mánudagur, nóvember 28, 2005

Jæja helgin búin! Þvílíkt skemmtileg helgi, það var rosa næs að rölta niðri í bæ á föstudagskvöldið og sjá þegar að kveikt var á ljósunum. Mér finnst ekkert gaman að sjá þegar að þetta er gert heima en hérna er stemmningin allt öðruvísi. Horfðum svo á skrúðgönguna sem var með 5 mismunandi lúðrasveitum, gaman að sjá fólkið spila og hugsa til þess að ég gerði þetta í einhver 5 ár, minnir mig.

Á laugardaginn var svo farið í þrítugsafmælið hans Konna og oh my god hvað það var gaman. Mikið drukkið, hlegið og bara skemmt sér saman. Ég fór svo ásamt Jósu, Konna og tveimur vinum hans Konna niður í bæ á einhvern pöbb og héldum skemmtuninni áfram þar. Enduðum djammið á að fá okkur pizzu og komum okkur svo heim, enda var klukkan orðin hálfsex!! Langt síðan að ég hef verið svona lengi á djamminu enda tók ég það alveg út daginn eftir. Kastaði fjórum sinnum upp, takk fyrir takk. Allt skotunum sem Jósa og Eiki keyptu að þakka. En alveg frábært kvöld í alla staði, takk aftur fyrir okkur Hildur og Konni.

Fór svo í dag og hitti leiðbeinandann minn fyrir ritgerðina, hann samþykkti semsagt hugmyndina mína að lokaverkefni sem er náttúrulega bara frábært. Þegar að ég verð búin með ritgerðina um starfsþjálfunina get ég hellt mér á fullu í lokaverkefnisvinnu. Trúi því varla að á næsta ári þarf ég að fara að sækja um framtíðarvinnu, maður er orðinn svo stór!!

Endaði kvöldið á að kenna Hildi og tengdamömmu hennar magadans. Fannst frekar skrýtið fyrst að dansa fyrir framan aðra en svo vandist maður því bara. Þær stóðu sig rosalega vel en ég held að ég leggi nú þetta ekki fyrir mig. Samt alltaf gaman að prófa eitthvað nýtt.

fimmtudagur, nóvember 24, 2005

Mikið að gera um helgina, á morgun verður kveikt á ljósunum niðri í bæ og ætlum við að sjálfsögðu ekki að láta okkur vanta þangað. Ætlum svo að fara á einhvern stað á eftir og fá okkur pizzu, nammi namm.
Á laugardaginn er svo þrítugsafmæli hjá Konna hennar Hildar, teitið byrjar kl. 7 þar sem verður boðið upp á mat og alles. Hlakka rosa mikið til.
Sunnudagurinn fer svo líklegast bara í leti, ætla að klára jólasokkinn minn (á bara pínkupons eftir) ásamt því að reyna að finna eitthvað meira að skrifa um í hugleiðingaritgerðinni minni. Er komin með 24.000 slög og vantar þá ca. 14.000 slög í viðbót, vandamálið er að ég er eiginlega búin að skrifa allt sem ég get, hugs hugs.

Þótt að ég hafi sagt þetta áður, þá ætla ég bara að endurtaka mig. Ég á frábærustu og yndislegustu vinkonur í heimi. Þær hittust fyrir stuttu og tóku hittinginn upp með video myndavél. Var að horfa á þetta og það var æðislegt að sjá þær allar (og bumburnar auðvitað líka). Alveg yndislegt að geta fylgst svona með þeim og heyra líka í þeim, enda skemmti ég mér mjög vel yfir þessu. Fannst samt nafnið langbest: Raunveruleikaþáttur um bumbuklúbbinn. Takk elskurnar mínar, þið eruð langbestastar.

Í tilefni fyrsta í aðventu á sunnudaginn, hérna
er sú allra flottasta ljósasýning sem ég hef séð á húsi. Muna að hækka í hátölurunum.

miðvikudagur, nóvember 23, 2005

Fórum í Bilka í gær og náðum að klára stóran hluta af jólagjöfunum þannig að núna eigum við aðeins 6 eftir. Þótt að það taki mann ca. klukkutíma að fara þangað í strætó þá er alltaf svo rosalega gaman þar. Vorum komin um kl. 12 og vorum þar inni í þrjá tíma :). Enda förum við ekki oft þangað, held að þetta sé í fimmta skiptið sem ég hef komið þangað.

