mánudagur, nóvember 27, 2006

Helgin var ótrúlega fín. Fengum ógó góðan mat hjá Karen og Grétari, tókum svo eitt Friends - Scene it spil þar sem að Árni vann, sátum svo bara og spjölluðum. Þvílíkt gaman að sjá hvað íbúðin hjá þeim er orðin flott. Takk aftur fyrir okkur :).

Laugardagskvöldið fór nú bara í að borða, skipulagið á klúbbnum var semsagt þannig að einungis einn réttur var settur á borðið í einu enda stóð borðhaldið yfir frá hálfníu til hálfeitt. Ekkert smá gaman að smakka svona marga rétti sem maður hefur ekki smakkað áður, það voru t.d. grískar kjötbollur, kjúklingaréttur frá Sri Lanka, grafin gæs og kjúklingur með kókos og döðlum. Eftirrétturinn var himneskur, einhvers konar súkkulaðimús með kaffibragði og smá rjóma ofaná. Árni sem borðar ekki rjóma hámaði hann meira að segja í sig. Það sem mér fannst eiginlega skemmtilegast var að mennirnir elduðu réttina og konurnar fengu ekki að koma nálægt matargerðinni :). Planið er svo að deila uppskriftunum og við erum að spá í að hafa eftirréttinn á aðfangadag, nammi namm.

Fjölskyldan kom í afmæli til mín í gær, fékk rosa margt fallegt í afmælisgjöf, takk allir fyrir mig. Ég var auðvitað búin að gera rétti fyrir heilan her en samt var ekkert svo mikið eftir í afgang enda var vel borðað. Ég og Árni vorum nú samt voða ánægð um kvöldið þegar að við gátum sest niður og slappað smá af, alveg nauðsynlegt að gera það um helgar.

Það verður nóg að gera í vikunni, seinasti tíminn í foreldrafræðslunni er á morgun og á fimmtudag er jólahlaðborð með vinnunni minni. Hlakka mikið til að fara á jólahlaðborð enda er þetta í fyrsta skipti sem ég fer á þannig, fá góðan mat og skemmta sér aðeins utan vinnunnar.

föstudagur, nóvember 24, 2006

Helgin byrjar bara mjög vel - fékk þær fréttir að um leið og ég er búin að borga eina kröfu frá Heilbrigðismálaráðuneytinu fæ ég starfsleyfið mitt sem sálfræðingur sent í póst :). Ótrúlega ánægð. Það verður svo nóg að gera um helgina. Í kvöld er matarboð hjá Karen og Grétari, hlökkum rosa mikið til að sjá hvað er búið að gerast í íbúðinni síðan seinast.

Annað kvöld er sælkeraklúbbur hjá deildinni hans Árna, allir koma með einhverja gómsæta rétti og allir smakka hjá öllum. Mér finnst alveg frábært hvað vinnufélagarnir hans eru duglegir að hittast enda ná þeir allir ótrúlega vel saman.

Sunnudagurinn fer svo í afmælisboðið mitt, hlakka mikið til þess. Í rauninni í fyrsta skipti sem við bjóðum allri fjölskyldunni formlega í heimsókn eftir að við fluttum inn þannig að það verður svaka gaman. Eins og sjá má er félagslífið alveg í toppi þessa dagana, alltaf skemmtilegt að hafa nóg að gera.

mánudagur, nóvember 20, 2006

Jæja, kannski kominn tími á skemmtilegra blogg. Ég og Árni fórum á laugardaginn og kláruðum allar jólagjafirnar, ekkert smá dugleg. Ótrúlega gaman að vita til þess að maður þurfi ekki að fara meira í Kringluna eða Smáralindina fyrir þessi jól. Okkur fannst nú alveg nógu mikið fólk í Kringlunni um helgina, hvernig verður það þá fyrir jólin.
Desember getur þá bara farið í að skrifa jólakortin, baka, lesa bækurnar sem ég keypti mér úti, sauma og bara hafa það ótrúlega mikið næs. Fyrsti desembermánuðurinn í langan tíma sem fer bara í dund og ekkert skólavesen, alveg yndisleg tilhugsun.

Næsta sunnudag kemur fjölskyldan svo í afmælisboð þannig að maður þarf að vera duglegur að baka í vikunni :). Ekki það að mér finnist það leiðinlegt. Þarnæstu helgi ætla ég svo að baka sörur og marengstoppa, ásamt því að skreyta íbúðina. Hlakka svo mikið til.

