemmtum okkur mjög vel. Benedikt var settur í næturpössun þannig að ég naut þess að geta sofið heila nótt án þess að vakna :). Á sunnudaginn fór ég í bíó með Hildi og Eddu, fórum á The painted veil með Edward Norton og Naomi Watts. Ekta stelpumynd, frekar róleg en mér fannst hún voða fín. Alltof langt síðan að ég hef farið í bíó, fór seinast þegar að ég var komin ca. 6 mánuði á leið minnir mig.
Birt af Inga Elínborg kl. 5/22/2007 04:07:00 f.h. |
föstudagur, maí 18, 2007
Í einum þætti af Sex and the city talar Carrie um þetta þrennt í lífinu sem skiptir okkur mestu máli; vinirnir, starfið og makinn. Hún veltir þeirri spurningu fyrir sér af hverju við erum aldrei ánægð með tvennt af þessu þrennu, t.d. frábæra vini og yndislegan maka. Í mínu tilviki vantar mig starf, ekki það að ég sé ekki yfir mig ánægð með Árnann minn og vinina mína. Það sem við störfum er bara svo gríðarlega stór hluti af lífi okkar. Þegar að við kynnumst nýjum aðila þá er vanalega fyrsta spurningin: Hvað gerirðu? Og hvað á maður að segja þegar að maður gerir í raun ekki neitt? Er ekki skilgreindur sem neitt ákveðið?
Ég er hamingjusöm þegar að ég lít á lífið mitt frá sjónarhorni manneskju sem er ánægð með fjölskylduna sína. Ég á frábæran mann sem virðist alltaf skynja hvernig mér líður, getur komið mér til að hlæja þegar mér líður illa og er í raun besti vinur minn . Ég á yndislegan dreng sem vantar allan minn stuðning til að geta orðið hamingjusamur einstaklingur og ég vona að ég geti veitt honum allt sem hann þarf á lífsleiðinni. Ég á æðislega vini, vini sem ég get treyst á að séu til staðar þegar að mig vantar einhvern til að taka utan um mig, hlusta á mig eða hlæja með mér.
Ef ég hinsvegar lít á lífið mitt frá sjónarhorni manneskju sem er búin að mennta sig og vil fara að nýta sér námið í góðu starfi þá er ég ekki hamingjusöm. Ég er mjög niðurdregin, það að fara í viðtöl aftur og aftur og vera alltaf neitað er mjög niðurdrepandi. Mér líður eins og ég sé óhæf, sé búin að eyða 5 árum af lífi mínu í nám sem kannski hentar mér ekki. Fólkið í kringum mig er mjög duglegt að segja að ég eigi ekki að hafa áhyggjur, þetta komi allt með kalda vatninu. Þeir sem þekkja mig hins vegar best vita að það er ekki í mínu eðli að hafa ekki áhyggjur, ég þarf helst að vera komin með vinnu 3 mánuðum áður en ég á að hefja störf. Núna eru ca. 8 vikur þangað til að fæðingarorlofið mitt er búið og ég er ekki komin með starf. Mér líður alls ekki vel. Við fjölskyldan þurfum á því að halda að ég fái starf, við erum með ýmsar fjárhagslegar skuldbindingar sem ekkert er hægt að neita með því að segja: Ég er ekki með vinnu og get því ekki borgað.
Allir virðast líka hafa skoðun á þessu vandamáli mínu. Sumir segja að ég eigi bara að taka hvaða vinnu sem er - ég er hinsvegar ekki sammála því. Ég er búin að mennta mig í ákveðnu fagi í 5 ár og auðvitað vil ég vinna við eitthvað tengt því. Það er nú samt ekki þar með sagt að ég segi nei við vinnu sem er ekki sálfræðitengd, ég ætla mér hinsvegar ekki að fara að vinna við skúringar eða þess háttar. Ég lít alls ekki niður á þá sem vinna þannig vinnu og ég er á engan hátt betri en þeir en ég er með menntun og ég tími ekki að láta hana fara til spillis. Erfiðar spurningar sem hvíla á manni þessa dagana, á ég að halda áfram að leita mér að vinnu sem ég verð ánægð með eða bara sækja um "einhver" störf og láta menntunina lönd og leið?
Það eru örugglega einhverjir sem hugsa: Hvaða röfl er þetta í manneskjunni, ekkert mál að fara bara að vinna einhvers staðar og skipta svo um vinnu. Ég er hinsvegar komin með upp í kok að sætta mig við vinnuna mína, ég gerði það allan þann tíma sem ég var í námi. Ég vann sumarstörf sem mér líkaði í raun ekki við, fannst vinnan hundleiðinleg og gat ekki beðið eftir því að skólinn byrjaði aftur. Mér finnst ég alveg eiga skilið núna að fá vinnu sem ég verð ánægð í.