Svo tók ég smá forskot á sæluna í gær og skreytti íbúðina, gat ekki beðið lengur. Á bara eftir að fara í Fotex og kaupa aðventukrans og þá er allt tilbúið. Er svo búin að föndra öll jólakortin og á bara eftir að skrifa í þau. Ætla að reyna að klára það í næstu viku sem og jólagjafirnar og þá er bara allt búið sem þarf að gera fyrir þessi jól. Nema auðvitað að pakka inn gjöfunum en það geri ég ekki fyrr en ég kem heim.

Mamma fór í heimsókn til Snúðs á mánudaginn, oh maður var víst alveg rosalega glaður að sjá hana og fá smá klapp frá einhverjum sem maður þekkir. Honum líður bara ágætlega þarna, er byrjaður að borða nóg og leika við hinar kisurnar. Ætla að fara til hans daginn eftir að við lendum. Hlakka svo til að knúsa hann.

mánudagur, nóvember 21, 2005

Þetta var ekkert smá næs helgi. Ég var rosa dugleg við að skrifa ritgerðina mína en tók mér auðvitað góð frí á milli :). Þeim fríum var ýmist eytt við að hlusta á jólalög (já ég veit, dálítið snemmt), sauma í jólasokkinn minn og svo horfðum við hjónin á allar LOTR myndirnar. Alveg frábærar myndir, elska að horfa á þær aftur og aftur, finn alveg ekkert fyrir því að hver mynd er ca. 4 tímar.
Fattaði svo loksins að fara inn á tonlist.is til að niðurhala íslenskum jólalögum, sit núna og er að hlusta á Frostrósir, alveg yndisleg lög með þeim.

Annars á ég fund með kennara á morgun til að ræða um lokaritgerðina mína. Honum leist semsagt bara vel á hugmyndina mína og ætlum við að ræða aðeins betur saman. Þannig að ef hann samþykkir þetta þá verð ég komin með efni fyrir ritgerðina, rosa fínt :).

Ætlum svo niður í bæ í vikunni og reyna að klára eitthvað af jólagjöfunum okkar, erum bara búin með 6 þannig að það er fullt eftir. Svo verður kveikt á jólaljósunum á Strikinu á föstudaginn og við ætlum að fara niður í bæ og fylgjast með því. Oh jólin eru svo æðislegur tími. Svo má ég byrja að skreyta næsta sunnudag, jibbí!

mánudagur, nóvember 14, 2005

Seinustu dagar eru búnir að vera æðislegir. Á föstudaginn lá ég uppi í sófa mestallan daginn og horfði á Sex and the city (sem betur fer er í lagi með alla aðra diska). Á laugardaginn var ég svo bara að hafa allt tilbúið fyrir partýið um kvöldið. Þvílíkt skemmtilegt partý, mikið hlegið og mikið drukkið. Fékk rosa flottar gjafir, m.a. kisu sem mjálmar og labbar fram og til baka, svona smá staðgengill fyrir Snúð.
Fórum svo á Gas station og ég dansaði þvílíkt mikið, eitthvað voru stelpurnar samt orðnar þreyttar á að dansa á tímabili því að þær skiptust á að koma á dansgólfið með mér :). Takk fyrir æðislegt kvöld stelpur.
Sunnudeginum var eytt aftur uppi í sófa að horfa á Sexið. Í dag ætlaði ég svo að vera rosa dugleg að læra en það gekk ekki eftir, er semsagt að verða búin með þriðju seríu, þetta eru bara svoooo skemmtilegir þættir. En ætla nú reyna að vera dugleg á morgun.

laugardagur, nóvember 12, 2005

Jæja fyrst að Helga og Ásta eru báðar byrjaðar að tala um/sýna kúluna sína á blogginu þá má ég líklegast tala um það líka :).
Semsagt Hrönn, Ásta og Helga eru allar óléttar og Hrönn á að eiga í lok desember, Ásta um miðjan mars og Helga um miðjan apríl. Og vegna þess að þær eru svo yndislegar vinkonur þá hittust þær, tóku bumbumyndir og sendu mér. Maður má sko ekki missa af neinu í sambandi við óléttuna.
Ég er líka svo ánægð að koma heim um jólin vegna þess að þá get ég vonandi knúsað barnið hennar Hrannar (ef það kemur á réttum tíma) og séð Helgu og Ástu með enn stærri bumbu, jibbí. Ég er líka ennþá ánægðari með það að við flytjum heim í mars og að það líði ekki lengri tími frá því að Hrönn fæðir og þangað til að ég kem heim. Ásta mín, þú fæðir bara ekkert fyrr en að ég kem heim, samþykkt? Tíhí.
Það verður líka alveg frábært í apríl þegar að Helga á að eiga, hinsvegar held ég að það muni aldrei eftir að klingja eins mikið hjá mér eins og þá, hehe.