miðvikudagur, nóvember 15, 2006

Hugsanir um fæðinguna hringsnúast í hausnum á mér þessa dagana. Húðsjúkdómalæknirinn minn ráðlagði mér að fara í keisara út af húðsjúkdómnum mínum og þar sem að ég treysti henni best í þessum efnum þá ákvað ég bara sjálf að ég myndi fara í keisara. En nei, maður má víst ekki ákveða þetta sjálfur.
Ég er semsagt búin að tala við ljósmóðurina, kvensjúkdómalæknirinn minn og fæðingarlækni. Öll eru þau á þeirri skoðun að ég eigi að "prófa" að fæða. Í fyrsta lagi er ekkert að "prófa" að fæða í mínu tilviki. Það er ekkert hægt að hætta við í miðri fæðingu þegar að kemur í ljós að sjúkdómurinn minn er að gera mér erfitt fyrir, skaðinn verður þá kominn og ekkert hægt að segja: Æ, æ. Í öðru lagi hafa allir þessir fagaðilar viðurkennt fyrir mér að þau vita í raun ekki alveg út á hvað sjúkdómurinn gengur, vegna þess að hann er svo sjaldgæfur. Reyndar ætlar fæðingarlæknirinn að tala við húðsjúkdómalækninn minn og kynna sér þetta allt betur og ég á að hafa samband við hana um miðjan desember. Þvílíkan tíma sem þetta gengur, ég byrjaði að tala við húðsjúkdómalækninn minn um miðjan ágúst og þetta er komið svona stutt.

Svo fórum við á foreldranámskeið í gær og allur fyrsti tíminn fór í að tala um fæðingu þannig að ég fór að hugsa um þetta einu sinni enn. Mér líður svo illa yfir þessu, auðvitað langar mig að fæða barnið mitt en ég veit ekki hvort að ég á að taka áhættuna á því.
Það hjálpar svo ekki þegar að allir ýja að því að ég vilji sleppa auðveldlega út úr þessu með því að fara í keisara og það hefur virkilega verið sagt við mig að ég fái nú mikið stærra ör eftir keisarann og á meira áberandi stað. Það er eins og ég sé að fara fram á keisara út af einhverju fegrunardæmi, ekki vegna sjúkdómsins míns. Mér finnst bara svo skrýtið að konan sjálf geti ekki ákveðið hvort að hún vilji fara í keisara eða ekki. Vona bara að fæðingarlæknirinn komist að sömu niðurstöðu og húðsjúkdómalæknirinn minn, vegna þess að hún virðist ráða þessu.

þriðjudagur, nóvember 14, 2006

Ég þarf virkilega að passa blóðþrýstinginn þessa dagana. Það eru allir að tala um Frjálslynda flokkinn og nýju stefnuna hans. Það sem ég er að æsa mig yfir er nokkurn veginn tengt því. Ég skil mjög vel að þar sem að Íslendingar finnist þeir vera of fínir til að vera í afgreiðslustörfum að verslunareigendur þurfi að ráða útlendinga.

Það sem fer í taugarnar á mér er að útlendingar séu ekki skyldaðir til að læra tungumálið okkar. Íslenskunámskeiðin eiga auðvitað að vera ókeypis (þau eru það reyndar núna en bara af því að stjórnvöld ákváðu það svona rétt fyrir kosningar). Mér finnst að þeir eiga ekkert að geta komið hingað og farið í ýmis þjónustustörf nema kunna íslensku. Þá er ég ekki að meina að kunna hana reiprennandi enda skiptir æfingin öllu máli en allavega að þeir geti reddað sér. Ég samþykki allavega ekki að fara út í búð/út að borða og geta ekki talað við afgreiðslufólkið á MINNI tungu í mínu HEIMALANDI. Svo er fólk að segja að íslenskan sé svo svínslega erfið að það sé nú ekki hægt að ætlast til að fólk læri þetta. Halló, ekkert annað land samþykkir að afgreiðslufólkið tali ekki þá tungu sem er opinbera tungumálið í hverju landi. Við erum að taka við fólki inn í okkar land og þau eiga að aðlaga sig að okkar menningu, þ.m.t. málinu.

Reyndar hef ég nú verið flokkuð sem fanatísk á íslenskt tungumál, ég samþykki t.d. ekki að skammstafa orð til að spara pláss, hvorki þegar að ég skrifa sms, msn eða í tölvupóstum. Íslenskan á alveg nógu erfitt fyrir og þess vegna eigum við að vera stolt af tungumálinu okkar og hjálpa útlendingum enn betur að ná tökum á því. Við eigum hins vegar ekki að leyfa þeim að komast upp með að tala það ekki og hananú!!! Það eru ekki bara við sem græðum á því heldur útlendingarnir sjálfir líka, þeir geta þá betur fylgst með hvaða rétt þeir eiga hér á landi, falla betur inn í samfélagið o.s.frv.

Ekki skánaði svo ástandið þegar að ég sá að Árni Johnsen lenti í 2. sæti í prófkjörinu. Þetta sýnir bara hvað við lifum í rotnu samfélagi. Maðurinn braut af sér í embætti og það er verið að kjósa hann í embætti aftur. Jú, hann hefur beitt sér mikið fyrir Vestmannaeyinga og það var mikil þörf á því en hversu langt á þessi maður að geta gengið. Hann iðrast ekki einu sinni, telur einhvern veginn að það hafi verið brotið á sér. Maðurinn er siðblindur, það er það eina sem er hægt að segja um hann og ég skil ekki hvernig fólk gat kosið hann aftur.

mánudagur, nóvember 13, 2006

Alltaf gaman að halda upp á afmælið sitt, stelpurnar komu á miðvikudagskvöldið og við spjölluðum og borðuðum nammigott. Takk fyrir samveruna krúttur. Þar sem að síminn minn virkar svo ekki í USA þá biðu mín fullt af sms-um þegar að ég kom heim í gærmorgun, takk allir sem sendu mér kveðjur, alltaf gaman að vita að einhver sé að hugsa til manns.