Birt af Inga Elínborg kl. 5/18/2007 06:35:00 f.h. |
föstudagur, maí 11, 2007
Jæja, ekki náðum við að komast upp úr undankeppninni. Eiríkur stóð sig samt rosalega vel og má alveg vera stoltur af frammistöðunni. Þetta er greinilega orðið Austur-Eurovision, þ.e.a.s. öll þau 10 lög sem komast áfram eru á því svæði. En þar sem að allar bloggsíður eru uppfullar um þetta efni þá er ég eiginlega komin með upp í kok af þessu umræðuefni. Við ráðum hvort sem er ekki neinu hvort/hvenær keppninni verður breytt þannig að það þýðir voðalega lítið að æsa sig yfir þessu. Hinsvegar finnst mér Sigmar alltaf jafn frábær sem þulur, hann var alveg að brillera með ýmsum skotum á keppendurna/lögin.
Ég fann mér eitt land til að halda með, Serbía. Fannst lagið frá þeim alveg svakalega grípandi og vel sungið. Ég var líka búin að heyra lagið frá Grikklandi og finnst það ekta sumarsmellur þannig að þessi tvö lönd fá mitt atkvæði.
Við vorum búin að bjóða Karen og Grétari í heimsókn annað kvöld og ég var búin að búa til spurningalista um Eurovision (enda algjör nörd þegar að kemur að Eurovision) og smá keppni um fimm efstu sætin. En svo komast þau kannski ekki því að Grétar er hálfveikur, vona nú samt að þau komist :). Alltaf svo gaman að fara í smá keppni um Eurovision.
Kosningar á morgun, ég er nú sammála flestum að mér finnst þessi kosningabarátta hafa verið frekar daufleg. Reyndar skiptir það nú ekki máli fyrir mig þar sem að ég læt ekki stjórnast af auglýsingum rétt fyrir kosningar, hvað þá þegar að stjórnarflokkarnir reyna að ná sér í atkvæði með því að gera eitthvað þremur vikum fyrir kosningar en eru búnir að vera nokkurn veginn aðgerðalausir seinustu 4 ár (og rauninni lengur).
Birt af Inga Elínborg kl. 5/11/2007 03:32:00 e.h. |
miðvikudagur, maí 09, 2007
Það var svaka gaman á stelpukvöldinu. Við pöntuðum pizzu, drukkum kokteila og jellyskot, fórum í drykkjuleik og dönsuðum út um alla íbúð. Fórum svo niður í bæ um eittleytið, kíktum fyrst á Glauminn en leist ekkert á stemmninguna þar þannig að við fórum á Hressó þar sem að við dönsuðum samfleytt í tvo tíma. Frábær tónlist þar. Ég fór reyndar heim um þrjúleytið en hinar stelpurnar voru eitthvað lengur. Erum að spá í að gera þetta að árlegum viðburði, við skemmtum okkur svo vel.
Annars virðist ég hafa náð mér í einhverja kvefpest, var frekar mikið slöpp í gær en líður betur í dag. Sem betur fer var Árni heima bæði í dag og í gær, var ekki alveg að geta hugsað um Benedikt svona veik, sérstaklega þar sem að mér leið eins og hausinn á mér væri að springa. Ekki alveg það besta í heimi þegar að litli stubburinn æfir söngröddina :).
Svo er það Eurovision á morgun, ég er ekki búin að geta fylgst með undanfara keppninnar eins og ég hef vanalega gert, þannig að ég heyri flest öll lögin í fyrsta skipti á morgun og er þ.a.l. ekki búin að mynda mér skoðun um hvort að við ættum að komast áfram eða ekki. Vona bara að Eiríki takist að koma okkur upp úr undankeppninni.
Birt af Inga Elínborg kl. 5/09/2007 01:50:00 e.h. |
laugardagur, maí 05, 2007
Árni sýndi mér þennan leik í gær. Allir að fara inn og smella nokkuð oft á takkann :). Alveg ótrúlega ávanabindandi, maður er alltaf að bíða eftir því að sjá Ísland færast upp um sæti en ég hef bara séð það fara neðar.
Ég og Árni erum búin að smella samtals 10.000 sinnum, geggjað lið!! Tek það reyndar fram að við smellum þegar að við erum að horfa á þætti, þannig að við sitjum ekki við tölvuna einungis til að smella.
Birt af Inga Elínborg kl. 5/05/2007 04:01:00 e.h. |