Ég á líka alveg yndislega foreldra. Ég saumaði jólapóstpoka fyrir jólin í fyrra en svo er hann bara búin að vera hjá mömmu og pabba vegna þess að það átti eftir að gana alveg frá honum, ætlaði alltaf að gera það þegar að ég væri heima en svo fórst það fyrir. Þau sendu mér hann semsagt í afmælisgjöf, voru búin að láta fóðra hann, sauma hann allan saman og setja hanka í hann þannig að núna á bara eftir að hengja hann upp, oh ég var svo ánægð þegar að ég opnaði pakkann.

En smá nöldurblogg, annar diskurinn í fyrstu seríu Sex and the city er bilaður, það er ekki hægt að horfa á fyrsta eða seinasta þáttinn á disknum. Var sko ekki sátt í gær þegar að ég var að horfa á þetta. Við skoðuðum líka hina diskana og fyrsti diskurinn í seríu 2 er þvílíkt rispaður, ætla að prófa að horfa á hann á eftir en ég verð rosalega fúl ef að hann virkar ekki heldur. Hinir diskarnir litu allt í lagi út en Árni ætlar að fara í næstu viku og heimta að við fáum nýjan disk.

fimmtudagur, nóvember 10, 2005

Jæja þá er maður víst orðinn árinu eldri :), alltaf gaman að eiga afmæli. Sollý á líka afmæli í dag, til hamingju með daginn elsku systir.
Ég fékk pening í afmælisgjöf bæði frá mömmu & pabba og tengdó og ég fór niður í bæ í gær og verslaði fullt. Keypti mér undirföt, snyrtivörur og tvö hálsmen og ég á ennþá pening eftir, ekkert smá gaman.
Helga sendi mér svo pakka og í honum voru sætustu náttföt í heimi, takk Helga mín. Ástin mín gaf mér svo allar seríurnar af Sex and the city, alveg alltof mikið. Ég dýrka samt hvernig búið er um seríurnar, eru í skókassa, algjör snilld. Svo fékk ég líka eina bók, það er sko ekki afmæli/jól án þess að fá bók. Laufey, Eiður og fjölskylda gáfu mér svo kisupússl, ekkert smá sætt, takk fyrir það.
Í dag ætla ég svo að njóta þess að læra ekki, hjúfra mig undir teppi í sófanum mínum og lesa nýju bókina mína. Uhmmm æðislegur dagur :).

Annars er ég nú með fréttir, við komum heim um jólin!! Bergþór pabbi beit það í sig að hann ætlaði nú ekki að leyfa okkur að halda jólin í öðru landi og hann bauðst til þess að borga farið fyrir okkur heim, alveg ótrúlega góður við okkur, algjört yndi. Ég var nú sterk í fyrstu skiptin sem hann bauð okkur þetta og sagði alltaf nei en svo lét ég undan í gær. Þannig að við lendum 19. des og fljúgum aftur út 1. jan, þorðum allavega ekki að panta annan dag vegna þess að próftímabilið hjá Árna er frá 2. jan. En ef það kemur í ljós að hann fer seinna í próf þá breytum við líklegast miðanum. Takk elsku pabbi minn :).
Þannig að ég er bara byrjuð að hlakka til að sjá alla, veit alveg að eyða einum jólum ekki á Íslandi er ekki mikið þegar að maður lítur á lífið í heild sinni. En ég er samt svaka ánægð að geta komið heim í faðm fjölskyldunnar og njóta þess að vera með þeim sem mér þykir vænt um. Ætla einmitt að fara eins oft og ég get í Kattholt til að klappa Snúðinum mínum.

þriðjudagur, nóvember 08, 2005

Fór í saumó með sálfræðiskvísunum í gær. Ekkert smá gaman að hitta þær allar eftir svona langan tíma :). Hlógum endalaust mikið eins og alltaf þegar að við hittumst.
Þóra kom með Margréti dóttur sína sem er aðeins 5 vikna enda stal hún alveg athyglinni, ekkert smá mikil dúlla.

Dagarnir eru allir voðalega líkir núna, vakna og fer að skrifa þessa blessuðu ritgerð. Er reyndar búin að fá svar frá kennaranum í sambandi við mastersritgerðina þannig að vonandi fara hjólin að snúast með hana.

mánudagur, nóvember 07, 2005

Ef þið viljið sjá myndir af Sálartónleikunum, þá eru þær hér. Fyrstu myndirnar tengjast reyndar ekki Sálinni þannig að þið skippið bara yfir þær.
Þetta eru reyndar myndirnar hennar Hildar, vona að það sé í lagi að ég linki á þær :).

sunnudagur, nóvember 06, 2005

Ég var klukkuð af Hildi.