Það var svo skemmtilegt í Boston!! Ótrúlega falleg borg, ég væri alveg til í að fara þangað aftur og hafa þá einhvern tíma í að skoða borgina sjálfa. Það var enginn tími til þess núna, hinsvegar er ég nokkuð góð í verslunum borgarinnar :). Náði að klára allar jólagjafirnar fyrir systkinabörnin og þá eigum við bara 3 jólagjafir eftir, jibbí.

Hinsvegar var ég nú alveg sátt við að fara heim núna, var orðin rosalega þreytt á því að vera bara í verslunum samfleytt í tvo daga. En ég náði líka að versla smá inn fyrir litla krílið, finnst ótrúlega skrýtið að taka þessi pínkupons föt upp og ganga frá þeim.

Við fórum svo á Cheesecake factory og oh my god hvað ostakökurnar eru góðar þar. Ég fékk mér karamelluostaköku og þetta bráðnar bara uppi í manni. Miðað við stærðirnar sem maður fékk á öllum stöðum þá er ekki skrýtið að Bandaríkjamenn séu svona feitir, engin af okkur gat klárað ostakökuna, skildum meira en helming eftir. Við skemmtum okkur semsagt rosalega vel, væri alveg til í að fara í aðra svona ferð eftir ca. ár, þegar að maður er búinn að gleyma hvað það er þreytandi að versla svona mikið inn í einu :).

miðvikudagur, nóvember 08, 2006

Oh það er svo mikil jólasnjókoma úti, alveg yndislegt :). Enda er ég búin að vera að raula "Snjókorn falla" í allan morgun.

Hlakka einmitt svo mikið til að geta klárað jólagjafirnar í Boston. Hef aldrei verið svona sein eins og núna, er vanalega búin um miðjan nóvember en núna er ég einungis búin með 2. Annars er allt tilbúið fyrir förina, búin að fá nýja passann minn og ætla að "pakka" í kvöld áður en vinkonurnar koma í smá afmælisboð. Þar sem ég verð nú aðeins í tvo daga þarf ég nú voðalega lítið að pakka, ætla að taka með mér minnstu töskuna, raða ofan í hana og setja hana svo í stærri töskuna.

Kvöldið verður rosa skemmtilegt, allt er tilbúið fyrir boðið þannig að ég kem bara heim og bíð eftir að stelpurnar mæti. Best að óska Sollý systur til hamingju með afmælið núna, við gerum eitthvað skemmtilegt fyrir okkur báðar úti í Boston, þú verður bara með í anda :).

mánudagur, nóvember 06, 2006

Púki kemur upp að þér eina nótt og segir: Þetta líf sem þú lifir, þú verður að lifa því óendanlega oft og sérhver sársauki, gleði og hugsun kemur aftur og aftur til þín, alltaf í sömu röð. Það mætti líkja þessu við óendanlegt stundaglas sem er snúið aftur og aftur. Myndir þú gnísta tönnum og bölva þessum púka eða myndir þú ansa: Aldrei hef ég heyrt neitt jafn dásamlegt - Nietzche.

Þótt að maður hafi lent í ýmsu þá hefur líf mitt verið alveg ágætt. Ég er nú samt ekki viss um að ég myndi "nenna" að endurlifa allt mitt líf, enda er alltaf gaman að uppgötva eitthvað nýtt. Á hinn veginn væri ég nú alveg til í að geta upplifað einhverjar stundir í lífi mínu aftur og aftur. Semsagt, erfitt að svara þessu enda held ég að það sé tilgangurinn, um að gera að minna sig á að lifa lífinu til fulls sérhvern dag.

fimmtudagur, nóvember 02, 2006

Laufey mágkona á stórafmæli í dag en hún er 35 ára. Innilega til hamingju með afmælið elsku Laufey. Njóttu dagsins og láttu Eið stjana við þig :).

Tvíburunum hjá Einari frænda og Helgu lá svo mikið á að komast í heiminn að þeir ákváðu að láta sjá sig á mánudaginn, aðeins tæplega 29 vikna gamlir. Þetta voru semsagt tvær prinsessur, pínulitlar, önnur um 5 merkur og hin 4 1/2 merkur. Þær voru auðvitað strax settar í súrefniskassa og verða þar líklegast fram á næsta ár. Vona bara að allt gangi vel hjá þeim, þær grétu voða mikið þegar að þær komu í heiminn sem er góðs viti hjá svona litlum börnum.

Annars er allt á fullu hérna í Miðvinnslunni að undirbúa jól í skókassa. Ég ætla að gefa tvo kassa, einn fyrir strák og einn fyrir stelpu. Á bara eftir að ákveða aldurinn, seinasti dagur til að skila er 11. nóvember þannig að ég þarf að klára þetta áður en ég fer út.