Núverandi föt: Joggingbuxur og bolur
Núverandi skap: Ennþá brosandi eftir Sálartónleika
Núverandi hár: Nær niður fyrir axlir, er með kopar/ljósar strípur
Núverandi pirringur: Að kennari skuli ekki vera búinn að svara emailinu mínu sem ég sendi fyrir viku.
Núverandi lykt: Emporio Armani
Núverandi hlutur sem þú ættir að vera að gera: Læra
Núverandi skartgripir: Giftingarhringurinn
Núverandi áhyggja: Að skrifa hugleiðingaritgerð um starfsþjálfunina
Núverandi löngun: Ostafylltar brauðstangir
Núverandi ósk: Að Snúður gæti verið hjá mér
Núverandi farði: Enginn
Núverandi eftirsjá: Vá sé ekki eftir neinu akkúrat núna
Núverandi vonbrigði: Að sjá ekki þegar að bumbulínurnar mínar byrja að stækka, þ.e.a.s. þegar að fer að sjást á ófrísku vinkonunum.
Núverandi skemmtun: Allir þættirnir sem ég "verð" að horfa á
Núverandi ást: Árninn minn
Núverandi staður: Sófinn í stofunni minni
Núverandi bók: Black rose
Núverandi bíómynd: Love actually
Núverandi íþrótt: Magadans
Núverandi tónlist: Sálin!!!!
Núverandi lag á heilanum: La tortura með Shakiru og Alejandro Sanz
Núverandi blótsyrði: Andskotans djöfulsins
Núverandi msn manneskjur: Er ekki skráð inn
Núverandi desktop mynd: Snúður, hver annar?
Núverandi áætlanir fyrir kvöldið: Klára að horfa á OC og fara upp í rúm að lesa
Núverandi manneskja sem ég er að forðast: Enginn
Núverandi dót á veggnum: Nokkrar myndir, hillur, spegill o.s.frv.

Klukka Ástu, Karen, Möggu og Tótu.

Minnir mig á það, þarf að fara að taka til í þessum tenglum mínum, örugglega um 1/4 sem eru hættir að blogga.

Sálin var æði, frábær, meiriháttar!!! Þvílíkir tónleikar, geðveik stemmning. Þeir eru svo miklir snillingar. Ég hef sjaldan skemmt mér svona vel á tónleikum, ég, Hildur, Jósa og systir hennar Jósu vorum fremstar allan tímann og sungum með, enda er ég frekar hás í dag.
Tónleikarnir voru svo búnir um þrjú og þá tókum við leigubíl á lestarstöðina en við héldum að hún væri opin alla nóttina. Það kom svo í ljós að hún opnaði ekki fyrr en um fimm þannig að við sáum úti í ca. einn og hálfan tíma enda var okkur orðið frekar kalt. Lestin fór ekki fyrr en sex og við sofnuðum bæði um leið og við settumst í sætið og sváfum allan tímann. Tókum svo strætó heim þar sem að við sváfum líka allan tímann og fórum beint upp í rúm til að sofa meira :). En þetta var sko alveg þess virði.
Það var líka mjög gaman að fara til Köben og hitta Jónasi og Steinunni, flökkuðum á milli kráa með þeim og fengum okkur bjór, þvílíkt næs.

föstudagur, nóvember 04, 2005

Sálin á morgun!! Hlakka þvílíkt til. Verður rosa gaman að fara á tónleika með íslenskri hljómsveit í Danmörku. Ætlum að leggja af stað um hálftíu á morgun með lestinni og verðum þá komin um hálfeitt til Kaupmannahafnar. Planið er svo að hitta Jónas og Steinunni, vini hans Árna og gera eitthvað skemmtilegt með þeim. Hlakka mjög til að sjá Köben loksins, labba Strikið og svona.
Reyndar er dagurinn svo ekkert meira planaður, hittum Hildi, Hákon og Jórunni einhvern tímann um kvöldið og förum á tónleikana með þeim. Eina sem ég kvíði fyrir er að þurfa að halda mér vakandi til 5 um nóttina því að þá fer lestin aftur heim til Árósa. Verður örugglega mjög næs að vera í lestinni í þrjá tíma og geta sofið :).

miðvikudagur, nóvember 02, 2005

Laufey á afmæli í dag, til hamingju með afmælið Laufey mín.
Voðalega rólegir dagar hjá mér núna. Er bara heima og að skrifa ritgerðina um starfsþjálfunina, er svo búin að senda tölvupóst á einn kennarann í sambandi við mastersritgerðina en er ekki búin að fá neitt svar. Vona að hann svari mér fljótlega, langar að komast að því hvort að hugmyndin mín sé nothæf.